16.10.1956
Sameinað þing: 1. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í B-deild Alþingistíðinda. (35)

Rannsókn kjörbréfa

Finnbogi R. Valdimarsson [frh.]:

Herra forseti. Vegna þess að hæstv. forseti óskaði að fresta fundi, áður en ég hafði lokið máli mínu síðdegis í gær, vil ég leyfa mér að byrja með því að rifja lítils háttar upp það, sem ég hafði sagt áður en ég lauk máli mínu. Ég hafði leyft mér að benda á það, að hv. ræðumenn Sjálfstfl, hefðu mjög lítið eða alls ekki gert grein fyrir því, samkv. hvaða ákvæðum kosningalaga þeir teldu, að Alþ. bæri að ógilda þau fjögur kjörbréf hv. þingmanna Alþfl., sem þm. Sjálfstfl. hafa flutt till. um að ógilda. Ég sagði, að mér mundi þykja fróðlegt að heyra álit hinna löglærðu þingmanna Sjálfstfl. á því, hvaða ákvæði þetta væru, með því að þá gæti það orðið ljósara fyrir mönnum, hvaða afleiðingar hv. tillögumenn ætluðust til, að till. þeirra, ef samþ. yrði, hefði, hvað þeir ætluðust til þess að gerðist næst, eftir að Alþ. hefði ógilt hin umdeildu kjörbréf. Ég ræddi svo nokkuð um það, hvað ógilding hinna umdeildu kjörbréfa þýddi, að mínu viti. Ég lýsti því, að ég teldi hana eina út af fyrir sig enga lausn á því deilumáli og því stjórnskipulega vandamáli, sem kom upp með kosningabandalagi Alþfl. og Framsfl. fyrir kosningar í vor og þá ekki sízt með úrskurði landskjörstjórnar um það deilumál, sem var kveðinn upp hinn 28. maí í vor. Ég gat þess, að ég gæti ekki séð, að ógilding kjörbréfanna hefði mikla pólitíska þýðingu fyrir skipan þessa þings, og það sem meira væri, að ég gæti ekki séð, að í ógildingu kjörbréfanna út af fyrir sig fælist nein trygging fyrir réttlátari skipan Alþingis í framtíðinni, en það tel ég aðalatriði þessa máls, eins og það liggur fyrir. Síðan vildi ég sýna fram á, að Alþ. sjálft gæti ekki gefið út ný kjörbréf í stað þeirra fjögurra kjörbréfa, sem það ætti að ógilda samkv. till. hv. sjálfstæðismanna. Það hlyti að koma samkv. ákvæðum kosningalaganna til landskjörstjórnar aftur að fjalla um málið og gefa þá út kjörbréf handa fjórum nýjum þm. En ég gat hins vegar ekki komið því heim, að meiri hluti landskjörstjórnar, hæstaréttardómarinn Jón Ásbjörnsson, formaður hennar, og lögfræðingar Framsfl. tveir, sem með honum skipa þann meiri hluta, sem stóð að úrskurðinum, sem kjörbréfin hafa verið gefin út eftir, mundi telja sér skyldara að fara eftir einfaldri ályktun Alþ. á þessum þingsetningarfundi en þeim ákvæðum laganna, sem þeir í vor og þegar þeir gengu frá úthlutun uppbótarsætanna töldu alveg ótvíræð, og að þeir mundu nú fyrir ályktun Alþ., sem setti þeim reglur um nýja úthlutun uppbótarsætanna, telja sér fært að úthluta uppbótarsætunum eftir ályktun Alþ., sem fæli í sér reglu, sem að dómi og samkv. orðum hæstaréttardómarans Jóns Ásbjörnssonar er hvergi gert ráð fyrir í kosningalögunum. En landskjörstjórn, þessi meiri hluti hennar, hefur talið sér það eitt skylt og rétt að fara eftir bókstaflegum ákvæðum laganna. Ég er ekki í vafa um það fyrir mitt leyti, að þessir lögfræðingar, sem hafa myndað sér skoðun á því, hvað þeir telji ótvíræða reglu laganna, muni telja sér skyldara að fara eftir henni en ályktun Alþ., sem gerð yrði nú, og muni ekki telja sér fært að úthluta kjörbréfum með öðrum hætti en þeir hafa þegar gert.

