19.12.1956
Neðri deild: 35. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í B-deild Alþingistíðinda. (666)

92. mál, útflutningssjóður o. fl.

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Hv. þm. G-K. talaði hér fyrstur af hálfu stjórnarandstöðunnar og setti hér fram allmargar fyrirspurnir. Voru nokkrar af þeim þess eðlis, að mér þykir rétt að víkja að þeim. Hann kvartaði að vísu fyrst undan því, að frv. þetta væri hið mesta torf og hann ætti erfitt með að skilja nokkurn hlut í því. Nokkuð svipað hefur komið hér fram hjá öðrum talsmönnum stjórnarandstöðunnar, að þeir kvarta undan því, að þeir hafi ekki getað áttað sig á efni frv.

Ég vil í þessu sambandi minna á það, að sá háttur hefur verið á hafður hér í sambandi við afgreiðslu þessara mála á undanförnum árum, að þá hefur ríkisstj. lagt fram frv. sín til lausnar á vandamálum útvegsins fyrir stjórnarandstöðuna þannig, að hún hefur aðeins haft örfáa klukkutíma til þess að átta sig á þeim frv., og ég minnist þess, að í eitt skipti var það svo, að stjórnarandstöðunni gafst ekki einu sinni tími til þess að fá að lesa frv., áður en það var tekið til umr. hér á Alþ., svo að þeir mega nokkuð kenna sjálfum sér um, hvernig siðvenjur hafa skapazt í þessum efnum. En þó er óhætt að fullyrða það, að nú hefur þeim í þessum efnum verið gert miklu hærra undir höfði en stjórnarandstöðunni á undanförnum árum, því að þeir hafa fengið miklu lengri tíma til þess að átta sig á því, sem hér lá fyrir. Hitt er svo undrunarefni a. m. k. fyrir mig, að þm. G-K., sem er að koma úr sjútvmrh.-embættinu, skuli ekki átta sig á einföldustu atriðum í þessu frv. varðandi sjávarútvegsmálin. Hann spurði hér: Þurfti sjávarútvegurinn á meiru að halda? Svona hélt ég að enginn maður í landinu hefði þurft að spyrja. (ÓTh: Enda spurði ég ekki svona.) Ja, hvernig spurði hv. þm. G-K.? Hvernig var þessi spurning hans? (ÓTh: Hún var þannig: Er sá stuðningur, sem er veittur sjávarútveginum nú, meiri eða minni en sérfræðingar ríkisstj. lögðu til?) Ég skrifaði spurningu hv. þm. hér upp eftir honum, og hann spurði í fyrsta lagi: Þurfti landbúnaðurinn á meiru að halda, þurfti sjávarútvegurinn á meiru að halda? Og þó að hann spyrji nú um það, hvort sérfræðingar ríkisstj. hafi lagt þetta til, sem hér er lagt til, eða eitthvað minna eða eitthvað meira, þá vitanlega segir það enga sögu í þessu. Hins vegar er hægt að upplýsa hann um það, að þeir sérfræðingar sem athuguðu afkomu togaraflotans, töldu, að togaraútgerðin þyrfti 38–39 millj. kr. í aukna styrki miðað við ársrekstur, og það er gert ráð fyrir því hér í þessu frv., að þörfum togaraútgerðarinnar verði mætt með stuðningi, sem nemur um 38 millj. kr. Þeir menn sem gengu til þess að athuga um rekstur bátaflotans, töldu, að lágmarksupphæð, sem veita yrði bátaflotanum, væri 26.3 millj. kr. til viðbótar við þau hlunnindi öll, sem hann hafði á s, l. ári, en síðan hefur komið til þess, fram yfir þessar till., að gert hefur verið ráð fyrir allverulegum auknum útgjöldum hjá bátaflotanum, sem m. a. koma fram í því, að hér liggur frv. fyrir Alþ., sem gerir ráð fyrir því að tvöfalda orlofsgreiðslur útgerðarinnar til sjómanna, og nemur sú upphæð um 3 aurum á hvert fiskkíló, eða í kringum 5½ millj. kr. Þá er einnig gert ráð fyrir því, að skiptaverð til háseta á bátunum hækki um 8 aura á kg, eins og kemur fram í greinargerð frv., en það veldur útgerðinni sjálfri verulega auknum útgjöldum.

