16.05.1957
Neðri deild: 98. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2113 í B-deild Alþingistíðinda. (2228)

83. mál, lax- og silungsveiði

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Eins og hv. 1. þm. Árn. (ÁÞ) tók hér fram áðan, höfum við leyft okkur að flytja brtt. á þskj. 535. Mér fannst gæta nokkurs misskilnings hjá hv. 2. þm. Reykv. (BÓ) í sambandi við þessa till.

Það er mikill munur á þessari till. okkar eða þeirri till., sem fram hefur komið hér hjá hv. þm. A-Húnv. (JPálm) um að friða hálfa vikuna fyrir stangarveiði, eins og gert er ráð fyrir með netaveiðina.

Það er mín skoðun, að höfuðsjónarmið löggjafans í sambandi við setningu laga um lax og silungsveiði eigi að veita fiskstofninum næga vernd, og það verður að vera það vel gert, að þó að farið sé fram á fremstu nöf laganna, þá sé samt að finna nógu mikla vernd fyrir fiskstofninn.

Það hefur komið fram bæði í ræðum hv. 2. þm. Reykv. og hv. þm. Borgf. og fleiri, að höfuðatriðið er að vernda þau auðæfi, sem bændur eiga þarna.

Það er enginn vafi á því, að þegar netaveiði er orðin svo takmörkuð, sem nú er gert, þá verður ásóknin í stangarveiðina miklu meiri og hættan fyrir stangarveiðinni fer vaxandi. Áður fyrr voru það yfirleitt Englendingar, sem stunduðu hér stangarveiði, og það er almennt talið, að þeir hafi farið vei með árnar. Íslendingar sækja þessi mál aftur af meira kappi en þeir, og kemur þar fram þeirra veiðimennska. Það er því nauðsynlegt, að það sé ekki hætta á því, að sú verndun, sem gerð er í sambandi við netaveiði, verði upp tekin með aukinni stangarveiði.

Nú er langt frá því, að ég vilji gera lítið úr þeim takmörkunum, sem þetta frv. gerir ráð fyrir í sambandi við stangarveiðina, þó að ég telji ekki nóg að gert. Vil ég drepa á eitt atriði, sem ekki hefur komið fram hér í umr., en ég tel mjög þýðingarmikið, og það er það atriði, að veiðimálastjóri hefur rétt til þess að takmarka stangafjöldann í hverri á.

Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að eftir því sem árnar verða í meira verði, eins og þær eru að verða, þá verður sótt á um það að hafa fleiri stangir í ánum. Þess vegna er þetta atriði mjög mikils virði. Ég lít á veiðimálastjóra sem embættismann, sem fyrst og fremst eigi að vera trúnaðarmaður ríkisins og sjá um fiskræktina.

Hins vegar eru það sumir, sem halda því fram, að takmörkunin á hverjum sólarhring hafi litla þýðingu, vegna þess að það sé sá tími sólarhringsins, sem yfirleitt sé ekki notaður til veiða.

Nú vil ég líka taka það fram, að það er mín skoðun, að veiðimenn eru oft búnir að veiða allmikið klukkan sjö að morgni, Hinu er ekki að neita, að nokkuð af þessum tíma mundi falla alveg dauður og vera þýðingarlaus, og með tilliti til þess er þessi till. okkar hv. 1. þm. Árn. fram komin. Svo er hitt, að það er enginn vafi á því, að það er mikils virði fyrir laxinn að fá algeran frið í ánum, eins og hann fengi þarna í 36 klukkustundir.

Hv. 2. þm. Reykv. vildi halda því fram, að ef þessi till yrði samþ., yrði skertur svo mikið réttur þeirra manna, er tekið hafa árnar á leigu, að það yrði að semja upp, og þetta yrði þess vegna tekjurýrnum fyrir bændur í framsveitum. Það er ekki mín skoðun, að svo sé. Ég vil benda á það, að með þeirri takmörkun, sem gerð er á leirusvæðunum, þar sem netaveiði leggst að mestu eða öllu leyti niður, þá hlýtur laxagengdin, sem fer fram í árnar, að aukast mjög mikið, og það verður ábyggilega miklu meira virði en sú takmörkun, sem þarna er gerð. Ég er líka sannfærður um það, að þegar menn fara að veiða til frambúðar, þá verða þeir þakklátir fyrir þær takmarkanir, sem gerðar eru í þessu frv., því að þá sækja þeir veiðina sér til skemmtunar meira en af kappi, eins og nú er gert.

Ég er sannfærður um, að það missir enginn í við þessa till., heldur er hún aukin vernd fyrir fiskstofninn, sem á að vera höfuðsjónarmiðið. Framárnar fá það mikla aukningu við þær breytingar, sem eru í frv., að það gerir miklu meira en að bæta þær takmarkanir, sem hér er gert ráð fyrir. Ég vil taka undir það með hv. 2. þm. Reykv., sem hann tók hér fram í ræðu sinni í fyrradag, þegar þetta mál var þá hér til umr., að þetta er mikið hagsmunamál fyrir þá menn, sem eiga bergvatnsárnar, og það er einmitt með tilliti til þess, að hagsmunir þeirra verði ekki rýrðir, sem þessi till. er flutt.

Ég vil að lokum taka það fram, að ég er þakklátur hv. landbn. eða meiri hl. hennar fyrir þær brtt., sem hún gerir, því að það er mín skoðun, að einu mennirnir, sem ekki hafa hagnað af frv. eða þeim lögum, sem gert er ráð fyrir að setja hér, eru mennirnir, sem eru á leirusvæðunum. Þeir geta ekki veitt, en hinir munu fá þær takmarkanir, sem hér eru gerðar, greiddar aftur í aukinni fiskgengd. Þess vegna er ég þakklátur n. fyrir ákvæði um bætur til þessara manna, svo sem hún leggur til að gert verði. Það er líka mín skoðun, að það sé alveg sama, hvað þetta mál yrði lengi í meðförum hv. Alþingis, það sé aldrei hægt að samræma sjónarmið þeirra manna, sem þarna eigast við, af eðlilegum ástæðum. Hins vegar tel ég, að með brtt. meiri hl. hv. landbn. sé gengið mjög til móts við réttmæt og sjálfsögð sjónarmið þeirra manna, er í missa við setningu þessara laga, og ef gengið er tryggilega frá því, að laxastofninn hafi nægilega vernd, þá sé þetta mál vel farið, og ég hef ekki trú á því, að það batni við biðina, og þess vegna fari bezt á afgreiðslu þess nú.