27.02.1957
Sameinað þing: 40. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í D-deild Alþingistíðinda. (2848)

104. mál, olía frá varnarliðinu

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Fyrirspyrjandi og tveir aðrir hv. þm. virðast leggja á það mikla áherzlu, að hægt sé að upplýsa hér og nú, hvað við greiðum í krónum fyrir þá olíu, sem við eigum að fá hjá varnarliðinu í Hvalfirði. Skilst mér, að það hafi komið fram hjá þeim nokkrar áhyggjur út af því, að við höfum keypt þarna olíu, sem sé á óeðlilega háu verði og kunni þess vegna að hækka olíuverðið í landinu.

Út af þessu vil ég aðeins taka það fram, að tryggilega var frá því gengið, þegar við fengum heimild fyrir þessari olíu, að hún getur aldrei orðið dýrari en sú olía, sem hægt var að fá á frjálsum markaði á þeim tíma. Það var tryggilega frá því gengið, þegar olían var fengin, þannig að það er með öllu ástæðulaust að vera með nokkurn ótta um það, að hér hafi verið gerður óhagstæður samningur, sem kunni að leiða til hækkunar á olíuverðinu.

Málið liggur hins vegar ekki þannig fyrir, að ég geti eða vilji á þessari stundu fara með tölur í sambandi við það. Og ég vil í því sambandi sérstaklega benda á og minna á það, sem hefur komið fram í sambandi við þetta mál, þegar rætt var um það hér áður, að sá möguleiki gæti verið til að skila olíunni í því sama aftur, ef við kynnum að vilja óska eftir því síðar. Hvort sú leið verður farin eða reynt verður að fara hana, um það skal ég ekki segja á þessu stigi málsins. Mér virðist það ólíklegt, og ætti ekki að þurfa á því að halda, sérstaklega vegna þess, að það er tryggt þegar í upphafi, að þarna getur aldrei orðið um dýrari eða óhagstæðari kaup fyrir okkur að ræða en við hefðum keypt olíuna á frjálsum markaði á þeim tíma, sem hún var tekin.