31.10.1956
Sameinað þing: 4. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í D-deild Alþingistíðinda. (2646)

15. mál, eftirgjöf lána vegna óþurrkanna

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Hv. 1. þm. N-M. (PZ) getur alveg sparað sér það að tala um, að ég hafi ekki kynnt mér þetta mál. Það er alveg vist, að ég er miklu kunnugri högum bænda en hv. þingmaður og búnaðarmálastjóri, þegar hann er að tala um það, að fénu hafi fjölgað lítils háttar á þessu svæði á s.l. ári, þar sem fjárskiptin voru. Kannske hv. þm. vilji nú halda því fram, að fjárskiptin og niðurskurðurinn hafi verið bændum til hagnaðar? Mér kæmi það ekkert á óvart, að hann kæmi hérna upp í þriðja sinn og segði, að bændur hefðu bara grætt á því að skera niður. Það er nú annað atriði, sem gefur þessari till. alveg sérstakt gildi, það er, að bændur á þessu svæði voru svo að segja fjárlausir, voru ekki búnir að koma upp fjárstofninum og búin þess vegna óeðlilega lítil og margir bændur tekjulausir eða tekjulitlir vegna fjárskiptanna. Þetta hefði hv. búnaðarmálastjórinn átt að vita, og þess vegna hefði hann ekki átt að undrast, þótt fénu hefði fjölgað eitthvað lítils háttar um það leyti, sem fjárskiptin fóru fram.