01.02.1957
Neðri deild: 49. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í C-deild Alþingistíðinda. (3302)

88. mál, sýsluvegasjóðir

Jón Pálmason:

Herra forseti. Frv. shlj. þessu lá hér fyrir síðasta Alþingi og er nú borið fram aftur. Virðist vera aðalatriði þessa frv. að koma innheimtu á vissum gjöldum, sem í þessu tilfelli eru sýsluvegasjóðsgjöld, yfir á oddvitana og taka þá skyldu af innheimtumönnum ríkisins. Þetta er mjög undarleg ásókn hjá hæstv. ríkisstj. að fara fram á það ár eftir ár, að innheimta á fasteignagjöldum sveitanna og bæjanna sé tekin af innheimtumönnum ríkisins og færð yfir á oddvitana, því að þeir hafa nú, að ég held, nóg á sinni könnu, enda mun það vera yfirleitt illa séð um allar sveitir, ef ætti að færa það í lög að taka innheimtuna í þessu falli af innheimtumönnum ríkisins, sem eiga miklu léttara með það að ná inn þessum gjöldum, og færa það yfir á oddvitana, sem hafa sannarlega nóg á sinni könnu. Ég tel að vísu sjálfsagt, að þetta frv. gangi til nefndar, en ég vona, að það fari ekki lengra.