13.02.1957
Sameinað þing: 30. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í D-deild Alþingistíðinda. (2455)

100. mál, jöfn laun karla og kvenna

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Í seinustu ræðu hv. 2. þm. Eyf. kom ekkert fram efnislega annað en að hann hefur mjög eindregið og ákveðið undirstrikað það, að hann sé samþykkur þessu máli. Þar af leiðir, að það er vitanlega alger fjarstæða af okkur að eyða tíma þingsins í að karpa, ef við erum hjartanlega sammála um málið. Og það er það, sem ég ætla þá að leggja aðallega upp úr hans tveimur ræðum, að hann sé fylgismaður málsins, en ekki andstæðingur.

Um það, hvort mér hafi snúizt hugur eða ekki á undanförnum árum, þá hygg ég, að það verði torvelt að gera grein fyrir því, því að ég hélt því þá fram, að það væri sannarlega ekki nema um tvær leiðir að ræða, annaðhvort lögfestingu eða heildarsamninga. Ég hafði þá sett lögfestingarleiðina sem númer eitt og flutt frv. Það hafði ekki fengið staðfestingu á Alþingi. Þá er ég nú kominn í þá aðstöðu, að ég byrja einmitt á að leita til þingsins um fullgildingu á jafnlaunasamþykktinni, og stefni nú að hinu markinu, sem ég þá tók fram að væri önnur hugsanleg leið, sem sé heildarsamningar. Eftir að Alþingi Íslendinga væri búið að fullgilda jafnlaunasamþykktina, eru verkalýðssamtökin komin í allt aðra aðstöðu með fulltingi ríkisvaldsins á samningabrautinni, og þá veit ég, að það hljóta að nást fyrr eða síðar — og þó heldur fyrr — heildarsamningar um sömu laun til handa konum og körlum. Og það er einmitt það, sem hefur stórkostlega þýðingu í málinu. Þegar aðildarríki í I.L.O. fullgildir jafnlaunasamþykktina, þá er ríkisvaldið búið að taka afstöðu í þessu máli og hefur þá stuðning ekki aðeins verkalýðssamtaka og kvenréttindasamtaka, heldur allra kvennasamtaka landsins, og ég hygg líka siðferðislegan stuðning allra stjórnmálaflokka landsins, þeirra sem að slíkri samþykkt standa, og það er ekki veik aðstaða.

Ég legg til, að umr. verði nú frestað og málinu vísað til allshn.