20.12.1956
Neðri deild: 39. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í B-deild Alþingistíðinda. (673)

92. mál, útflutningssjóður o. fl.

Frsm. minni hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það er nú eiginlega meira af vilja en mætti, að við fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjhn. höfum í dag verið að freista þess að afgreiða eða stuðla að skjótri afgreiðslu þessa máls og skila nál., því að sannast að segja er þetta mál, sem hér liggur fyrir, þannig, að ég held, að það sé ekkert ofmælt, að þann tíma, sem ég hef setið á þingi, hefur aldrei neitt slíkt eða líkt mál verið lagt fyrir þingið og ætlazt til jafnskamms tíma til afgreiðslu þess eins og það mál, sem hér fyrir liggur.

Það er sannast að segja svo, að eftir því sem maður athugar þetta frv. hæstv. ríkisstj. meir og betur, því gallaðra finnst manni það og því meiri vankantar á því, og ég fullyrði það, að því fer mjög fjarri, að það geti verið, að hv. þm. stjórnarliðsins geti haft aðstöðu til þess, eftir því sem fram hefur komið, bæði í viðræðum við þá innan nefndar og utan, að gera sér sjálfum grein fyrir því, hvað þeir raunverulega eru hér að samþykkja.

Ég skal koma nokkru nánar áð efni þessa frv., þó að ég sannast að segja viti naumast, hvar eigi að byrja, því að það er stundum svo, ef menn fá stóran jólapakka eða jólagjöf, að þá er nokkuð vandmeðfarið að taka utan af henni, og eins er með þessa jólagjöf hæstv. ríkisstj. til almennings í þessu landi.

Áður en að efni frv. sjálfs er komið, vil ég aðeins minna á nokkur atriði í sambandi við efnahagsmálin.

Það hefur verið eitt af stórmálum Framsfl. á þessu ári, að hann ætlar að hafa forgöngu um nýsköpun í efnahagsmálum þjóðarinnar. Hann ætlar að hafa forgöngu um að hverfa frá fyrri villum, sem hann hafði ratað í í þessum málum, væntanlega fyrir ill áhrif Sjálfstfl., og hefja nýja göngu eftir nýjum leiðum. Þessi stjórnmálaflokkur rauf stjórnarsamstarf við Sjálfstfl. s. l. vetur, m. a. vegna þess, eins og þeir sögðu sjálfir, framsóknarmenn, að það væri ekki hægt að stjórna með sjálfstæðismönnum vegna afstöðu þeirra í efnahagsmálunum, en á sama tíma höfðu þessir menn engan ágreining gert við sjálfstæðismenn innan ríkisstj. um efnahagsmálin. Og fyrir alþingiskosningarnar í sumar létu frambjóðendur og fulltrúar Framsfl. í veðri vaka, að það yrði að fara inn á nýjar leiðir og finna varanleg úrræði í efnahagsmálunum, en á engum þeim fundi, sem ég mætti á, og var ég þó á nokkuð mörgum framboðsfundum fyrir kosningarnar, fékkst nokkur af þessum mönnum, fulltrúum Framsfl., til þess að gera neina grein fyrir því, hvaða nýjar leiðir þeir vildu leggja inn á, hver hin varanlegu úrræði ættu að verða og hvaða breytingar mætti vænta frá því, sem áður hafði verið. Þetta var í sjálfu sér nokkuð athyglisvert og eftirtektarvert, en það skýrist betur þessa dagana, þegar nýju úrræðin og varanlegu úrbæturnar koma fyrir dagsins ljós hér á hv. Alþingi.

