11.03.1957
Efri deild: 67. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í C-deild Alþingistíðinda. (2900)

103. mál, menntun kennara

Frsm., meiri hl. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Með frumvarpi því, sem hér er til umræðu á þskj. 205, er lagt til að breyta lögum nr. 16 frá 12. marz 1947, um menntun kennara. Breyting þessi nær aðeins til Húsmæðrakennaraskóla Íslands og er í því fólgin, að í stað þess að nú segir í lögunum, að skólinn skuli starfa í Rvík, komi, að hann skuli starfa þar, sem ráðherra ákveður.

Með þessu frv. er því lagt til að fella niður þá ákvörðun, sem Alþingi hefur áður tekið með lagasetningu um staðsetningu skólans, og færa það ákvörðunarvald í hendur ráðherra.

Ástæður til slíkrar lagabreytingar sýnist mér að ættu helzt að vera þær, að hin fyrri staðsetning skólans þætti misráðin og að ráðh. hafi betri skilyrði til að ákveða skólanum stað en hæstv. Alþingi. En þessu er alls ekki til að dreifa. Mér vitanlega hefur ekki komið fram gagnrýni á þá ráðstöfun að staðsetja skólann í Rvík. Ég hygg, að menn séu yfirleitt sammála um, að staðsetning hans hér í höfuðstaðnum sé góð, hann sé ekki annars staðar betur settur. Hann hefur starfað hér frá upphafi, eða í 14 ár, og gagnrýni á það, að skólinn var staðsettur hér í Rvík, veit ég ekki til að nokkru sinni hafi komið fram.

Ef þetta er rétt, að skólinn er vel settur hér í höfuðstaðnum, þá er heldur ekki um hitt að ræða, að ráðherra takist betur um staðarval en var gert með lagasetningunni á sínum tíma.

En ástæða fyrir flutningi þessa frv., sem er samhljóða frv. og flutt hefur verið á tveimur þingum áður, 1953 og 1954, er allt önnur en þessi. Hún er einfaldlega sú, að eins og sakir standa er húsmæðrakennaraskólinn húsnæðislaus nú í bili, eða frá því í haust, en hins vegar er norður á Akureyri skólahús, sem ekki verður notað a.m.k. í bili til þess skólahalds, sem ætlazt var til, fyrir húsmæðraskóla Akureyrar, og því líklegt, að þetta skólahús geti orðið tiltækt síðar á þessu ári handa húsmæðrakennaraskólanum, ef hann yrði fluttur frá Rvík til Akureyrar.

Það er ekki hægt að neita því, að það er sannarlega alvarlegt mál fyrir skóla, þegar starfsemi hans verður að leggjast niður, af hvaða ástæðum sem það er.

Þannig er ástatt um Húsmæðrakennaraskóla Íslands, að síðan í haust hefur hann ekki getað starfað vegna húsnæðisleysis. Slíkt ástand hjá hvaða skóla sem er jafngildir því, meðan það varir, að skólinn sé ekki til, því að enginn hefur gott af skóla, sem ekki starfar.

Sams konar fyrirbæri hefur svo gerzt norður á Akureyri. Þar hefur húsmæðraskóli Akureyrar orðið að hætta störfum, en af allt öðrum ástæðum. Þær ástæður eru, að nemendur hættu að sækja skólann, en skólahúsið var til og er enn til.

Taki maður þetta tvennt saman eins og hvert annað reikningsdæmi, þá sýnist málið vera auðleyst. Það er ekki annað en flytja saman húsnæðislausan skóla og ónotað skólahús og fá út úr þessu starfandi skóla.

Þetta virðist í fljótu bragði vera einfalt og sparnaður af þessu. En því aðeins getur þetta farið vel, að starfsskilyrði skólans eftir þennan flutning verði ekki lakari en áður voru, að hið nýja húsnæði sé þá fullnægjandi, að aðsóknin að skólanum verði góð og margt fleira af þessu tagi.

Um húsnæði fyrir húsmæðrakennaraskólann hér í Reykjavík er það að segja, að búið er að ákveða skólanum byggingarlóð og búið er að veita honum byrjunarfjárfestingarleyfi.

