02.11.1956
Neðri deild: 10. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í B-deild Alþingistíðinda. (341)

12. mál, festing verðlags og kaupgjalds

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. (EOl) þrumaði hér á fundinum í gær sína árlegu ræðu um það, hversu kommúnistar hafi gert mikið fyrir verkalýðinn og hversu allir aðrir hafi gert lítið fyrir hann.

„Gengið“ á kommúnistum er lágt í dag um allan hinn frjálsa heim, því að nú hafa þeir komið til dyranna eins og þeir eru klæddir. En eftir því sem lækkar á þeim „gengið“, er ekki nema við því að búast, að þeir þurfi að hækka röddina og þruma yfir lýðnum um allt það, sem þeir hafi gert fyrir hann. Það er skiljanlegt þess vegna, að hv. 3. þm. Reykv. þurfi að hrópa og kalla um þær kjarabætur, sem flokkur hans hefur fært verkalýðnum. En það eru líka aðrir, sem hrópa og kalla í dag. Það eru þeir, sem hafa í 10 ár hlotið handleiðslu kommúnista. Þeir hrópa á frelsi í stað ánauðar, og þeir hrópa á mannréttindi í stað þrældóms. Senda kommúnistarnir þeim frelsi og mannréttindi? Nei, þeir senda her, gráan fyrir járnum, til þess að kúga þjóðirnar og svipta þær þeim réttindum og því frelsi, sem þær eru bornar til og heimta sjálfar. Þetta er það, sem er að gerast þessa dagana. Ungverska þjóðin hefur undanfarnar vikur reynt að losa sig undan „kjarabótum“ og handleiðslu kommúnistanna. Í því landi er nú ekki lengur til einn einasti kommúnisti, nema þeir, sem eru leppar fyrir rússneska hervaldið. Þannig hefur stefna kommúnistanna reynzt í framkvæmdinni.

Hv. þm. sagði, að sjálfstæðismenn hefðu aldrei gert neitt fyrir verkalýðinn. „Hvenær hafa þeir háð verkföll?“ sagði hann. „Hvenær hafa þeir háð verkföll og heimtað kauphækkun?“ Það er alveg rétt, þeir hafa ekki undirbúið verkföll. En kauphækkun verður að byggjast á einhverju öðru en verkföllum. Kauphækkanir eru einskis virði, ef ekki eru til blómlegir atvinnuvegir. Þær kauphækkanir, sem fást, meðan atvinnuvegirnir eru í kaldakoli, eru eins og seðlar, sem ekkert verðmæti er á bak við. Nei, Sjálfstfl. hefur ekki undirbúið verkföll, en hann hefur gert annað. Hann hefur frá fyrstu tíð og alla sína tíð unnið að því að byggja upp atvinnuvegi landsins, en á atvinnuvegum landsins byggist það, að fólkið geti fengið kaup, sem veiti því sómasamlegt líf. Með uppbyggingu atvinnuveganna hafa kjör fólksins batnað, ekki fyrir það, að hv. 3. þm. Reykv. og hans félagar hafa heimtað hærra kaup, heldur vegna þess, að aðrir voru búnir að byggja upp atvinnuvegina, þannig að fólkið gat fengið betri kjör.

Það má nú virðast næsta fánýtt að vera að deila hér um gamlar syndir, þegar heimsmálin eru á hverfanda hveli og búast má við því, að heimsstyrjöld geti brotizt út fyrr en varir. Við vitum ekki nema við ef til vill vöknum einn morgun við það, að heimurinn stendur í báli. Slíkt getur mörgu breytt hér og annars staðar og jafnvel skoðun margra manna á því, hvort heppilegt sé að byggja líf sitt á algeru varnarleysi í því trausti, að friðsældin sé vaxandi í heiminum.

En ég segi eins og rússneskur flokksbróðir hv. 3. þm. Reykv.: „Jörðin verður þó að halda áfram að snúast.“ — Og þess vegna ætla ég að halda áfram og taka til athugunar nokkur atriði, sem hafa komið fram í ræðum manna hér við umræðu málsins, sem fyrir liggur.

Hæstv. forsrh. lét sér mjög tíðrætt um þá óhæfu, að sjálfstæðismenn skuli leyfa sér að halda því fram, að framsóknarmenn muni hafa tekið einhvern þátt í stjórn landsins á undanförnum árum, og það jafnvel svo, að núv. forsrh. muni ef til vill hafa, þó að hann stæði utan ríkisstjórnar, átt þátt í því að samþykkja þær ráðstafanir, sem gerðar voru á undanförnum árum. Ég get vel skilið, að honum finnist hálfilla gert af sjálfstæðismönnum að vera að minnast á þetta nú, eins og sakir standa, því að hann þarf að sjálfsögðu að hafa nú sem beztan frið. En ekki verður hjá því komizt að minna hæstv. ráðh. á, að hann var ekki ætíð fjarstaddur, þegar fyrrv. stjórn réð ráðum sínum.

