22.11.1956
Neðri deild: 19. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í B-deild Alþingistíðinda. (471)

11. mál, skipakaup

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég gerði nokkra grein fyrir afstöðu minni til þessa máls við 2. umr. Ég benti þá á það, að það væri nokkuð óljóst af frv., hvað fyrir hæstv. ríkisstj. vekti með tilliti til rekstrarfyrirkomulags togaranna, sem nú á að kaupa. Þær fyrirgreiðslur, sem gert er ráð fyrir að verði látnar í té með tilliti til lána út á togarana, virðast til þess benda, að hæstv. ríkisstj. sé þeirrar skoðunar, að annað form en ríkisútgerð mundi vera það heppilegasta, því að ef ríkisútgerðin væri talin hentugasta rekstrarfyrirkomulagið, væri náttúrlega engin skynsamleg ástæða til þess að vera að greiða fyrir slíkum lánum til togarakaupanna. Á hinn bóginn benti ég á það, að hætt væri við því, þar sem ríkisútgerðin er þannig auglýst fyrir fram með 4. gr. þessara laga, að hin ýmsu byggðarlög yrðu ófús til þess að leggja fram fé til togarakaupanna, ef þau gætu átt von á því, að togarar gerðir út af ríkinu kæmu hvort eð væri til þessara staða. Þess vegna benti ég á það, að heppilegast hefði verið að sleppa 4. gr. frv., en hins vegar hefði ekkert verið því til fyrirstöðu, að ákveðið yrði með sérstökum lögum að stofna til ríkisútgerðar, svo sem ráð er fyrir gert. Ég get því fyllilega tekið undir það með hv. 2. þm. Eyf., að æskilegt væri, að hæstv. ríkisstj. gerði grein fyrir því, hvað fyrir henni vekti í þessum málum, en í því efni virðist nú vera talað fyrir daufum eyrum, því að ráðherrastólarnir eru allir tómir, eins og sjá má. En með tilliti til þessa mun ég að sjálfsögðu greiða atkv. þeirri brtt., sem fram er komin frá hv. 2. þm. Eyf. Verði hún felld, mundi ég greiða atkv. brtt. frá hv. 2. þm. Reykv. um, að 4. gr. falli niður, Með því er þó ekki sagt, að ég sé því algerlega andvígur, að ríkisútgerð togara verði hafin, en að sjálfsögðu mundi ekkert vera því til fyrirstöðu að fara síðar inn á þá braut, ef nauðsynlegt er talið með tilliti til atvinnujöfnunar í landinu, þó að heimild til ríkisútgerðar sé ekki tekin upp í þetta frumvarp.

Varðandi brtt. frá hv. þm. Borgf. (PO), þá er skoðun mín sú, að ef út á þessa braut er á annað borð farið, mundi ég telja það eðlilegast, að enginn landshluti væri undanþeginn í því efni, ef þær aðstæður, sem gert er ráð fyrir, eru að öðru leyti fyrir hendi, og þar að auki er það, að mér skilst það vera nokkurt ályktamál, hvar Vesturland byrji, þannig að það eðlilegasta mundi vera, að mínu áliti, að gera þar engar undantekningar. Þar sem að verulegu leyti var samt komið til móts við þetta sjónarmið með brtt. þeirri, sem fyrir liggur nú frá fjhn., gerði ég ekki ágreining, en ég mundi þó áskilja mér rétt til þess að greiða till. hv. þm. Borgf. atkv., þegar hún verður borin upp.