28.05.1957
Neðri deild: 112. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2158 í B-deild Alþingistíðinda. (2330)

182. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það er ekki óeðlilegt, að þetta mál hafi vakið nokkrar umr., því að hér er vissulega um mjög þýðingarmikið og veigamikið málefni að ræða og eðlilegt, að það komi upp í huga þm., þegar það er á dagskrá, hvort ástæða hefði ekki verið til annarra og meiri breytinga á stofnlánadeildinni en hér er farið fram á. Það er sannast bezt að segja, að það hafa ekki verið gerðar svo lágar kröfur um það á undanförnum árum af ýmsum þeim mönnum, sem nú standa í stjórnarliðinu, að stofnlánadeildin væri, eins og það hefur verið orðað, opnuð aftur, og talið í raun og veru til hálfgerðs hneykslis. Og stundum hefur það nú verið kalláð landsbankavaldinu að kenna, og það er kannske, að núverandi hæstv. stjórnarsinnar geri sér einhverja von um, að breyting geti orðið á þeirri fyrirstöðu, sem frá þessu svokallaða landsbankavaldi hefur verið í þeim efnum. Um það skal ég ekki fjölyrða. En það hefur einnig komið upp sú hugmynd og verið talfærð um þá fjármuni, sem á sínum tíma voru veittir stofnlánadeildinni, að í staðinn fyrir að draga þá inn, gengju þeir áfram út til nýrra lána, yrðu sameinaðir annarri stofnlánastofnun sjávarútvegsins og aðalstofnlánadeild bátaflotans hér, sem er fiskveiðasjóður, og ég tók eftir því áðan, að það mál blandaðist hér nokkuð inn í umr. Og mér heyrist eiginlega helzt á hæstv. stjórnarsinnum, að þeir telji nú, að það geti gjarnan beðið í bili, sérstaklega vegna þess, að svo rausnarlega hafi ríkisstj. skilið við málefni fiskveiðasjóðsins á þessu þingi.

Það er sagt, að fiskveiðasjóði hafi verið tryggðar nýjar tekjur, sem geti numið allt að 4 millj. kr. Jú, það er gert með þeim hætti, að breytt er ákvæðunum um útflutningsgjald og útflutningsgjaldið aukið. M.ö.o.: þegar á að tryggja sjávarútveginum með þessari stofnlánadeild bátaflotans fé, þá er það tekið af útveginum sjálfum, og er þá orðið mjög ólíku saman að jafna við aðrar tekjuaflanir og ráðstafanir, sem gerðar hafa verið, bæði fyrr og síðar á þinginu, til þess að útvega öðrum greinum atvinnulífsins nægjanlegt fjármagn. Og það er mjög eftirtektarvert, að þegar þessi stofnlánastofnun sjávarútvegsins og bátaflotans fyrst og fremst á sitt hálfrar aldar afmæli í hittiðfyrra, eða 10. nóv. 1955, þá hefur þessi sjóður, fiskveiðasjóður, fengið um 100 millj. kr. tekjur á þessu hálfrar aldar skeiði, en af þessum 100 millj. hafa aðeins 11 millj. kr. runnið beint frá ríkissjóði, en að öðru leyti eru það tekjur sjóðsins sjálfs eða beinlínis útflutningsgjald af sjávarafurðunum, sem er langsamlega stærsti hlutinn og byggði sjóðinn upp frá upphafi. Og það var einmitt með hliðsjón af þessu, sem við sjálfstæðismenn lögðum til á öndverðu þessu þingi, að hið árlega framlag í fiskveiðasjóð væri hækkað upp í 12 millj. kr., eða um 10 millj. kr. á ári, og fengi sjávarútvegurinn að þessu leyti með því nokkra hliðstæðu við aðrar atvinnugreinar. Eru mér þá í huga þau framlög, sem á þessu þingi, t.d. í fjárl. ársins 1957, hafa verið aukin til landbúnaðarframkvæmda, til rafvæðingar landsins og einnig til atvinnuaukningar í hinum dreifðu byggðum, eins og það er kallað, en það fjárframlag var aukið á fjárl. 1956 úr 5 millj. kr. og upp í 15 millj. kr.

