27.11.1956
Efri deild: 19. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í B-deild Alþingistíðinda. (482)

11. mál, skipakaup

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég hafði því miður ekki ástæðu til þess að hlusta á framsögu, sem mér skilst að hafi verið flutt af hæstv. forsrh. fyrir þessu máli, og hefði sennilega látið hjá líða við þessa umr. málsins að taka þátt í þessum umr., en þessi stutta aths. liggur mér við að segja, sem hæstv. forsrh. flutti rétt núna, gaf mér ástæðu til þess að leiðrétta nokkuð hans misskilning á þessu sviði.

Hvað frv. sjálft snertir verð ég fyrir mitt leyti að segja það, og tek þar undir með hv. þm. N-Ísf., að ég tel það fagnaðarefni og mun fylgja því, að stigið er hér stórt spor til að sjá fyrir því að auka togaraflota landsmanna frá því, sem nú er. Dæmin eru deginum ljósari með togaraflotann, eins og með önnur skip, að bæði eldast þau og svo ber margt til, sem heggur skarð í þá eign landsmanna, eins og raunar margt annað. En það er sérstaklega hvað snertir fiskiskipin, togarana og bátana, að hafa verður það hugfast að sjá alltaf fyrir sem jafnastri endurnýjun og viðbót, til þess að þjóðin að þessu leyti til dragist ekki aftur úr með þessi mjög svo nauðsynlegu framleiðslutæki. Af þessum ástæðum er ég í heild sinni fylgjandi þessu frv., eins og ég var á sínum tíma, þegar nýsköpunarstjórnin, sem svo var kölluð, starfaði hér, fylgjandi því, að þá væri aukinn togarafloti landsmanna, vöruskipafloti landsmanna og bátafloti landsmanna.

Ég verð að fagna því enn fremur, hvaða straumhvörf hafa orðið í hv. Framsfl. og hjá forustumönnum hans, hvað það snertir sérstaklega að auka togaraflotann, því að það söng ekki þann veg í þeim tálknum, þegar nýsköpunarstjórnin starfaði hér og Framsfl. var í stjórnarandstöðu. Mér var vel kunnugt um þetta, vegna þess að ég var í nýbyggingarráði og var formaður þess, og einmitt það ráð hafði með höndum að framkvæma þá stjórnarstefnu, sem var fólgin í því að endurnýja togarana, endurnýja bátana og endurnýja atvinnutæki landsmanna yfirleitt, þar með vöruskipaflotann.

Hæstv. forsrh. var eitthvað að bera blak af hv. þm., sem á sæti í Nd., út af einhverjum ummælum hans, sem hefðu átt að vera lítilsvirðandi um þessar framfarir, sem nýsköpunarstjórnin á sínum tíma hafði með höndum, og vildi bera af honum blak í því efni. Ég skal ekkert um það dæma, hvort hann hefur haft einhvern annan formála að sínum frægu ummælum: „fyrst var spýta og svo var spýta og svo var spýta í kross“. Það getur vel verið, að hann hafi eftir á og flokkur hans fundið ráð til þess að láta þetta eiga við eitthvað annað. En það er annað í þessu, sem er vitanlegt, að flokkur hæstv. forsrh. sýndi á þessu tímabili, sem nýsköpunarstjórnin starfaði og nýsköpunartogaranna var aflað, því máli mikla andúð, og þau ummæli komu mjög víða fram.

Það þarf ekki lengra að vitna en í orð hæstv. fjmrh., Eysteins Jónssonar, þegar hann var að tala um togarana og sagði, að gumsið mundi svo lenda á ríkissjóði „fyrir rest“.

