19.12.1956
Efri deild: 34. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í B-deild Alþingistíðinda. (619)

90. mál, skemmtanaskattsviðauki

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir heimild fyrir ríkisstj. til að innheimta skatt af kvikmyndasýningum með 200% álagi og af öðrum skemmtunum með 20% álagi, með þeim undantekningum, sem taldar eru í 1. gr. frv. Þrátt fyrir það að fjárþörf þeirra aðila, sem njóta þessa skatts, hefur farið sífellt vaxandi, eins og kom greinilega fram við 1. umr. málsins, hefur ekki verið um það að ræða á undanförnum árum, að þessi skattur hafi verið hækkaður, heldur hefur þessi skipan, sem þarna er lögð til og hefur verið framlengd frá ári til árs, haldizt.

Eins og frv. ber með sér, varðar það ekki á neinn hátt skiptingu þess fjár, sem aflað er samkv, þessum lögum, eða hugsanlegan ágreining, sem um þá skiptingu kynni að vera. Þar sem hér er um svo sjálfsagt mál í raun og veru að ræða, sem er aðeins um framlengingu á þessum sömu lagaákvæðum, hefur fjhn. d, þótt sjálfsagt, að það yrði samþ. óbreytt, og leggur til, að svo verði gert.