22.05.1957
Sameinað þing: 59. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í D-deild Alþingistíðinda. (2530)

169. mál, sameining Landsbókasafns og Háskólabókasafns o. fl.

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að þessi till. er komin fram, og fagna því, ef hún hefur nú hlotið fylgi innan háskólans. Ég minnist þess, að um það bil þegar verið var að reisa háskólann fyrir alllöngu, kringum 1935 og fram að stríðinu, var þetta nokkuð til umr. innan þeirrar stofnunar, og ég hélt því þá fram og hef síðan látið þá skoðun uppi á Alþingi, eftir að ég kom hingað, að það væri þjóðinni ofviða að halda við tveimur fullkomnum vísindabókasöfnum og því væri efasamt, að háskólinn ætti að leggja í það að koma upp fullkomnu háskólabókasafni. Sú skoðun varð þá ekki ofan á, heldur var ákveðið, að háskólinn kæmi upp sínu sérstaka bókasafni. Nú skilst mér, að reynslan hafi sýnt, að þetta hafi ekki reynzt alls kostar heppilegt, a.m.k. að kostnaður verði ríkinu ofviða.

Það er ljóst, að héðan af verða þessi söfn ekki sameinuð til fulls, nema viðbótarbygging eða ný bygging komi til, eins og hæstv. menntmrh. gat um. Ýmsir telja, að núverandi landsbókasafnsbygging sé ekki til frambúðar a.m.k. fyrir safnið í heild og vegna tryggari geymslu og öryggis þurfi að koma upp nýrri sameiginlegri bókhlöðu, og hafa menn þá látið sér detta í hug, að það yrði gert á háskólalóðinni. Þetta er atriði, sem hefur verið til athugunar og íhugunar í menntmrn. og með þess starfsmönnum og aðstoðarmönnum undanfarin ár. Ég fagna því, að hæstv. menntmrh. skuli nú leita staðfestingar Alþingis á þessari stefnu.

Ég vil benda á, að þangað til sameining á sér stað, hygg ég, að nokkuð sé hægt að ráða bót á þessu með því að hafa sameiginlega skráningu allra vísindalegra bóka og rita, sem keypt eru, þannig að komið verði í veg fyrir tvöfalda skráningu, og hygg ég, að þegar hafi verið gerðar nokkrar ráðstafanir til þess, að svo gæti orðið. En það er ekki nóg, að sú skráning sé einungis á bókum þessara tveggja safna, heldur eru fræðileg söfn nú orðið hjá ýmsum öðrum stofnunum, t.d. ýmsum tæknilegum stofnunum, sem verja verulegu fé til bókakaupa, og það er alveg nauðsynlegt, að eignir þessara safna verði einnig skráðar í hinni sameiginlegu skráningarstöð, sem bezt fer á að sé hjá Landsbókasafninu. Allt þetta er meira og minna komið í framkvæmd eða í undirbúningi, en ég vildi vekja athygli á því, um leið og ég vil mæla með því, að till. fái framgang, henni verði vísað til n. og n. afgreiði hana, vegna þess að ég tel eðlilegt, að Alþingi lýsi fylgi sinu við þá meginstefnu, sem hér er tekin upp, og ég lýsi sérstakri ánægju minni yfir því, ef háskólinn sem heild hefur nú fallizt á þennan hátt: En segja má, að hans útlát séu þeim mun minni eða brot á metnaði, ef það skyldi verða ofan á að flytja allt meginsafnið yfir á hans lóð, þannig að undir hans handarjaðri yrði.