Nú er það annað en þessi ummæli, sem er ljóst og er bókað í fundargerðum nýbyggingarráðs, að þegar tekin var ákvörðun um og alvarlegasta sporið var í þessu stigið að kaupa 30 togara, sem síðar urðu 32, þá skarst fulltrúi Framsfl. í nýbyggingarráði úr leik og greiddi ekki atkvæði. Hann vildi ekki taka þátt í þessari framkvæmd, vildi ekki taka þátt í þessari ráðstöfun og hefur þar sjálfsagt verið í fullu samræmi við sinn flokk, enda var það ekkert leyndarmál og þýðir ekkert nú að fara að draga neina fjöður yfir það, að það var engin vinsemd gegn framkvæmdum nýsköpunarstjórnarinnar í þá daga af hálfu Framsfl., hvorki að því er snertir endurnýjun togaraflotans né um mörg önnur störf, sem þá voru mjög á baugi og framkvæmd voru af nýbyggingarráði, t. d. eins og aukning hraðfrystihúsanna o. s. frv. Það var talið, ekki kannske einasta af Framsfl., heldur mörgum öðrum, að þar væri allt of víða farið og allt of mikið gert til þess að eyða fé í þessi fyrirtæki.

Nýsköpunartogararnir munu hafa kostað eitthvað rúmar 3 millj. á þeim tíma. Mér skildist á því, sem hæstv. ráðh. sagði, að það hefðu ekki verið keypt sem heppilegust skip að hans dómi. Vel má það vera, og það verður alltaf þannig, að mörgum árum síðar, þegar litið er á einhverjar framkvæmdir, þá má líta á þær frá nokkuð öðru sjónarmiði en þegar þær eru gerðar. Þetta mun hafa verið á árunum 1944–1946, og það eru nú allmörg ár liðin síðan, en nýbyggingarráð fór þar og ríkisstj. eftir þeim bendingum og álitum, sem hæfustu menn, sem þá voru taldir í útgerðarstétt, í skipasmíðastétt og víðar, töldu að rétt væri. Teikningar og áætlanir voru yfirfarnar af þessum mönnum og þeirra ráð höfð í hvívetna. Það var sem sagt reynt að starfa víðar um framkvæmdir og gerðir hjá þessari þjóð, það var reynt að framkvæma þessa hluti eins vel og hægt var að beztu manna yfirsýn.

Nú er það að vísu rétt, að mikil framför hefur síðan orðið í þessum skipasmíðum og margar tæknilegar umbætur komnar á togara, sem nú eru byggðir, og þá vænti ég, að allir séu sammála um það, eins og líka hv. þm. N-Ísf. (SB) benti á, að það sé ekki nema hollt og rétt að hagnýta sér á hverjum tíma þær fyllstu og beztu tæknilegar nýjungar og breytingar, sem völ er á, og það var líka gert, þegar nýsköpunartogararnir voru keyptir undir stjórn nýsköpunarstjórnarinnar.

Þá minntist hæstv. ráðh. á það, að við hefðum ekki þá valið beztu tegund af skipum eða beztu gerð að því leyti til, að það hefði verið mest haldið sig við eina gerð. Að því leyti er stærðir skipsins snertir og teikningar og því um líkt, þá var, þegar í svona stórt var ráðizt, nokkuð sjálfgert að halda sér við gerð, sem átti sem bezt við á sem flestum stöðum. En ef það hefur verið meint með orðum hæstv. ráðh., að nýbyggingarráð og nýsköpunarstjórnin þá hafi gengið algerlega fram hjá því, sem var að gerast á öðrum sviðum, eða því, sem var að gerast á þessu sviði með umbætur á skipum og vélum, þá er það heldur ekki rétt, því að það voru keyptir af nýbyggingarráði tveir dieseltogarar, eða m. ö. o. það voru valdar dieselvélar og keyptar í tvo af þessum togurum, sem keyptir voru, fyrir utan það að Guðmundur Jörundsson á Akureyri valdi sjálfur sína gerð og hans skip var ekki beint byggt eftir nýbyggingarráðsteikningunum. Hann tók líka dieselvél.