Það vantaði hins vegar ekki, að það væri nokkuð mikil fyrirferð á þessum mönnum, og ekki sízt eftir að hv. þm. Str. (HermJ) var orðinn hæstv. forsrh. og hafði myndað ríkisstj., og þá voru nú fengnir til ekki aðeins innlendir, heldur erlendir sérfræðingar til þess að taka út þjóðarbúið, eins og það var orðað. Þjóðin skyldi svei mér fá að sjá, hvernig Sjálfstfl. og sjálfstæðismenn hefðu skilið við. Það var að vísu svo, að hæstv. fjmrh., varaformaður Framsfl., hafði verið fjmrh. um undanfarin sex ár, í því embætti, sem í öllum menningarríkjum er talið það, sem helzt ætti að hafa forgöngu um stefnuna í fjármálum á hverjum tíma af hálfu ríkisvaldsins. Samt var það svo, að það átti að taka út þjóðarbúið og sýna viðskilnaðinn hjá sjálfstæðismönnum. Og á s. l. hausti var látið í það skína, að úttektin skyldi sýnd almenningi, og skrifað um það í blöðum flokksins og sagt frá því. Það var búið að skipa efnahagsmálanefnd, og svo voru þessir erlendu sérfræðingar, og af öllu þess máttu menn vænta sennilega nokkurs viðbúnaðar í þessu stóra máli, þessu mikla máli Framsfl. En svo þegar málið er lagt fyrir Alþingi, þá fyrirfinnst enginn erlendur hagfræðingur, þ. e. a. s. neitt álit frá honum eða neinum hagfræðingi. Og efnahagsmálanefnd Framsfl., er búið að leggja hana niður, eða hafði hún ekkert að segja um þetta mál? Það var sagt frá því í blöðunum í sumar, að hún ætti að hafa af hálfu flokksins forgöngu um nýju leiðirnar í efnahagsmálunum.

Nei, í frv., sem felur í sér álögur upp á um 500 millj. kr. á þjóðina, og þar af er um helmingur nýjar álögur, er varla nokkur grg. fyrir því, vegna hvers þær leiðir eru valdar, sem farnar eru í frv., né heldur skýrt frá því, hvernig útreikningar sýna, að tekjuöflunin muni verða. Það er grg. upp á þrjár eða fjórar blaðsíður og með nokkrum stórum tölum, og skyldi þó sannarlega mega ætla, að þeir menn, sem hafa verið að glíma við það, frá því að þeir tóku við stjórnarforustunni, að hverfa inn á nýjar og varanlegar leiðir í efnahagsmálunum og eru búnir að hafa svo marga hjálparmenn, gætu sýnt framan í einhverja niðurstöðu af þeim rannsóknum, sem fram hefðu farið, og það m. a. til þess, að þm. gæfist kostur á að vega og meta ýmiss konar sjónarmið, sem fram væru sett, hvort ein leiðin í efnahagsmálunum væri öðrum hagkvæmari, ýmist frá sjónarmiði framleiðslunnar annars vegar eða almennings hins vegar, sem byrðarnar ætti að bera. Á engu af þessu örlar í þessu frv., og má telja, að það gegni nokkurri furðu.

Ég held, að maður hafi þó hér í gærkvöld fengið nokkra skýringu á þessum einstæða loddaraleik, sem Framsfl. hefur haft í frammi í sambandi við efnahagsmálin frá því á s. l. vetri, að rjúfa stjórnarsamstarf vegna ágreinings um efnahagsmál, sem hann hefur engan gert innan ríkisstj., láta í það skína við hv. kjósendur, að flokkurinn ætli að hverfa inn á nýjar leiðir í efnahagsmálunum og það sé ekki hægt að fara sömu leiðir og farið hefur verið, skýra aldrei hins vegar fyrir kjósendunum, hverjar hinar nýju leiðir eigi að vera, og koma svo á Alþingi og fara troðnar slóðir að því leyti, að engin nýmæli eru í þeim till., sem hér liggja fyrir, en hins vegar eru álögurnar mörgum sinnum meiri en nokkru sinni áður hafa í einu verið lagðar á þjóðina og þó þannig, að það er ekki hægt að finna rök fyrir því, a. m. k. í fljótu bragði, að það sé ástæða til þess, að álögurnar af þessum ástæðum séu meiri t. d. á þjóðina nú en í fyrra um sama leyti, og skal ég koma nokkru nánar að því. En ég vil segja, að þeirri stjórn, sem kemur nú og segir: Það þarf að leggja 210 millj. kr. nýjar álögur á almenning í þessu landi, ber skylda til að rökstyðja nauðsynina fyrir því betur en þessi hæstv. ríkisstj. hefur gert.

