14.05.1957
Neðri deild: 97. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2103 í B-deild Alþingistíðinda. (2219)

83. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. minni hl. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Það kom nú fyrst fram í ræðu hv. 2. þm. Reykv., að hann vildi reikna til mikillar þekkingar í mþn., sem samið hefur þetta frv., enda þótt hann væri ekki að hælast um af því, að hann hefði svo sérstaklega mikla þekkingu á þessu máli. Ég skal ekkert efast um það, að ýmsir menn í þeirri n. hafi haft þekkingu á þessu máli. En þeir hafa allir verið haldnir þeim anda og sjónarmiðum, að það bæri fyrst og fremst að styrkja stangveiðarnar í landinu, en útrýma öðrum veiðiaðferðum og þar með þrengja mjög rétt þeirra manna, sem veiðina eiga hér og þar við vötnin í landinu.

Nú skal ég segja ykkur það, hv. þm. sagði það ekki beinlínis, en það gat legið í orðunum, að ég mundi hafa litla þekkingu á þessu máli, en það vill nú svo til, að ég hef reynslu í þriðjung aldar við veiðiskap í einu breytilegasta vatni þessa lands og þekki þess vegna alveg út í gegn, hvað það er, sem ég er hér að tala um. Auk þess hef ég verið í stjórn veiðifélags, sem hefur verið tiltölulega gott samkomulag í, milli 20 og 30 ár og þekki þess vegna þeirra starfsemi sömuleiðis.

Hv. þm. ætti ekki að mínu áliti að láta mikið yfir starfsemi þessarar milliþn., því að frv. þetta er illa samið og frágangurinn á því þannig, að það er ekki ástæða til þess að hrósa sér af því. Hv. Ed. er búin að gera á því 40 breyt. eða um það bil, margar þeirra eru eitthvað til bóta, sumar töluvert, og hér í þessari hv. deild liggja fyrir verulegar brtt. líka, og mér dettur ekki í hug, að þar með sé þessi kista tæmd, því að frv. er þannig samið, að það þarf miklu nákvæmari athugun en hægt er á stuttum tíma að gera. Eins og viðurkennt var af hv. síðasta ræðumanni, er hér um eitt viðkvæmasta deilumál í okkar landi að ræða.

Hann vék að því, hv. síðasti ræðumaður, að það væri mjög mikilsverð breyting gagnvart takmörkun á stangarveiði, að það væri bannað að veiða yfir hánóttina, það væri takmarkað við 12 tíma á hverjum sólarhring. En ég vil benda á, að það er heimilt að veiða á stöng á hverjum einasta degi skv. frv. allan tímann, sem veiði er leyfð, sem er mest 3 mánuðir, og það eru miklu meiri réttindi en sanngjarnt er, miðað við netaveiðina. Samkvæmt minni till. ætlast ég til þess, að stangarveiðimenn megi veiða 5 sólarhringa, alveg eins og þeir, sem netaveiðina stunda, og það sé eins og nú er í l. alveg óbundið, hvort þeir veiða fleiri eða færri klukkutíma á hverjum sólarhring. Mér finnst það miklu eðlilegra, að það sé jafnrétti í þessu efni, vegna þess að það er enginn, sem getur sannað það, hvorki hv. síðasti ræðumaður né aðrir, að það sé víst, að stangveiðarnar séu nokkuð minna hættulegar fyrir fiskstofninn en netaveiðin, ef hún er stunduð á eðlilegan hátt og samkvæmt lögum. Það er áreiðanlegt, að í smáum bergvatnsám hingað og þangað um land er aðstaðan þannig, að það er hægt að taka hvern einasta lax og hvern einasta silung með stangarveiðum. Aðalatriðið í þessu máli er alls ekki það, hvað friðunartíminn er langur á hverri viku, heldur miklu meira hitt, að það séu höfð rétt tök á því, að það sé ekki ólöglega lagt og það sé ekki gefið leyfi til þess, eins og samkvæmt þessu frv. er gert ráð fyrir, að skarka með veiðistengur um alla árósa, bæði í vötn, í sjó og hvarvetna annars staðar í landinu. Það er hættulegasta ákvæðið að mínu áliti í þessu frv. og sýnir það, að það er ekki friðunin, sem fyrir þeim mönnum hefur vakað, sem frv. hafa samið, að ætla sér að leyfa, að það sé stangarveiði í öllum árósum.