Það má að vísu benda á, að Alþ. ber nú að kjósa nýja landskjörstjórn. Það ber að gera þegar eftir hverjar almennar alþingiskosningar, og það mun vera eitt fyrsta verk, sem liggur fyrir þessu þingi, þegar það tekur nú loks til starfa. En ný landskjörstjórn er ekki kosin til þess að fjalla um kosningar, sem þegar hafa farið fram. Hún er kosin til þess að fjalla um þær kosningar, sem fara fram hér á eftir. Og ég get ekki með neinu móti séð, að nýkosin landskjörstjórn gæti fjallað um úthlutun uppbótarþingsæta í síðustu kosningum, sem hún var alls ekki kosin til þess að stjórna eða hafa eftirlit með. Ég hlýt því að komast að þeirri niðurstöðu, að ef hin umdeildu fjögur kjörbréf væru ógilt, þá væri það líklegast, ef ekki alveg víst, að hin fjögur uppbótarþingsæti yrðu að standa auð og óskipuð út þetta kjörtímabil. Hv. sjálfstæðismenn geta sagt sína skoðun á því, hvort þeim þyki líklegt, að hæstaréttardómari Jón Ásbjörnsson og lögfræðingar Framsfl. skipti nú um skoðun og úthluti þessum fjórum þingsætum eftir öðrum reglum en þeir telja réttar.

Að vísu má benda á það, að Alþ. getur breytt kosningalögunum, sett inn í þau ákvæði um kosningabandalög, t. d. bannað það, að einn eða fleiri flokkar geri með sér alger kosningabandalög, eins og Alþfl. og Framsfl. gerðu fyrir síðustu kosningar, eða að þegar flokkar gera með sér slík alger kosningabandalög, þá beri að viðhafa þá reglu við úthlutun uppbótarþingsæta að leggja saman atkvæðatölur flokkanna og úthluta síðan uppbótarsætum samkv. því, eða jafnvel að í slíku tilfelli væri þeim skylt að hafa aðeins einn landslista í kjöri. Allt þetta er til. En það hygg ég að allir viðurkenni, að slíkar breytingar á kosningalögum eða ný kosningalög, sem sett yrðu nú, gætu ekki verkað aftur fyrir sig og haft áhrif til ógildingar á úrskurði landskjörstjórnar frá 28. maí 1956. Það er því mín niðurstaða, að með ógildingu kjörbréfanna einni saman geti Alþ. ekkert áunnið. Með því ráði, að Alþ. aðeins ógilti kjörbréfin, gæti það komið í ljós, að Alþ. hefði ekki fullt og óskorað vald í þessu máli og Alþ. sýndi þá vanmátt sinn og jafnvel gerði sig hlægilegt.

Ég veit nú ekki, hvaða niðurstöðu hv. lögfræðingar Sjálfstfl. komast að um það efni, hvaða afleiðingar ógilding hinna umdeildu kjörbréfa eigi að hafa að lögum, en ekki getur verið vafi á því, að þar beri að fara að núgildandi kosningalögum, enda í þeim ákvæði um það, hvað gera skuli, ef kosning þm, er ógilt af einhverjum ástæðum. En það er mín skoðun, að það sé ekki úthlutun uppbótarsætanna í sjálfu sér, sem sé varhugaverð, eða misfellur í þessu tilfelli, heldur sé það framboðið við alþingiskosningarnar. Það eru framboðslistar flokkanna, sem misfellur voru á, en þeir voru grundvöllur, sem lagður var fyrir kjósendurna í kosningunum. M. a. fjallaði landskjörstjórn um meinta galla á framboðslista í tveimur kjördæmum, lista Alþfl. í Reykjavík og lista Framsfl. í Árnessýslu. Formaður landskjörstjórnar, Jón Ásbjörnsson, gerði till. um, að þessir framboðslistar væru ekki teknir til greina óbreyttir, en sú till. var felld, og réð þar úrslitum atkv. fulltrúa Sjálfstfl., hrl. Einars Baldvins Guðmundssonar, og varð því skoðun hæstaréttardómarans undir í því máli og framboðslistarnir í þessum kjördæmum, þar sem kosið er hlutfallskosningu, teknir til greina óbreyttir. Ég hefði talið, að ef kæra lægi fyrir um þetta atriði, þá væri ekki vafi á, hvernig með skyldi fara. Það yrði að kjósa upp í þessum kjördæmum.