En þannig var sem sagt fer ill Framsfl., eins og ég rakti áðan. Hann þóttist hafa mikil bjargráð, þóttist vera mikill flokkur í fjármálum og efnahagsmálum og kom svo og sýndi þetta frv.

Að hverju var þessi stjórnmálaflokkur alltaf að stefna? Að hverju var hann að stefna? Var hann ekki í leit að bjargráðum í efnahagsmálunum? Var hann í leit að einhverju öðru og notaði efnahagsmálin sem yfirskin? Var hann í leit að völdum? Var hann í leit að meiri völdum en hann hafði haft í þjóðfélaginu, og er það þá sannmæli, ef skilin eru rétt orð hæstv. fjmrh. í gærkvöld, að ef flokkurinn, Framsfl., gat fengið völd, meiri völd, og verið tryggður í valdasessi, þá var alveg sama, hvaða leið var farin í efnahagsmálunum? En hæstv. fjmrh. sagði í gærkvöld: Hver leið sem hægt væri að ná samvinnu við verkalýðssamtökin um, það er bezta leiðin. — Hvað þýða þessi orð: Ef hægt væri að ná samvinnu við verkalýðssamtökin um einhverja leið í efnahagsmálunum, þá var það bezta leiðin? Hvað þýddi, að hægt væri að ná samvinnu við verkalýðssamtökin? Það þýddi, að það væri hægt að tryggja Framsfl. völd í þjóðfélaginn. Ef við gátum náð samvinnu við verkalýðssamtökin, þá flokka, sem við verkalýðssamtökin eru kennd, Alþfl. annars vegar, sem fyrst var reynt, og ef hann bilaði, þá kommúnistaflokkinn, líka, ja, þá vorum við búnir að tryggja okkur völd í þjóðfélaginu, þá var fundin bezta leiðin fyrir Framsfl.

Ég vænti þess, að það fari að renna upp fyrir almenningi í þessu landi, kjósendum þessa lands, hvaða sýndarmennska hefur verið höfð hér í frammi, og að almenningur spyrji sjálfan sig um það og reyni að rifja upp fyrir sér, hvort þetta sé nú virkilega rétt, hvort Framsfl. hafi blekkt þá svo, hvort hann hafi aldrei nefnt neinar ákveðnar leiðir í efnahagsmálunum í allri baráttuvímunni í kosningabaráttunni og hvort hann hafi aldrei meint annað en þetta, sem hann er nú búinn að sýna framan í, fara sömu troðnu slóðirnar og áður og láta sér allt vel líka, ef hann gat tryggt sér völdin með því, sem nú er kallað samvinna við verkalýðssamtökin, en er ekki annað en samvinna við kommúnistana, sem í dag hafa völdin í verkalýðssamtökunum. Og þetta er gert, enda þótt fáir menn hafi betur lýst aðstöðu kommúnista í verkalýðssamtökunum í þessu landi heldur en hæstv. fjmrh. og varaform. Framsfl. Mig langar til þess að minna þennan hæstv. ráðh. á, hvernig hann í maímánuði 1955 lýsti þessum núv. samstarfsmönnum sínum, sem hann nú segir um að sé svo nauðsynlegt að starfa með, að ef það náist samkomulag með þeim, þá sé fundin bezta leiðin í efnahagsmálunum. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ofan á aðferðir kommúnista í sjálfum verkalýðssamtökunum bætist, að kommúnistum hefur á undanförnum árum tekizt að einangra verkalýðsstéttina pólitískt til stórtjóns fyrir hana og þjóðina í heild. Það er orðið þjóðarnauðsyn, að verkalýðsstéttin losi sig við hina kommúnistísku forustu í verkalýðssamtökunum, þar sem hún enn þá er til.

