10.05.1957
Efri deild: 97. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í C-deild Alþingistíðinda. (2929)

46. mál, sandgræðsla og hefting sandfoks

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég skal reyna að vera stuttorður, þó að ég reyndar hefði nú hugsað mér að vera dálítið langorður. Það er orðið áliðið tímans, og ég skal reyna að vera stuttorður. Ég skal þess vegna ekki fara neitt út í málið verulega, en snúa mér strax að hinni rökstuddu dagskrá og rökunum, sem liggja fyrir því, að við flytjum hana, nefndarmennirnir. Þau eru í fyrsta lagi þau, að eins og nú standa sakir gilda fern lög um sandgræðslu. Samt hefur orðið misprentun á ártölum. Þriðju lögin, sem talin eru upp í nál., eru frá 1941, en ekki 1943, og seinustu lögin, sem talin eru upp, eru nr. 76 10. nóv. Það verður leiðrétt. Það er verið að prenta nál. upp til að leiðrétta þetta tvennt.

Það er í fyrsta lagi, að það gilda nú sem stendur fern lög um sandgræðslu. Þau lög eru einu sinni ekki í samræmi hvað við annað. Ein þeirra mæla t.d. þannig fyrir, að sú sandgræðsla, sem þar er um að ræða, skuli heyra undir kirkjumálaráðherrann, af því að landið er eign kirkju, meðan öll önnur landgræðslusvæði heyra undir landbrh. Öll mæla þau þannig fyrir, að æðstu stjórn í sandgræðslumálum hafi Búnaðarfélag Íslands og til þess skuli sækja um alla samninga o.s.frv. Þetta er nú orðið dauður bókstafur. Það varð fyrst dauður bókstafur með því, að hætt var að framkvæma það. Þó hélzt það nú þannig lagað, að að nafninu til var gefin skýrsla til Búnaðarfélagsins og prentuð með öðrum starfsskjölum félagsins, skýrsla frá sandgræðslustjóra. Nú er þessu líka hætt, og sandgræðslustjóri heyrir beint undir ríkisstjórnina.

Ýmis fleiri ákvæði eru í þessum lögum, sem eru þess eðlis, að þeim er á engan hátt hlýtt núna og framkvæmdin orðin allt önnur, og þess vegna fyrsta ástæðan til þess, að við leggjum til, að nefnd sé sett í málið, sem athugi það, er sú, að við ætlum henni að endurskoða þessi lög og samræma þau í eitt, eins og nú er búið að samræma háskólalögin öll 13, sem fyrir voru, í ein lög. Þetta er fyrsta ástæðan til þess.

Önnur ástæðan er sú, að margir tala um það að víkka út svið sandgræðslunnar. Það er aðallega talað um þrennt. Eitt af því felst í þessu frv„ sem fyrir liggur, og er að láta sandgræðsluna taka að sér að rækta upp sanda og mela, sem ekki stafar af fokhætta, og afhenda þá svo eigendunum. Þetta er útvíkkun á starfssviði, sem sandgræðslustjóri telur að sé útilokað að hann geti tekið að sér nema þá með auknu starfsfé í þessu skyni. Og n. er held ég yfirleitt, a.m.k. meginhlutinn af henni, þeirrar skoðunar, að það beri ekki sérstaklega að hugsa um þessa ræktun, því að hún er styrkt tiltölulega langbezt, miðað við kostnað, af öllum nýræktarframkvæmdum. Þetta geta menn séð með því að sjá, hvað hefur kostað sandgræðslan á Skógasandi, en upplýsingar um það eru gefnar í nál. Aðrir tala um, að það sé sjálfsagt að láta sandgræðsluna taka að sér að rækta korn. Tilraunir hér á landi hafa sýnt það um margra ára skeið, að hægt er að rækta hér korn. Það hefur sézt með starfsemi Klemenzar á Sámsstöðum. Hins vegar hafa yfir 300 manns, bændur, fengið sér útsæði frá Klemenzi og ætlað sér að ráðast í kornrækt og gert það, haldið það út misjafnlega langan tíma, engir langan. Jón bóndi Kristjánsson á Víðivöllum í Fnjóskadal hélt það út í 11 ár. Bændur núna í Hraungerðishreppnum, í Miklaholtshelli, hafa haldið það út í nokkur ár og ræktað það og notað það til fóðurs hænsnum, en þeir hafa samhliða stórt hænsnabú. Yfirleitt hafa allir aðrir hætt eftir 1–2 ár. Sums staðar hafa staðið að þessu félög. eins og t.d. undir Eyjafjöllunum, sem fékk öll tæki, þreskivélar og öll tæki, sem til þess þurfti. Sama átti sér stað í Reykholtsdalnum. Reykholtsdalsfélagið stóð um 11–12 ár eða eitthvað svoleiðis, hitt skemur. Og svo hættu þau. Þessi kornrækt hefur þess vegna gengið illa yfirleitt hjá bændunum, og þeir hafa gefizt upp á því.