Þegar tillit er tekið til þessa, eru þær 38 millj. kr., sem gert er nú ráð fyrir að auka stuðninginn til bátaútvegsins um, rétt um það bil sú upphæð, sem þessir sérfræðingar, sem stjórnin skipaði til þess að athuga þessi mál, töldu að þyrfti nauðsynlega að veita bátaútveginum. Þessir sömu aðilar höfðu talið, að veita bæri fiskverkunarstöðvum 5.2 millj. kr. En þegar nú hefur verið gert ráð fyrir því, að nokkur aukin útgjöld eru lögð á fiskvinnsluna, er nú gert ráð fyrir í þessu frv. að veita þeim um 9–9.2 millj. kr. í aukinn stuðning.

Hv. þm. G-K. spurði svo í öðru lagi um það, hvað þessi prósenta í frv., sem gerir ráð fyrir stuðningi til bátaútvegsins, í rauninni þýddi. Ég segi nú um þetta eins og hið fyrra atriði, að ég undrast það mjög, að fyrrv. sjútvmrh. skuli spyrja um þetta. Þegar tiltekið er, að bátaútvegur landsmanna skuli fá til uppbótar á útflutningsverð á framleiðslu bátaútvegsins sem nemur 24.45%, þá er þetta ekki ýkja þungt dæmi að reikna fyrir þann, sem hefur haft allan aðgang að því að fylgjast með því, hver framleiðsla bátaflotans er. Þegar það einnig er gefið, og það liggur fyrir í opinberum skýrslum og þarf t. d. ekki lengra að fara en hringja í Fiskifélagið til þess að spyrjast fyrir um það, hvað er aflamagn bátaflotans á einu ári í tonnum talið, þá er heldur ekki mikill vandi að finna það út, hvað um 38 millj. kr., sem gert er ráð fyrir að veita bátaflotanum í stuðningi muni vera mikið á kg. Og ég hygg, að fyrrv. ráðh. muni komast nærri um það, að þarna er um í kringum 20 aura hækkun á kg að ræða. Þannig er nú þessu varið. Þetta sýnir ásamt með öðru, að þessi fyrrv. ráðh. er kominn svo úr öllu samhengi, — ég hef reyndar orðað það hér áður, að hann er svo slitinn úr öllu sambandi við sjávarútveginn, að hann kann þar ekki einu sinni að fara með einföldustu tölur. Hann segir mér það líka hér og öðrum, að bátaútvegsmenn hafi ekki samþykkt þann grundvöll, sem hér sé lagður í þessu frv. um rekstrarstuðning við bátaútveginn á komandi vertíð. En hið sanna í málinu er það, að forstjóri Landssambands ísl. útvegsmanna og formaður verðlagsnefndar bátaútvegsins komu til fundar við mig, þar sem fleiri menn voru fyrir, og tilkynntu mér, að þeir væru að koma beina leið af fulltrúafundi í Landssambandi ísl. útvegsmanna, þar sem atkvgr. hefði farið fram um þessar till., og þar hefðu allir greitt atkv. með nafnakalli og allir samþykkt till. (Gripið fram í.) Nei, það var ekkert meira, það var ekkert tilkynnt meira. Hins vegar getur vel verið, að þessi fyrrv. ráðh. sé að gera tilraunir til þess að láta eitthvað meira koma, það kæmi mér ekkert að óvörum. Ég þykist finna það og vita, að það sé ekki jafnmikill gleðskapur hjá honum og ýmsum öðrum yfir því, að núverandi ríkisstj. hefur getað haldið þannig á málunum, að hún hefur fengið samkomulag við alla þessa aðila, einnig bátaútvegsmenn.

