08.05.1957
Sameinað þing: 55. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í D-deild Alþingistíðinda. (2469)

100. mál, jöfn laun karla og kvenna

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég vil aðeins út af því, sem sagt hefur verið í sambandi við tillöguna á þskj. 243, taka fram, að mér þykir gott að heyra það, að framsögumaður meiri hl. hefur lýst því, að hann muni fylgja þeirri till., og finnst mér, að af því megi ætla, að svipuð verði afstaða annarra nefndarmanna og þá einnig annarra þingmanna úr stjórnarliðinu. Og sannast að segja finnst mér einnig, að það mundi verða mjög vafasamur vinningur að því að samþykkja þetta mál á þann hátt að fella till. um að fela ríkisstj. að gera ráðstafanir til þess, að jafnlaunasamþykktin komist í framkvæmd hér á landi, því að í slíku skilst mér að felist ábending frá Alþingi til ríkisstj. um að sjá ekki um, að hún komist í framkvæmd fyrst um sinn, þessi jafnlaunasamþykkt, ef slík tillaga væri felld. Mér sýnist þess vegna, að það sé ekki mikil hætta á því eftir það, sem nú hefur fram komið, og fagna því, enda er það í samræmi, eins og kom fram hjá hv. 2. þm. Eyf., við fyrri afstöðu okkar sjálfstæðismanna í þessu máli.

Það er svo aðeins, eins og fram hefur komið, tvennt, sem er að harma í málinu að lokum, þegar það hlýtur sína endanlegu samþykkt, að hæstv. félmrh. skuli ekki vera viðstaddur þessa hátíðlegu athöfn, og eins hitt, að mér sýnist ekki hafa verið valinn neinn sérstakur hátíðisdagur til afgreiðslu samþykktarinnar, eins og kom til umtals hér í umr. seinast. Þá var bent á sprengidaginn. Hann hefur ekki verið notaður. Síðan hafa verið ýmsir hátíðisdagar, t.d. 1. maí, og þá féllu því miður niður þingfundir. Þetta verður að hafa, og þetta er líklega það tvennt, sem heldur verður til leiðinda í sambandi við afgreiðslu málsins: fjarvera félmrh. og svo það, að við skulum bara á venjulegum, óbreyttum degi vera að afgreiða þetta mikla mál.