Hæstv. ráðh. lýsti því með mikilli tilfinningu, hversu fjárþurrðin sé núv. ríkisstj. erfiður ljár í þúfu. Hún hafi komið að tómum kofunum hvarvetna. T. d. hafi hann komið inn í raforkumálaráðuneytið, sem hann nú veitir forstöðu, og hverju mætir hann þar? Auðvitað tómum kassanum, og þar skorti, eftir því sem hæstv. fjmrh. hefur upplýst, 45 millj. kr. Og hverjum er þetta að kenna? Auðvitað íhaldinu. Svona skildi það víð. En hæstv. ráðh. er þó ekki búinn að gleyma því, hver var raforkumálaráðherra í síðustu stjórn? Var það ekki framsóknarmaður? Átti hann ekki að sjá um þessi mál? Hver var fjmrh. í síðustu stjórn? Þurfti hann ekkert að hugsa um, hvort raforkumálin fengju það fé til umráða, sem nauðsyn krafði? Var það ekki framsóknarmaður? Það vantaði að sjálfsögðu víðar fé en þarna, og alls staðar hafði fyrrv. fjmrh. skilið eftir tóman kassann. — En allt á þetta að vera sjálfstæðismönnum að kenna. Allt gerðu þeir. Þeir stjórnuðu öllu. Nú, og þess vegna hlutu þeir náttúrlega að eiga sökina. Það leiddi af sjálfu sér.

En það er eitt, sem stjórnarflokkarnir hafa nú þörf fyrir öllu framar, og það er að geta talið þjóðinni trú um, að Sjálfstfl. sé sökudólgurinn og þeir séu allir saklausir. Þess vegna segja þeir nú, að allt sé Sjálfstfl. að kenna, verðbólgan, dýrtíðin, lánsfjárskorturinn, útlán bankanna og jafnvel peningastraumurinn frá Keflavíkurflugvelli, svo að fátt verður, sem ekki er þeim að kenna. Vegna þess, hvað þeirra eigin fortíð á mikla sök á ástandinu, vilja þeir að sjálfsögðu koma þessu á Sjálfstfl. og telja þjóðinni trú um, að hann eigi sökina. Annars verður lítið úr „gloriunni“ yfir höfðum þeirra fyrir að bjarga nú þjóðinni, ef þjóðin sjálf skyldi komast að raun um, að þessir flokkar ættu meginsökina á því, hvernig komið er málum, sem þeir þykjast nú vera að bjarga.

Sjálfstfl. hefur aldrei ætlað sér að hlaupast frá þeirri ábyrgð, sem honum ber fyrir þátttöku í ríkisstj. á undanförnum árum. En það verður aldrei af stjórnarliðinu skafið, að kommúnistar og Alþýðuflokksmenn eiga aðalsökina á því að hafa sundrað efnahagskerfinu með verkföllum og kauphækkunum. Það verður ekki af þeim skafið. Og Framsfl. hefur stýrt fjármálum landsins í sjö ár. Það verður heldur ekki af honum skafið, enda hefur hann undanfarin ár ekki þagað yfir því, að hann hafi haft fjármálastjórnina á hendi, enda væri enginn slíkur fjármálaskörungur til í landinu sem Eysteinn Jónsson, að dómi Tímans, málgagns Framsfl., á undanförnum árum. Um þetta hefur hann þó steinþagað nú í heilt ár. Af hverju? Hann hefur haft fjármálastjórnina á hendi í sjö ár, og eftir þennan langa tíma, eftir þessa löngu fjármálastjórn Framsfl. stígur form. hans fram fyrir þjóðina og tilkynnir henni, að í höndum hans eftir allan þennan tíma sé fjármálalífið orðið helsjúkt.

Er hægt að hugsa sér öllu meiri og hreinskilnari fordæmingu á eigin verkum? Ég vil nú í bróðerni spyrja hæstv. forsrh.: Er hægt að vera fjmrh. í landi sínu í sjö ár án þess að hafa nokkur áhrif á fjármálalíf landsins?

Ég skal svara fyrir hann: Já, það er hægt. Það er hægt, ef í sæti fjmrh. er flón og ónytjungur. Er Eysteinn Jónsson það? Við, sem hér erum inni, og öll þjóðin veit, að Eysteinn Jónsson er hvorugt þetta. Hann er gáfaður maður, sem ekki lætur skipa sér fyrir verkum. Er þá líklegt, að hann hafi látið fjármálalíf landsins afskiptalaust í þessi sjö ár, eða vill kannske hæstv. forsrh. halda því fram, að fjármálaráðherra hafi verið vikadrengur Sjálfstfl. allan þennan tíma? Ég er ekki að ásaka Eystein Jónsson. Hann er ágætur maður, og ég efast ekki um, að allar þær ráðstafanir, sem hann hefur gert, hafi hann framkvæmt vegna þess, að hann taldi þær sannastar og réttastar. En ég er að benda flokki hans og samstarfsmönnum á, að þeir eru að draga af honum æruna með því að segja í ræðu og riti, að hann hafi verið ábyrgðarlaust núll í fyrrv. ríkisstjórnum.