Þá minntist þm. G-K. á það, að í frv. væri sennilega prentvilla, þar sem gert væri ráð fyrir, að útflutningsuppbætur á hrogn væru aðeins 14.18% á móti 24.45%, sem áætluð eru á aðrar útflutningsafurðir bátanna. Hér er ekki um neina prentvillu að ræða. Hins vegar er það rétt, að þessi tala mun verða athuguð í n., og er alveg ljóst okkar á milli, fulltrúa útvegsmanna og mín, hvað hér er um að ræða. Þegar var verið að semja við þá um hinn nýja grundvöll, var eins og fyrri daginn fyrst og fremst teflt um fiskverðið eða þær afurðirnar, sem mestu máli skipta, og þegar samkomulag náðist um það, var sú tala fest, en talan 14.18% á hrogn er nákvæmlega þær uppbætur, sem þeir höfðu áður notið á útflutt hrogn, eða m. ö. o., þar var ekki gert ráð fyrir neinni hækkun. En nú hafa útvegsmenn bent á, að þeir hafi í rauninni alltaf ætlazt til þess, að þeir fengju samsvarandi prósentu á hrognin eins og á fiskinn, og þetta mun verða athugað hér við meðferð málsins, eins og ég segi, og skiptir engu höfuðmáli.

Hv. þm. G-K. reyndi svo hér að gera samanburð á till. þeim, sem hann stóð að í upphafi síðustu vertíðar, og þeim till., sem hér liggja fyrir nú. Þá voru auðvitað till. hans góðar. Nú eru þessar till. vondar, og nú segir hann, að þær séu í öllum atriðum eftir sömu kokkabókum gerðar. En sannleikurinn er sá, að það er vitanlega grundvallarmunur á þeim till., sem nú liggja hér fyrir, og þeim till., sem hann stóð að að leggja fram.

Þá var gert ráð fyrir því að afla allra tekna í sambandi við ráðstafanirnar á þann hátt að leggja jafnt álag á svo að segja allar innfluttar vörur. Hinar nauðsynlegustu vörur voru skattlagðar jafnt og allar aðrar. Afleiðingin af þessari leið hlaut að verða sú, eins og reynslan sýndi, að þessar vörur hækkuðu allar í verði, og um leið og verð þeirra hækkaði, þá hækkaði einnig kaupgjald. Þetta hlaut líka svo að verða, af því að þá voru ekki í gildi nein ákvæði um það að halda verðlaginu niðri. Þá var yfirleitt álagningarfrelsi ríkjandi, og það var talið einmitt gildi stjórnarstefnunnar, að allt skyldi ráðast af framboði og eftirspurn. En nú er sú leið farin að reyna að forðast það með þeim álögum, sem lagðar eru á vöruinnflutninginn, að álögurnar leggist á þær vörur, sem þýðingarmestar eru í verðmynduninni í landinu, eða hinar almennu notavörur almennings.

Einhver skýtur fram í: Vörurnar, sem ganga inn í vísitölu. Nú allt í einu eru sjálfstæðismenn orðnir alveg sérstakir boðberar þess, að ekki megi skekkja vísitöluna, af því að með því sé verið að svíkja kaup af verkalýðnum í landinu. En hafa þeir ekki haldið því fram alla tíð, að ógæfan stafaði af því, að kaup verkamanna væri of hátt? Ættu þeir þá ekki að gleðjast yfir þessu? Ætli það sé ekki eitthvað annað, sem er að í þessu frv., sem þeir eru á móti? Ég skal koma að því síðar, því að það er augljóst, hvað það er. (Gripið fram í.) Já, ég skal víkja nánar að þessu með vísitöluna og þessa aðferð.

Það eru nefnilega til menn, sem halda því fram, og það hefur verið gert hér í þessum umr., að ef sú leið væri farin að leggja allar svona álögur t. d. á kornvörur og aðrar allra nauðsynlegustu vörur, sem vitanlega kæmi út í vísitölunni, sem aftur kæmi út í hækkuðu kaupi, þá mætti verkalýðnum í landinu vera alveg sama.

