29.10.1956
Neðri deild: 7. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í B-deild Alþingistíðinda. (552)

12. mál, festing verðlags og kaupgjalds

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er eitt þeirra mála, sem þegar er orðið svo mikið rætt, áður en það kemur til meðferðar Alþ., að það er raunverulega að bera í bakkafullan læk að fjölyrða mikið um það, nema þá sérstakt tilefni gefist til.

Efni þessa frv. er, eins og alkunnugt er, það, að ríkisstj. hefur ákveðið að festa verðlag og kaupgjald í landinu um fjóra mánuði, frá 1. sept. til 31. des. n. k. Allar greinar frv. fjalla um þetta, í fyrsta lagi um bindingu kaupgjaldsins við vísitöluna 168 að viðbættum 10 stigum, í framhaldi af því um bindingu kaupgjaldsins í verðlagsgrundvelli landbúnaðarins að því er snertir laun bónda og verkafólks hans, og einnig að því er snertir álagningu í heildsölu og smásölu á landbúnaðarvörur. Þar er kaupgjaldið einnig miðað við 168 stig að viðbættum 10 stigum.

Í 4. gr. frv. eru svo ákvæði um verðlagsstöðvunina. Í þeirri grein er bannað til 31. des. 1956 að hækka söluverð innanlands á öllum vörum í heildsölu og smásölu svo og á hvers konar verðmæti og þjónustu frá því, sem var 15. ágúst 1950. Bannið tekur þó ekki til þeirrar verðhækkunar vöru, sem jöfnuð kann að verða með niðurgreiðslu á verði annarrar vöru, sbr. 6. gr. laganna. Verðgæzlustjórinn á að hafa eftirlit með því, að ákvæði laganna sé hlýtt.

Í 5. gr. er talað um, að innflutningsskrifstofan geti veitt undanþágu frá banninu, sem um ræðir í 1. mgr. 4. gr., ef hún telur verðhækkunina vera algerlega óhjákvæmilega, enda sé þá verðhækkunin samþ. af ríkisstj. Þá þarf í raun og veru samþykki að fást frá verðgæzlustjóra, frá innflutningsskrifstofunni og frá ríkisstj., og undanþágan fæst ekki veitt, nema þessir þrír aðilar allir telji hana vera algerlega óhjákvæmilega.

Ríkisstjórninni var það ljóst, að það gæti komið fyrir, að svo mikil verðhækkun yrði á erlendri vöru eða að farmgjöld hækkuðu svo stórkostlega, að útsöluverðið, sem var um miðjan ágúst s. 1., gæti jafnvel orðið lægra en heildsölukostnaðurinn og innflutningsgjöld og opinberir tollar og að þá gæti komið til þess, að slík vara yrði ekki flutt inn, ef innflytjandinn sæi sér beint tap í því að gera það, þegar verðlagið stæði fast. Þá getur samkv. þessu komið til ákvörðunar hjá ríkisstj., hvort varan sé svo nauðsynleg, að hana megi ekki vanta. Þá þarf að grípa til einhverra úrræða, til þess að hún verði samt sem áður flutt inn. En sé hún hins vegar ekki svo bráðnauðsynleg, að hana megi ekki vanta, þá gæti vel komið til þess, að þetta bann leiddi til vöntunar á viðkomandi vörutegund.

6. gr. er svo um þær nauðsynlegu ráðstafanir, sem gera þurfti til þess, að verðfestingin á landbúnaðarvörum gæti komið til framkvæmda frá sama tíma og kaupgjaldsfestingu, sem þótti algerlega nauðsynlegt. Hins vegar hefur ekki verið um það deilt, að ef bændur hefðu ekki fengið niðurgreiðslur úr ríkissjóði vegna þessarar ráðstöfunar, þá hefði það í raun og veru komið niður á þeim eins og lögin tækju gildi einu ári fyrr, að því er snerti þá og þeirra hagsmuni, og það gat auðvitað ekki gengið, Þess vegna verður að bæta þeim sem svarar fyrir hið liðna ár með niðurgreiðslum úr ríkissjóði.

Brot gegn lögum þessum varða frá 500 til 500 þús. kr. sektum, nema þyngri refsing liggi við að lögum.

Ég skal ekki fjölyrða mikið um málið, nema sérstaklega gefist tilefni til hér, aðeins taka fram, að það er mín reynsla af framkvæmdinni síðan 1. sept., að allir aðilar hafa tekið lögunum með vinsemd, og ég hygg, að það hafi gætt miklu minni mótspyrnu gegn framkvæmd laganna en búast mátti við. Ég sé nú, að allir keppast um að viðurkenna, að verðlags- og kaupgjaldsstöðvun hafi verið fyllilega tímabær, eins og ástandið var, og nú sé ég, að því er lýst yfir mjög áberandi, að allir vilji mikið á sig leggja til þess, að takast megi að framkvæma algera verðlags- og kaupgjaldsstöðvun, og ég fagna því.

Ég legg svo til, að þessu frv. verði vísað til hv. fjhn. að lokinni umræðunni.