01.11.1956
Neðri deild: 9. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

12. mál, festing verðlags og kaupgjalds

Ingólfur Jónason:

Herra forseti. Ég ætla, að þetta sé jómfrúræða hv. þm. Mýr. Þetta var reyndar ekki ræða. Þetta var upplestur úr Tímanum, en gerir sitt gagn eigi að síður. Það kom greinilega í ljós, á hvaða línu þessi hv. þm. er. Hann lýsti ánægju sinni yfir því, hversu vel hæstv. landbrh. hefði svarað mér og hrakið mín ummæli í sambandi við verðlagningu landbúnaðarvara. Það er þess vegna ekkert efamál, að hv. þm. Mýr. er ánægður með það, sem gerzt hefur í verðlagningu landbúnaðarafurða á þessu hausti. Það er ekkert undarlegt, þótt þessi hv. þm. væri valinn til þess að vitna með hæstv. landbrh. Hann er nýr hér í þingi. Það er annar maður úr sveitakjördæmi nýr hér í þinginu, hv. 1. þm. Árn. Hvers vegna vitnar hann ekki með hæstv. landbrh.? Það er vegna þess, að hann er bóndi. Það er vegna þess, að hann veit, að þær tölur, sem ég las hér upp, eru réttar. Hv. 1. þm. Árn. hefur vitnin á borðinu hjá sér. Hann hefur verðlagsreikningana frá s. l. ári á borðinu hjá sér. Hann er að fá nótur yfir sendar sláturafurðir heim á borðið til sín núna, og hann hefur Tímann. Hann hefur grein Hermanns Jónassonar landbrh. Og hv. 1. þm. Árn., bóndinn, sem þekkir til þessara mála, lætur sig ekki í það að ljá hæstv, landbrh. lið í þessu máli. Og vel sé honum fyrir það. En sveitarstjórinn í Borgarnesi, hv. þm. Mýr., sem ekkert þekkir til þessara mála, sem ekki hefur séð afurðasölureikning, hvorki frá fyrra ári né þessu ári, hann getur, eins og hæstv. landbrh., sem ekki heldur þekkir til þessara mála, komið hér upp og sagt, að ég hafi farið með rangt mál.

Þessir hv. þm. leyfa sér að staðhæfa, þegar ég fer með staðreyndir, að ég beri fram falsanir. Ég öfunda ekki hv. þm. Mýr af jómfrúræðunni. Ég öfunda hann ekki af því að hafa léð hæstv. landbrh. lið, þegar hann hér með dólgshætti miklum segir, að ég fari með falsanir.

Það hefur oft tekizt hjá framsóknarmönnum að blekkja fólk, bændur og aðra. Tímanum hefur oft tekizt þetta. En nú gekk hæstv. landbrh. of langt. Nú fellur hann á sjálfs sín bragði, vegna þess að vitnin, staðreyndirnar eru augljósar. Og það er alveg tilgangslaust að halda því fram við bændur, að þær tölur, sem ég las hér upp á mánudaginn, séu rangar. Þess vegna spurði sveitarstjórinn í Borgarnesi, hv. þm. Mýr., ekki hv. 1. þm. Árn. að því, hvort tölur mínar væru réttar eða rangar. Ef hann hefði haft fyrir því, þá hefði hann getað sparað sér það í ræðu sinni að þakka hæstv. landbrh. fyrir að hafa hrakið það, sem ég sagði.