En það er mjög nærri mér að hallast að því, að ef ógilda beri kjörbréf hinna landskjörnu þm., þá sé það vegna misfellna, sem voru á framboðslistum Alþfl. og Framsfl., landslistum þeirra, og þá þykir mér líklegast, að ef fallizt yrði á þá skoðun, þá væri ekki nema ein lausn til samkv. ákvæðum gildandi kosningalaga, en það væri að láta nýjar kosningar fara fram, og sýnist mér þá, að líklegt væri, að þær ættu að fara fram eftir ákvæðum, að mig minnir, 135. gr. kosningalaganna, innan mánaðar frá því, að ógilding kjörbréfanna ætti sér stað. En þá kemur spurning, sem að mínu viti heggur nokkuð nærri kjarna málsins: Hvernig ætti þá að tryggja það, að sömu misfellur gætu ekki átt sér stað aftur í þeim kosningum, sem færu fram á svo skömmum tíma samkv. ákvæðum kosningalaga? Ég get ekki betur séð en að það hljóti að vera aðalatriði þessa máls af hálfu þeirra, sem telja, að misfellur hafi verið á síðustu kosningum vegna kosningabandalags Alþfl. og Framsfl. og úrskurðar landskjörstjórnar um það, að slíkar misfellur geti ekki endurtekið sig. En hvernig ætti að fyrirbyggja það, ef það væri niðurstaðan, að nýjar almennar kosningar ættu að fara fram innan mánaðar? Ég veit, að hv. þm. Sjálfstfl., sem bera skyn á þetta mál, vita vel, að það er ekkert áhlaupaverk að setja ákvæði í kosningalög, sem fyrirbyggja með öllu alla misnotkun með kosningabandalögum, þ. e. a. s. einkum meðan núverandi ákvæði stjórnarskrárinnar eru í gildi.

Það má minna á, að hv. þm. Sjálfstfl. voru að því er virtist alveg á móti því fyrir rúmlega tveimur árum, að löggjöf yrði sett um kosningabandalög. A. m. k. man ég það, að þeir réðust af miklu offorsi á móti frv., sem kom fram hér á hv. Alþ. um kosningabandalög. En þó að Sjálfstfl. leggi nú mikla áherzlu á þær misfellur, sem voru í síðustu kosningum, þá er ég ekki alveg viss um, að hann sé reiðubúinn til þess að setja ný kosningalög, sem fyrirbyggi með öllu, að hægt sé að koma við nokkurri misnotkun í kosningum með kosningabandalögum. Í öllum sínum málflutningi um þetta mál hefur hann lagt höfuðáherzlu á það atriði, að kosningabandalag Alþfl. og Framsfl. í vor hafi verið algert. Því til samanburðar tekur hann svo kosningabandalag Sjálfstfl. og Bændaflokksins 1937, sem bent hefur verið á, og telur, að það hafi verið fullkomlega löglegt af þeirri einni ástæðu, að það var ekki algert í öllum kjördæmum landsins. M. ö. o.: Mér virðist, að Sjálfstfl. sé aðeins á móti því, að flokkar geri með sér alger kosningabandalög. Nú held ég, að öllum sé það alveg ljóst, að það var engin nauðsyn fyrir Alþfl. og Framsfl. í síðustu kosningum að hafa kosningabandalag sitt algert, meira að segja mætti fremur segja, að það hafi verið alveg óþarfi, og ég hygg, að forustumenn þessara flokka sjái það nú. Þeir hefðu getað náð sama árangri, sömu misnotkun á kosningalögunum, þó að þeir hefðu kosningabandalag sitt alls ekki algert, og jafnvel meiri árangri. Og ég veit, að það sjá það allir nú, að það er hægt að gera kosningabandalög í þeim tilgangi að hafa ranglega hag af að því er snertir úthlutun uppbótarsæta án þess að hafa slík kosningabandalög alger, meira að segja án þess að láta nokkuð yfir því, að um nokkurt kosningabandalag sé að ræða. Þetta er staðreynd og verður staðreynd, meðan núgildandi stjórnarskrá er í gildi og ákvæði hennar og kosningalaga um uppbótarsætin óbreytt.