Þessar opinberu aðgerðir benda ekki til þess, að hið opinbera, sem um þessi mál fjallar, hugsi til þess að flytja skólann.

Hversu fljótt það gengur fyrir sig að byggja handa skólanum hér í Rvík, vil ég ekkert fullyrða um, en benda má á það, að fleiri leiðir eru til en að byggja yfir skólann.

Skólanefnd húsmæðrakennaraskólans bendir á það í umsögn sinni um þetta frv., sem prentuð er með nál., að sá möguleiki sé fyrir hendi að kaupa hús hér í bænum handa skólanum og meira að segja slíkt hús standi skólanum til boða og húsameistari ríkisins telji það hús henta mjög vel.

Þarna er þá um tvær leiðir að ræða til að bæta úr húsnæði húsmæðrakennaraskólans, annaðhvort að byggja eða kaupa hús, og líklegt er, að verði horfið að því ráði að kaupa hús yfir skólann, þurfi starfsemi hans ekki að liggja lengi niðri vegna húsnæðisskorts.

Við 1. umr. þessa máls í þessari hv. d. óskaði hv. 1. þm. N-M. upplýsinga um tvennt, í fyrsta lagi, vegna hvers húsmæðrakennaraskólinn var látinn hverfa á brott úr húsnæði háskólans, og í öðru lagi, hvort öruggt sé, að skólahús húsmæðraskólans á Akureyri verði tiltækt síðar á þessu ári.

Hæstv. menntmrh. hefur svarað fyrra atriðinu á þá leið, að háskólinn hafi þurft á þessu húsnæði að halda og því hafi húsmæðrakennaraskólinn orðið að hverfa þaðan brott, og hef ég ekkert um það frekar að segja, enda má segja, að það skipti minnstu máli, af hverju skólinn hefur verið látinn fara úr húsnæði, fyrst hann hefur verið látinn fara.

Um hitt atriðið, skólahúsið á Akureyri, vil ég segja það, að eins og kunnugt er notar barnaskóli Akureyrar þetta húsnæði nú í vetur. Ég hef svo talað við skólastjóra barnaskólans og spurt hann um það, hvort öruggt sé, að þetta húsnæði verði ekki notað af barnaskólanum næsta vetur. Hann hefur svarað því, að hann telji öruggt, að það komi ekki til, barnaskólinn þurfi ekki á skólahúsi húsmæðraskólans að ha]da lengur, því að verið sé að ljúka byggingu skólahúss fyrir barnaskólann á Oddeyri, svo að mér þykir líklegt, að það sé nokkurn veginn tryggt, að þetta skólahús húsmæðraskólans verði tiltækt næstkomandi haust, ef til kemur.

Ég vil nú benda á það, að þótt húsmæðrakennaraskólinn yrði fluttur norður í skólahús húsmæðraskólans þar, þá þarf að breyta því húsi að meira eða minna leyti, svo að það henti skólanum. Menntmn. hefur enga aðstöðu haft til að dæma um það, hversu mikið slík breyting kynni að kosta, en hún yrði þó að vera nokkur, t.d. sú, að skólinn fengi þarna heimavist fyrir nemendur sína.

Það verður þess vegna ekki séð á þessu stigi málsins, hversu mikill sparnaður yrði að því að breyta þessu skólahúsi á Akureyri, sem ekki var byggt með heimavist nemenda fyrir augum, miðað við að kaupa hús hér í bænum eða byggja fyrir húsmæðrakennaraskóla, þó að ég geri að sjálfsögðu ráð fyrir, að af því yrði einhver sparnaður, en hversu mikill get ég ekki sagt um á þessu stigi. En verði þessu húsnæði breytt á þennan hátt, að komið verði þar upp heimavist, — og það virðist vera aðkallandi, ef húsmæðrakennaraskólinn á að flytjast norður, — þá kemur annað til sögunnar.