Annars var gaman að heyra það í ræðu hv. þm. Mýr., þegar hann var að tala um afstöðu okkar sjálfstæðismanna í efnahags- og dýrtíðarmálum. Það var eins og hann hefði ekki heyrt það fyrr, að við sjálfstæðismenn vildum vinna gegn dýrtíðinni, og hann undraðist þau ummæli hv. 2. þm. Reykv., að það hefði verið verkefni og stefna allra undanfarinna stjórna að vinna gegn dýrtíðinni. En hv. þm. var seinheppinn. Þm. úr sveitakjördæminu Mýrasýslu átelur okkur sjálfstæðismenn fyrir það, að vísitalan hækkaði 1942. Hvers vegna hækkaði vísitalan 1942? Það var vegna þess, að hlutur bændanna var leiðréttur og lagfærður. Það var vegna þess, að hæstv. landbrh. núverandi hætti að vera landbrh. 1942. Þessi hæstv. landbrh. hafði haldið sultarólinni að bændum lengi vel? Hvernig fór hann að því? Það var gert á þann hátt, að það voru skipaðar verðlagsnefndir til þess að verðleggja landbúnaðarafurðirnar. Í þessum nefndum áttu sæti 5 menn og oddamaðurinn var skipaður af landbrh. Þáverandi landbrh., Hermann Jónasson, skipaði sína dyggustu þjóna í þessi störf, sem fóru alveg að hans skipunum, og þeim var sagt: Ykkar verkefni er ekkert annað en að halda niðri landbúnaðarvörunum, og ef þið gerið það nógu vel, þá höfum við áfram stuðning Alþfl., og þá get ég, Hermann Jónasson, haldið mínum valdastóli. Þetta starf var ekki göfugt, en það var vel og trúlega unnið að þjóna þáverandi landbrh., og sultarólin var hert að bændastéttinni, þannig að skuldir söfnuðust upp og framfarir og framkvæmdir í sveitum landsins voru litlar. Og það var ekki tilviljun, að hlutur bændanna var fyrst réttur, þegar núverandi landbrh. hætti að vera landbrh. haustið 1942. Það var þá, sem sjálfstæðismenn sáu sig til knúna að hækka kjötverðið um 100% til þess að rétta hlut bændastéttarinnar. Vegna dvalar setuliðsins í landinu og mikillar eftirspurnar eftir verkamönnum hafði kaupgjaldið hækkað, og það var þess vegna óhjákvæmilegt að rétta hlut bændastéttarinnar, ekki aðeins að litlu leyti, heldur fullkomlega, og láta bændastéttina nú njóta þess, að hún hafði losnað við Hermann Jónasson úr landbúnaðarráðherrastólnum. En vísitalan hækkaði við þetta. Vísitalan hækkaði við hækkun á verðlagningu landbúnaðarvara milli 20 og 30 stig, og það kemur úr hörðustu átt, þegar þm. úr sveitakjördæmi notar þetta sem árásarefni á sjálfstæðismenn, og það er áreiðanlegt, að þessi hv. þm. verður minntur á þetta, því að einmitt þessi orð lýsa hugarfari haus og minna á, að hann þekkir ekki þá erfiðleika, sem bændur hafa við að stríða, og er fyrst og fremst fulltrúi einhverra annarra. Hann talar um, að ég hafi lýst ánægju minni yfir framleiðsluráðinu. Ég sagði, að ég tryði því ekki, að þeir menn, sem eru í framleiðsluráði, hafi óneyddir sætt sig við þá verðlagningu, sem í haust er á landbúnaðarvörum, og ég sagði, og ég endurtek það, að þetta getur ekki hafa gerzt nema með því, að það hafi komið skipun frá hæstv. landbrh. Og af því að hæstv. landbrh. skoraði á mig hér á mánudaginn eða hvenær sem hann talaði hér að endurtaka þetta eða taka það aftur, þá verð ég að endurtaka það, sem ég sagði: Ég tel, að það hljóti að hafa verið af einhvers konar þvingun frá hæstv. ríkisstj., að framleiðsluráðið, meiri hluti þess, lét undan.

Hæstv. ráðh. þóttist geta sannað, að ég færi með rangt mál. Hann var að tala um dilksverðið. Ég nefndi 13 kg dilk. Við hefðum alveg eins getað talað um 15–16 kg dilk, það varð aðeins að taka einhvern þunga. Hann nefndi aðeins kjötverðið, en gleymdi alveg því, sem þarna átti einnig með að fylgja, það er slátrið, og það er mörinn. Nú vill svo til, að ég hef hérna sönnunargagn á borðinu hjá mér um afurðaverð 1955 og líka 1956, staðreyndir, sem eru alveg óhrekjanlegar, og það sést hér, að 13 kg dilkur er borgaður út 1955 með kr. 275.85 og dilkur í haust er borgaður út með 289.15, en ætti að vera 298 kr. Hæstv. ráðh. sagði, að bændur mundu fá 312 kr. Er þetta ekki blekking, þvert ofan í staðreyndirnar? Það er von, að hæstv. ráðh. setji upp vandlætingarsvip, setji upp sakleysissvip og tali um, að ég fari með blekkingar. En hér eru staðreyndirnar. Ég hef staðreyndirnar eins og hv. 1. þm. Árn. á borðinu hjá sér, reikninga yfir afurðirnar.

