18.03.1957
Neðri deild: 69. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í C-deild Alþingistíðinda. (3222)

121. mál, ríkisborgararéttur

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það hafa komið fram fáein atriði, sem mig langaði til þess að víkja að, áður en umr. er slitið, ný atriði, sem ekki hafði borið á góma í umr. áður.

Hv. þm. Siglf. sagði, að það væri mjög varhugavert að breyta reglunum um skilyrði fyrir ríkisborgararétti frá ári til árs. Um þetta er í fyrsta lagi það að segja, að yfirleitt hafa ekki gilt sömu almennar reglur um veitingu ríkisborgararéttar frá ári til árs, eins og öllum hv. þm. er nákunnugt. Undanfarin tvö eða jafnvel þrjú ár hefur að vísu verið fylgt nokkurn veginn sömu almennu reglum, þó ekki þeim, sem gert er ráð fyrir í lögum, heldur hafa skilyrðin í framkvæmd verið mun vægari en þau almennu lagaskilyrði, sem gilda. Þetta er auðvitað ekki æskilegt. Það á auðvitað að fylgja sem allra líkustum reglum, ekki aðeins frá ári til árs, heldur um langan tíma, í þessum efnum, en sú hefur reynslan ekki orðið, því er nú verr og miður.

Hins vegar er það alls ekki meiningin með till. á þskj. 351, að að því er varðar nafngiftina skuli fylgja sitt hverri reglunni frá ári til árs. Fyrir fimm árum var tekin upp ákveðin stefna í málinu. Við, sem að tillögunni stöndum, teljum þá stefnu hafa verið algerlega ranga og meira að segja skaðlega, og það geta auðvitað ekki talizt nokkur rök, að jafnvel þó að einu sinni hafi verið stigið víxilspor, þá megi aldrei stíga aftur sporið til baka í rétta átt. Í venjulegum málum gæti sú röksemd auðvitað ekki gilt. Verði menn varir við, að menn hafi gert rangt, stigið víxlspor, þá eiga þeir við fyrsta tækifæri að leiðrétta það og taka upp rétta stefnu, og sú stefna á síðan auðvitað að gilda áfram og frá henni ekki að víkja aftur.

Þetta var annars aukaatriði. Mikilvægara var hitt, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði í sinni ræðu. Hann sagði nokkurn veginn orðrétt, að því er ég hygg: Alþingi hefur aldrei viljað taka þá áhættu, að nýir ríkisborgarar taki að skíra niðja sína ættarnöfnunum og halda þeim þannig við. — Ég man að vísu ekki eftir að hafa heyrt þessa röksemd áður fyrir skyldunni til nafnbreytingar. Ég tel hana byggjast á algerum misskilningi, vegna þess að jafnvel þótt það sé ekki bannað að skíra barn ættarnafni, innlendu ættarnafni, þá er það bannað að skíra barn útlendu ættarnafni. Í fyrsta lagi er það bannað, og í öðru lagi eru ákvæði mannanafnalaganna alveg skýlaus um það, að maður skal kenna sig til föður síns, þannig að það er alls ekki nægilegt, það veitir ættarnafninu alls ekki friðhelgi, þó að barnið hafi hlotið ættarnafnið í skírninni. Eftir sem áður gildir það lagaákvæði, að barnið skal kenna sig við föður sinn. Það, sem hv. þm. á vafalaust við, er það, að það hefur tíðkazt nokkuð, að börn hafi verið skírð ættarnöfnum, annars löglegum ættarnöfnum, til þess að reyna að halda þeim við. En þetta er ólöglegt, og hefði átt að mínu viti að ganga miklu strangar eftir því en gert hefur verið, að þessi ólöglegu nöfn væru ekki látin haldast. En það geta auðvitað alls ekki talizt rök í þessu máli, þó að hugsanlegt væri, að einhver tæki upp á því að reyna að halda við erlendum ættarnöfnum með algerlega ólöglegum hætti. Þetta er röksemd, sem ég get ekki viðurkennt.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að ef nú yrði horfið frá þeirri skyldu, sem verið hefur í gildi s.l. fimm ár, mundum við skapa hefð, sem mjög erfitt yrði að brjóta, — með því að leyfa hinum væntanlegu nýju ríkisborgurum að halda sínum erlendu ættarnöfnum, meðan þeir eru á lífi, væri verið að skapa hefð, sem erfitt yrði að brjóta. Þessi rök get ég ekki heldur fallizt á. Það eru til ættarnöfn í landinu með alveg löglegum hætti, sem fjölskyldur mega bera um alla ókomna framtíð að óbreyttum lögum. Sum þessara ættarnafna eru erlend og lúta alls ekki beygingarreglum íslenzkrar tungu. Hér er því ekki verið að brjóta neina hefð. Það er staðreynd, að fjölmargir íslenzkir ríkisborgarar bera ættarnöfn, sem sumpart eru útlend og lúta ekki reglum íslenzkrar tungu. Þau eru lögleg. Um það geta menn auðvitað deilt, hvort ætti að breyta þessu. En eins og hin almennu nafnalög eru núna, er staðreyndin þessi, og það tel ég einmitt vera eina af hinum veigameiri röksemdum fyrir því, að það sé rangt að beita hina væntanlegu nýju ríkisborgara því ofríki, sem í því felst að skylda þá til nafnbreytingarinnar.