Nú voru allir hv. þm. sammála um og var fullljós hin mikla tekjuþörf fiskveiðasjóðsins, og þeim mun furðulegra var það, þegar menn í öndverðu snerust með hálfgerðum skætingi gegn þessu frv. Og enda þótt svo væri, töldum við flm., að með hliðsjón af stofnlánaþörf sjávarútvegsins og vegna þess, í hvaða aðstöðu stofnlánadeildin væri nú orðin, mundi stjórnarliðið sjá að sér á síðara stigi málsins og greiða eitthvað verulega fyrir fiskveiðasjóðnum. Nú þykist stjórnarliðið hafa gert það og hælist mjög um, segir: Fiskveiðasjóði voru tryggðar þarna 4 millj. kr. með þeim hætti, sem ég sagði áðan, að leggja nýjar álögur á sjávarútveginn, og það er ekki nóg með það, heldur voru eftir gefin líka lán, sem fiskveiðasjóður hafði áður fengið af tekjuafgangi ríkissjóðs. — Ja, skárri var nú rausnin. Það voru fleiri sjóðir, sem fengið höfðu sinn hluta af tekjuafgangi ríkissjóðs, þ. á m. ræktunarsjóður í miklu ríkari mæli og einnig byggingarsjóður, eða fé, sem runnið hafði til hins almenna veðlánakerfis, og ég hafði hér á s.l. þingi lagt til, að þessi lán frá ríkinu, sem kallað var, yrðu þegar í stað óafturkræf framlög, og það var ekki annað og meir en til samræmis við það, sem gert hefði verið ár eftir ár að undanförnu með slíkar fjárveitingar, sem í upphafi voru lán af ríkissjóðsins hálfu, en siðar óafturkræf framlög. Hæstv. fjmrh. held ég hafi skorið sig úr, að hann mátti ekki heyra það þá. Ég held, að ég hafi gert grein fyrir því hér áður, að það var jafnvel haft í hótunum, að það skyldi valda stjórnarslitum, ef slík ósköp eins og þessi yrðu samþ. En það var svo allt annað hljóð í strokknum, þegar hæstv. fjmrh. lagði fjárlfrv. fyrir 1957 nú á s.l. hausti fyrir þingið, því að þá var mikið látið af því og boðað undir stórum fyrirsögnum í stuðningsblöðum stjórnarinnar, að fjmrh. hefði stungið upp á því, að bæði þessi framlög til fiskveiðasjóðs og ræktunarsjóðs eða lán til fiskveiðasjóðs og ræktunarsjóðs og ýmis önnur lán, sem ríkissjóður hefði veitt og þ. á m. til íbúðabygginga, — að þetta yrði allt saman gert að óafturkræfum framlögum.

Þetta átti víst að bæta nokkrum skrautfjöðrum í hatt fjmrh., og í sjálfu sér er sízt ástæða til að vera að hafa nokkuð á móti því, því að það mun ekki af veita. En mér finnst ekki vera hátt risið á hv. stjórnarsinnum að telja þetta til ágæta sérstaklega í sambandi við stofnlánaþörf sjávarútvegsins, að fiskveiðasjóður hafi fengið þetta lán sem óafturkræft framlag, því að það var ekki meira en við mátti búast og búið var að leggja til og ráðgert hafði verið og allar aðrar hliðstæðar greinar atvinnulífsins höfðu fengið.