Hv. þingmenn Sjálfstfl. hafa ekki séð enn neitt athugavert við kosningabandalag Sjálfstfl. og Bændafl. — og ég vil nú bæta við nazista 1937. Þeir sjá þess vegna væntanlega ekkert athugavert við nein kosningabandalög, sem eru gerð í þeim tilgangi að ná meiri hluta hér á hv. Alþ., þó að ekki standi meiri hluti kjósenda á bak við. En það er í mínum augum höfuðatriði þessa máls og skipulag þessara mála. Eða hef ég ef til vill Sjálfstfl. fyrir rangri sök í þessu efni? Viðurkennir Sjálfstfl. nú, að það eigi að ganga svo frá kosningalögum, að útilokað sé, að flokkur eða flokkar, sem hafa ekki meiri hluta kjósenda á bak við sig, geti fengið meiri hl. á Alþingi og þar með óskoraðan rétt til þess að stjórna landinu? Ég spyr. Hv. þm. Sjálfstfl. geta svarað. Er Sjálfstfl, reiðubúinn til þess að setja nú í dag kosningalög og gera þær breytingar um leið á stjórnarskrá, sem vitanlega gætu ekki gengið í gildi jafnsnemma og kosningalög, að útilokað sé, að einn flokkur eða flokkar geti fengið óskoraðan meiri hluta á Alþingi, ef þeir hafa ekki á bak við sig meiri hluta kjósenda? Þetta er spurningin. Þetta er aðalatriði málsins. Og ég bíð eftir svari hv. þm. Sjálfstfl. um þetta atriði.

Það hefur verið rætt mikið, með og móti, um úrskurð landskjörstjórnar. Ég get ekki séð, að hv. þm. Sjálfstfl. hafi í raun og veru lagt neina höfuðáherzlu á að færa óyggjandi rök fyrir því, að úrskurðurinn sé rangur, En ég vil segja í stuttu máli mína skoðun á því, hvers vegna hann er rangur.

Ég játa það, að frá þröngu, lögfræðilegu sjónarmiði er úrskurðurinn studdur mjög sterkum rökum af hæstaréttardómara Jóni Ásbjörnssyni í hans grg. En það er mín skoðun, að það megi ekki beita þrengsta lögfræðilegum skilningi í máli, þegar um er að ræða þýðingarmestu stjórnskipunarmál eins og þetta.

Ég vil benda á, að í því landi, sem talið er mikið lýðræðisland, í því landi í heiminum, þar sem skrifuð stjórnarskrá er mest í heiðri höfð og álitinn helgur dómur, svo mjög, að sumum þykir það liggja nærri nokkurs konar hjáguðadýrkun, þar er dómstóll til þess að skera úr, hvað sé stjórnskipunarlög og hvað ekki. Sá dómstóll hefur haft geysimikla þýðingu í pólitísku lífi þessa lands, þ. e. Bandaríkjanna, en því hefur verið lýst yfir margsinnis af mjög virtum og viðurkenndum dómendum í þessum æðsta rétti Bandaríkjanna, að þegar þeir kveði upp úrskurði sína um stjórnskipunaratriði þar, þá hafi þeir það sér í huga sem meginreglu, hvernig stjórnarskrárgjafinn, jafnvel menn, sem lifðu fyrir allt að 200 árum, hefði hugsað um það atriði, sem dómstóllinn er spurður um, Það er auðvitað regla um alla lögskýringu að leita að því, hvað fyrir löggjafanum vakti.