Í þessum flota, sem keyptur var undir stjórn nýsköpunarstjórnarinnar, voru tveir dieseltogarar, En þá var svo hugarfar manna hér í landi, þeirra manna, sem fremstir stóðu á þessu sviði, að þeir töldu mjög vafasamt, að dieseltogarar mundu reynast vel. Það var ekki komið ýkjalangt hjá öðrum þjóðum að nota dieseltogara á þeim tíma, þó var það til. Hér heima hölluðust menn meira, líka vegna gamallar reynslu, að gufukraftinum, en allir voru sammála um það, að þó að gufuvélar væru notaðar, þá yrði að hafa olíukyndingu, en ekki kolakyndingu. Svo langt voru menn komnir þó, eða reynslan hafði sýnt fram á það, að það var ekki heppilegt að halda sér við kolakyntu vélarnar einvörðungu.

En það var sem sagt lítil trú á dieseltogurum, og það var með naumindum, að nýbyggingarráð fékk þá til að taka dieseltogarana, t. d. bæjarútgerð Reykjavíkur, sem þeir lentu hjá. Þeir höfðu ekki trú á þeim og töldu, að við værum að nota þá til tilrauna í þessu skyni.

Þá minntist hæstv. ráðh. á það, að á þeim tíma hefði ekki verið neitt verulega hugsað um það að dreifa togurunum út um land. Það var önnur meginvillan í hans fáu orðum, Ég geri ráð fyrir, að hann hafi ekki getað lokað augunum fyrir því, að þegar nýbyggingarráð skipti togurunum út um landið og milli Reykvíkinga og annarra landsmanna, á þessum tíma, sem nýsköpunarstjórnin starfaði, þá fengu margir kaupstaðir á landinu togara, sem aldrei höfðu átt togara fyrr. Það var rétt, sem kom fram í ræðu hv. þm. N-Ísf., að í flestum tilfellum voru það bæjarfélögin, sem stóðu að þessum kaupum úti um land og sóttu þar fastast á.

Til þess að sýna fram á þetta gæti ég lagt fram fundarbækur nýbyggingarráðs um skiptingu togaranna, því að það var gert svo að segja á einum degi. Sú athöfn fór fram hér á einum degi að skipta þessu niður endanlega og mun sýna það, að hæstv. ráðh. fer villt í því, ef hann heldur, að það sé fyrst núna eða hafi verið fyrst í tíð Stefáns Jóhanns-stjórnarinnar, sem hugsað væri nokkuð um að dreifa togurum, nýtízku togurum, út um landið. Það er kórvilla.

Á þessum tíma og fyrir milligöngu nýbyggingarráðs, nýsköpunarstjórnartímabilinu, sem kallað er, fékk t. d. Ísafjörður einn eða tvo, ég kann það ekki svo vel utan að nú, en hann fékk togara. Akureyri fékk víst tvo togara, Akranes fékk togara, Reykjavík fékk togara, Vestmannaeyjar fengu togara, heldur tvo en einn, Seyðisfjörður fékk togara, og Norðfjörður fékk togara, tvo að mig minnir, Ég skal til fullnustu á þessum upplýsingum leggja fram við 2. umr. þessa máls útdrátt úr fundarbókum þeim, sem um þetta fjölluðu á sínum tíma, en þær upplýsingar, sem ég nú þegar hef gefið, sýna, að það var þá þegar fetuð sú braut að reyna að láta aðra en Reykjavík, reyna að láta landið í heild sinni njóta afrakstursins af þessum skipum.

Hitt er svo annað mál, hvernig það hefur gefizt á hinum ýmsu stöðum, og snertir ekki út af fyrir sig þær skiptingaraðgerðir, sem fram fóru, þegar togararnir komu til landsins. En ég tel mig hafa með þessu sýnt fram á tvær meginvillur í ræðu hæstv. forsrh.: þá fyrri þá, að aldrei á þeim tíma hafi verið hugsað um nema eina tegund skipa eða véla, og í öðru lagi, að nýbyggingarráð hafi ekki, eins og hann vildi vera láta, brotið ísinn með að dreifa togurunum út um land. Það var einmitt á þeim árum brotið blað í þessum efnum. Togaraútgerðin hafði verið frá öndverðu bundin við Faxaflóa eða réttara sagt Reykjavík og Hafnarfjörð, en á tímum nýbyggingarráðs er stigið stórt og alvarlegt spor, það stærsta, sem stigið hefur verið til þessa, í því að láta hina dreifðu byggð njóta þessara tækja, og það var ekki látið þar við sitja einvörðungu, heldur líka með því að styrkja byggingu á hraðfrystihúsum reynt að sjá fyrir því, að hægt yrði að nýta aflann, þegar á land kæmi.