Þá er það talið til ágæta, að fiskveiðasjóður hafi fengið 10 millj. kr. lán um áramótin, og það ber ekki að amast við því; mátti naumast minna vera, enda hefur þegar síðan komið í ljós í sambandi við fyrirgreiðslu á bátakaupum, sem ríkisstj. stendur fyrir, — þessum svokölluðu minni togara kaupum, eða hvað þau heita nú, — þá hefur einmitt verið ætlazt til af fiskveiðasjóði, að hann veitti sérstaka fyrirgreiðslu, sem honum hefur ómögulega verið hægt nema vegna þessarar lánveitingar. En í sjálfu sér hafa ekki stjórnarliðar yfir miklu að hælast í sambandi við þessa lánveitingu, ef á að skoða hana eins og stærsta stjórnarblaðið lýsti henni, að hún væri efndirnar á því, að Bandaríkjamenn mundu láta hæstv. ríkisstj. í té 30 silfurpeninga, eins og blaðið orðaði það, fyrir að hafa brugðizt loforðum sinum í varnarmálunum og samið við Bandaríkin um það, að varnarliðið skyldi vera hér áfram í landi. Það mun hafa staðið heima, að fyrstu afborgunina af þessu fé, sem ég endurtek að stærsta stjórnarblaðið taldi vera þess eðlis, að það mætti skoða það í raun og veru sem mútufé frá Bandaríkjastjórn til Íslendinga fyrir að ganga inn á, að erlendur her væri í landinu, — mútufé vegna þess, að það væri ekki tekið á móti því, af því að viðkomandi aðilar teldu nauðsyn til bera af eigin þörfum landsins, heldur að þeir væru í fjárskorti og vildu þá slá af því, sem þeir höfðu lofað kjósendunum, og selja loforðin fyrir nokkra skildinga, fyrir nokkra dollara, og rausnin var þá svo mikil að láta um 10 millj. kr. renna sem lán til fiskveiðasjóðs.

Í sambandi við þessi stofnlánamál sjávarútvegsins vil ég benda á það, að á þessu þingi hafa verið samþykkt lög, sem í sjálfu sér eru eðlileg og í samræmi við breytta þróun, sem orðið hefur á stærð skipastólsins og verðlagi skipastólsins, að hámarkið fyrir lánunum, sem áður var, hefur verið afnumið, þannig að það eru nú gerðar hærri kröfur en áður til fiskveiðasjóðs, sem er í bili eini stofnlánasjóðurinn, — hærri kröfur í hverju einstöku tilfelli til lána, — og einnig hafa verið samþykkt í þessum sömu lögum ákvæði um, að það, sem áður átti að sitja fyrir, fiskiskip innan 100 rúmlesta, þá er sú rúmlestatala nú færð upp í — ég man ekki, hvort það var 250 eða 300 rúmlestir. Ég segi, að þetta er hvort tveggja í sjálfu sér eðlilegt, en báðar þessar breytingar leiða til þess, að sjóðnum er miklu brýnni þörf en áður fyrir miklar og auknar tekjur, og þessi hækkun á rúmlestatölunni stendur alveg sérstaklega í sambandi við byggingu hinna smáu togskipa, eins og ég nefndi áðan, og þegar þetta var gert, lágu fyrir ákvarðanir af hálfu ríkisvaldsins um, að þau mundu verða á næstunni 6 talsins, en siðar hefur á þinginu verið aukin heimildin upp í 12 talsins.

Ég held þess vegna, að þó að litið sé á þessar blessaðar 4 millj. kr., sem teknar eru með auknum álögum á útveginn sjálfan, og þó að litið sé til þessara 10 millj. kr., sem hrukku af 30 silfurpeningunum, þá sé kannske aðstaða fiskveiðasjóðs enn verri nú í lok þingsins til þess að fullnægja þörfum og kröfum, sem til hans eru gerðar, miðað við þær breytingar á þeim skuldbindingum, sem honum eru ætlaðar, heldur en þær voru á öndverðu þingi.

