14.12.1956
Neðri deild: 32. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í C-deild Alþingistíðinda. (2999)

85. mál, heimili fyrir öryrkja vegna geð- og taugasjúkdóma

Flm. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Eins og í grg. þessa frv. segir, var fyrir nokkrum árum stofnað Geðverndarfélag Íslands í þeim megintilgangi að auka skilning almennings og stjórnarvalda á þýðingu geðheilsu og andlegrar heilsuverndar eða geðverndar fyrir einstaklinga og þjóðfélagið. Þótt félagið sé opið öllum, er aðeins í því fátt fólk, áhugafólk, og meginverkefni þess hefur hingað til verið að veita félagsmönnum fræðslu um þá hluti, er geðheilsu varða.

Á næstsíðasta aðalfundi þess var ákveðið að víkka nokkuð verksvið félagsins og þá með þeim hætti að vinna að því að koma upp eins konar Reykjalundi fyrir geð- og taugasjúklinga eða fyrrverandi sjúklinga. Þá var kosin fimm manna nefnd til þess að undirbúa framkvæmd þessa máls og gera till. um fyrirkomulag. Í n. áttu sæti Jóna Kristófersdóttir sjúkrakennari, Þórir Halldórsson, Helgi Tómasson læknir, Kristinn Björnsson sálfræðingur og dr. Eiríkur Albertsson. Niðurstöður n. birtust í bréfi, sem hún sendi til félmrh. í fyrra, þar sem farið var fram á fjárhagslega aðstoð úr erfðafjársjóði. Málið hlaut góðar undirtektir, en af fjárhagsástæðum mun saga þess ekki hafa orðið lengri þá. Málinu til frekari skýringar vil ég leyfa mér að tilfæra nokkra kafla úr þessu bréfi. Í bréfinu segir:

Það er hversdagsleg reynsla, að mörgum sjúklingum með geð- og taugakvilla veitist oft erfitt að koma undir sig fótum, þegar þeir eru búnir að ná þeirri heilsu, að þeir vilja og ættu að geta hafizt handa upp á eigin spýtur í lífinu. Sumir hafa verið svo lengi veikir, að nánustu aðstandendur þeirra eru horfnir eða látnir, vinnuskilyrði hafa stórbreytzt eða afkomumöguleikar yfirleitt. Margir eru þannig settir, að heppilegra er fyrir þá að þurfa ekki að búa áfram í sama umhverfi og áður, því umhverfi, sem máske hefur að einhverju leyti valdið því, að þeir urðu veikir. Enn aðrir eru þannig settir, að æskilegast er fyrir þá að geta lifað þannig, að þeir eigi einhvern bakhjarl, helzt ópersónulegan, sem þeir geta hallað sér að. Margir fá ekki svo góða heilsu, að þeir geti keppt á frjálsum markaði, ef svo mætti segja. Þeir verða að geta komizt að störfum, sem t.d. er hægt að vinna að hluta úr degi eða eftir hentisemi.

Því er svipað farið með berklasjúklinga og marga þessara sjúklinga, sem hér um ræðir. Berklasjúklingar mynduðu með sér félagsskap, S.Í.B.S„ sem hefur m.a. komið upp Reykjalundi, sjálfseignarstofnun, þar sem fyrrverandi berklasjúklingar eða þeir, sem aðeins hafa takmarkaða starfsgetu, geta dvalizt og unnið. Að Reykjalundi á fólkið heima. Stofnunin fær örorkustyrk sjúklingsins og tveggja til þriggja klukkutíma vinnu daglega við arðbær störf, en það, sem fólk vinnur umfram þann tíma rennur til þess sjálfs. Sem stendur eru t.d. um 20 manns á Kleppi, sem æskilegt mundi vera að átt gætu heimili á stað svipuðum Reykjalundi, og þeir eru með vissu miklu fleiri í landinu öllu, sjúklingar með tauga- eða geðkvilla, sem bezt mundu komnir á slíkum stað eða stöðum.

Hugmyndin hafði verið sú, að Geðverndarfélagið gæti verið félag í fyrsta lagi fyrrverandi sjúklinga með þessa kvilla og þeirra, sem ekki væru alheilir, en gætu veríð úti í lífinu undir vissum kringumstæðum, í öðru lagi aðstandenda þessara manna og í þriðja lagi allra þeirra annarra, sem hafa skilning á því, hvaða þýðingu geðheilsa hefur fyrir einstaklinga og þjóðarheild. Þessir sjúklingar geta af skiljanlegum ástæðum ekki vel myndað samband sín á milli eingöngu. Þess vegna var það talið heppilegt, að Geðverndarfélagið hefði forgöngu um málið.

Eins og gefur að skilja, þá mundum við vilja forðast að vera á nokkurn hátt fyrir starfsemi S.Í.B.S. Við verðum því t.d. að forðast að reka fjársöfnun á svipaðan hátt. Af þessum ástæðum taldi félagið heppilegt að finna þegar í stað annað heiti á þessu væntanlega heimili. Reykjalundur heitir t.d. vinnuheimili, en félagið valdi nafnið iðnheimili fyrir þetta væntanlega heimili öryrkja vegna geð- og taugasjúkdóma.