Nú líta margir svo á, að það sé sjálfsagt að athuga þetta í sambandi við sandgræðsluna. Það sýnir sig, að sandurinn hitnar fyrr og kastar frá sér hita aftur, svo að grasið, sem á sandinum vex, fær tiltölulega fleiri hitaeiningar en gras á annarri jörð yfir sumarið, og þess vegna er léttara og betra að rækta korn í sandi heldur en í annarri jörð. Þess vegna telja sumir menn, að það sé sjálfsagt að láta sandgræðsluna víkka sitt svæði og taka að sér að rækta korn. Aðrir líta svo á, að það sé okkur lífsspursmál, og í þeirra hóp er ég, að reyna að fá innlent grasfræ af innlendum stofnum til að sá í okkar nýrækt, en ekki alltaf erlent grasfræ. Og sannleikurinn er sá, að þegar tilraunastöðin á Sámsstöðum var stofnuð á sínum tíma, var meiningin, að hún legði sig fyrst og fremst eftir því, en af ýmsum öðrum ástæðum, sem ég skal ekki koma inn á, hefur reyndin orðið hin, að hún hefur fyrst og fremst lagt sig eftir að rækta korn.

Það er vitað mál, að ýmsar af þeim jurtum, sem við viljum rækta fræ af, eins og vinglunum o.fl., er bezt að rækta í sandjörð. Það mun hafa verið meining Sambands ísl. samvinnufélaga að fá ákveðin stykki af söndunum frá Gunnarsholti og byrja þar frærækt. Það er mikið nokkuð, sem þarf af því á hverju ári hér á landi, og ég veit ekki annað en það hafi að einhverju leyti komizt á samningar um, að sandgræðslan lánaði land í þessu skyni. Aðrir álíta, að það sé réttara að sandgræðslan geri þetta sjálf. Hún eigi að taka þetta upp á sínar herðar og það eigi að auka við starfssvið sandgræðslunnar með þessu móti. Það eru menn, þrír hópar af mönnum, sem álíta, að beri að víkka út starfssvið sandgræðslunnar með þremur nýjum greinum, sem eigi að taka upp og láta heyra undir hana.

Nefndin vildi engan dóm leggja á þetta. En þetta, í sambandi við það, að það er sýnilegt hverjum, sem les sandgræðslulögin, sem nú gilda, öll fjögur, að þau þarf að samræma og þeim þarf að breyta, var orsök til þess, að n. leggur til, að þetta mál sé afgreitt með rökstuddri dagskrá, eins og hún nú er orðuð hér í nál., og ég skal með leyfi forseta lesa upp:

„Í trausti þess, að ríkisstjórnin skipi fimm manna nefnd, er endurskoði öll lög, er lúta að sandgræðslu, í þeim tilgangi, að lögin verði samræmd nútímaframkvæmd sandgræðslu, og athugi möguleika á því að auka starfsemi hennar, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Við ætlumst til þess, að þessi n., sem þarna er skipuð og ég efa ekki að ríkisstj. muni skipa, taki þessi mál öll til athugunar og í sambandi við það athugi ekki bara núgildandi lög og hvernig þau eigi að færa saman í eitt og hvernig nauðsynlegt er að breyta þeim með núverandi verksvið sandgræðslunnar fyrir augum, heldur líka, hvort það á að auka verksvið hennar og breyta þeim í samræmi við það og þá hvernig. Það er ekki tekið fram í till., hvenær þessi n. skili áliti, en það er gengið út frá því hjá n., og ég vil gjarnan undirstrika það hér, að þetta er ekki talið af henni það mikið starf, að ekki geti legið einhvern tíma fyrir næsta þingi, og vona, að nál. komi þá.