Grg. með þessu frv. mun vera samhljóða þeirri, er fylgdi sams konar frv. er lá fyrir Alþ. fyrir tveimur öðrum þingum. Ég býst við, að þessi grg. sé skrifuð í kringum 1953. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Á árinu 1943 var byggður húsmæðraskóli á Akureyri. Þar sem enn hefur ekki verið reist heimavíst fyrir skólann, hefur mjög dregið úr aðsókn að honum nú síðari árin.“

Það má nú víst bæta því við, að það hefur dregið það mikið úr þessari aðsókn, að hún er orðin engin núna og skólinn þar af leiðandi ekki starfandi, enda er þetta skrifað fyrir þremur árum eða rúmlega það. Þarna er berum orðum bent á ástæðurnar fyrir því, að nemendur sóttu ekki húsmæðraskólann á Akureyri. Ástæðan er sú, að heimavist vantaði fyrir nemendur.

Nú skilst mér, að menn séu sammála um það, að eigi húsmæðrakennaraskólinn að flytjast í þetta húsnæði, verði að koma þar upp heimavist fyrir nemendurna. En verði þetta gert, er þá ekki leystur vandinn fyrir húsmæðraskóla Akureyrar, að hann geti þá hafið starf sitt að nýju, því að þá fari nemendur að sækja þann skóla, ef heimavistin er komin? — Væri ekki hyggilegra að breyta fyrst skólahúsinu og koma þar fyrir heimavist með það fyrir augum, að húsmæðraskóli Akureyrar geti tekið til starfa í sinu eigin húsi, heldur en að byrja á því að flytja húsmæðrakennaraskólann norður og breyta húsinu handa honum?

Sé það aftur á móti á misskilningi byggt, sem stendur í grg. frv., að nemendaskortur húsmæðraskólans stafi af því, að heimavistina skorti, heldur sé ástæðan sú, að húsmæðraskólar eru orðnir nokkuð margir norðanlands, þá er ég hræddur um, að sams konar nemendaskortur kunni að geta sótt heim húsmæðrakennaraskólann eins og reyndin varð á um húsmæðraskólann. Og ef það kæmi á daginn, þá væri það illa farið. Reyndar er húsmæðrakennaraskóli ekki sama og húsmæðraskóli, en þessir skólar eru skyldir, mjög skyldir, svo að það, sem á við annan, getur a.m.k. átt við hinn hvað þetta snertir.

Í umsögnum skólanefndar, skólastjóra og nemendasambands húsmæðrakennaraskólans, er fylgja með nál. meiri hl., er margs konar rökstuðningur fyrir því, að það mundi verða húsmæðrakennaraskólanum til tjóns að flytja hann norður. Ég verð að játa það, að ég hef ekki þá sérþekkingu í kvenlegum menntum, að ég geti dæmt um öll þessi málsatriði, sem þarna koma fram. Ég efast um, að karlmenn yfirleitt hafi þessa sérþekkingu. Okkur í meiri hl. menntmn. er því varla láandi, þó að við tökum nokkurt tillit til umsagna þeirra ágætu kvenna, sem reynslu hafa í skólamálum og hér eiga hlut að máli. Ég held, að það megi fremur að hinu finna, að við karlmennirnir tökum of lítið tillit til álits kvenna í þeim málum, þar sem þær vita betur en við.

Konurnar benda m.a. á það, að starfsskilyrði skólans yrðu ekki eins góð fyrir norðan. Segir skólanefndin um þetta í umsögn sinni m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Aðsókn að Húsmæðrakennaraskóla Íslands hefur fyrst og fremst byggzt á því, að skólinn hefur getið sér orð fyrir að hafa á að skipa færustu og velmenntuðustu kennurum, sem völ er á hér á landi í þeim kennslugreinum, sem kenndar eru við skólann. Þá hefur skólinn enn fremur haft í Reykjavík fullkomnustu skilyrði, sem kostur er á hér á landi, til verklegra æfinga í næringarefnafræði og æfingakennslu í skólaeldhúsum, en hvergi utan Reykjavíkur er aðgangur að nægilega mörgum skólaeldhúsum, til þess að nemendur fái þá kennsluæfingu, sem nauðsyn er á.“

Ég efast ekki um það, að góðir kennarar fást að skólanum á Akureyri. Engin ástæða er að mínum dómi að efast um það. En hitt þykir mér líklegt, það sem konurnar benda á, að aðstaðan til verklegra æfinga, verklegrar kennslu í skólaeldhúsum verði lakari þar, þar sem kennslan þarf að fara fram í nokkrum skólaeldhúsum á sama tíma. Og mér skilst, að einmitt æfingakennslan sé eitt aðalatriðið í kennslu skólans.

