21.11.1956
Sameinað þing: 11. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í D-deild Alþingistíðinda. (2664)

49. mál, hafnargerðir

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Eyf. (BSt) vék að því og tók undir það, sem réttilega er fram tekið í þáltill. eða grg., sem fylgir þeirri þáltill., sem hér er til umr., að vitanlega væri það meir hygginna manna háttur að taka ekki meira fyrir í einu en menn réðu við og ljúka því, áður en að öðru meira yrði horfið. Mér skilst, að hann telji, að til greina gæti jafnvel komið, að einhverjar hafnir yrðu teknar út úr, þeim lokið, og svo kæmi röðin síðar að þeim, sem eftir yrðu. En mér er spurn: Hverjir vildu bíða, og hverjir ættu að bíða? Ef ætti að meta það, þá er ekki ótrúlegt, að það væri litið á, hver aðstaðan er frá náttúrunnar hendi, og þær hafnir, sem eru beztar frá því sjónarmiði, biðu, meðan verið væri að laga, þar sem er verri aðstaða. Geri ég þá ráð fyrir, að Eyjafjörður eða hafnirnar við Eyjafjörð yrðu látnar eitthvað bíða, meðan verið væri að laga það, sem mest kallar að á erfiðustu stöðunum.

Annars skil ég ekki þessa þáltill. þannig, að hv. flm. hugsi sér að gera svo mjög upp á milli þeirra staða, sem núna eru til meðferðar, heldur að reynt verði að sjá þeim öllum jafnhliða borgið. Og það er ekkert efamál, að fjárhagslega og einnig með tilliti til afnota er yfirleitt nauðsynlegt að ljúka hverju verki í einni lotu. Það þarf raunar ekki orðum að þessu að eyða, því að þetta er alkunna á öllum sviðum, og opinberar aðgerðir eru í þessu efni engin undantekning og allra sízt hafnargerðir, og er réttilega að þessu vikið í grg. þáltill.

Samkv. fjárlögum þessa árs eru nú í byggingu hafna- og lendingabætur á 60–70 stöðum víðs vegar í kringum landið, og það munu fáir eða engir þessir staðir hafa lokið aðgerðunum og alls staðar aðkallandi, að verkunum sé hraðað, og á ýmsum stöðum, sem ekki var veitt fé til á þessu ári, munu sennilega bíða aðgerðir, sem kalla á framkvæmd nú á næstunni. Það er mjög eðlilegt og skiljanlegt, að hlutaðeigendur á þessum stöðum sýni nokkra óþolinmæði út. af þeim seinagangi, sem á sér stað yfirleitt í þessum framkvæmdamálum, og það er einnig eðlilegt að mínum dómi, að hv. 5. þm. Reykv. (ÁS) taki þar undir og óski, að hér verði úr bætt, því að hér er um að ræða skipstjóra, sem mikill vandi hefur hvílt á um áratugabil í sambandi við strandsiglingar í kringum land. Hann hefur átt við það að stríða að stjórna skipi, sem leysa hefur átt samgönguþörf fólksins víðs vegar, þar sem erfiðleikarnir eru mestir og hafnarskilyrðin lélegust, og hann hefur þurft að hraða ferðum sínum og sigla áfram frá áfangastað til áfangastaðar jafnt á nótt sem degi, jafnt hvort hefur verið hríðarveður eða gott veður. En það þarf mikið til að ljúka í einum tiltölulega stuttum áfanga öllum þeim aðgerðum, sem um er að ræða í sambandi við þær hafnargerðir og lendingabætur, sem nú eru á döfinni hér á landi. Ef maður léti sér detta í hug að framkvæma þá hluti á 3–5 árum, helzt á þeim 3 næstu, og ef maður léti sér detta í hug, sem ég skal ekki fullyrða að nálgist það rétta, að sú fjárhæð, sem þarf að verja til þeirra hafnarmannvirkja, sem nú eru í byggingu, nálgist 150 millj. kr., og persónulega er ég sannfærður um, að minni upphæð nægir ekki, þá er hér um mikla fjáröflun að ræða og fjárfestingu. Mætti telja, að það væri út af fyrir sig viðráðanlegur hlutur, ef lítil fjárfesting væri á öðrum sviðum. En því er ekki að heilsa, og þarf ekki um það að fjölyrða, sem öllum er kunnugt, að svo fer víðs fjarri. Alls staðar eru verkefnin og þarflítið að telja þau upp, þó að nefna megi sem dæmi sementsverksmiðju, orkuver og dreifingu rafmagns um landið, skipakaup, lagningu vega og brúa, símalagningu og þar með þráðlaus rit- og talkerfi, ræktun og húsagerð í sveitum, húsabyggingar í kauptúnum og kaupstöðum, byggingu hraðfrystihúsa og ýmiss konar verksmiðja, og þótt ég nefni þetta, þá er aðeins stiklað á stóru. Við vitum, að allt þetta kallar á meiri hraða í aðgerðum en við virðumst hafa getu til, ekki sízt á þeim stutta tíma, sem við teljum að hafnargerðirnar þurfi að framkvæmast á. Það er því hætt við, að við neyðumst til að fara hægara í þessu efni en þáltill. vill vera láta, því miður, en svo mun einnig vera í öðrum framkvæmdamálum þjóðarinnar. Hitt er annað mál, að sjálfsagt er að vinna að því að ýta undir þessar framkvæmdir eftir föngum.

Ég sakna úr till. ákvæðis um, að gerð skuli rannsókn á, hver sé heildarkostnaður allra þeirra framkvæmda, sem nú eru á döfinni í hafna- og lendingabótamálum, og enn fremur í sambandi við þær hafnir eða lendingabætur, sem óhjákvæmilega hljóta að koma á næstu árum, og ég tel, að það væri æskilegt að fella inn í þáltill. ákvæði um, að slík áætlun skuli gerð, og enn fremur ákvæði um, að að því fengnu sé ríkisstj. falið að athuga möguleikana á fjáröflun í því skyni að hraða öllum framkvæmdum. Þetta er auðvelt mál, ef það telst ástæða til að fella ákvæði inn í till. um þessi atriði.

En segjum nú svo, að einhver árangur fáist um fjáröflun til þessara hluta, og gerum ráð fyrir, með því að vera ekki allt of bjartsýnir, að það sé ekki kostur á að afla fjár til framkvæmda í sambandi við byggingu hafna og lendingabóta nema að einhverju leyti, miðað við það, sem þörf er á. Hvernig mundi þá vera hugsað að skipta þessu fé? Mundi verða niðurstaðan að skipta því hlutfallslega milli allra staða miðað við fjárþörf, eða mundi verða niðurstaðan, að fjölmennari staðirnir og þeir þar af leiðandi fjársterkari fengju féð? Eða yrði litið á þörf þeirra, sem erfiðasta aðstöðu eiga, og haft í huga jafnvægi í byggð landsins? Og mundi líka verða litið á það, að eftir þeim stöðum, sem standa einhvers staðar á milli þeirra, sem sterkastir eru, og þeirra, sem veikastir eru í þessum efnum, yrði munað eitthvert fjármagn til þess að geta lokið þeim áfanga í hafnargerðum sínum, sem brýnasta nauðsyn ber til, til þess að hafnargerðin geti orðið að almennum notum fyrir þá, sem eiga að njóta?

Þetta eru allt saman spurningar, sem ég veit að verður ekki svarað hér, en þær verða einhvern tíma, ef svona fjáröflun tækist, brennandi spurningar fyrir dreifbýlið.