Það er alveg sama með nautgripakjötið. Ég taldi upp allar tegundir nautgripakjöts. Ég taldi upp allar tegundir hrossakjöts, og ég hef hérna staðreyndirnar einnig hvað það snertir eins og hv. 1. þm. Árn. og allir bændur. Þetta er þess vegna alveg óhrekjanlegt og alveg furðulegt, að hæstv. landbrh. skuli nú reyna að verja þetta. Ég segi, að það er eitt gott við þetta, að opna augu a. m. k. bænda, sem lesa Tímann og bera grein hæstv. landbrh, saman við sönnunargögnin, sem þeir hafa á borðinu hjá sér, afurðareikningana þessi tvö ár. Það getur orðið til þess, að jafnvel þeir, sem enn hafa trúað Tímanum, átti sig og sannfærist um, að þetta málgagn er ekki þess virði að trúa því eða treysta, og ég er alveg sannfærður um, að bændastéttin áttar sig nú betur á því en áður, að Framsfl. með hæstv. landbrh. í broddi fylkingar er ekki þeirra flokkur, að hv. þm. Mýr. og hæstv. landbrh. eru ekki þeirra málsvarar á Alþingi. Ef svo væri, þá lýstu þeir ekki ánægju sinni yfir því, sem gerzt hefur. Mér dettur ekki í hug að ætla, að allir hv. framsóknarþm. vilji taka undir með hv. þm. Mýr, hér á Alþingi. Ég er hér um bil sannfærður um, að það hefur verið erfitt fyrir hæstv. landbrh. að fá þm. úr sveitakjördæmi til þess að vinna það hlutverk, sem hv. þm. Mýr. réð sig í áðan.

Það er nú svo, að hæstv. landbrh. talaði um, að það væri dálítið hart, þegar við sjálfstæðismenn færum að tala um landbúnaðarmálin, afurðaverð og landbúnaðarmálin, og minntist á 9.4% frá því 1944. Mér finnst nú nokkuð langt gengið, þegar hæstv. ráðh, ætlar að nota það sem ádeiluefni á Sjálfstfl., að gefin voru eftir 9.4% 1944. Ég held, að það sé alveg tilgangslaust, vegna þess að það er vitað, að Framsfl. stóð ekki síður að þessari eftirgjöf en við sjálfstæðismenn, og það er lítilmennska að geta ekki kannazt við það, að við margir, sem enn erum hér á þingi, samþ. þessa eftirgjöf. Við getum sagt: Það var ekki rétt að gera það. En það er lítilmannlegt að geta ekki kannazt við að hafa verið með í því, og hæstv. landbrh. var ekkert síður með í því og framsóknarmenn heldur en við hinir.

En af því að hæstv. landbrh. vildi fara að rifja upp fortíðina, þá er mjög æskilegt, að það sé gert nokkuð. Það er mjög æskilegt og nauðsynlegt. Það er nauðsynlegt, til þess að það falli ekki í gleymsku, hver hlutur hæstv. núverandi landbrh. hefur verið í sambandi víð landbúnaðarmálin undanfarið, og þá einnig, hvað Framsfl. hefur oft verið seinheppinn, flokkurinn, sem hefur kallað sig bændaflokk, þegar um það hefur verið að ræða að koma fram málefnum sveitanna.

Sú saga er ljót, ef hún væri rakin, stjórnarsagan frá 1934 til 1939, þegar Framsfl. fór með völd með stuðningi Alþfl. Það var sveitatímabil í íslenzkum stjórnmálum, ekki aðeins fyrir bændur, heldur einnig fyrir verkamenn, því að það virtist vera, að stjórnarherrarnir þá væru úrræðalausir menn, sem ekki hugsuðu um annað en að spara innflutning til landsins. Og til þess að tryggja, að innflutningurinn færi í réttra manna hendur, var núverandi hv. þm. V-Húnv. valinn til þess að veita forstöðu og hafa oddaaðstöðu í gjaldeyris- og innflutningsnefnd, og hann þjónaði sínu starfi þar reglulega vel, alveg á borð við oddamennina í verðlagsnefndinni, að sýna hlutdrægni í starfinu og að beina innflutningnum til framsóknarfyrirtækja. Ég segi þetta hér vegna þess, að ég hef reynslu af hlutdrægni þessa manns. Hann ætlaði alveg að loka fyrir það, að fyrirtæki, sem ég stjórna, fengi nokkurn innflutning. En það vildi til, að hann gat ekki að því sinni fengið meiri hl. í nefndinni. — En það sýndi sig, að það var ekki nóg að hafa hlutdræga gjaldeyris- og innflutningsnefnd, sem skammtaði innflutninginn. Það sýndi sig, að það þurfti að afla atvinnutækja til landsins og gera ráðstafanir til þess að auka framleiðsluna, ef fólkið ætti að geta lifað sæmilegu lífi í landinu. En það var ekki gert. Einn duglegur athafnamaður flutti inn skip í leyfisleysi og fékk háar sektir fyrir. Af þessum ástæðum skapaðist hér varanlegt atvinnuleysi, skapaðist hér kreppa, og kreppunni var haldið við hér, löngu eftir að hún hafði liðið hjá í nágrannalöndunum.