Ég get svo ekki á mér setið í þessu sambandi, þegar verið er að tala um stofnlánadeild og stofnlánaþörf sjávarútvegsins, að lýsa undrun minni yfir því, sem fram hefur komið hér í þinginu frá hv. þm. um það, hvernig að þessum málum hefur verið búið á undanförnum árum. Hv. þm. hafa bæði fyrr og síðar og nú látið í það skína, þó að ekki sé sérstaklega í umræðum um þetta mál, en um hliðstæð mál, sem sjávarútveginn varða, að í tíð fyrrv. ríkisstj. hafi naumast nokkuð verið gert til þess að stuðla að því að byggja upp bátaflotann í landinu. Og ég held, að einn hv. stjórnarsinni hafi fundið út, að rúmlestatala bátaflotans hafi ekkert aukizt á þremur árum, í tíð fyrrv. ríkisstj. Bæði kom það — held ég — fram í eldhúsdagsumr. Í gærkvöld og í grein, sem þessi hv. þm. skrifaði 1. maí og er verið að endurprenta þessa dagana í Tímanum, og svona munu fleiri dæmi liggja fyrir. En þó er það staðreynd, að það hefur nú samt sem áður aldrei verið meiri og örari uppbygging bátaflotans heldur en einmitt á þremur undanförnum árum. Og ég held, að ég muni það rétt, að Fiskifélag Íslands áætlaði fyrir eitthvað 5 eða 6 árum, að það mundi vera hæfileg aukning bátaflotans, ef hann ykist um 1000 rúmlestir á ári, en aukningin hafi hins vegar verið á árinu 1956 ekki 1000 rúmlestir, heldur nálægt því að vera 2600 rúmlestir og árið 1954 rúmar 1400 rúmlestir. Og lánveitingar hefur svo af þessu leitt, því að út á alla þessa báta eða alla þessa rúmlestatölu hefur verið lánað úr fiskveiðasjóði, þannig að lánveitingarnar þar hafa verið miklu meiri en nokkru sinni áður, alveg í hlutfalli við hina auknu rúmlestatölu. En samt er því haldið fram, að bátaflotinn hafi ekkert aukizt. Það stenzt nú ekki, þegar skoðuð eru þau gögn, sem fyrir liggja um rúmlestatölu bátanna, og m.a. er hægt að sjá í Sjómannaalmanakinu og víðar, enda mætti það gegna furðu, ef bátarnir hefðu gengið svo hrapallega úr sér, að 2600 rúmlestir hefðu farið í súginn eða meira á árinu 1956 og bókstaflega ekkert bætzt við.

Þrátt fyrir þessar miklu lánveitingar á undanförnum árum og öru bátabyggingu held ég, að það sé skoðun allra, sem til þekkja og sjávarútveg stunda, og það hefur ekki orðið vart ágreinings í þingsölum um það, að það beri enn að halda áfram djarfhuga við bátabyggingarnar, þar sem þar sé um að ræða þá grein atvinnulífsins, sem kannske er mikilvægust fyrir okkur Íslendinga, í senn vegna þess, að gjaldeyrisöflun bátaflotans er hlutfallslega mjög mikil, miðað við aðrar gjaldeyrisaflandi atvinnugreinar, og auk þess er ákaflega mikill fjöldi fólks, sem hefur beina atvinnu einmitt af fiskveiðunum á bátaflotanum. Og sannast að segja er það svo, að sjávarþorp, minni og stærri bæir frá Vestfjörðum og til Vestmannaeyja og síðar ýmsir aðrir annars staðar á landinu, hafa algerlega byggzt upp á bátaflotanum.

En ef það á að halda þessari þróun og þessari öru bátabyggingu áfram, þá verður líka að sjá fyrir lánsfjáröflun til þessara hluta í miklu, miklu ríkari mæli en verið hefur. Og það er stórkostlegt áhyggjuefni, að núverandi Alþingi skuli ljúka án þess, að séð sé fyrir þeirri þörf, sem hér er fyrir stórkostlega lánsútvegun. Ástand fiskveiðasjóðsins er þannig í dag, að öllu hans fé er ráðstafað, öllu hans fé og meira til, þannig að það er ekki hægt að loforðum úr fiskveiðasjóði, eins og sakir standa, að stuðla að eða styðja áframhaldandi bátabyggingar í landinu. Og um stofnlánadeildina, sem hér er á dagskrá, vita menn, hvernig ástandið er. Það er þess vegna höfuðskömm og skilningsleysi hjá hæstv. stjórnarflokkum, sá viðskilnaður, sem af þeirra hálfu liggur fyrir í garð bátaútvegsins hér á landi á þessu langa og stranga þingi. Ég sé það í blöðum stuðningsflokka stjórnarinnar, að þau hælast yfir því og segja: Þessi og hinn sjálfstæðismaður var ekki viðstaddur í d., þegar var verið að greiða atkv. um tekjuöflun til fiskveiðasjóðs og til eflingar bátaflotans. Þeir munu muna þetta á Akranesi, Siglufirði og Neskaupstað, þeir kunna þessum sjálfstæðismönnum litlar þakkir. — Ja, mikið er, ef hv. þm. úr stjórnarflokkunum geta farið heim til sín í þessi kjördæmi og sætt sína kjósendur og það fólk, sem þar byggir lífsafkomu sína á þessum atvinnuvegi, við það, að þeir hafi nú útvegað í fiskveiðasjóðinn, einu stofnlánadeildina fyrir sjávarútveginn, um 4 millj. kr., að vísu sé það tekið í útflutningsgjöldum allt saman, en þeir skuli bara athuga, hvernig viðhorf sjálfstæðismanna hafi verið í þessum efnum, því að þeir hafi ekki einu sinni verið í d. og sumir hafi ekki greitt atkv. og aðrir hafi greitt atkv. á móti.

