18.03.1957
Neðri deild: 69. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í C-deild Alþingistíðinda. (3223)

121. mál, ríkisborgararéttur

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Af því að ég á sæti í þeirri nefnd, sem fjallað hefur um þetta frv., vil ég leyfa mér að segja nokkur orð um málið, eins og það nú liggur fyrir, en skal þó ekki lengja þessar umr. til muna.

Ég vil taka það fram, að ég er, eins og ég hygg að allir nm. séu í hv. allshn., andvígur þeirri till., sem hér er fram borin á þskj. 351 um breytingu á 2. gr. frv., og að ég kann ekki við sumt af því, sem fram kemur í umr. til andmæla gegn þessari grein. Hvað er það, sem hér er um að ræða? Hér liggur fyrir frv. með nöfnum 25 erlendra manna, sem allir sækja um að fá íslenzkan ríkisborgararétt. Þeir sækja um það að verða Íslendingar og njóta þeirra réttinda fyrir sig og sína afkomendur sem Íslendingar njóta í sínu landi. Þeim hefur ekki verið meinað að vera hér í landinu, en þeir óska eftir þessu. Þeir óska að gerast Íslendingar.

Þegar þannig hefur staðið á nú undanfarið, hefur Alþingi viljað veita þennan rétt mörgum mönnum, en það hefur jafnframt viljað gera það að skilyrði fyrir því, að þeir yrðu Íslendingar að lögum, eins og þeir fara fram á, að þeir semji sig að íslenzkum sið í því efni, sem hér er um að ræða, og breyti nöfnum sínum. Mér finnst það mjög óréttmætt að segja, að hér sé um einhvers konar kúgun að ræða.

Þar að auki vil ég svo segja, að það væri ákaflega einkennilegt, ef brtt. væri samþykkt nú, þar sem búið er að setja lög um veitingu ríkisborgararéttar nú ár eftir ár og alltaf hefur verið í þeim lögum ákvæði um nafnbreytingar og margir tugir manna, líklega farið að skipta hundruðum, eru búnir að fá ríkisborgararétt með þessum skilyrðum, ef allt í einu ætti að falla frá skilyrðum fyrir þá menn, sem nú gerast ríkisborgarar.

Ég held, þó að það sé e.t.v. þannig hugsað af hálfu sumra hv. þm., að hinn raunverulegi ágreiningur sé um það, hvort nú eigi að leyfa, að íslenzkir ríkisborgarar beri þessi útlendu heiti og að þeim fjölgi í landinu, sem slík heiti bera. Því að ef þessi brtt. verður samþykkt, sem hér liggur fyrir, þá held ég a.m.k., að það sé enginn vafi á því, að henni verður ekki framfylgt, eins og hún liggur fyrir. Ef útlendingarnir fá skilyrðislaust borgararéttinn með því að halda nafni sínu, munu börn þeirra einnig halda nafninu. Samkv. þeirri reynslu, sem við höfum af framkvæmd ættarnafnalaganna eða nafnalaganna, er það áreiðanlegt, að þetta verður á þessa leið. En er þá nokkuð athugavert við það í sjálfu sér, þó að þessir menn, sem nú verða íslenzkir ríkisborgarar, og afkomendur þeirra um alla framtíð beri erlend nöfn? Að þessu sinni er um að ræða 25 menn samkv. því frv., sem lagt var fyrir, og ef ég man rétt, hafa þetta verið nokkrir tugir manna á ári hverju, útlendingar, sem hafa fengið ríkisborgararétt samkv. lögum. Mér sýnist við athugun, að það hljóti að leiða til þess, ef svo verður áfram, innan mjög langs tíma, að mjög verulegur hluti af þjóðinni beri útlend nöfn og útlend ættarnöfn, og þegar svo er komið, þá verður auðvitað skammt yfir í það, að farið verði að taka upp ættarnöfn almennt hér á landi, að Íslendingar semji sig að siðum annarra þjóða, sem almennt bera ættarnöfn.

Ég hygg því, að um það geti einmitt verið að ræða í þessu tilfelli og í sambandi við þetta frv. og þessa till., hvort við ætlum okkur áfram að standa á því, að Íslendingar haldi þessu forna og þjóðlega einkenni, að kenna sig til síns uppruna, eða hinn erlendi siður verði tekinn upp. Þeir, sem ekki vilja leggja niður þennan þjóðlega sið, að kenna sig til síns uppruna, eiga að vera á móti þessari brtt.