Ég lýsti því áðan, hvernig ástandið var í landbúnaðarmálunum á þessum tímum og að hlutur bændastéttarinnar var ekki réttur fyrr en við sjálfstæðismenn fengum aðstöðu til þess. Framsóknarmenn fóru óslitið með landbúnaðarmálin frá 1927 til 1944. Þeir höfðu stært sig mikið af því, að ýmsir sjóðir, sem landbúnaðurinn ætti að fá lán úr, væru þeirra verk. En ég man það, að á s. l. vori, 10. júní minnir mig, birtist í Tímanum tafla yfir lánveitingar úr ræktunarsjóði og byggingar- og landnámssjóði, og í þessari töflu var því lýst, að ræktunarsjóður hafi lánað á ári 70 þús. kr. og byggingarsjóður 222 þús. kr., og þetta fannst framsóknarmönnum vera ákaflega mikið fé, að skipta þessu á milli 6000 bænda. Og þannig var þeirra frammistaða í landbúnaðarmálunum í öll þessi ár, 17 ár. Landbúnaðurinn fór ekki að rétta við fyrr en áhrifa sjálfstæðismanna fór að gæta. Og þegar hæstv. landbrh. sagði hér um daginn, að sjálfstæðismenn hafi, þegar þeir höfðu aðstöðu, svikizt um að gera nokkuð fyrir landbúnaðinn, þá verð ég að minna á, að það er ekki fyrr en Pétur heitinn Magnússon verður landbrh., að ræktunarsjóðurinn, að byggingarsjóðurinn og aðrir lánasjóðir landbúnaðarins fá fé til umráða, sem nokkuð munar um, og um þetta vitna staðreyndirnar og þess vegna ákaflega tilgangslaust að reyna að hrekja þetta. Það var 1945–46, sem lög um landnám, nýbyggingar og endurbyggingar í sveitum voru sett hér á Alþingi. Þetta frv. var flutt af þáverandi landbrh., Pétri heitnum Magnússyni. Þetta frv. gerði ráð fyrir framlagi úr ríkissjóði, 50 millj. kr., og skyldu greiðast 5 millj. kr. á ári í allt að 10 ár. Var þetta mikið fé, miðað við gildi peninganna þá. Þetta voru hærri upphæðir en framsóknarmenn höfðu látið sér detta í hug, að sjóðir landbúnaðarins gætu nokkurn tíma fengið. En vegna þess, að stórhugur fylgdi þessari lagasetningu, var kleift að fara að nota skurðgröfur í landinu og þurrka upp landið og bæta. Það varð kleift að auka ræktunina, þannig að túnstærðin hefur margfaldazt, og það varð kleift að byggja upp hina fallandi bæi í sveitum landsins og útihúsin, sem enn voru flest með torfþaki og gamaldags. Þetta hefði ekki verið hægt, ef grunnurinn að þessu hefði ekki verið lagður með lögum Péturs heitins Magnússonar, og þetta hefði ekki verið gert, ef framsóknarmenn hefðu áfram farið með landbúnaðarmálin eins og þeir höfðu gert frá 1927 til 1944. Það er ekki hægt annað en að minna á þetta, þegar framsóknarmenn koma hér og ætla að fara að tala sem sérstakir vinir landbúnaðarins, menn, sem eru algerlega úr tengslum við landbúnaðinn og þekkja lítið til hans, sbr. hæstv. núverandi landbrh., sem hefur lítil kynni eða tengsli við landbúnaðinn, og hv. þm. Mýr. Ef hann hefur meint það, sem hann sagði hér áðan, þá bendir fátt til þess, að hann sé í tengslum við landbúnaðinn eða þekki þar til.

