16.05.1957
Efri deild: 100. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2142 í B-deild Alþingistíðinda. (2278)

123. mál, hlutafélög

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég á bágt með að skilja það ofurkapp, sem hv. flm. þessa frv. leggja á samþykkt þess.

Ef slíkt ákvæði, sem frv. ráðgerir, yrði sett inn í hlutafélagalögin, væri það grundvallarröskun á eðli hlutafélaga og afleiðingin sú smám saman, að það fengist enginn einstaklingur til þess að leggja fé í slík fyrirtæki. Það mundu ýmist verða bæjarfélög, ríkið eða samvinnufélög. Við þessu væri ekkert að segja, ef það er vilji Alþingis og þjóðarinnar, að þetta verði gert. En nú lúta samvinnufélög hér alveg sérstökum lögum, og ég hygg, að allir samvinnumenn séu ánægðir með þau.

Ef settur er upp rekstur á grundvelli ríkis- eða bæjarrekstrar, þá er það jafnan gert með sérstökum lögum. En það getur vissulega verið brýn nauðsyn fyrir land, sem skortir mjög fjármagn eins og Ísland, að hafa samvinnu milli einstaklinga, ríkis, samvinnufélaga og bæjarfélaga til þess að koma á nytsömum, stórum fyrirtækjum, sem er ofvaxið einstaklingum. Þetta hefur verið gert. En menn verða að varast það að kippa fótunum undan eðli hlutafélaga með slíkum aðgerðum sem þessum.

Hlutafélög eru byggð upp svo til með sama hætti alls staðar í nálægum löndum, a.m.k. þeim löndum, sem við skiptum við. Og ef við eigum nú allt í einu að fara að gerbreyta eðli hlutafélaganna, hvaða afleiðingar mundi það hafa?

Ég tel vafa á, að þessi breyting mundi ná til hinna eldri hlutafélaga, vegna þess að það brýtur í bág við þeirra samþykktir. (SE: Það yrði eins og um áburðarverksmiðjuna.) Hv. þm. veit, að þar voru sett sérstök lög. Það datt engum í hug að setja það í almennu hlutafélagalögin, sem sett var í þessu efni gagnvart áhurðarverksmiðjunni. Og það er vissulega sú rétta aðferð, ef menn vilja tryggja meiri hluta ríkis í einhverju fyrirtæki. Í hinum almennu hlutafélagalögum verða allir að lúta sömu meðferð.