En hvað er það, sem gerist með slíkri ráðstöfun? Með því gerist það, að verðbólguhjólið heldur áfram að snúast. Með því gerist það, að nýjar álögur hækka framleiðslukostnaðinn í landinu óhjákvæmilega, og það verður að grípa til þessara ráðstafana aftur. En með þessu er líka verið að segja það, að allar vörur, sem menn kaupa, hafi sama notagildi fyrir fólkið í landinu. Má t. d. ekki leggja hér á gosdrykki og súkkulaði og annað þess háttar, án þess að það sé verið að skerða með því kaupmátt verkamanna í landinu? (Gripið fram í.) Já, og byggingarefni. Það er gert hér ráð fyrir því í þessum lögum að hafa hin lægstu gjöld, sem eru í hinum nýju álögum, einmitt á byggingarefninu og álitið, að með því móti megi með lækkun á álagningu heildsala og annarra slíkra og með skörpu verðlagseftirliti halda þeim einmitt áfram með óbreyttu verðlagi. Hins vegar er það, að þessi túlkun, sem stendur að því, að það megi ekki leggja á lúxusvörur og ýmsar aðrar vörur, af því að það hreyfi ekki vísitöluna, það eru menn, sem vilja reyna að halda verðbólguhjólinu stöðugt í gangi, enda er sannleikurinn sá, og hann hefur komið fram áður hjá fulltrúum sjálfstæðismanna, að það, sem þeir vilja í þessum efnum, er að láta leggja álögurnar á nauðsynjavörurnar, en helzt af öllu bæta svo gamalkunnu ákvæði við: Og samt skal vísitalan ekki breytast. Gamla stefnan var sú, að þegar búið var að leggja á hinar miklu álögur í byrjun ársins, þá gátu allir, sem réðu verðmynduninni í landinu, haldið áfram að hækka verð á öllum hlutum. Þá rak hver verðhækkunartilkynningin aðra dag eftir dag, og menn sögðu: Ja, þetta er vegna hinna nýju álaga, — og marghækkuðu vöruverð og þjónustuverð, hækkuðu það margfalt meira en álögurnar höfðu raunverulega gefið tilefni til. Og þetta var frjálst af stjórnarvöldunum, þau létu þetta alveg eiga sig. Þetta skipti þau ekki neinu máli. Nú er hins vegar gert ráð fyrir því að setja upp verðlagseftirlit og reyna að sporna gegn þessu. Á þessu er vitanlega eðlismunur.

Svo er hitt: Er það rétt, að nú með þessum aðgerðum eigi að taka allt inn með álögum á almennum varningi? Nú er gert ráð fyrir hér, að það verði lagður á stóreignaskattur, sem nemi a. m. k. 80 millj. kr. Var í ráðstöfunum þeirrar ríkisstj., sem þm. G-K. stýrði, gert ráð fyrir því, að stórgróðamennirnir í landinu bæru slíkan skatt? Nei. Var þar gert ráð fyrir því, að bankar landsins, sem grætt hafa vel á undanförnum árum, tækju þátt í því að standa undir þessum útgjöldum? Nei. En nú er þó gert ráð fyrir því, þótt það hefði gjarnan mátt vera meira, Nú er líka gert ráð fyrir því, að verzlunin eigi að bera sinn hluta af þessum byrðum, og skelfingin hjá Sjálfstfl. er m. a. bundin við það, að nú eigi að lækka verulega álagningu hjá heildsölunum í landinu og svo eigi að setja á það verðlagseftirlit, og af því eru þeir skjálfandi hræddir nú í dag.

Svo kemur þetta, að það er verið að minnast hér á olíufélögin og sérstaklega reynt að halda því fram, að ég hafi verið að hlífa þeim og sérstaklega þó einu þeirra, sem hafi flutt hingað olíu til landsins og á skipið Hamrafell. Ég hef reyndar minnt á það hér áður, að það þurfti hvorki Súez-stríð né neitt annað til þess, að ráðh. Sjálfstfl. leyfðu stórkostlega olíuhækkun til handa olíufélögunum, bara þegar þau fóru fram á það. En það, sem gerzt hefur í þessum efnum, er það, að núverandi ríkisstj. beitti sér fyrir því, að þetta nýja olíuskip yrði að skila aftur af fjórum næstu förmum um 10 millj. kr., og ég hygg, að það efist enginn um það, sem áttar sig eitthvað á reynslunni, að hefðu sjálfstæðismenn verið í stjórn, þá hefði þetta olíufélag ekki frekar en önnur verið látið skila aftur þessari upphæð.