Hæstv. menntmrh. (GÞG) reyndi að tortryggja þá staðhæfingu mína, sem kom einnig fram hjá fleirum, að kaupgjaldshækkunin væri meginundirstaða verðbólgunnar, vegna þeirrar verðhækkunar, sem kauphækkunin hlaut að hafa í för með sér á öllu landinu. Ég sé, að blað Alþfl. er að fárast yfir því, að togararnir skuli ekki geta gengið nú, þegar ríkissjóður sé farinn að borga með togurunum sem nemur öllu kaupgjaldi á hverjum togara. Blaðið telur það sem sönnun fyrir því, að kaupgjaldið hafi ekkert að segja. En ég vildi nú spyrja: Dettur þeim mönnum í hug, sem þetta skrifa, að kaupgjaldið á togurunum sé eina kaupgjaldið, sem togararnir borga, eða yfirleitt eini kostnaðurinn, sem togararnir verða að bera? Ef þeir halda það, þá get ég sagt þeim, að svo er ekki. Kaupgjaldið í landi og á togurunum hefur hleypt kostnaði við rekstur togara gífurlega fram.

Hann var að reyna að breiða yfir þessa staðreynd, hæstv. menntmrh., með því að segja, að það væru til fleiri öfl, sem kyntu undir eldi verðbólgunnar, en kauphækkanir, m. a. bankaútlán. Það er alveg rétt. Bankaútlán geta valdið verðbólgu, ef þau eru mjög gálaust af hendi látin. En ég vil benda á í því sambandi, að útlánin frá 1954 til 1956 jukust í bönkunum um 550 millj., en á sama tíma jukust spariinnlán um 250 millj. kr. og veltiinnlán um 100 millj. Það horfir nú dálítið öðruvísi við, þó að útlánin aukist, ef hægt er að sýna fram á, að veruleg innlán hafa átt sér stað á sama tíma. Hér hafa innlánin aukizt um 350 millj., meðan útlánin jukust um 550 millj. Það má segja, að þetta sé óvarlegt. En það verður þá að spyrja um leið: Til hvers var þessu fé varið? Þessu fé var að miklu leyti varið til þess að veita útflutningsframleiðslunni rekstrarfé. Það er öllum ljóst og vitanlegt, að síðan farið var að verka aflann hér í landi, eins og nú er gert, hefur útvegurinn að sjálfsögðu þurft miklu meira rekstrarfé en áður. Þar að auki má benda á, að bátagjaldeyririnn, sem útvegsmenn eiga að fá til þess að standa undir rekstrarkostnaði sínum, hefur ekki verið greiddur út fvrr en ári eða 1½ ári eftir, að fiskurinn er veiddur. Undir þessu hafa útvegsmenn ekki getað staðið. Þess vegna hafa bankarnir m. a. orðið að hlaupa undir bagga með útvegsmönnum og lána þeim út á þann bátagjaldeyri, sem þeir áttu í vændum og fengu kannske ekki fyrr en ári eftir að þeir fengu lánið í bankanum. En ég fullyrði, þrátt fyrir það að ég viðurkenni, að bankaútlán geti haft áhrif á verðbólguna, að þessi bankaútlán hefðu ekki haft nein áhrif á vísitöluna, ef engar kauphækkanir hefðu átt sér stað á sama tíma.

Annars er nýtt, að Alþfl. skuli vera að kvarta undan því, að lánað er út. Ég veit ekki betur en að hann hafi á undanförnum árum alveg eins og Sósfl. heimtað það, að fé væri ausið út úr bönkunum takmarkalaust. Ef að þeirra ráðum hefði verið farið á undanförnum árum, býst ég ekki við að stæði steinn yfir steini í fjárhagsbyggingu þjóðarinnar.

