31.05.1957
Sameinað þing: 65. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í D-deild Alþingistíðinda. (2551)

55. mál, fiskirannsóknir á Breiðafirði

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Ég hefði tæplega vænzt þess, að till. okkar til þál„ er hv. 11. landsk. og ég fluttum á þskj. 64, um fiskirannsóknir á Breiðafirði, fengi að sjá dagsins ljós á ný. Till. var vísað til hv. fjvn. 5. des. eða fyrir nær 6 mánuðum. Þegar um jafnsjálfsagt mál var að ræða og till. þessi fjallar um, mál, sem varðar stærsta atvinnuveg þjóðarinnar, hefði verið eðlilegt og raunar sjálfsagt, að hún hefði verið afgreidd frá hv. n. á styttri tíma en raun hefur orðið á.

Hv. fjvn. hefur breytt orðalagi till. að nokkru og ekki til bóta. Við flm. munum þó ekki gera ágreining um það. Vil ég þrátt fyrir gagnrýni mína á hv. fjvn. fyrir seina afgreiðslu á till. votta n. þakklæti okkar flm. fyrir það, að hún skuli nú vera lögð hér fram til síðari umr.

Með leyfi hæstv. forseta, vil ég leyfa mér að geta hér annarrar till. til þál., er ég flutti snemma á þinginu á þskj. 63, um eftirlitsbát á Breiðafirði. Till. var vísað til hv. fjvn. 5. des. s.l. og hefur ekki þrátt fyrir mörg samtöl mín við hv. formann fjvn. fengizt afgreidd frá n.

Í framsögu fyrir till. gat ég um þá miklu nauðsyn, að bátur á vegum landhelgisgæzlunnar yrði að staðaldri við gæzlu og til aðstoðar fiskibátum yfir vetrarmánuðina eða á vetrarvertíðinni. Mér höfðu borizt tilmæli frá öllum verstöðvum við Breiðafjörð um, að ríkisvaldið léti þessa aðstoð í té, að sjá þeim 40 fiskibátum, sem gerðir eru út frá verstöðvum við Breiðafjörð, fyrir nokkru öryggi í þessum efnum. Ágangur togara, bæði innlendra og erlendra, er skefjalaus á fiskislóðum þeim, er bátarnir verða nú að sækja á. Tvær undanfarnar vetrarvertíðir hafa línubátarnir orðið að sækja afla sinn meir á djúpmið en áður hefur þekkzt. Eru þessi fiskimið töluvert fyrir utan landhelgislínuna. Er því full nauðsyn þess, að gæzluskip fylgist einnig með yfirgangi togara við línubátana og reyni að leiðbeina togurunum, svo að þeir togi ekki yfir veiðarfæri bátanna.

Eins og ég tók fram áðan, hefur hv. fjvn. ekki séð sér fært að verða við þessari sjálfsögðu ósk breiðfirzkra sjómanna.

Hv. Alþ. má vera það ljóst, að sams konar beiðni mun á næsta hausti eða þegar þing kemur saman á ný berast frá sjómönnum og útgerðarmönnum við Breiðafjörð. Verð ég að vænta þess, að slík till. fái þá betri meðferð hv. fjvn. en till. sú, sem flutt var á þessu þingi.