Nú hafa olíufélögin líka seinni hluta þessa árs verið látin taka á sig bagga vegna hækkandi innflutningskostnaðar við olíu, þau hafa verið látin taka á sig bagga, sem nemur 10–12 millj. kr., og það efast heldur enginn um það, að þau hefðu ekki verið látin taka á sig þann bagga, ef þær vinnuaðferðir hefðu verið notaðar, sem sjálfstæðismenn hafa notað í stjórnaraðstöðu sinni á undanförnum árum.

En þegar þetta nýja skip Sambandsins, „Hamrafell“, er látið skila aftur 10 millj. kr., þá koma þessir menn, sem svona hafa haldið á málunum, og segja við mig: Af hverju léztu þá ekki skila aftur helmingi hærri upphæð? Þið hefðuð getað það. Sannleikurinn er sá, að það var nokkur vandi á vitanlega, hvernig fara skyldi að í þessum efnum, og þetta mál flokkast ekki heldur, eins og ég hef lýst yfir áður, undir mig, því að ég fer ekki með verðlagsmál, — en það var nokkur vandi á. En ég hef vitanlega sem einn ráðh. í ríkisstj. haft afskipti af þessu máli (Gripið fram í.) Ja, það er félmrh., sem fer með þetta. (Gripið fram í: Flokksbróðir þinn.) Já, það er hann. En af hverju er alltaf verið að skamma mig fyrir þetta?

Ég hef nefnilega sagt það hér áður, vegna hvers er verið að skamma mig fyrir þetta. Það eru fyrst og fremst eigendur og umboðsmenn olíufélaganna, sem eru að skamma mig fyrir það, að ég hef þótt nokkuð harðhentur á þeim bæði í orði og á annan hátt, þegar ég hef komið því við, og ég hef ekki dregið af mér með það að reyna að velta böggum yfir á þá, og af því kenna þeir mér um það. (Gripið fram í.) Ég held nú, að ef Alþýðublaðið hafi sagt þetta, sem ég kannast nú ekki við, þá hafi það tekið þessa skröksögu upp úr Morgunblaðinu. Hins vegar er það alveg vitanlegt mál, að það hafa að vísu verið í gildi ákvæði um, að verðlagsyfirvöldin í landinu gætu ákveðið fragtir, og slíkt hefur verið notað nokkuð, en eflaust misjafnlega. Það er hægt að minna á það, að Eimskipafélagið var látið græða tugi milljóna undir þessum ákvæðum og gerði það eflaust fært um að byggja upp sinn skipastól á gífurlegum gróða þess félags þrátt fyrir öll verðlagsákvæði í þessum efnum. Það er líka kunnugt, að Eimskipafélagið hefur alltaf fengið að halda uppi hærri frögtum á vissum tímum en hægt var að fá á hinum frjálsa markaði, og það hefur verið haldið flutningum að því þrátt fyrir það. Hins vegar hefur Eimskipafélagið verið látið búa við nokkru lægri fragtir en hægt hefði verið að fá fyrir skipin, þegar fragtirnar voru hæstar. Þannig hefur verið farið nokkuð bil beggja í þessu. En verðlagsákvæðunum hefur aldrei verið beitt í þessum efnum, þar sem um heila farma hefur verið að ræða, eins og t. d. flutning á salti til landsins. Þau íslenzk skip, sem það hafa gert, hafa alltaf fengið að taka þær fragtir, sem gildandi hafa verið á hinum frjálsa markaði. Og þau íslenzk skip, sem flutt hafa t. d. á erlendan markað saltfisk og annað þess háttar, hafa líka þrátt fyrir þessi verðlagsákvæði alltaf fengið að fylgja hinum frjálsa fragtamarkaði. Og því hefur einnig verið haldið fram, að slíkt hið sama hlyti að gilda nú í fyrsta skipti þegar kemur olíuskip, sem flytur heila farma til landsins, en ekki stykkjavöru, að þá gæti það tekið fragtir eins og það væri á frjálsum markaði, og eðlilega var það sjónarmið eiganda hins nýja skips, að þeir ættu rétt til þess að taka þær fragtir.