Það væri hægt um stjórnarskrá okkar að þessu leyti og ákvæðin í henni um uppbótarsætin, sem voru stofnuð með stjórnarskrárbreytingum og kosningalögum, sem gengið var frá á Alþingi 1933, að grennslast eftir því, hvað fyrir löggjafanum vakti. Ég tel, að það megi finna í umr. hér á hv. Alþingi um þessi atriði ummæli, sem sýni, að stjórnarskrárlöggjafinn hafði ekki í huga með stofnun uppbótarsætanna aðeins jöfnun milli þingflokka, heldur það höfuðatriði að tryggja, að meiri hluti á Alþingi væri jafnan í sem fyllstu samræmi við meiri hluta þjóðarinnar; ekki aðeins að þingmannatala flokka hér á hv. Alþingi væri, eins og segir í stjórnarskránni, í sem fyllstu samræmi við atkvæðatölu þeirra, heldur miklu fremur hitt, að meiri hlutinn hér á Alþingi væri ekki í ósamræmi við meiri hluta kjósenda.

Ég vil benda á, að það má finna ummæli eftir tvo menn, sem áttu sæti í þeim nefndum, sem undirbjuggu stjórnarskrá og kosningalög 1933, sem sýna þetta. Ég vil þar til nefna hæstv. fjmrh., Eystein Jónsson, og Vilmund Jónsson, sem átti sæti í landskjörstjórn og hefur átt það, held ég, alla tíð síðan núverandi skipun uppbótarsæta var tekin upp. Báðir þessir menn létu orð falla á þá leið í umr. um stjórnarskrá og kosningalög, sérstaklega uppbótarsætin, að þau væru til þess sett að tryggja, að meiri hluti á Alþingi væri jafnan í samræmi — ekki ef til vill í stærðfræðilegu hlutfalli alltaf — en í sem fyllstu samræmi við meiri hluta þjóðarinnar. Og úrskurður meiri hluta landskjörstjórnar er að mínu áliti rangur vegna þess eins, að hann gat leitt til þess, að Alþingi Íslendinga yrði svo skipað vegna úthlutunar uppbótarþingsætanna, að meiri hluti á Alþingi væri í engu samræmi við meiri hluta þjóðarinnar, að meiri hluta á Alþingi hefðu tveir flokkar, þeir flokkar, sem kosningabandalagið gerðu, en ekki hefðu ef til vill nema þriðjung kjósenda að baki sér. Það er frá þessu sjónarmiði, sem ég tel úrskurðinn rangan. Þessi árangur í kosningunum hefði verið í fullri andstæðu við yfirlýstan tilgang stjórnarskrárgjafans og tilgang hans með stofnun uppbótarþingsæta. Árangurinn af úthlutun uppbótarþingsætanna samkv. úrskurðinum hefði þá orðið þveröfugur við yfirlýstan tilgang stjórnarskrárgjafans með uppbótarþingsætunum.

Í þeirri skýru grg. um þetta mál, sem Vilmundur Jónsson lagði fram í landskjörstjórn, en hann var, eins og ég hef þegar bent á, í stjórnarskrár- og kosningalaganefnd 1933, segir hann m. a.: „Landskjörstjórn hlýtur að telja sér skylt að halda vörð um þau fyrirmæli stjórnarskrár og kosningalaga svo og anda þeirra fyrirmæla og tilgang, að uppbótarþingsætum verði úthlutað til raunhæfrar jöfnunar milli þingflokka“. Og það var með þessum rökum, sem hann gat ekki orðið sammála hæstaréttardómaranum Jóni Ásbjörnssyni og lögfræðingum Framsfl.

Það var nefnilega augljóst, að svo gat vel farið í kosningunum, með þeim grundvelli, sem lagður var með úrskurði meiri hlutans, að úthlutun uppbótarþingsætanna samkv. bókstaf kosningalaganna yrði til þess að skapa meiri ójöfnu milli þingflokka og jafnvel fullt misræmi milli meiri hluta á Alþingi og meiri hluta þjóðarinnar. Það vita allir menn, að það var ekki tilgangur með stofnun uppbótarþingsætanna 1933 að skapa meiri ójöfnuð né að gera meiri hættu á því en var fyrir þann tíma, að meiri hl. á Alþingi væri ekki í samræmi við meiri hluta þjóðarinnar. En þetta var það, sem hefði getað komið fyrir í kosningunum í vor, með þeim grundvelli, sem lagður var með úrskurði landskjörstjórnar. Við vitum í dag, að það fór sem betur fór ekki svo. Sá meiri hluti, sem nú hefur verið myndaður á Alþingi, hefur öruggan meiri hluta þjóðarinnar að baki sér. Núverandi stjórnarflokkar hafa rúmlega 53% atkv. að baki sér, stjórnarandstaðan, Sjálfstfl., aðeins rúmlega 42%. Tilgangi stjórnarskrárgjafans og löggjafans, að því er uppbótarsætin varðar, hefur því verið náð, og skipun Alþingis nú er í fullu samræmi við hann.

