29.10.1956
Neðri deild: 7. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í B-deild Alþingistíðinda. (553)

12. mál, festing verðlags og kaupgjalds

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Við sjálfstæðismenn fögnum því, að gerðar hafa verið ráðstafanir til að stöðva vöxt verðbólgunnar, á meðan leitað er annarra úrræða. Á s. 1. vetri bentum við á nauðsyn þessa og bárum fram um það ákveðnar till., sem þó fengu ekki fylgi andstæðinga okkar, núverandi hv. stjórnarflokka. Í stað þess settu þeir, eftir að þeir sjálfir höfðu fengið völdin, þau brbl., sem nú eru til umræðu. Ég skal ekki á þessu stigi hefja deilur um það, hvort þau úrræði, sem í brbl. felast, séu almenningi hagstæðari en till. okkar. Aðalatriðið er, að verðbólguvöxturinn hefur nú verið stöðvaður í bili og með viðurkenningu þess, að í því sambandi er kaupgjaldið, eins og hér til háttar, úrslitaatriðið. Stöðvun á hækkun þess og raunar lækkun frá því, sem menn höfðu samkv. gildandi ákvæðum unnið sér rétt til, er aðalatriði þessa frv., sem nú er til umr. Fram hjá því verður ekki komizt.

Viðurkenning þessarar staðreyndar er sögulegur atburður, sem úrslitaþýðingu kann að hafa um lausn þessa vanda. Við sjálfstæðismenn höfum ætíð bent á þessi sannindi og jafnframt lagt áherzlu á, að skilningur þeirra væri ekki síður nauðsynlegur fyrir verkamenn og launþega en aðra, því að raunverulegar kjarabætur fylgdu ekki almennum kauphækkunum, sem efnahagslegur grundvöllur væri ekki fyrir í þjóðfélaginu. Þessa staðreynd hafa kommúnistar ekki viljað játa fyrr en nú og Alþfl. ekki nema þegar sérstaklega hefur staðið á, eins og þegar hann hafði stjórnarforustuna 1947. Því merkilegra er, að fyrsta raunhæfa ráðstöfun þessara manna, þegar þeir fá völdin, er sú að viðurkenna í verki kenningar okkar sjálfstæðismanna. Hvort þar er svo um raunveruleg sinnaskipti að ræða eða aðeins greiðslu fyrir að fá að komast upp í stjórnarskútuna hjá hæstv. fjmrh., sem sagði á dögunum, að hann hefði þurft að manna bátinn öðruvísi en áður var, — hvort þarna er um sinnaskipti að ræða eða aðeins greiðslu á farmiðanum fyrir að fá að manna bátinn hjá Eysteini, það mun koma í ljós, þegar hin varanlegu úrræði verða birt, því að vitanlega stoða þessi brbl. lítt eða ekki, ef ekki verður frekar að gert, bæði með skynsamlegri tillögugerð og þjóðhollri framkvæmd.

Gerðardómslögin 1942, dýrtíðarlög stjórnar Stefáns Jóh. Stefánssonar 1947 og gengislækkunarlögin 1950 voru allt ráðstafanir byggðar á sömu hugsun og brbl. nú. Dýrtíðarlögin og gengislögin gerðu gagn um sinn, en aðeins um sinn, og voru þó ætluð til frambúðar. Þessi brbl. eiga samkv. efni sínu að gilda aðeins skamma hríð, og er mikilsvert, að frambúðarúrræðin sjáist sem fyrst, því að núverandi óvissuástand í efnahagsmálum lamar framkvæmdahuginn, athafnasemina og allt efnahagslífið, svo að mjög alvarlegt er.

Um einstök atriði frv. skal ég ekki ræða, svo sem hvort byrðunum hafi verið rétt skipt niður að öllu leyti eða hvort slíkt samráð hafi verið haft við aðila sem gefið var í skyn. Allt skiptir það þó máli, og verður sjálfsagt vikið að því í umræðunum af öðrum. Og það verður að segja, að hið minnsta, sem krafizt verður, er það, að rétt sé frá sagt, með hverra samþykki slíkar ráðstafanir séu gerðar. Hitt er skiljanlegra, að ekki hafi verið hægt í raun og veru að leita til allra, sem þetta mál varðar. Um það skal ég sem sagt ekki ræða nánar, en láta mér nægja að lýsa ánægju yfir, að hæstv. ríkisstj. skyldi koma sér saman um þessa ráðstöfun, sem, þótt aðeins til bráðabirgða sé, er játning á því, að það, sem við sjálfstæðismenn höfum haldið fram um aðalorsakir örðugleikanna í efnahagslífi Íslendinga, er rétt.