Þegar hafinn var millivegur í þessum efnum og þetta skipafélag, sem hér var með nýtt skip, lækkaði fragtir sínar svo stórkostlega sem það gerði frá hinum frjálsa markaði og tók að sér flutningana á þeim tíma ársins og undir þeim kringumstæðum, þegar allra erfiðast var að fá skip og yfirleitt var neitun hjá skipafélögum, sem við höfðum skipt við um að taka að sér þessa flutninga, þá vildi ég fyrir mitt leyti ekki standa á neinn hátt í veginum fyrir því að gera samning um, að Hamrafellið tæki að sér þessa fjóra túra núna yfir háveturinn með þessum kjörum, sem við það vár samið, og óttaðist það ekki nokkurn hlut og óttast það enn ekki neitt, þó að þeir menn, sem staðið hafa að sífellt hækkandi olíufrögtum og hækkandi olíuverði til handa olíufélögunum hér á undanförnum árum, reyndu að ákæra mig fyrir það, að ég væri nú að hlífa Olíufélaginu.

Það er svo hins vegar gert ráð fyrir því, eins og ég sagði hér í minni fyrri ræðu, að breyta þannig um verðlagsmál í sambandi við olíusölu, að olíufélögin mundu samkvæmt því taka á sig verulegan bagga af þeim, sem við sjáum fram undan í sambandi við stórhækkaðar olíufragtir. Það er gert ráð fyrir því að olíufélögin taki sinn bagga, og það hefur líka verið gert ráð fyrir því, að skipafélögin, t. d. hvað snertir Hamrafellið, tækju á sig nokkurn bagga núna í sambandi við þessar ráðstafanir. Nú er því haldið á þessum málum á gersamlega annan hátt en var áður, og það er einmitt vegna þess, sem bæði útvegsmenn og launþegar í landinu líta allt öðrum augum á þessar ráðstafanir en þær ráðstafanir, sem fyrrv. ríkisstj. stóð að og runnu allar út í sandinn eftir nokkra mánuði.

Í þessu sambandi er ekki óeðlilegt að spyrja um það, hverjar séu annars till. Sjálfstfl., stærsta flokksins í landinu, í sambandi við lausn þessara vandasömu mála. Hvar eru till. Sjálfstfl.? Af hverju gerir ekki formaður Sjálfstfl. grein fyrir till. hans í þessum efnum? Hvar eru þær till.? Er það kannske frv. frá í fyrra, sem á að leggja hér fyrir aftur að þeirra dómi, sem reynzt hefur á þá lund, sem allir vita? Það er fróðlegt að lýsa hér eftir því, sérstaklega ef það bæri nú einhvern árangur, hverjar till. Sjálfstfl. hefur til lausnar á þessum vandamálum.

Ég held, að það, sem gerir sérstaklega þá illsku hjá sjálfstæðismönnum, sem hér hefur komið fram í þessum umr., sé þetta, að þeir óttast boðaða lækkun á álagningu heildsalanna, þeir óttast verðlagseftirlit, þeir óttast stóreignaskattinn, og svo óttast þeir nú alveg greinilega og sérstaklega það, að boðað er, að það skuli breyta um skipulag á sölu sjávarafurða. Og svo munu þeir eitthvað vera uggandi út af því, að það er líka boðað, að það eigi að breyta um skipan bankamálanna, og svo ekki sízt það, að nú standa þeir frammi fyrir því, að núverandi ríkisstj. hefur tekizt að leysa vanda framleiðslunnar í tæka tíð og tryggja reksturinn á næsta ári, hefur tekizt að ná samkomulagi við alla meginaðila þessa máls, en slíkt gat ríkisstj. Ólafs Thors ekki. Hún hafði ekki getað náð slíku samkomulagi og var því alltaf í flækju, en nú stendur Sjálfstfl. frammi fyrir því, að núverandi ríkisstj. hefur getað leyst þennan meginvanda. Af því er óróleikinn í formanni Sjálfstfl. og öllum Sjálfstfl.