Það má meira að segja, segja, að því er mér virðist, að hverjir þeir tveir flokkar, sem gætu skapað með sér meiri hluta hér innan þings, hefðu einnig meiri hluta þjóðarinnar að baki sér, og það er meira en hefur verið hægt að segja um sum undanfarin þing.

Ég skal aðeins lítillega minna á atkvæðatölur og þingmannatölur flokkanna, þó að ég viti, að öllum sé það ljóst. Alþb. hefur 15850 atkv. og rúmlega 19% kjósenda, Alþfl. 15142 atkv. og rúmlega 18% kjósenda, Framsfl. nærri 13 þús. atkv., rétt yfir 15% kjósenda, en hann hefur að vísu 17 þm., eða um það bil 33% þingsæta. Hann er að þessu leyti undantekning, en það hefur hann jafnan verið á undanförnum þingum, svo að það er ekkert sérlega nýtt við það, Stjórnarflokkarnir samtals hafa 43900 atkv. að baki sér og 53% kjósenda, en þeir hafa 33 þm. af 52 eða milli 63 og 64% þingmanna. 4½% kjósenda fengu engan fulltrúa á Alþingi, sem kunnugt er, Sjálfstfl. fékk 35 þús. atkv. rúm og hefur rúmlega 42% kjósenda og 19 þm. Hann hefur að vísu ekki að þessu sinni þm. í fullu hlutfalli við kjósendatölu sína, en það er ekkert nýtt um flokka hér á hv. Alþingi á undanförnum þingum. Milli þingmannatölu flokka og atkvæðatölu þeirra hefur alltaf verið nokkurt misræmi á öllum þingum síðustu tvo áratugina eða síðan gildandi kosningalög voru sett. Við næstsíðustu kosningar, 1953, hefði t. d, þurft að úthluta 28 uppbótarþingsætum til þess, að fullur jöfnuður næðist milli þingflokka.

Ég man ekki eftir því, að Sjálfstfl. hafi hingað til fundið sárt til þessa ójafnaðar. Það eru nefnilega aðrir flokkar fremur en hann, sem hafa borið skarðan hlut frá borði. En nú finnur Sjálfstfl. sárt til þess, að hann hefur ekki tölu þingmanna í fyllsta samræmi og hlutfalli við kjósendatölu sína. Ég man nú ekki eftir því, að hann hafi flutt hér neina till. á undanförnum árum eða áratugum um að bæta úr þessu misræmi, sem jafnan hefur verið. En ég vil nú enn spyrja hv. þm. hans: Er Sjálfstfl. nú kominn á þá skoðun, að stærð flokka hér á hv. Alþingi eigi jafnan að vera í hárnákvæmu hlutfalli við tölu kjósenda? Geri hann kröfu til þess fyrir sjálfan sig, þá geri hann einnig kröfu til þess fyrir aðra. Það væri hið fyllsta réttlæti.

Eru nú hv. þm. Sjálfstfl. komnir á þá skoðun, að þetta réttlæti verði að nást og við annað verði ekki unað. Ef svo er, þá ættu þeir að lýsa því hér yfir í þessum umr. Hér væri fyllsta tækifæri til þess. En þetta misræmi og þessi ójöfnuður, sem enn á sér stað og er ekkert nýtt um skipun Alþingis, því að það hefur verið svo meira og minna síðustu 22 árin og raunar lengur, stafar af ákvæðum stjórnarskrárinnar annars vegar og svo einkum af því, að fólkið hefur flutzt og flyzt mjög ört til í landinu á síðustu áratugum, síðan ákvæðum stjórnarskrár og kosningalaga var síðast breytt.

