19.12.1956
Efri deild: 34. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í B-deild Alþingistíðinda. (527)

86. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Frv. eða frumvörp svipuð því, sem hér liggur fyrir, hafa stundum áður verið lögð fram af hálfu hæstv. ríkisstj. undanfarin ár. Ég geri ráð fyrir því, að ekki verði talið óeðlilegt, að þessi háttur verði á hafður nú, að ríkisstj. verði veitt sú heimild, sem frv. fer fram á, þar sem auðsýnt er nú, að ekki verður unnt að ljúka afgreiðslu fjárlaga fyrir áramót. Það er auðsætt, að meðan ekki er fyllilega séð, hverjar leiðir verða farnar til lausnar ýmsum vanda í efnahagsmálum þjóðarinnar, þá er erfitt um vik að undirbúa fjárlög eða ganga frá fjárlögum. Ég geri þess vegna ráð fyrir, að eðlilegt verði talið, að þetta frv. verði samþykkt.

En ég get ekki látið þetta mál fara svo út úr þessari hv. d., að ég minni ekki á það, sem gerðist hér á hv. Alþ. á s. l. ári. Þá stóð einnig þannig á, að í undirbúningi voru ráðstafanir til stuðnings útflutningsframleiðslunni. Þeim ráðstöfunum eða undirbúningi þeirra var þá ekki lokið fyrir áramót, Af hálfu Sjálfstfl. var því þá haldið fram, að ekki væri unnt að afgreiða fjárlög, meðan þannig stæði á, það yrði að tengja saman fjárlagaafgreiðsluna og afgreiðslu almennra ráðstafana til stuðnings útflutningsframleiðslunni. Flokkur hæstv. fjármálaráðherra, þáverandi fjmrh. og núverandi fjmrh., tók þessari afstöðu Sjálfstfl. þá með fullum fjandskap. í blöðum Framsfl. voru sjálfstæðismenn dregnir til ábyrgðar fyrir það, að ekki tækist að ljúka fjárlagaafgreiðslu fyrir jól. Það var deilt mjög harðlega á sjálfstæðismenn fyrir þetta og það talið sýna ábyrgðarleysi þeirra í fjármálum, að þeir skyldu ekki vilja verða við þeirri sjálfsögðu kröfu fjmrh. að hjálpa honum til þess að ljúka fjárlagaafgreiðslu fyrir jól.

Nú gerist það, að hæstv. fjmrh. sjálfur leggur einu ári seinna fram frv. um nákvæmlega þá málsmeðferð, sem sjálfstæðismenn töldu eðlilega í fyrra, en voru þá svívirtir fyrir af hv. framsóknarmönnum.

Ég tel rétt, að þetta komi fram nú, áður en þetta mál fer út úr hv. þingdeild. Það er alveg óþarfi að láta slík veðrabrigði sem orðið hafa hjá hæstv. fjmrh. og flokki hans liggja í láginni. En það sýnir bara, að hv. framsóknarmönnum finnst sér stundum sjálfum leyfilegt að gera ýmislegt, sem þeir telja öðrum til áfellis. Þegar sjálfstæðismenn benda á það, að eðlilegt sé, að fjárlagaafgreiðsla og undirbúningur ráðstafana til stuðnings útflutningsframleiðslunni fari saman á árinu 1965, þá á það að þýða ábyrgðarleysi og annað verra af þeirra hálfu í munni framsóknarmanna. Þegar þeir sjálfir telja rétt að hafa þennan hátt á, þá sýnir það auðvitað ábyrgðartilfinningu og glöggan skilning á því, hvernig á að halda á málum og hvernig á að láta mál ganga í raun.

Ég skal ekki orðlengja um þetta frekar, en endurtaka það aðeins, að við sjálfstæðismenn teljum það eðlilegt nú, eins og við töldum það eðlilegt á s. l. ári, að þetta tvennt haldist í hendur, afgreiðsla fjárlaga og endanlegar ráðstafanir til stuðnings útflutningsframleiðslunni, sem hafa stórkostleg áhrif að sjálfsögðu á allan hag og afkomu ríkisins. Auk þess má á það benda, að meðan unnið hefur verið að undirbúningi þeirra ráðstafana, sem lagt hefur verið fram frv. um í dag, hefur fjvn. alls ekki getað sinnt störfum sínum eins og þurft hefði, ef átt hefði að afgreiða fjárlög fyrir jól.