09.05.1957
Neðri deild: 94. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í C-deild Alþingistíðinda. (3267)

162. mál, breyting á læknaskipunarlögum

Flm. (Gunnlaugur Þórðarson):

Herra forseti. Á s.l. sumri var sagt frá slysi, er varð í litlu læknishéraði úti á landi og hafði nærri kostað mannslíf. Ungur læknir í héraðinu, sem þó var aðeins ráðinn til skamms tíma, átti sjálfur lækningatæki, sem björguðu þarna mannslífi. Ég tók sérstaklega eftir því í frásögn blaða af þessu, að lækningatæki þessi voru í einkaeign læknisins. Mér varð það ekki ljóst fyrr en þá, að héraðslæknum úti á landi eru ekki lögð til lækningatæki, og hefði þessi ungi læknir ekki verið svo forsjáll að hafa sjálfur keypt sér tæki, sem bjargaði þarna mannslífi, þá hefði hann ekki getað notið þeirrar gæfu.

Það þykir sjálfsagt, að sýslunarmenn ríkisins fái lögð til ýmis áhöld, sem þeir þurfa að nota, skrifstofuáhöld og jafnvel ritföng. En hins vegar hafa heilbrigðisyfirvöldin látið sig einu skipta, hvort héraðslæknar hafi öll nauðsynleg lækningatæki eða ekki, og vafalaust hefur skortur í því efni leitt til þess, að mannslífi hafi ekki verið bjargað, þegar á reið.

Kunningi minn einn, ungur læknir, var ráðinn til bráðabirgða í hérað úti á landi. Læknirinn, sem verið hafði í héraðinu, var látinn, og þessi ungi læknir kom þarna í héraðið og hafði ekki gert sér grein fyrir því, að það voru engin áhöld til í héraðinu.

Ég tel það lágmarksskyldu við almenning í læknishéruðum, að héraðslæknum séu lögð til nauðsynleg lækningatæki og það sé ekki undir hælinn lagt, hvort mannslífi verði bjargað eða ekki, vegna fyrirhyggjuleysis í þessu efni. Sumir mundu segja, að læknarnir séu ekki of góðir til þess að leggja sér sjálfir til lækningatæki, en slíkar mótbárur eiga ekki við, því að læknar eru mismunandi áhugasamir um störf sín og almenningur í læknishéraði á kröfu á því, að vel sé fyrir öllu séð þegar um mannslíf er að tefla.

Það mun eigi vera ástæða til þess að ræða ýtarlega um frv. Það skýrir sig sjálft, og vísa ég til grg., sem því fylgir.

Telja mætti eðlilegast að koma þessum lögum í framkvæmd smátt og smátt, láta gera skrá um öll lækningatæki, sem héraðslæknar hafa, bæta strax úr, þar sem þörf er á, og láta þessi ákvæði koma til framkvæmda, eftir því sem breyting verður á skipun héraðslækna úti um land.

Ég leyfi mér að leggja til, að máli þessu verði vísað til heilbr.- og félmn. og til 2. umr.