11.03.1957
Efri deild: 67. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í C-deild Alþingistíðinda. (2903)

103. mál, menntun kennara

Frsm. minni hl. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Það eru nú aðeins örfá orð til viðbótar og sérstaklega út af nokkrum atriðum í ræðu hv. þm., sem hér talaði síðast. Það var spurningin um þetta, hvers vegna húsmæðrakennslan féll niður við húsmæðraskólann á Akureyri. Hv. þm. virtist furða sig á því og taldi þá skýringu nærtækasta, að stúlkur á Akureyri hefðu yfirleitt ekki áhuga fyrir að nema húsmæðrafræði, og sem sagt reynslan hefði leitt það í ljós, með því að þær hefðu ekki sótzt eftir því að stunda nám við sinn skóla, meðan hann starfaði þar í bæ.

Ég held, að þetta sé mikill misskilningur hjá hv. þm. Ég held, að ungar stúlkur á Akureyri hafi alveg jafnmikinn áhuga á að stunda húsmæðraskólanám eins og stúlkur annars staðar á landinu. Hins vegar er reynslan sú, að kaupstaðastúlkur sækjast eftir því að komast í húsmæðraskóla úti í sveit, þar sem er heimavist, eða einhvers staðar utan þeirra eigin byggðarlags. Þetta held ég að sé staðreynd að reynslan hafi leitt í ljós, og þess vegna er það, að það er æði mikið um það á Akureyri og vafalaust í öðrum kaupstöðum landsins, að stúlkur úr þeim kaupstöðum sækjast eftir námi við húsmæðraskóla úti um landið, utan síns byggðarlags, þar sem slíkur heimavistarskóli er.

Hv. þm. vildi halda því fram, að þessir húsmæðraskólar, sem nú væru starfandi í landinu, væru og mér skilst hefðu alltaf verið fullir og fullsetnir. Ég held, að það sé mikill misskilningur. Þar vantar víst mikið á, að svo hafi verið alls staðar. Það kann að vera í sumum skólunum, að þannig sé það, en í öðrum skólum mun hafa ævinlega verið eða a.m.k. núna seinni árin dálítið treg aðsókn, þannig að þar hefðu getað setið fleiri námsmeyjar en verið hefur.

Þá minntist hv. þm. á það, að þetta ónotaða hús á Akureyri mundi vera sennilega heppilegt fyrir starfsfólk sjúkrahússins. Já, það má vera, að það væri unnt að breyta því þann veg að byggja þar íbúðir fyrir starfsfólk þess húss, en ég á von á því, að það þyki vera í of mikilli fjarlægð frá sjúkrahúsinu fyrir starfsfólkið, þannig að sennilegt þykir mér, að frekar yrði horfið að öðrum hlutum en að nota það í því skyni.

En eins og öllum er náttúrlega ljóst, felur þetta frv. okkar hv. 8. landsk. þm. ekki í sér, að þessi margumtalaði skóli skuli fluttur til Akureyrar, heldur að ráðh. skuli ákveða, hvar hann starfar. En frv. er flutt af því, — það er sjálfsagt að kannast við það, — að svo stendur nú á, að Húsmæðrakennaraskóli Íslands er húsnæðislaus og starfar ekki af þeim sökum. Hins vegar stendur til boða þetta Akureyrarhús fyrir skólann, og ráðh. mundi að sjálfsögðu, ef þetta frv. yrði samþ., láta fara fram rannsókn á því, hvort þetta hús, sem oft hefur verið á minnzt í þessu sambandi, er hæft eða gæti orðið hæft sem skólahús fyrir húsmæðrakennaraskólann. Þessi rannsókn yrði að sjálfsögðu falin sérfróðum mönnum, áður en ákvörðun yrði tekin um flutning skólans þangað. En það er að vísu sannfæring mín, að sú rannsókn mundi leiða til jákvæðrar niðurstöðu, eins og ég hef þegar gert grein fyrir, en ef svo yrði ekki, ef niðurstaðan yrði neikvæð, þá kæmi flutningur vitanlega ekki til greina.

Við, sem flytjum þetta frv., teljum enga sérstaka ástæðu til þess, að allir sérskólar hér á landi skuli endilega vera í Reykjavík. Ýmissa hluta vegna getur verið heppilegt og skynsamlegt, að þeim sé dreift meira um landið en nú á sér stað, ef góðar ástæður eru þar fyrir hendi til skólahalds.

Við vitum öll, að íþróttakennaraskólinn hefur nú um langt skeið starfað á Laugarvatni, og ég ætla, að það muni hafa gefizt vel, eða a.m.k. hef ég aldrei um annað heyrt talað. Samvinnuskólinn hefur verið fluttur upp í Borgarfjörð, og mér skilst, að það þyki fara vel á því. Víða erlendis á það sér stað, að slíkir sérskólar eru staðsettir utan stórbæjanna og þá helzt í smærri bæjum eða jafnvel úti í sveit, og er talið, að fari vel á því, og hefur heldur aukizt hin síðari ár.

Segja má að vísu, að skólanefndarkonunum sé það vorkunnarmál, þó að þær vilji ekki láta flytja skólann burt úr Reykjavík. Þær munu vafalaust allar vera búsettar hér og sjá fram á það, að þær geti ekki annazt yfirstjórn skólans með góðu móti eða fylgzt eins vel með honum, ef hann fer nú brott úr bænum. Þetta er út af fyrir sig mannlegt, en þær mega vita það, þessar ágætu konur, að ýmsir aðrir kunna að vera jafnvel til þess færir að stjórna slíkum skóla og vera forsjá hans eins og þær vafalaust eru.

Nú kunna sumir að vilja líta svo á, að allir hlutir og allar stofnanir, sem eitthvað kveður að, séu bezt komnar hér í Rvík. Vissulega er höfuðborgin alls góðs makleg, en ýmsir munu þó telja skynsamlegt, að hlutur annarra byggðarlaga í landinu sé nokkurs metinn líka. Jafnvel þykist ég hafa heyrt haft orð á því, að ástæða sé til að reyna að halda uppi því, sem kallað er jafnvægi í byggð landsins. Þetta mál skiptir að sjálfsögðu engu máli í því sambandi, en mundi þó geta sýnt, þótt í litlu væri, hvert hugur manna stefndi í þeim efnum. Ég tel, að engin hætta sé á því, að Rvík yrði svipt neinu af höfuðborgartign sinni, þó að þessi minnsti skóli landsins yrði fluttur þaðan í brott.

En höfuðatriði málsins er sem sagt þetta: Skólinn er nú húsnæðislaus og verður það um ófyrirsjáanlegan tíma, ef ekki koma til einhverjar sérstakar ráðstafanir. Hins vegar stendur þetta hús til boða norður á Akureyri og hægt að leysa málið á einfaldan og auðveldan hátt, ef það yrði tekið til nota fyrir skólann. Þá þyrfti stöðvun á skólastarfseminni ekki að vera lengri en nú þegar er orðið og málið væri leyst.

En ég vil ekki fara niður úr ræðustólnum án þess að gera athugasemd við það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði hér áðan, í þá átt, að það væri ekki völ nægilega góðra kennara á Akureyri til þess að starfa við þennan skóla og sjá honum farborða. Ég held, að þetta sé rangt hjá hv. þm., og staðhæfi raunar, að svo sé og það sé engin ástæða til að óttast, að ekki verði ævinlega völ á nægum og góðum kennslukröftum þar í bæ, ef á þyrfti að halda.