24.01.1957
Efri deild: 44. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í C-deild Alþingistíðinda. (3294)

88. mál, sýsluvegasjóðir

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Það er ekki til að andmæla þessu frv., að ég stend upp, en ég er nokkuð kvíðinn við það að setja þessa breytingu á svona fortakslaust vegna sýsluvegasjóðsgjaldsins. Ég hefði kosið að fá bráðabirgðaákvæði inn í þetta frv. eitthvað í þá átt, að þar, sem því yrði við komið eða ekkert til hindrunar því bókfærslulega, að sýslumenn innheimti gjaldið á manntalsþingum, eins og verið hefur, þá sé það heimilt.

Ég óttast sem sé, að það geti orðið nokkur dráttur á því að fá gjaldið inn hjá hreppunum. Það er vitanlegt, að hrepparnir eiga mjög erfitt um vik að greiða þau gjöld, sem á þá eru lögð nú, almannatryggingagjaldið og sýslusjóðsgjaldið, og það dregst oft langt fram á árið, jafnvel fram á haust, að hægt er að ná þessum gjöldum. En yfirleitt er það svo, a.m.k. er það í mínu umdæmi, að þessi gjöld sem önnur manntalsþinggjöld innheimtast á manntalsþingunum. Það þarf vitanlega að fara að vinna í sýsluvegunum snemma sumars, eins og öðrum vegum, og ef ekki fæst fé inn fyrr en einhvern tíma seint á árinu, þá getur orðið dráttur á því, að hægt sé að byrja á að vinna í sýsluvegunum.

Ég vildi mælast til þess við n., að hún vildi athuga þetta, hvort hún vildi ekki bæta við bráðabirgðaákvæðið einhverju svipuðu og ég hef hér lagt til.