Þá bendir skólastjóri húsmæðrakennaraskólans á þá samvinnu, sem verið hefur milli húsmæðrakennaraskólans og Hjúkrunarkvennaskóla Íslands. Um það segir skólastjórinn:

„Þá hefur frá upphafi verið samstarf milli Hjúkrunarkvennaskóla Íslands og Húsmæðrakennaraskóla Íslands. Hafa nemendur húsmæðrakennaraskólans kennt hjúkrunarnemum tilbúning sjúkrafæðu í æfingakennslu, en forstöðukona Hjúkrunarkvennaskóla Íslands hefur kennt nemendum Húsmæðrakennaraskóla Íslands hjálp í viðlögum.“

Skólastjórinn ræðir einnig um samvinnu húsmæðrakennaraskólans og Kennaraskóla Íslands, er hún telur æskilega, og segir um það:

„Í lögum um menntun kennara sést greinilega skyldleiki Kennaraskóla Íslands og handavinnudeildar hans við Húsmæðrakennaraskóla Íslands. Aukin samvinna þessara stofnana getur vafalaust orðið hagkvæm og miðað að auknum sparnaði við rekstur skólanna, einkum þegar kennaraskólinn hefur flutt í hið nýja skólahús í nágrenni við húsmæðrakennaraskólann.“

Í álitsgerð, sem nemendasamband húsmæðrakennaraskólans hefur sent menntmn. og birt er hér einnig með, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar lög um menntun kennara eru lesin í heild, einkum 1., 5., 6. og 7. kafli, verður ekki annað séð en að Húsmæðrakennaraskóli Íslands sé beint framhald Kennaraskóla Íslands og eigi margt sameiginlegt með Handíðakennaraskóla Íslands. Það virðist því liggja beinast við, að þessir 3 skólar séu á sama stað og í nánum tengslum hver við annan. Það, sem einkum mælir með þessu, eru ýmsar sameiginlegar bóklegar kennslugreinar og híbýlafræði húsmæðrakennaraskólans og handíðakennaraskólans. Þar sem skólar þessir eru báðir fámennir, má gera ráð fyrir, að sameina mætti kennslu þeirra í þessum greinum. Mundi sú tilhögun spara nokkurt fé og stuðla jafnframt að því, að nemendur beggja skólanna nytu færustu kennslukrafta, t.d. í uppeldis- og sálarfræði. Er löngu viðurkennd nauðsyn þess, að kennarar í verklegum greinum fái einnig staðgóða þekkingu á þessu sviði. Í húsmæðraskólunum starfa kennarar frá þessum tveimur skólum saman og yrði verkaskipting þar auðveldari, ef menntun þeirra væri hin sama í almennum greinum.“

Taki maður þessi atriði saman, sem ég hef nú drepið á og er að finna í umsögnum skólanefndar, skólastjóra og nemendasambands, þá kemur í ljós, að hér er um nokkra skóla að ræða, sem hafa svo skylda fræðslu með höndum, að full ástæða er til að athuga, hvort ætti ekki að sameina starfsemi þeirra að meira eða minna leyti. Það gæti orðið öllum skólunum til gagns og til verulegs sparnaðar. En þessir skólar, sem bent hefur verið á að eigi svo mjög samleið í ýmsum greinum, eru húsmæðrakennaraskólinn, hjúkrunarkvennaskólinn, kennaraskólinn og handíðakennaraskólinn. En til þess að svo megi verða, að þessir skólar hafi með sér samvinnu og jafnvel sameinist um viss svið skólahaldsins eða kennslunnar, þurfa auðvitað allir skólarnir að vera á sama stað.

Þessar ábendingar af hálfu kvenna eru sannarlega þess virði að mínum dómi, að þeim sé gaumur gefinn.

Að þessu athuguðu, sem ég hef hér drepið á, getur meiri hl. — menntmn. ekki fallizt á að mæla með þeirri breytingu á lögunum um Húsmæðrakennaraskóla Íslands, er leiði til þess, að hann verði fluttur til Akureyrar gegn ráðum skólanefndar og skólastjóra, sem fram koma í umsögnum þeirra um frv. og ég hef vitnað hér til.