16.11.1956
Sameinað þing: 10. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í D-deild Alþingistíðinda. (2625)

43. mál, endurskoðun varnarsamningsins

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Utanríkisráðherra hefur nú gert grein fyrir þessu máli af hálfu ríkisstj.. og ég þarf raunar engu þar við að bæta. Ég skal ekki heldur gefa tilefni til þess að draga umr. út á stærri svið, þannig að það gefi tilefni til langra umr. eða dregið sé annað inn í þetta mál en fyrir liggur í þessari tillögu.

Hv. 1. þm. Reykv. (BBen) sagði, að því færi fjarri, að hann hældist yfir því að hafa verið forsjálli en núverandi stjórnarflokkar, og átti sérstaklega við Framsfl. og Alþfl., skildist mér, um friðarhorfur í heiminum.

Það er ástæðulaust að ræða þetta í löngu máli. Við vitum það, og sjálfsagt er það betur kunnugt en hv. 1. þm. Reykv. vill vera láta, að þeir, sem hafa talið friðarhorfurnar góðar núna undanfarið, eru í ákaflega góðum félagsskap, því að við höfum sjálfsagt báðir og fleiri i þessari hv. deild fylgzt með blaðaskrifum undanfarið og þ. á m. kosningabaráttunni í Bandaríkjunum, þar sem núverandi forseti hefur haldið því fram alla kosningabaráttuna þar til seinustu dagana, að friðarhorfur í heiminum væru aldrei betri og hefðu aldrei verið betri um margra ára bil heldur en þær væru núna. (Gripið fram í.) Fram að seinustu dögunum, þangað til atburðirnir gerðust í Egyptalandi og í Ungverjalandi, hefur verið haldið fram, að hann hafi sagt alla tíð, að þær hefðu aldrei verið betri en á þeirri stundu, sem hann talaði, og þetta hefur verið ein uppistaðan í kosningabaráttunni. Það er heldur ekkert launungarmál, að það kemur honum á óvart, — ég býst ekki víð, að neinn hér í þessari hv. deild vildi koma fram og segja, að hann hefði séð það fyrir, að tvær þjóðir, Frakkar og Bretar, mundu hefja árás á Egyptaland. Ég býst við, að ef það hefði verið sagt við stjórnarandstöðuna fyrir nokkru, að þetta mundi nú líklega verða það, sem kæmi fyrir, mundi því hafa verið mótmælt af flestum eða öllum, enda kom sú árás víst öllum heiminum á óvart.

Án þess að vera að dæma um það til eða frá, — það getum við látið liggja á milli hluta í þessum umr., — þá held ég, að það sé enginn maður, sem fylgist með alþjóðaviðburðum, sem telur, að það sé ekki fyrst og fremst á þessum stað, sem ófriðarhættan er núna sem stendur. Ég er að vísu ekki vel að mér, því miður, í utanríkismálum, ekki nándar nærri nægilega, en svo mikið fylgist ég þó með og reyni að fylgjast með, að ég hef ekki séð því haldið fram af neinum, að það sé ekki fyrst og fremst út frá þessum atburðum, sem ófriðarhættan stafar núna í veröldinni. Þetta gátu allir sagt jafnlítið fyrir.

Vitanlega er stefna okkar núna í þessum málum sú sama og hún hefur verið og var mörkuð 1949. Sjálfstæð þjóð, sem vill lifa sjálfstæðu lífi, hlýtur að keppa að því og nota hvert augnablik, sem gefst, til þess að ná því marki að losna við að hafa her. Það verður að halda áfram að keppa að því marki, og. það verður áreiðanlega gert af þessari þjóð.

Ég ætla ekki að ræða sérstaklega um það, a.m.k. ekki í löngu máli, hvort stefnan frá 1949, sem hv. 1. þm. Reykv. átti m.a. þátt í að marka, er, eins og hann hélt fram núna, óframkvæmanleg, þ.e. að hafa hér flugvelli óvarða. En við munum það öll, að á þeim tíma var þannig um samið milli Íslendinga og utanrrh. Bandaríkjanna annars vegar, samið um það af þrem ráðherrum, sem fóru vestur um haf, að við hefðum þá sérstöðu til Atlantshafsbandalagsins, að við mundum ekki ganga í Atlantshafsbandalagið, nema því væri lofað, að hér yrði aldrei her á friðartímum og við réðum því sjálfir, hvenær hér væri her. Og þeir voru sendir af hv. Alþingi beinlínis til þess að fá yfirlýsingar um þetta, og meðan bíðum við með að taka ákvörðun. Og þeir komu með þá orðsendingu, sem við töldum fullnægjandi margir hverjir, — ég var einn af þeim, sem vildu fá þá yfirlýsingu inn í samninginn sjálfan og gerðu það að ágreiningsatriði, að það hafði ekki verið gert, en yfirlýsingin er alveg ljós. Hún var gefin af þáverandi hæstv. utanrrh., núverandi hv. 1. þm. Reykv., og utanrrh. Bandaríkjanna og opinberuð öllum heiminum, að Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið með því skilyrði, að hér væri aldrei her á friðartímum.