Á þessu máli verður að gefa alveg sérstaka skýringu. Og það er ofur eðlilegt. Aðalaukningin, sem þarna var um að ræða varðandi tekjuöflun til fiskveiðasjóðs, var ný útflutningsgjöld af saltfiskframleiðslunni. Og alveg á sama hátt og þeir, sem sjávarútveginn stunda, og þeir, sem vilja efla sjávarútveginn, vilja að sjálfsögðu sízt veita honum aðstoð með því að leggja álögur á hann sjálfan, þá munu þeim mun síður þeir, sem sjálfir hafa mestra hagsmuna að gæta, eru umbjóðendur þeirra manna, sem mestra hagsmuna hafa að gæta við saltfiskframleiðsluna, vera hrifnir af nýjum álögum á saltfiskframleiðsluna, enda þótt hún renni til fiskveiðasjóðs, þegar ástandið að öðru leyti er þannig vaxið í sambandi við stofnlánamöguleika til sjávarútvegsins, að þessi nýja tekjuöflun gefur ekki neinar vonir um það, að þeir, sem við saltfiskframleiðsluna fyrst og fremst fást, geti orðið aðnjótandi neinna fleiri eða frekari lána, a.m.k. ekki svo að nokkru nemur. Ég býst við því, að saltfiskframleiðendur og þeir, sem gæta hagsmuna þeirra og eru umbjóðendur þeirra, sem starfa að þeim atvinnuvegi, hefðu viljað nokkuð á sig leggja til þess að fá eitthvað verulegt í aðra hönd. Því miður er það ekki svo, því að þessir aðilar verða fyrir útgjöldum, sem eins og ástandið er nú, hvort sem mönnum þykir betur eða verr, hljóta óhjákvæmilega að verulegu leyti að renna til annarra þarfa en einmitt þessara aðila. Þess vegna meta menn af þessum ástæðum skiljanlega mismunandi afstöðu sína til þessa máls. Það var eðlilegt, að það væri ekki sérstök ánægja eða gleðiefni t.d. fyrir þm. Reykv. að leggja þessar nýju álögur á saltfiskframleiðsluna, þar sem er bæjarútgerð með 8 togara, sem að verulegu leyti byggir afkomu sína á saltfiskframleiðslu og hefur þó verið með þeim hætti að undanförnu, að endarnir ná hvergi nærri saman. Fyrir þessu gerði hv. 6. þm. Reykv., borgarstjóri, grein, og hann ætti að vera þeim hnútum kunnugastur. Sjálfur er ég bæði í bæjarstjórn Reykjavikur og þm. Reykv., og þrátt fyrir það að mér væri ljóst, að hér væri böggull bundinn einmitt þessari stóru togaraútgerð í Reykjavík, þá greiddi ég atkv. með þessum nýju álögum á saltfiskframleiðsluna til eflingar fiskveiðasjóði. Mér er alveg ljóst, að um þetta mátti verulega deila, og það er vafasamt, hvort rétt hafi verið.

Þeir, sem greiða atkv. í slíkum tilfellum eins og ég, ég greiddi atkv. með þessu, gera það í trausti þess, að eitthvað, þótt í smáum mæli sé, geti af þessum nýju tekjum runnið til þess að veita aðstoð saltfiskframleiðslunni í sambandi við útlán í verbúðabyggingar og þó einkum og sér í lagi fiskvinnslustöðvar eða fiskverkunarhús, sem notuð eru í þágu þeirrar framleiðslu. En fyrst tekjuöflun sjóðsins að öðru leyti hefur ekki verið neitt verulega aukin, þá liggur í hlutarins eðli, að það verður ekki nema borin von, að nokkuð sem nemi fáist til þessara hluta.

