07.11.1956
Sameinað þing: 6. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í D-deild Alþingistíðinda. (2428)

24. mál, árstíðabundinn iðnaður

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Á tveimur þingum hefur fyrrv. þm. Ak., Jónas Rafnar, ásamt mér og nokkrum öðrum þm. Sjálfstfl. flutt till., sem gengur mjög í sömu átt og þessi till., sem hér er flutt. Hún var um það að fela ríkisstj. að láta athuga, hvaða úrræði væru tiltæk til þess að koma upp iðnfyrirtækjum á þeim stöðum á landinu, þar sem við árstíðabundið atvinnuleysi væri að stríða, og var í því sambandi bent á ýmis atriði, sem til greina kæmu, og vitnað til aðgerða, sem framkvæmdar hafa verið í svipaða átt hjá öðrum þjóðum. Þessi till. hefur ekki náð fram að ganga. Ég vil hins vegar lýsa ánægju minni yfir því, að þessu máli skuli nú vera hreyft, þó að það sé i nokkuð öðru formi, þ.e.a.s. beinlínis tekið fram, að það sé til þess að leysa úr árstíðabundnu atvinnuleysi, en kjarni beggja till. er að sjálfsögðu sá sami.

Það er vissulega rétt, sem hv. fyrri flm. till. mælti hér áðan, að það er mikilvægt úrlausnarefni að tryggja atvinnu víðs vegar á landinu á þeim tímum, þegar aðalatvinnuvegir landsmanna þurfa minna vinnuafl en ella. Okkar atvinnulífi er þannig háttað, eins og allir vita, að aðalatvinnuvegirnir, landbúnaður og sjávarútvegur, eru að töluverðu leyti árstíðabundnir og síðan skapast eyður, þar sem vinnuaflsþörf þessara atvinnuvega er miklum mun minni. Það er mjög athyglisverð tilraun, sem flm. benda á að hafi verið gerð í þessu sambandi á einum stað á landinu, og það er vissulega ástæða til þess að vænta þess, að stuðningur fáist fyrir þeirri hugmynd, sem hér er fram sett, og að hafizt verði handa um, í fyrsta lagi auðvitað athuganir og síðan framkvæmdir í þá átt að gera þetta mögulegt. Það er, eins og ég gat um áðan, meðal ýmissa annarra þjóða við svipað vandamál að stríða, bæði t.d. hjá Norðmönnum og Írum, þar sem þetta mun hafa verið tekið til rækilegrar athugunar og veitt hafa verið alveg sérstök hlunnindi, bæði í sambandi við skatta og lánsfé o.fl., til fyrirtækja, sem sett hafa verið upp á stöðum, þar sem erfitt hefur verið um atvinnu og horfur hafa verið jafnvel á því, að fólk mundi flytja á brott, ef ekki yrði hafizt handa um að tryggja viðunandi afkomu íbúanna.

Það hlýtur að vera metnaðarmál okkar þjóðar að byggja landið eða að landið sé að svo miklu leyti fullbyggt sem mögulegt er og að gefa ekki upp nein þau byggðarlög á landinu, þar sem afkoma gæti verið góð, ef hægt væri að skapa þar nauðsynleg skilyrði til atvinnurekstrar. Það geta verið góð hráefni um að ræða og ýmsar aðrar heppilegar aðstæður, þó að fjármagn og annað skorti, til þess að íbúarnir geti þar búið við viðunandi kjör. Þessi till. er spor í þá átt, og þess vegna gleðst ég yfir því, að hún skuli vera fram komin og sú hugmynd hér upp tekin, sem ég gat um að hér hefði verið áður hreyft og flm. réttilega skýrði frá að hefði komið fram á ýmsum vettvangi. Höfuðatriði málsins er það, að um þetta verði hafizt handa, og ég vil því taka undir það með flm., að ég vænti þess, að till. fái efnislega góðar móttökur og afgreiðslu hér á Alþingi.