Það er því ekkert undarlegt, þar sem þetta var jafnákveðið skilyrði og þar sem hv. 1. þm. Reykv. lét fylgja því svo ákveðin ummæli með því að skýra okkur frá hér á Alþingi, að hann hafi talað þannig, og ég efast ekki um, að hann hafi gert það, við utanrrh. Bandaríkjanna, að við vildum heldur, — hér er ég að tala um stefnuna 1949, — að við vildum heldur taka verulega áhættu á varnarleysi heldur en að hafa hér her á friðartímum. En ég vona, að hv. þm. geti nú fallizt á það, að við stefnuna frá 1949 verðum við að halda okkur, og það er margt, sem við verðum að keppa að án afláts.

Við teljum þess vegna ekki neinum Íslendingi láandi, hvorki okkur né öðrum, sem notar hvert tækifæri til þess í hvert skipti, sem lítur betur út, til þess að reyna að hrinda þessari stefnu fram.

Nú er spurt um það: Hver er stefna íslenzku ríkisstj. í þessu máli eins og sakir standa? Nú þurfum við ekki að tala um þessi mál út frá því sjónarmiði, að það séu friðartímar. Ég get um það atriði sagt þetta: Það liggur raunverulega fyrir alveg ljóst, eins og hæstv. utanrrh. tók fram, hver er stefna íslenzku ríkisstj. í þessu máli. Þessi stefna liggur fyrir í mörgum ræðum, í mörgum blaðagreinum, sem eru alveg ljósar. Við höfum sagt það, við stefnum að því að losna við herinn, undireins og friðvænlegra verður í heiminum. Við álitum það rétt að taka herinn hér inn 1951 vegna Kóreustyrjaldarinnar, og við álítum það rétt, að varnir landsins séu í lagi með nokkrum her, þegar hætt er við styrjöld í veröldinni og getur komið til skyndiárásar.

Það er enginn efi á því, að útlitið núna í dag er vægast sagt uggvænlegt og óvisst, og veit enginn um það, til hverra atburða kann að draga. Það koma hingað samningamenn vestan um haf til þess að ræða um þessi mál, og ég er ekki alveg viss um, að hv. 1. þm. Reykv. hafi rétt fyrir sér i því, að það væri eðlilegt að byrja á því núna, áður en þeir koma og áður en við fáum þær upplýsingar frá þeim, sem við teljum okkur að sjálfsögðu fá, um leið og við ræðum við þá, að gefa yfirlýsingar um það, áður en við göngum til viðtals við þá, hvað við í einstökum atriðum ætlum okkur að gera.

Sú yfirlýsing, sem hæstv. utanrrh. gaf, var ákaflega ljós um þetta mál. En hér kom fram fyrirspurn um það, hvort öll ríkisstj. stæði að þessu máli, því að það væri vitanlega meginatriði, hvort svo væri. Og hv. þm. taldi það ekki alls kostar þingræðislegt, ef það væri þannig, að ríkisstj. stæði ekki alltaf sem heild að einhverju máli. Án þess að fullyrða nokkuð um það, þá efast ég nú um og meira en efast um, að þessi kenning hafi við nokkur rök að styðjast. M.a. var það eftirminnileg setning, — það kom hvað eftir annað fyrir í því lýðræðislandi veraldarinnar, sem fremst er talið, Englandi, það kom fyrir þar í sambræðslustjórn. að það var spurt einmitt svona, og forsrh. sagði: Við höfum komið okkur saman um það, að við erum ósammála í þessu máli. Ég segi ekki, að það liggi fyrir í þessu, en þannig getur það legið fyrir í stjórnum. Og ég held nú satt að segja, að hv. 1. þm. Reykv. ætti að muna það úr sambræðslustjórnum, að stjórnarflokkar hafa ekki alltaf verið sammála. Þetta tala ég aðeins út frá þeirri almennu reglu, en ekki út frá þessu máli sérstaklega. En ég get fullvissað hv. þm. um það, — og það finnst mér vera aðalatriðið fyrir hann. — að þessari stefnu, sem marglýst hefur verið fyrir kosningar og hefur komið fram hér greinilega í ræðu hæstv. utanrrh., verður framfylgt af íslenzku ríkisstj., og sú yfirlýsing hygg ég að ætti að nægja, enda er hún það eina, sem er í samræmi við það, sem við höfum lýst yfir fyrir kosningar.

Þess vegna er það vitanlega alveg rétt, að þessi till., sem hér liggur fyrir, flytur raunverulega ekki neitt nýtt. Hún flytti því aðeins eitthvað nýtt, að það ætti að byrja á því núna að gera samninga. sem ganga lengra í skuldbindingum en núv. samningar gera, en það kom ekki fram í ræðu hv. þm., að það sé ætlunin með till., og tek ég þá yfirlýsingu fyllilega til greina. Ég álít þess vegna eðlilegt, eins og hæstv. utanrrh. lagði til, að vísa þessu máli til stjórnarinnar.