Hitt er svo bara blaðaskvaldur eða margendurtekningar á ummælum einhvers fyndins þingmanns í Framsfl. um þessa togarasmíði á þeim tíma, en er ekki atriði í málinu, en það er atriði í málinu, sem er skjalfest og óhaggað, að þegar það spor var stigið að kaupa togarana, vildi fulltrúi framsfl. af ástæðum, sem hæstv. forsrh. hlýtur að þekkja bezt, ekki taka þátt í því verki og greiddi ekki atkvæði um það mál og var sá eini vitaskuld í nýbyggingarráði, sem ekki vildi greiða atkvæði um málið. Hinir voru vitaskuld allir fylgjandi því, og þess vegna fór framkvæmdin fram eins og vera bar.

Það var svo náttúrlega strax á tímum stjórnar Stefáns Jóhanns, að það virtist vera að fæðast annað hugarfar í hópi framsóknarmanna, því að þá er bætt við eða réttar sagt keyptir að nýju togarar, ég held tíu talsins, fyrir atbeina ríkisstj. og í því tók Framsfl. þátt í ríkisstj, eins og aðrir.

Nú er svo komið, að hæstv, forsrh., sem er formaður Framsfl., flytur hér frv. um enn þá nýtt spor og það stórt í þessu máli, þar sem ætlazt er til að kaupa 15 togara. Það er mikið fagnaðarefni fyrir mig og aðra slíka, sem árum saman lágu undir ámæli fyrir þær framkvæmdir, sem nýsköpunarstjórnin hafði með höndum á þessu sviði, ámæli, sem átti upptök sín aðallega hjá stjórnarandstöðu frá þeim tíma, Framsfl.

Ég veit ekki, í hvaða nefnd verið hefur hugsað að þetta mál færi, og get geymt mér að tala um einstök atriði málsins, þangað til það kemur kannske í þá nefnd, sem ég er í, eða þá að nefnd kemur með álit í því, en ég vildi nota tækifærið til þess, eins og ég gerði í upphafi míns máls, að lýsa yfir því, að ég er fyllilega sannfærður um, að þrátt fyrir það þótt þessir togarar verði af mörgum ástæðum margfalt dýrari en togararnir voru á tímum nýsköpunarstjórnarinnar, þá beri ekki að hika neitt í því að leggja þegar drög að því að koma þessu máli í framkvæmd.

Verðlaginu á hinum útlenda vettvangi á þessum skipum getum við ekki breytt. Það er vitaskuld orðið allt annað en það var fyrir nokkrum árum og kannske breytist með hverju ári. Svo er líka annað, sem hefur breytzt, og það er það, að með aukinni tækni eru miklu meiri líkur til, að nú megi byggja skip, sem hafi yfirburði yfir þau skip, sem við eigum nú, heldur en var fyrir nokkrum árum. Það, sem kemur hér til greina náttúrlega, er stóraukinn kostnaður, en það kemur líka til greina, að það verður stóraukin tækni og ýmsar nýjungar, sem síðan hafa verið fundnar upp, sem geta létt undir með reksturinn.

Um einstök atriði frv. er ekki rétt að fara að tala í þessari umr., og ég mun þess vegna geyma mér það, en ég taldi mér skylt sökum kunnugleika míns á málinu að andmæla höfuðvitleysunum hjá hæstv. forsrh. og mun gera það, með leyfi hæstv. forseta, rækilegar við síðari umr. málsins, ef því skyldi verða haldið fram, að ég hefði sagt nokkuð skakkt frá því, sem gerðist í þessu sérstaka máli á tímum nýsköpunarstjórnarinnar.