19.03.1957
Neðri deild: 70. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í C-deild Alþingistíðinda. (2995)

18. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það er nú aðeins eitt atriði, sem ég vil árétta í sambandi við síðustu ræðu, þar sem hv. frsm. meiri hl. taldi, að ég hefði sýnt litla hetjudáð að hætta við að flytja till. um, að lán til fiskveiðasjóðs yrði gert að óafturkræfu framlagi, af því að það hefði farið að kurra í Eysteini, eins og hann orðaði það, í fyrra. Sannleikurinn var sá, að mér var ljóst, að ég var búinn að gera nóg til þess að tryggja framgang þessa máls. Ég er farinn að þekkja það mikið afgreiðslu þessara mála hér á þingi, að það þarf ekki nema að minna stundum á mál eins og þessi, til þess að aðilar, sem um það hafa fjallað, vilji láta þau ná fram að ganga efnislega, en þó þannig, að það séu aðrir flm. að því, t.d. í þessu tilfelli úr Framsfl.

Hv. þm. man víst ósköp vel eftir því, að það komu hérna tvö frv., held ég, nokkurn veginn samtímis fram í þinginu fyrir nokkrum árum, þ.e.a.s. frv. frá kommúnistum, — það var nú lægra númer á því, því var útbýtt fyrr en frá öðrum, — um, að eftir skyldi gefið eða veitt sem óafturkræf framlög lán til ræktunarsjóðs og annarra stofnana. En ég held, að það hafi verið nokkuð sama á ferðinni þá, að það hafi í raun og veru verið nokkuð ljóst frá upphafi, að þessi mál voru þannig vaxin og þess eðlis, að það væri engin ástæða til annars en að þau yrðu sem óafturkræf framlög. Þó held ég, að það hafi enn sérstakar staðið á í sambandi við þessi fjármál, sem ég var að tala um, á s.l. þingi, því að ég hygg, að nokkuð af hinum framlögunum hafi verið lán, sem tekin voru erlendis og með ákveðnum vaxtakjörum og vissum kostnaði, en hér var um að ræða að úthluta eða veita af tekjuafgangi ríkissjóðs sem lán til fiskveiðasjóðs, ræktunarsjóðs og annarra álíka framkvæmda. Það var auðvitað augljóst mál frá upphafi, að það eðlilega í þessu máli var, úr því að menn féllust á og voru allir sammála um að verja tekjuafganginum til þessara framkvæmda, að honum yrði varið í eitt skipti fyrir öll og til þess að bæta hlut þeirra manna, sem áttu að njóta þessa fjár, og aðalatvinnuveganna, bæði landbúnaðar og sjávarútvegs, enda hefur sú raunin orðið á. Þess vegna var það fjarri því, að ég væri í raun og veru efnislega að falla frá nokkru í þessu sambandi, hvorki fyrir hönd fiskveiðasjóðs né ræktunarsjóðs. Ég tel mér heiður að því að hafa átt hér á þingi fyrstu till. um, að þessir sjóðir fengju þetta fjármagn sem óafturkræft framlag, og ég ann ósköp vel hæstv. fjmrh. að hafa fengið að bera það fram fyrstur á þskj. í fjárlagafrv. yfirstandandi árs.