Í sjálfu sér eru ekki óeðlileg þau ákvæði, sem í þessu frv., sem hér er til umr., felast, enda leggur sjútvn. öll til, að þau verði samþykkt, og þau eru að vissu leyti alveg hliðstæð og í eðlilegu samræmi við það, sem farið hefur verið eftir við lánveitingar úr fiskveiðasjóði, þegar um hefur verið að ræða að endurbyggja bátana eða setja nýjar vélar í þá og annað slíkt. En það hefur verið auðveldara við að eiga, þar sem þar hefur verið um að ræða eingöngu lán úr fiskveiðasjóðnum sjálfum, sem áður hafa verið komin á bátana, en mikið af bátaflotanum, eins og kunnugt er, er þó enn með áhvílandi lánum einmitt úr stofnlánadeild sjávarútvegsins. Það er ekki nema liðugur áratugur frá því, að þessi stofnlánadeild var sett á laggirnar, og ef ég man rétt, munu yfirleitt lánin hafa verið til 20 ára. En muni ég það ekki rétt, þá vænti ég, að einhver hv. þm. leiðrétti mig og gefi þá betri upplýsingar, svo að fram komi í þessu máli eins og öðrum það, sem sannara reynist.

Út af fyrir sig er ekki ástæða til að vera andvigur því, sem hér er lagt til. En málið er í heild allt þannig vaxið, að viðskilnaður þessa þings og stjórnarflokkanna við stofnlánamál sjávarútvegsins er í eins miklum ólestri og hugsazt getur. Fiskveiðasjóðurinn er í raun og veru tæmdur. Það er verið að gera ráð fyrir því að kaupa smáa togbáta eða togskip, 200–250 tonna, og það er ekki séð fyrir fjáröflun til þeirra hluta. Það er líka verið að hælast um, að verið sé að kaupa 15 nýja togara, og þó eru þessir togarar ekki enn neitt nema pappírsákvæði, og skyldi maður þó ætla, að eðlilegra hefði verið, að hæstv. ríkisstj. hefði í öndverðu athugað möguleikana til að geta fest kaup á þessum skipum, því að hitt var í sjálfu sér veigalítið atriði, sem engum vandkvæðum hefði verið bundið, að smíða síðan löggjöfina og laga heimildirnar utan um fjáröflunarmöguleikana og þær framkvæmdir, sem hetja átti í sambandi við togarasmíðina. En ríkisstj. fer allt öðruvísi að. Hún skrifar fyrst niður á blað, að það skuli keyptir 15 togarar. Það er ekki einu sinni minnsta hugmynd um eða nein greinargerð, það örlar ekki fyrir grg. fyrir því, hvar eigi að taka fé til kaupanna á togurunum. Við vitum að vísu, að ríkisstj. var búin að semja við Bandaríkin um að hverfa frá framkvæmd ályktunarinnar frá 28. marz, og í því sambandi komu upp spurningar um það, hvort mundi kannske síðar koma í ljós, að einhver önnur afborgun af þessum 30 silfurpeninga, eins og Þjóðviljinn kallaði það, mundi gera ríkisstj. kleift að hafa til umráða fé til togarakaupanna. En ekkert af þessu hefur komið í ljós.

Það er talað um það manna á meðal nú, að sláttumaður ríkisstj., hv. bankastjóri, Vilhjálmur Þór, hafi nú í seinustu ferð verið að þreifa fyrir sér um lán til togara. Ekkert veit maður um það nema það, sem maður heyrir á götum og gatnamótum, og vissulega væri það mjög æskilegt. En það er nú sannast að segja nokkuð seint, að því er mér finnst, að vera að leggja drög að því nú fyrst að leita að fé til þessara togarakaupa, og þegar þessu langa og stranga þingi lýkur, þá veit í raun og veru enginn og allra sízt ríkisstj. sjálf, hvort það tekst að kaupa þessi skip, vegna þess að fjárskorti sé um að kenna og að ríkisstj. njóti þá tæplega þess lánstrausts, sem þarf til að fá þau byggð hjá öðrum þjóðum.