Ég held, að það sé nú óþarft að hafa öllu fleiri orð um þetta. En ég vil nú spyrja: Er það tilviljun, að hin helztu mál landbúnaðinum til handa hafa verið lögfest á Alþingi, þegar framsóknarmenn hafa verið utan ríkisstj.? Er það tilviljun, að hlutur bænda í verðlagningu landbúnaðarvara var leiðréttur fyrst, þegar landbrh. Framsfl. var farinn úr valdastóli? Er það tilviljun, að lánasjóðir landbúnaðarins fengu fyrst peninga, þegar framsóknarmenn voru utan gátta? Er það tilviljun, að raforkulögin voru sett, þegar framsóknarmenn voru utan gátta og höfðu lítil áhrif? Það væri skrýtið, ef þetta væri allt saman tilviljun. Ég held, og ég reyndar veit og staðhæfi, að þetta gerðist vegna þess, að smásálarskapur framsóknarmanna var ekki ráðandi. Framsóknarmenn hafa tíðast tamið sér það að tala eins og sérstakir málsvarar bænda, en þegar hefur komið til að framkvæma hlutina, hafa þeir verið ráðalausir og ekkert gert. Og þá hefur alltaf verið talað um, að það væri ekki til fé, það væru ekki til peningar, og það er þess vegna ekkert nýtt, þótt við heyrum það nú, bæði hjá hæstv. fjmrh. og hæstv. landbrh., að það sé ekki til fé.

Hæstv. landbrh. talaði um það hér fyrir tveimur dögum, að fráfarandi ríkisstj. hafi skilið illa við, að það vanti fé í raforkuframkvæmdirnar, það vanti fé í húslánasjóðinn, það vanti fé í Búnaðarbankann, það vanti fé í fiskveiðasjóðinn og það vanti fé í sementsverksmiðjuna. En ég vil minna hæstv. landbrh. á það og aðra hv. framsóknarmenn, að það er hlutverk þeirrar stjórnar, sem fer með völd á hverjum tíma, að útvega fé í þær framkvæmdir, sem verið er að vinna að. Og hæstv. landbrh. veit það, að fram að stjórnarskiptunum var unnið látlaust og tafarlaust að öllum þessum framkvæmdum, og hæstv. ráðh. veit líka, að ef fyrrv. ríkisstj. hefði setið áfram að völdum, þá hefði hún útvegað til framhalds það fjármagn, sem vantar í þessar framkvæmdir. Úrræðaleysi núverandi ríkisstj. nær hámarki, þegar þeir koma með þessar raunatölur og ætla að reyna að skella skuldinni á fyrrverandi ríkisstj., að nú virðist allt vera keyrt í strand hjá þeim. En ástæðan til þess, að núverandi stjórn fær ef til vill ekki það fjármagn, sem fyrrverandi stjórn hefði haft ráð á, t. d. erlent fjármagn, stafar vitanlega af því, að núverandi ríkisstj. hefur lítið traust, hefur ekki traust utanlands, hefur ekki traust almennings innanlands. Ég minntist á það hér um daginn, hvernig væri varið sparifjáraukningunni. Á fyrstu 7 mánuðum þessa árs jókst spariféð um 136 millj. kr., fram að stjórnarskiptunum. Ef sparifjáraukningin hefði haldið þannig áfram árið út, hefði hún orðið á árinu 230 millj. kr., eða miklu meiri en nokkru sinni áður. Ef sparifjáraukningin hefði orðið þannig á þessu ári, þá hefði skapazt möguleiki til þess að fá lán úr íslenzkum bönkum í húslánasjóðinn, í ræktunar- og byggingarsjóðinn, í sementsverksmiðjuna og aðrar framkvæmdir, sem núna er unnið að. En eftir stjórnarskiptin skiptir alveg í tvö horn. Það er ekki aðeins það, að sparifjármyndunin stöðvist alveg, heldur er farið að eta upp það, sem hafði safnazt fyrri hluta ársins, og eru nú líkur til, að sparifjáraukning á þessu ári verði alls engin. Þegar svo er komið, er náttúrlega tilgangslaust að fara í Landsbankann eða aðra banka og segja þeim að lána í þær framkvæmdir, sem vantar fé til, og þegar svo er komið, er það vitanlegt, að það er erfiðara að fá lán erlendis en ef hægt hefði verið að sýna fram á, að okkar fjárreiður hér heima væru í lagi.

Þetta er staðfesting á því, að almenningur í landinu treystir ekki þessari stjórn. Það er staðfesting á því, að almenningur í landinu sér, að þessi stjórn hefur ekki enn neina fasta stefnu í efnahags- eða atvinnumálum. Hún hefur ekkert fram að leggja nema þetta frv., sem er lítið frábreytt þeim till., sem við sjálfstæðismenn lögðum fram á s. l. vetri.