Að síðustu vildi ég svo undirstrika alveg sérstaklega þau rök, sem komu fram í ræðu hv. 2. þm. Eyf. og að mínu viti voru alveg sérstaklega skýr og glögg og ekki hafa verið nægilega undirstrikuð áður í umr. um þetta mál. Kjarninn í þeim var sá, að það sé alveg sérstaklega óeðlilegt að skylda hina væntanlegu ríkisborgara til þess að taka upp hinn íslenzka nafnasið, sem byggist á því að kenna sig sem son manns, sem ber íslenzkt nafn, þegar staðreyndin er sú, að faðir hlutaðeigandi manns hefur ekki borið íslenzkt nafn, ekki nafn, sem lýtur beygingarreglum íslenzkrar tungu; þegar m.ö.o. er verið að skylda menn til þess að þykjast vera synir eða dætur allt annarra manna en hafa verið feður þeirra. Þetta er auðvitað alveg sérstaklega óeðlilegt.

Við þetta vildi ég bæta því, að samkv. gildandi íslenzkum lögum er bannað að taka ættarnafn. Þó að hinir nýju ríkisborgarar vildu koma sér úr þessari klípu með því að taka sér ættarnafn, sem í felst ekki orðið son eða dóttir, þá mega þeir það ekki. Þeim er bannað að taka sér ættarnafn, taka sér ættarnafn með því að kenna sig við einhvern ákveðinn stað, eins og mörg íslenzk lögleg ættarnöfn gera, eða eitthvert alveg uppfundið nafn. Það mega þeir ekki, það er þeim bannað. Það eina, sem þeir mega, er að taka íslenzkt fornafn með orðunum son eða dóttir fyrir aftan, jafnvel þó að þeir geti ekki fundið neitt íslenzkt nafn, sem svipi einu sinni til raunverulegs nafns föður síns. Þetta eru svo sterk rök í málinu, að ég tel ástæðu til þess að undirstrika þau alveg sérstaklega.

Hv. þm. Siglf. minnti á það, að mig minnir, alveg réttilega, að nokkrir erlendir menn hefðu tekið þann kost í samræmi við íslenzka nafnavenju að kenna sig við föður sinn, við raunverulegan föður sinn. Mér dettur í hug í þessu sambandi t.d. þýzki tónlistarmaðurinn Róbert Abraham Ottósson, sem tók sér þetta nafn, áður en slik lagaskylda var hér lögleidd, til þess fyrst og fremst að fylgja venjulegum íslenzkum nafnareglum. Hann hét áður Róbert Abraham. Abraham var hans ættarnafn, en faðir hans hét Ottó, svo að þessi regla hæfir gagnvart honum ágætlega.

Ef slíkt ætti við um alla menn, alla hina væntanlegu íslenzku ríkisborgara, þá mætti segja, að málið væri tiltölulega auðleysanlegt. Hann tók þann kostinn að halda sínu föðurnafni, halda sínu ættarnafni í nafninu, sérstaklega þar sem svo vill til, að það er nafn, sem getur einnig lotið íslenzkum beygingarreglum, og svo heppilega vildi til, að faðir hans hét einnig nafni, sem hann gat kennt sig við að íslenzkum hætti.

Í slíkum tilfellum má segja, að ekkert sé við þessu að segja, svo framarlega sem mennirnir sjálfir telja hér vera um eðlilegan hátt að ræða. En þegar feður hinna væntanlegu ríkisborgara heita erlendum nöfnum, sem eiga sér ef til vill enga íslenzka hliðstæðu og lúta ekki beygingarreglum íslenzkrar tungu, þá er verið að skylda mennina til þess að vera að gefa í skyn annað um faðerni sitt en sannleikurinn er. Með sérstöku tilliti til þess, að þeim er bannað að taka upp ættarnöfn, kemur ranglæti þessa enn skýrar í ljós. Þessi glöggu rök í ræðu hv. 2. þm. Eyf. vildi ég undirstrika alveg sérstaklega.