Vinnulækningar eru upphaflega til komnar á geðspítölum og hafa lengi þar og annars staðar verið reknar með sérstöku sniði, — verkstæðissniðinu, þar sem nokkrir saman vinna að sama verkefni. En á seinni árum er að verða breyting á þessu, og er talið æskilegast, að hver einstaklingur sinni sem mest sérstöku verkefni, sem er helzt sérkennilegt fyrir hann sem slíkan, svo að persónuleiki mannsins fái sem mest að koma fram í verki hans.

Þótt ýmsir annmarkar séu á að koma þessu sjónarmiði fram allt í einu, þá er það sú meginstefna, sem hafa ber með vinnu þessa fólks, sem hér um ræðir. Þetta fólk er ekki eins hóphuga og margt annað. Það verður því að vera meira út af fyrir sig eða geta valið sér sambýlis- eða jafnvel samstarfsfólk. Þess vegna verða á þessu iðnheimili eða heimilum að vera smáíbúðir eða einbýlisherbergi og hvert heimili ekki stærra en svo, að um fjölskyldu á einu heimili væri að ræða. 6–8 manna heimili virðist mundu vera einna heppilegust stærð. Kostnaður við að koma upp svona heimilum yrði því allmikill, svo að ekki væri við að búast, að þau risu upp mörg á fyrsta ári, en byrja mætti með 1–2, og fengist þá jafnframt nokkur reynsla fljótlega á það, að hvaða gagni þau mættu verða.

Fjár var aflað til stofnkostnaðar Reykjalundar með gjöfum, happdrætti, blaðaútgáfu, merkjasölu og fleiri leiðum. Og til þess að ganga ekki á fjáröflunarleiðir S.Í.B.S. svo og með því að eðli þessa máls er þannig, að ekki er æskilegur mikill hávaði í kringum það, þá þótti heppilegast, að hið opinbera veitti beinan stuðning.

Síðan er í bréfinu rakin kostnaðarhlið þess að hafa þessa einstaklinga, sem koma mundu til með að vera á slíkum öryrkjaheimilum, á sjúkrahúsinu. Það er fyrir hvern mann rúmar 20 þús. kr. á ári, og ríkisframfærsla sjúkra manna og örkumla greiðir 4/5 af því, en aðilar sjúklings, oftast sveitarsjóðir, greiða 1/5.

Sjálfsagt er talið, að iðnheimili verði sjálfseignar- og sjálfstjórnarstofnanir, er frá líður. Þess vegna er farið fram á, að framlagið verði óafturkræfur styrkur til stofnunarinnar, er hún hefur sýnt sig að geta starfað með árangri í 10 ár, en þann tíma hefði hið opinbera húseignir þær, sem stofnunin mundi kaupa til starfrækslu sinnar, að veði fyrir framlaginu.

Nefndin hafði, er bréfið var skrifað, augastað á hentugu húsnæði fyrir 5–8 sjúklinga, þar sem starfræksla gat byrjað þá þegar, en það er nú ekki lengur fyrir hendi.

Eins og áður er getíð, þá eru nú a.m.k. 20 sjúklingar á Kleppi einum, sem þannig heimili mundi henta fyrir, en nefndin taldi réttast að fara ekki af stað með meira en 6-8 manna heimili, og fljótlega yrði hægt að færa út kvíarnar, ef að líkum léti. Vegna þessa fólks, sem um ræðir, var talið rétt, að ekki ætti að reisa neitt meiri háttar hæli, heldur fleiri smáheimili, sem svo hefðu samband sín á milli, þar sem heimilisfólkið lifði á heimilisiðnaði eða utan heimilisins á iðnstörfum. Ef um mörg heimili yrði að ræða, gætu þau vel verið hér og þar um bæinn eða jafnvel úti um land. Meginreynsluna um margt, sem til greina kæmi, væri að sækja í Reykjalund, og yfirlæknirinn þar, Oddur Ólafsson, hefur góðfúslega lofað Geðverndarfélaginu að styðja það með ráðum og dáð, ef til kemur. Líklegt er, að með þessu móti mundi smám saman rýmkast um pláss á geðveikraspítalanum og jafnvel sumum öðrum sjúkrahúsum, því að vitað er, að allmargir sjúklingar, sem til greina kæmu að dveldust á iðnheimilum sem þessu, íþyngja almennum sjúkrahúsum og stofnunum.

Einhver kynni að ætla, að 6–8 manna heimili yrði ekki stórt spor í þá átt að auka sjúkrahúsrými fyrir geð- og taugaveiklað fólk. Þess vegna er bent á, að meðaldvalartími sjúklinga sé aðeins þrír mánuðir, þannig að jafnvel gætu 24 komið í þessi rúm á fyrsta ári, og þess vegna væri þetta raunhæft spor í þá átt að auka sjúkrarými fyrir þetta fólk.

Auk þessa, sem í bréfinu segir, er rétt að taka fram, að nú þegar vinna nokkrir einstaklingar, sem dveljast mundu á svona heimili, að arðbærum iðnaði á Kleppi og leggja fyrir eins til tveggja tíma vinnu á dag með sér í sjóð væntanlegs heimilis, þannig að þeir geta af þeim sökum fremur litið á heimilið sem sitt eigið, er til kemur, en ella. Og þeim hætti er einnig hugsað að haldið verði, svo að fjölga mætti slíkum heimilum í framtíðinni, eftir því sem fé kann að verða fyrir hendi.

Ég vil svo leggja til, að málinu verði að lokinni umr. vísað til heilbr.- og félmn.