Hæstv. ráðherrar, félmrh. og menntmrh., þóttust nú hafa gripið gæsina, þegar þeir fullyrtu það, að ég hefði sagt, að verðbindingin væri alveg óhafandi. Því miður sagði ég þetta ekki. Hæstv. ráðherrar hafa vafalaust tekið skakkt eftir, því að ég væni þá ekki um að fara vísvitandi með rangt mál. Ég sagði aldrei, að verðbindingin væri óhafandi. Ég sagði, að hún væri afar erfið í framkvæmd. Ég sný ekki aftur með það. (Gripið fram í: Er hún æskileg?) Undir vissum kringumstæðum getur hún verið æskileg. Ég hef sjálfur lagt kvaðir á verzlunarstéttina og iðnaðinn undir svipuðum kringumstæðum, eins og t. d. 1942, þegar verðbinding var sett í einn mánuð, vegna þess að ég taldi, að slíkt væri nauðsynlegt. Og ég tel heldur ekki að það sé neitt hættulegt að binda verðlag, jafnvel þó að það sé 4½ mánuður, eins og hér kemur fram, ef það er gert á skynsamlegan hátt. Ég er ekki að mæla með því, að menn fái að græða fé í óhófi á ástandi eins og því, sem nú er ríkjandi. Ég veit, að menn, sem líta á málið frá skynsamlegu sjónarmiði, vilja heldur vera án gróðans, ef með því verður einhverju kippt í lag, svo að ástandið batni. Hæstv. ráðherrar hafa ekki tekið rétt eftir mínum orðum hvað þetta snertir. En ég sagði um verðbindinguna aftur á móti, að hún væri mjög miklum erfiðleikum háð og það væri nauðsynlegt að framkvæma hana á sanngjarnan hátt.

Nú er verðlagið stöðvað í 4½ mánuð. Ég er sannfærður um, að ekki er hægt að stöðva verðlag undantekningarlaust í 4½ mánuð, nema farið sé út í öfgar. Hins vegar hefur hæstv. ríkisstj. undanþágu í lögunum, eins og sjálfsagt er, og er þá mjög undir því komið, hvernig þessari undanþágu er beitt. Það er t. d. fjarstæða að hugsa sér að synja mönnum um að taka lögboðna tolla inn í verðlag innfluttrar vöru, ef á að framkvæma þessi lög skynsamlega og réttlátt.

Hæstv. félmrh. sagði, að það væri sér að mæta, ef einhver ætlaði að sniðganga lögin, eins og t. d. með það að láta einhvern annan flytja inn fyrir sig vöru, sem nýju tollarnir koma á. Ja, ég verð nú að segja, að ég er svo einfaldur og óslyngur í refskák, að mér hafði ekki dottið í hug þetta snjallræði til þess að komast fram hjá þvingunum hæstv. ráðherra í þessu sambandi. En þetta krefst lítillar útskýringar við, svo að menn geti skilið það. Það er þannig, að hafi maður flutt inn vöru s. l. desember, áður en nýju tollarnir komu á, og flytur svo aftur inn sömu vöru nú, eftir að tollarnir eru komnir á, þá er sagt við hann: Þú mátt ekki hækka verðið, því að þetta verð nú er hærra en var á sömu vöru hjá þér, þegar þú fluttir hana inn síðast. En þá hafði viðkomandi maður ekki þurft að greiða þessa tolla. Nú eru tollarnir komnir á, og nú verður hann að borga tollana, en hann fær ekki að taka þá inn í verðlagið.

Nú vil ég samt skjóta hér inn, að ég heyri sagt, að það sé farið að framkvæma þetta á skynsamlegri hátt.

En svo kemur lokleysan í þessu öllu saman. Ef aftur á móti er annar maður, sem flytur vöruna inn í fyrsta skipti í dag, þá fær hann að verðleggja hana með nýju tollunum, sem hinum er bannað.

Þannig er hægt að framkvæma það ráð, sem hæstv. ráðh. gaf, að láta annan flytja fyrir sig inn vöruna, sem ekki hefur flutt hana inn áður, því að þá má leggja nýju tollana á hana.

Ég vona nú, að þessi framkvæmd sé úr sögunni. Ég vona það, því ef þetta væri svona, þá væri slík framkvæmd fyrir neðan allar hellur. En mér er sagt, að framkvæmdin sé að verða eitthvað eðlilegri og skynsamlegri en hún var í byrjun. En ég hef ekki hugsað mér að nota þetta snjallræði, sem ráðh. gat um. Ég álít, að ekkert sé unnið við það að fara krókaleiðir í þessum efnum.

Við sjálfstæðismenn höfum hrósað þessu frv. vegna þess, að við teljum það spor í rétta átt. En það er fleira gott, sem fylgir því. Það gefur fordæmi, sem vafalaust mun ekki fyrnast. Sósíalistaflokkarnir í landinu, Sósfl. og Alþfl., hafa nú staðfest, að stöðvun kaupgjalds sé skilyrði fyrir því, að hægt sé að stöðva verðbólguna. Þetta hafa þeir nú í fyrsta skipti viðurkennt með því frv., sem hér liggur fyrir. Hér eftir hljóta því allar ríkisstjórnir að fylgja þessu fordæmi undir svipuðum kringumstæðum.