Hv. síðasti ræðumaður var að minnast á það, að það væri ekki rétt frá minni hálfu, að það væri hér verið að yfirfæra réttinn frá veiðieigendum og yfir til stangveiðimanna. Þetta er rétt, þar sem rétturinn er tekinn alveg af veiðieigendunum. Það getur verið að hálfu leyti rétt, þar sem rétturinn er ekki tekinn af og þeir hafa heimild til þess að leigja hann, svo sem viða er gert. Ég skal taka það fram, að við, sem höfum leigt allan laxveiðirétt í okkar vötnum milli 20–30 ár, Vatnsdælingar og Þingbúar, höfum ekki undan neinu að kvarta, því að þeir menn, sem við höfum samið við, hafa farið eftir settum reglum og alls ekki beitt sér þannig, að það væri gróðavegur fyrir þá, heldur meira leikur að stunda veiðina samkvæmt samningum. En ég þekki mörg dæmi þess og hef spurnir af því, að það er allt öðruvísi unnið að veiðinni af stangveiðimönnum víðs vegar um land og meira í gróðaskyni gert en þekkzt hefur hjá okkur, sem hefur verið bundið með föstum samningum.

Það er þess vegna alveg víst, að það er ekki neitt hægt að sanna um það, að það sé hættuminna að leyfa stangveiðarnar jafnótakmarkað og gert er með þessu frv. heldur en hitt, þó að netaveiðin sé leyfð að frádregnum 60 stundum á viku.

Ég vil taka það fram, að það er tilgangurinn gagnvart þeim, sem stunda veiði, að koma því til leiðar, að þeir hætti við þá veiði, vegna þess að ef það mega ekki liggja net meira en 3 nætur í hverri viku, þá fer það að borga sig illa að leggja í allan þann kostnað, sem samfara er netaveiði, og væri þá sanni nær, að það væri þá takmarkað frekar, farin þarna millileið, ef menn geta ekki fallizt á að lækka þessa vikufriðun frá því, sem í þessu frv. er, og millileiðin gæti vissulega verið sú, að þá væri friðunartíminn hafður 3 sólarhringar, 3 nætur og 3 dagar, heldur en það væri endilega hyllzt til þess að hafa 4 nætur og 3 daga til þess að takmarka sem allra mest réttindi þeirra manna, sem netaveiði stunda.

Nú skal ég ekki um það segja, hvað miklum fastmælum það er búið að binda hér hjá hv. þdm. að samþykkja þetta frv. Það er rétt hjá hv. síðasta ræðumanni, að það sýnist ekki vera mikill áhugi fyrir að fylgjast með umr. um það, því að þegar hv. frsm. meiri hl. n. fór að tala, fóru menn að tínast út úr salnum, og það sýnist ekki vera mjög mikill áhugi fyrir þessum deilumálum. Ég vona, að þetta boði það, að menn ætlist ekki til þess að samþykkja þetta frv., sem væri að sjálfsögðu bezt. En ef það er ætlunin að hespa frv. í gegn, þá vil ég skora alvarlega á þá hv. þm., sem hér eru þó innan veggja enn, að kynna sér málið rækilega, vegna þess að þetta er flókið og vandasamt mál og hefur þýðingu, að því sé ekki flaustrað af.

Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða strax meira um þetta, ef ekki koma nein nánari mótmæli gegn þeim aðalbrtt., sem ég flyt, því að það var nú eiginlega ekki að neinu leyti vikið að þeim áðan sérstaklega, hverri einstakri af þeim brtt., sem ég flyt, af hv. síðasta ræðumanni, og þess vegna hef ég ekki í því efni neinu fyrir að svara.