Uppbótarsætin, þó að þau væru alltaf 11, sem ekki á alltaf að vera eftir lögunum, eru orðin ófullnægjandi til þess að bæta úr þessu misræmi, en það stafar af því, að þetta misræmi stafar af kjördæmaskipuninni, sem er orðin úrelt. Misræmi milli flokkanna hér á hv. Alþingi er ekkert á móti því misræmi, sem er orðið á milli fulltrúa héraða í landinu. Ég vildi aðeins benda á nokkur dæmi, sem sýna vel þetta misræmi. Í Kópavogi voru við síðustu kosningar ámóta margir kjósendur og í þremur kjördæmum, sem kjósa þrjá þm. Í Keflavík voru einnig ámóta margir kjósendur og í þremur kjördæmum, sem kjósa aðra þrjá þm. Þessir tveir bæir hafa kjósendatölu á móts við sex kjördæmi, sem kjósa sex þm. Í Gullbringu- og Kjósarsýslu allri, að þessum bæjum meðtöldum vitanlega, voru ámóta margir kjósendur við síðustu kosningar og í 8 kjördæmum, sem samtals kjósa 10 þm. Í Kópavogi einum bættust við á rúmlega hálfu öðru ári álíka margir kjósendur og allir kjósendur á Seyðisfirði. Í Rvík og Gullbringu- og Kjósarsýslu eru samanlagt ámóta margir kjósendur og annars staðar í landinu. Gullbringu- og Kjósarsýsla og Reykjavík kjósa 9 þm., kjördæmakosna, hin 26 kjördæmin 32 þm. Misræmið milli héraða er augljóst, Það er miklu meira nú en það hefur nokkurn tíma verið og hefur þó oft verið mikið. Það er mín skoðun, að það sé orðið svo mikið, að það verði ekki lengur við það unað að endurskoða ekki þá kjördæmaskipun, sem er bundin í stjórnarskránni. Ég álít, að það sé einnig augljóst, að eftir að svo hatrammar deilur hafa átt sér stað um skilning gildandi kosningalaga, þá sé óhjákvæmilegt að taka kosningalögin til endurskoðunar.

Ég hef hér lýst þeirri skoðun minni, að ógilding þeirra fjögurra kjörbréfa, sem hér er deilt um, ein út af fyrir sig hafi nauðalitla þýðingu og sé engin lausn á þeim stórfelldu vandamálum, sem hafa skapazt og eru augljós hverjum hv. þm. varðandi þessi mál, skipun kjördæma og kosningalaga í landinu. Um þau mál er það aðalatriði, að það verði meginregla, að Alþingi sé jafnan svo skipað, að meiri hluti þar hafi á bak við sig meiri hluta þjóðarinnar. Þessi meginregla ein tryggir lýðræði í landinu og getur orðið grundvöllur þingræðis. Þetta hvort tveggja, lýðræði með fullu þingræði, vilja menn hafa. Því telja allir flokkar sig fylgjandi. Ég hygg, að ef það kæmi fyrir, að einn flokkur hefði meiri hluta hér á Alþingi, en alls ekki meiri hluta kjósenda, þá mundi öðrum flokkum, sem hér væru, þykja þungt að búa undir því.

En hví þá ekki að ganga nú að endurskoðun stjórnarskrár og kosningalaga með þessa meginreglu í huga? Ef hv. Sjálfstfl. vildi nú lýsa því yfir, að hann vilji nú ganga að endurskoðun kosningalaga og stjórnarskrár með þessa meginreglu að leiðarstjörnu, þá teldi ég það mikils virði. Þá gæti það ekki komið fyrir eftir slíka endurskoðun, sem gat komið fyrir í kosningunum í sumar, að flokkur eða flokkar fengju meiri hluta hér á hv. Alþ. með rúmlega þriðjung kjósenda á bak við sig, En þetta fordæmir Sjálfstfl. réttilega, að því er mér virðist, mjög þunglega, Hví þá ekki að halda þeirri stefnu áfram og lýsa því yfir hér sem stefnu Sjálfstfl. í þessum málum öllum, að hann vilji þá breytingu á stjórnarskrá og kosningalögum, að slíkt, að minnihlutaflokkur með þjóðinni geti fengið meiri hluta á Alþingi, geti aldrei komið fyrir?