Þetta frv., ef að lögum verður, gerir ekki annað en að stöðva kaupgjald og verðlag til áramóta. En hvað tekur þá við? Hefði ekki verið betra fyrir hæstv. ríkisstj. að fara eftir till. sjálfstæðismanna á s. l. vetri og festa verðlagið þá strax? Er ekki ábyrgð framsóknarmanna mikil, að þeir skyldu ekki skilja, að það hafði raunhæfa þýðingu á s. l. vetri að stöðva verðlagið strax, eftir að álögurnar höfðu verið lagðar á þjóðina til þess að atvinnuvegirnir gætu gengið? Framsóknarmenn gerðu það ekki, heldur létu þeir dýrtíðina og vísitöluna hækka í allt sumar, eða til 1. september s. l. Vísitalan hækkaði úr 173 stigum í 184 stig á þessu tímabili, um 11 stig.

Skyldi það nú ekki vera þess vegna, sem hæstv. ríkisstj. hefur séð sig tilneydda að hækka fiskverðið til togaranna um 15 aura, hækka styrkinn til togaranna um 50%, úr 5000 krónum í 7500 krónur, hækka karfaverðið, hækka styrkinn til síldveiða við Faxaflóann? Er þetta undirbúningur undir það, sem koma skal um áramót, að láta vísitöluna hækka fyrst um 11 stig, síðan að hækka styrkina til útvegsins? Er það til þess að gera gönguna eitthvað léttari að hinu þráða marki að koma atvinnuvegum landsmanna á réttan kjöl og styrkjalausan grundvöll?

Ég held, að framkvæmd og aðfarir hæstv. ríkisstj. þá 3 mánuði, sem hún hefur setið, sanni það, að hún er þrátt fyrir þetta frv. úrræðalaus og veit ekkert, hvað við tekur, og það er almenningur í landinu, sem fylgist með þessu, og það er þess vegna, sem nú er svo komið með okkar peningamál í bönkunum, að fjármagnið hefur hætt að skapast.

Hv. 3. þm. Reykv. (EOl) var að tala um það hér áðan, að ég hefði hælzt um það, að litlar líkur væru til, að lán fengjust til þess að kaupa togarana. Þetta er reginmisskilningur hjá hv. þm. Ég vitanlega vildi óska þess, að það væri hægt að halda uppbyggingu atvinnuveganna og öllum framkvæmdum hér áfram, þrátt fyrir það þótt við höfum lélega stjórn í landinu um sinn. Allir hv. þm. hljóta að skilja, að ef framkvæmdirnar stöðvast og ef atvinnuleysi heldur innreið hjá okkur, þá líða allir við það. Það verður að finna önnur ráð til þess að koma hæstv. ríkisstj. frá völdum heldur en þau ein, að hún fái hvergi lán. Hæstv. ríkisstj. fellur á sínum eigin verkum og sínu eigin úrræðaleysi.

Ég þarf ekki raunar að hafa þessi orð öllu fleiri. Ég hef rakið hér nokkuð lauslega það, sem fram hefur komið hjá hv. framsóknarmönnum í sambandi við verðlagninguna, og ég hef staðhæft það, sem er staðreynd, að það, sem ég sagði hér á mánudaginn, var rétt, það sem hæstv. landbrh. sagði, var rangt. Og ég hef enn fremur í fáum orðum rakið nokkra þætti úr starfssögu framsóknarmanna í sambandi við landbúnaðarmálin. Þeir þættir eru festir á spjöld sögunnar, og þeir þættir eru sannir og verða ekki hraktir. Það er ástæða til að rekja þá þætti nánar við betri tíma, en þetta skal nú nægja að sinni. Ég hef í fáum dráttum lýst því, hvernig úrræðaleysi hæstv. ríkisstj. leiðir til þess að skapa hér vonleysi meðal almennings í landinu og skapa grundvöll að atvinnuleysi og stöðvun allra framkvæmda. En það er eitt það hættulegasta. Vegna þess að fjármagnsmyndunin hefur nú algerlega stöðvazt, gæti komið atvinnuleysi. Og þá væri illa farið, ef við með alla hina miklu möguleika til áframhaldandi framkvæmda og velmegunar verðum að gjalda svo dýru verði fyrir það ævintýri, að Hermann Jónasson varð forsrh. í stjórn með Alþb. og Alþfl., að sú framþróun, sem unnið hefur verið að síðustu ár, stöðvist og almenningur í landinu verði um sinn að búa við kreppu og hálfgerðan sult.