18.03.1957
Neðri deild: 69. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í C-deild Alþingistíðinda. (3221)

121. mál, ríkisborgararéttur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að ég er ákaflega hræddur við, að till. á þskj. 351 frá hæstv. menntmrh. og fleirum, ef hún yrði samþykkt, mundi þýða að sleppa þessu öllu saman lausu. Við skulum gera okkur það alveg ljóst, eins og hér hefur verið haldið fram af fylgjendum þeirrar till., að þetta er þó nokkurt tilfinningamál fyrir þá menn, sem þarna eiga í hlut, og þeir koma til með að reyna að halda við þessum ættarnöfnum, og ef þeim verður leyft að gera það, þegar þeir gerast íslenzkir ríkisborgarar, þá sköpum við hefð í þessu máli, sem verður erfitt að brjóta á eftir. Hvað er það, sem allir þeir, sem núna tala með þessari till. á þskj. 351, halda fram? Þeir segja: Það er svo margt, sem fer aflaga hjá okkur, það eru svo margs konar útlend nöfn, sem eru að komast inn í málið, firmanöfn og önnur slík, það er svo margt af okkar eigin ættarnöfnum og annað slíkt, sem við fáum ekki við ráðið. — Hvað sanna þessi rök? Þau sanna það, að þegar einu sinni er komin inn hefð í þetta, þá er erfitt að brjóta hana. Eina valdið, sem við höfum, og eini möguleikinn er að koma í veg fyrir, að þarna skapist hefð. Þann möguleika höfum við, þegar við erum að ljá þessum mönnum íslenzkan ríkisborgararétt. Þá höfum við þann möguleika að setja það skilyrði. Við erum ekki að skylda þessa menn, það eru þeir, sem eru að sækja um að fá að gerast íslenzkir ríkisborgarar. Við erum ekki að amast við þeim í okkar landi, þeir geta fengið að vera hér vafalaust alla sína ævi, þótt þeir væru ekki íslenzkir ríkisborgarar. Þeirra börn geta orðið íslenzkir ríkisborgarar og yrðu þá að ganga að þessu. En við erum aðeins að reyna að tryggja, aðeins að reyna að slá því föstu sem höfuðreglu, að þessi útlendu ættarnöfn komist ekki fleiri inn í okkar mál og málvenju hér heima en komizt hafa á undanförnum öldum. Og það verður nógu erfitt að ráða við öll þau nöfn, sem komizt hafa inn á undanförnum öldum, þó að við bætum ekki þarna miklu fleiri við.

Við skulum gera okkur það alveg ljóst, eins og flestum okkar er ljóst, að við erum einn sérkennilegasti þjóðarstofn í þessari álfu. Við höfum svo sérkennilega þjóðhætti í sambandi við okkar mál og í sambandi við gamlar erfðir, að þessir þjóðhættir eru í meiri hættu nú fyrir öllu því aðstreymi, sem við eigum við að búa, eftir að einangrun landsins var upphafin, eru í meiri hættu nú en verið hefur nokkurn tíma á svörtustu tímum í okkar sögu, og það er á okkar valdi, sem getur ráðið, hvernig með þetta er farið, hver þróunin verður í þessum efnum.

Þegar hefð er einu sinni sköpuð, þegar vani er einu sinni kominn á, þegar við erum einu sinni búnir að hleypa því í gegn, að tugir útlendra ættarnafna komist inn á Íslandi, þá verður erfitt að afnema þau á eftir.

Það er þess vegna núna, sem við höfum valdið til þess að breyta þarna og ráða þróuninni, sem verður í íslenzkum heitum og þar með íslenzku máli á komandi tímum. Við ráðum ef til vill aldrei við þá þróun og við þau áhrif á þróunina, sem varð á undanförnum öldum. Við ráðum ef til vill aldrei við það, vegna þess að nöfn eins og Gröndal, Thoroddsen eða önnur slík þykir okkur vænt um, af því að mennirnir, sem hafa borið þau, eru búnir að vinna sér ákveðið nafn í sögu okkar, ákveðið nafn í okkar meðvitund, og þess vegna vildum við ekki missa þau. En mennirnir, sem við erum að ræða um núna, eru ekki búnir að vinna þessi nöfn. Þeim er það sjálfum sársaukaminna en það er íslenzkri tungu að breyta þeim nú, þegar þeir eru sjálfir að kjósa það af frjálsum vilja að gerast íslenzkir ríkisborgarar, að ganga inn í þjóðfélag, sem er með öðrum hætti hvað menningu snertir en öll önnur þjóðfélög í Evrópu. Menn verða að leggja nokkuð á sig fyrir slíkt, og menn verða að sýna það frá upphafi, ef menn vilja taka nokkurt tillit til þess að varðveita þá erfð, sem skapazt hefur hjá þessari þjóð. Þess vegna held ég, að ef við slökum til í þessu máli núna, þá opnum við dyrnar upp á gátt, og þá vitum við ekki, hvar við getum stöðvazt á eftir.

Ég held þess vegna, að með tilliti til okkar tungu og okkar málvenju og okkar sérstöku þjóðarhátta eigum við að halda fast við þá reglu, sem verið hefur á undanförnum árum. Við vitum það líka, að ýmsir þeir menn, sem borið hafa hér útlend ættarnöfn, hafa kosið sjálfir með tilliti til okkar þjóðernis að skipta um þau nöfn og leggja þau niður. Og ég held, að það væri þó það minnsta, sem við gætum gert, að taka þá a.m.k. til fyrirmyndar og segja þeim mönnum, sem síðan koma utan frá og óska eftir að gerast íslenzkir ríkisborgarar, að þeir skuli breyta eins.

Ég held þess vegna, að við eigum að halda fast við þá reglu, sem verið hefur á undanförnum árum, og hvika þar hvergi frá.