12.11.1956
Neðri deild: 14. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í C-deild Alþingistíðinda. (3118)

20. mál, iðnlánasjóður

Flm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Svo sem öllum er kunnugt, er iðnaðurinn þriðji aðalatvinnuvegur okkar Íslendinga, og hefur hann blómgazt mjög á undanförnum árum. Er óhætt að fullyrða, að hann stefnir til sífellt meiri fullkomnunar, og á fjölmörgum sviðum er íslenzkur iðnaður fullkomlega orðinn samkeppnisfær við erlenda iðnaðarframleiðslu.

Af hálfu hins opinbera hefur bæði sjávarútvegur og landbúnaður um langt skeið notið allverulegrar fyrirgreiðslu varðandi stofnlán, en hins vegar hefur iðnaðurinn verið mjög afskiptur á þessu sviði. Sá sjóður, sem helzt hefur veitt stofnlán til iðnaðarins á undanförnum árum, er iðnlánasjóður. Hann hefur hins vegar haft mjög litlu fjármagni yfir að ráða. Framlag til hans er úr ríkissjóði 300 þús. kr. á ári skv. lögum frá 1946, og aðrar tekjur sjóðsins eru engar nema vaxtatekjur.

Það er að vísu svo, að ýmis stærri iðnfyrirtæki hafa notið fyrirgreiðslu varðandi stofnlán á öðrum vettvangi. Fiskiðjufyrirtæki hafa fengið stofnlán úr fiskveiðasjóði og Framkvæmdabanka, og sum hinna stærstu fyrirtækja í íslenzkum iðnaði, svo sem áburðarverksmiðjan, sementsverksmiðjan, glerverksmiðjan og e.t.v. fleiri, hafa notið sérstakrar fyrirgreiðslu í gegnum Framkvæmdabankann og með ríkisábyrgðum og ríkisframlögum. En almennt hefur iðnaðurinn ekki haft neinn fastan stofnlánasjóð.

Þetta frv„ sem hér liggur fyrir, er samhljóða frv., sem flutt hefur verið á síðustu tveimur þingum af mér og hv. þáverandi þm. Ak., og er meginefni frv. það annars vegar að breyta iðnlánasjóði í stofnlánasjóð, sem hann hefur ekki verið til þessa, hann hefur einnig getað veitt rekstrarlán, og í annan stað, að árlegt framlag ríkissjóðs verði hækkað um helming eða upp í 600 þús. kr. Á síðustu tveimur árum hefur iðnlánasjóður að vísu fengið sérstakt framlag á fjárlögum, 150 þús. kr. umfram fasta framlagið, en slíkt framlag er ákveðið frá ári til árs og því engin trygging fyrir sjóðinn, auk þess sem hér er vitanlega um ónógt framlag að ræða. Er því lagt til, að fest verði sem árlegt framlag ríkissjóðs til iðnlánasjóðs 600 þús. kr. og að hér eftir verði lán úr sjóðnum fyrst og fremst veitt sem stofnlán, en ekki sem rekstrarlán. Er það gert með hliðsjón af því, að Iðnaðarbanki Íslands hefur nú tekið til starfa og eðlilegt, að hann láni iðnaðinum rekstrarlán.

Þessi fjárhæð, sem hér er um að ræða, er að sjálfsögðu allsendis ónóg, til þess að iðnlánasjóður geti orðið þess umkominn að vera byggingarlánasjóður fyrir iðnaðinn, heldur er með þessu frv. gert ráð fyrir, að þetta árlega framlag ríkissjóðs geti ekki orðið áhrifameira en svo, að það geti gert sjóðinn færari um að sinna svipuðum viðfangsefnum og hann hefur haft með smálán til iðnaðarfyrirtækja, en ekki að hann geti tekið við því hlutverki með þessum fjárráðum að vera almennur byggingarlánasjóður fyrir iðnaðinn. Hins vegar liggur hér fyrir annað frv. um það efni, sem er breyting á öðrum lögum, og mun það mál nánar verða rætt í sambandi við afgreiðslu þess frv.

Til þess aðeins að gera mönnum grein fyrir því, hvernig ástatt er með iðnlánasjóðinn og hversu fátækleg þessi stofnlánadeild iðnaðarins hefur verið, skal ég aðeins geta þess, að útlán sjóðsins um síðustu áramót námu aðeins rúmum 3.4 millj. kr., og gefur auga leið, hversu smávægileg lán hér er um að ræða. Engu að síður hefur iðnlánasjóður greitt mjög fyrir ýmsum smáiðnaði og lagt undirstöðu að starfsemi hans, og það er því merkilegt starf, sem iðnlánasjóður hefur af hendi leyst. En með hliðsjón af hinum mikilvæga þætti iðnaðarins í þjóðarbúskapnum hygg ég, að við getum öll orðið sammála um, að það væri hin fyllsta nauðsyn og sanngirni að gera nú myndarlegt átak til þess að koma upp viðunandi stofnlánasjóði fyrir iðnaðinn og þannig að þakka það mikilvæga hlutverk, sem hann hefur til þess að efla atvinnulíf og efnahagslegt öryggi þjóðarinnar.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og iðnn.