Það ber vissulega að fagna því, að tekizt hefur að tryggja nokkurt erlent lánsfé til nauðsynlegrar uppbyggingar af hálfu hæstv. ríkisstj., eins og bent hefur verið á, bæði 65 millj. kr. lánið um áramótin og svo Sogslánið, enda þótt þeir, sem nú hælast mest af því láni, þ.e. þm. stærsta stjórnarflokksins eða Alþb., hafi í öndverðu talið í fyrsta lagi, að það væri algerlega skakkt og misráðið að taka lán til Sogsvirkjunarinnar í Bandaríkjunum, vegna þess að með því móti yrði þessi framkvæmd miklu dýrari en ella, í öðru lagi væri það ósæmandi, þar sem málið væri sett, eins og stærsta stjórnarblaðið orðaði það, í náið samband við þá samninga, sem hæstv. ríkisstj. var þá að gera um áframhaldandi dvöl varnarliðsins hér á landi. Nú er eins og þetta sé allt saman gleymt, og minni ég þó enn á það, að sömu menn höfðu sagt, að miklu hagstæðari erlend lán væru annars staðar fáanleg og án óeðlilegra skilmála. Hefði þá mátt ráða af því, og hefðu þessir menn átt að vita, sem í stjórnarliðinu eru, að þau lán, sem nú hafa verið tekin til Sogsvirkjunarinnar, séu með alveg óeðlilegum skilmálum. Ekki skal ég fullyrða um það, hvort hér er rétt hermt og rétt með farið af hálfu þessara stuðningsmanna hæstv. ríkisstj., að hér sé um óeðlilega skilmála að ræða, en hitt held ég að liggi fyrir, að það er töluverð óvissa um það, hvernig takast muni að hagnýta það lán, sem hér er boðið upp á, og það er vegna þess, að það er ekki um lán í venjulegum skilningi að ræða, ekki venjulegt peningalán, heldur er hér um að ræða lán af andvirði vöru, sem með mjög takmörkuðum skilyrðum er hægt fyrir okkur Íslendinga að kaupa í nægilega ríkum mæli, til þess að nægjanlega stórar lánsfjárupphæðir verði látnar í té. Ég man ekki þá vöruflokka, sem hér er um að ræða, þeir eru ekki ýkja margir, og þau skilyrði munu fylgja, að andvirði þessara vara verði ekki lánað af hálfu Bandaríkjastjórnar til þessara framkvæmda, sem hér um ræðir, nema fyrir það, sem keypt er meira en við Íslendingar höfum áður keypt af sömu vöru frá Bandaríkjunum.

Ég hef heyrt það haft eftir hæstv. viðskmrh., og hann leiðréttir það þá, ef það er ranghermi, að hann teldi, að þetta lán væri með þeim hætti, að það væri ekki nokkur lífsins von til þess, að úr því fengist nægjanlegt fjármagn til Sogsvirkjunarinnar, ekki einu sinni á þessu ári. Höfum við þó heyrt, að hæstv. fjmrh. hefur haldið allt öðru fram og talið, að hvað sem framtíðinni liði, þá væru nú málin fulltryggð á þessu ári.

Eitt held ég að sé nokkuð víst: a.m.k. liggja peningarnir ekki lausir fyrir og margvíslega tilburði mun þurfa að hafa til þess að geta hagnýtt þá í þessar framkvæmdir, sem hér er um að ræða, og jafnvel kaupa hrávörur frá Bandaríkjunum, flytja þær til annarra landa, vinna þær þar og flytja þær aftur til landsins.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta mál en ég nú hef haft, enda er tíminn takmarkaður. Ég hef sem sagt lýst fylgi mínu við efni þess, en að öðru leyti er hér öðrum þræði um svo veigamikið mál að ræða, þar sem er stofnlánaþörf sjávarútvegsins og þá fyrst og fremst bátaútvegsins, að ég vildi ekki láta undir höfuð leggjast að vekja athygli á þeim staðreyndum, sem ég nú hef leitt hugann að. Og sárast af öllu er til þess að vita, að núverandi Alþingi skuli skilja við þessi mál með þeim hætti, sem raun ber vitni um og ég hef að undanförnu lýst.