Ég álít að vísu, að Alþingi beri skylda til þess og Alþingi hafi rétt til þess að hafa æðsta úrskurðarvald í öllum málum þjóðarinnar. Ég veit að vísu, að það vald er takmarkað af stjórnarskrá okkar, en í samræmi við þetta álit ég líka, að það eigi að vera hæstiréttur í þessum málum. En ég vil búa svo um þann dóm, sem Alþingi sem hæstiréttur í þessum málum kveður nú upp í því deilumáli, sem hér er til umræðu, að það verði alveg útilokað, að það freisti nokkurs flokks að gera það sama og kosningabandalag Alþfl. og Framsfl. fyrir kosningarnar í vor. Þeim árangri tel ég að verði ekki náð með því einu að ógilda hin umdeildu kjörbréf og langt frá því. Það er mín skoðun, eins og ég hef þegar lýst, að það sé engin lausn í því máli, allsendis ófullnægjandi. Þar getur ekkert dugað nema endurskoðun kosningalaga og stjórnarskrár.

Hv. þingmenn Sjálfstfl. hafa lesið upp úr blöðum Alþb. harðorð ummæli um kosningabandalag Alþfl. og Framsfl. í vor, þ. á m. ummæli í blaði, sem ég hafði ritstjórn á fyrir kosningarnar. Ég vil lýsa því yfir, hv. sjálfstæðisþm. til ánægju, að ég stend við það og er enn á sömu skoðun eins og ég setti þar fram. Ég tel það að vísu enga skömm að skipta um skoðun, ef menn sjá ný rök. Ég hef ekki gert það í þessu máli. Ég álít, að það eigi að fyrirbyggja, að önnur eins deila eins og átti sér stað fyrir kosningarnar í vor um kosningabandalög geti átt sér stað. Ég álít, að það eigi að fyrirbyggja það með öllu, að kosningabandalög og flokkar — og flokkar, þótt þeir hafi ekki nein kosningabandalög, geti náð því marki, sem þetta kosningabandalag Alþfl. og Framsfl. setti sér, en náði ekki, að ná meiri hluta hér á hv. Alþingi, þótt það hafi ekki meiri hluta kjósenda.

Ef Sjálfstfl, er á sömu skoðun, þá fagna ég því. En ég vil að síðustu benda á það, að Alþb. hefur sem þingflokkur gert sitt til þess að standa við þá skoðun, sem það setti fram fyrir kosningarnar í vor, að það verði fyrirbyggt, ekki aðeins að misnotkun kosningabandalaganna, eins og þau eru, eigi sér stað, heldur að þau verði fullkomnuð, gerð fullkomnari en þau eru. Því er það, að það er fyrir tilstilli Alþb., að það ákvæði var sett í samning núverandi stjórnarflokka, að stjórnarskrá og kosningalög yrðu tekin til endurskoðunar á starfstíma þessarar stjórnar og að flokkarnir muni vinna saman að samkomulagi um þau mál.

Ég hef góða trú á því, að Alþfl. og Framsfl. vilji ganga að því nauðsynjaverki að endurskoða stjórnarskrá og kosningalög með það fyrir augum að bæta þar um frá því, sem nú er, svo að lýðræði og þingræði, sem þeir unna mjög, verði betur tryggt en nú er.

Það er trú mín, að menn sjái það fyrr en seinna, að enginn græðir til lengdar á ranglætinu. Ég veit það um annan þessara flokka, að hann hefur það á sinni stefnuskrá, að fullu réttlæti verði náð í þessum málum, Það er Alþfl. Ég veit ekki til þess, að hann hafi enn gengið frá því atriði stefnuskrár sinnar, að landið eigi helzt að vera allt eitt kjördæmi og þannig tryggt fullkomlega rétt hlutfall milli styrks flokka meðal þjóðarinnar og á Alþ. Ég trúi því, að báðir þessir flokkar, einnig Framsfl., þó að hann hafi um alllanga hríð haft hag af núverandi skipan þessara mála, muni ganga að því verki, sem þeir hafa samningsbundið sig um að ganga að, með það í huga að skapa hér meira réttlæti og að það ranglæti, mesta ranglætið, sem fyrir getur komið, að meiri hluti Alþ. sé í engu samræmi við meiri hluta þjóðarinnar, geti ekki átt sér stað.