Þá er hitt ekki síður aðkallandi, að þeir, sem hafa stutt kommúnista undanfarið, en ekki viljað koma hér á skipan kommúnismans, fylki sér undir merki umbótasinnaðra lýðræðismanna og bæti úr þeirri einangrun alþýðustéttanna, sem kommúnistum hefur tekizt að viðhalda árum saman.

Mér finnst nú,“ segir hæstv. fjmrh., „sem nærri því hver maður viðurkenni óstjórn kommúnista á málefnum verkalýðshreyfingarinnar.

Ég minnist þess ekki, að ég hafi nokkurn tíma áður orðið var við svo djúpan og almennan skilning á því sem nú, að óstjórn þessi stafi ekki öll af klaufaskap eða fyrirhyggjuleysi, heldur blátt áfram af því, að það er ekki hægt að þjóna tveimur herrum. Hagsmunir verkamanna og kommúnistaflokksins fara ekki saman. Það er ráðning gátunnar.“

Þetta sagði hæstv. fjmrh. í maímánuði 1955. Hagsmunir verkamanna og kommúnistaflokksins fara ekki saman. Það er ráðning gátunnar. En nú eru það hagsmunir kommúnista og Framsfl., sem fara saman, og þá er fundin bezta leiðin í efnahagsmálunum, eftir því, sem þessi hæstv. ráðh. vildi gefa okkur til kynna í gær.

Um leið og maður furðar sig á þeim ósköpum, að svo mikið hefur verið látið af hálfu framsóknarmanna í alþingiskosningunum í sumar um nýjar leiðir í efnahagsmálunum, þegar það sést nú, hvað fyrir þessum mönnum hefur vakað, þá verður hitt í raun og veru ekki heldur minna undrunarefni, framkoma bandamanna þeirra nú í hæstv. ríkisstj. Þegar Sjálfstfl. og Framsfl. lögðu hér fyrir þing í fyrra frv. um framleiðslusjóð til þess að rétta við hag útgerðarinnar, þá var það höfuðmeinsemd þess frv. að dómi fulltrúa Alþýðuflokksins og kommúnistaflokksins, að tekjurnar, sem átti að afla fyrir framleiðslusjóðinn, voru teknar af almenningi í landinu, eins og þeir sögðu.

Sjálfstæðismenn gerðu hreinskilnislega grein fyrir því, að þeir töldu ekki þá annarra úrræða völ, það yrði að flytja til tekjurnar í þjóðfélaginu, fá aftur útveginum, undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar, það, sem of mikið hafði verið af honum tekið í verkfallsbaráttu og kaupstreitu alþýðustéttanna eða verkalýðsstéttanna. Þá skiluðu þeir nál., fulltrúar Alþfl. og Sósfl., og gerðu hvor fyrir sig þannig grein fyrir sinni skoðun, einmitt um tekjuöflunina, að afla teknanna með almennum neyzluskatti. Hæstv. menntmrh., sem þá var í fjhn. Nd., komst þannig að orði í nál. sínu:

„Fjárins er fyrst og fremst aflað með hlutfallslega jöfnu gjaldi á innflutning og tiltekna innanlandssölu. Allur almenningur á með öðrum orðum að bera byrðarnar, sem fjáröflunin í sjóðinn veldur. Ég tel þetta svo ranglátt, að ekki komi til mála að samþ. þau ákvæði.“

Svo mörg voru þau orð. Fyrir tæpu ári kom ekki til mála að leggja byrðar á almenning með gjöldum á innflutta vöru og þjónustu í landinu til þess að aðstoða útveginn, og Karl Guðjónsson, fulltrúi Sósfl., sagði um sama efni:

„Ég tel tekjuöflun þá, sem frv. gerir ráð fyrir, fráleita. Ef sú leið yrði farin til tekjuöflunar,“ — og það er einmitt sú leið, sem farin er hér í aðalatriðum, þó að nokkur frávik séu frá henni, sem ég skal koma að síðar, — „mundi allt verðlag í landinu stórhækka og þá um leið kaupgjaldið, og færi þá að draga úr ávinningi útflutningsframleiðslunnar af þessum ráðstöfunum.“

Í blöðum þessara manna var gert mikið úr því, að þessi ríkisstj. væri búin að vinna sér til óhelgi með þeim gífurlegu álögum, sem hún legði á þjóðina. Þá var gert ráð fyrir því að afla um 100 millj. kr. nýrra tekna til aðstoðar útveginum, og sennilega hafa verið um 50 millj. kr. um sama leyti, sem þurfti að afla ríkissjóði, eða alls 150 millj. kr. Nú er verið að biðja um nærri 100 millj. kr. meira. Og hvernig stendur á því, að nú þarf að afla 100 millj. kr. meiri tekna en á öndverðu þessu ári, þegar lögin um framleiðslusjóð voru sett? Höfuðástæðan fyrir því, að útvegurinn var þá kominn þannig, að það varð að veita honum þá aðstöðu, sem fólst í lögunum um framleiðslusjóð, var sú, hversu gífurlega hafði hækkað kaupgjald og verðlag í landinu sem afleiðing af verkfallsbaráttunni á öndverðu ári 1955 og með þeim kauphækkunum, sem fylgdu í kjölfar hennar. Það var gerð grein fyrir þessu í grg. frv. um framleiðslusjóð, og hæstv. fjmrh. gerði einnig mjög ýtarlega grein fyrir því, að það væru einmitt kauphækkanirnar, sem knúðar voru fram á árinu, vorið 1955, sem væru ástæða þess, að þessar álögur þurfti að leggja á. Hæstv. fjmrh. sagði um þetta atriði, með leyfi hæstv. forseta, hér í eldhúsdagsumræðunum í febrúarmánuði s. l.:

„Á því leikur enginn vafi, að hækkanir á framleiðslukostnaði útflutningsframleiðslunnar í heild vegna kauphækkananna frá í vor nema á annað hundrað milljón króna, því að kauphækkun sú, sem í upphafi var 11–12%, er nú orðin milli 21 og 22% vegna víxlhækkana innanlands, sem af henni hefur leitt.“

Það var, að dómi hæstv. fjmrh., vegna kauphækkana vorið 1955, sem nauðsynlegt var að leggja á þjóðina 100 millj. kr. með lögunum um framleiðslusjóð í byrjun þessa árs, og hæstv. fjmrh. komst þannig að orði, að með kauphækkununum sem afleiðing verkfallanna fyrir tilstuðlan kommúnista vorið 1955 hefði verið brotið blað í efnahags- og verðlagsmálasögu landsins. En ég spyr: Þegar það liggur fyrir, að á því ári urðu 22% kauphækkanir eftir upplýsingum hæstv. fjmrh. og þá þurfti ekki að afla nema 100 millj. kr. tekna til framleiðslusjóðs, hvernig stendur þá á því, að nú í ár, þegar ekkert blað hefur verið brotið í efnahags- og verðlagsmálunum og kaupgjaldsvísitalan aðeins hækkuð um 7 stig á móti 22 stigum árið 1955, að nú þarf að afla 150 millj. kr. tekna til aðstoðar útgerðarinnar, því að af þessu munu um 100 millj. kr. fara til ríkissjóðs. Um 150 millj. kr. þarf nú, sem ekki þurfti til nema 100 millj. kr. í byrjun þessa árs, og hafði þá vísitala á árinu 1955 hækkað um 22 stig, en 7 stig á árinu 1956, og að dómi hæstv. fjmrh. voru þessar kauphækkanir og með þeim verðhækkunum, sem af þeim leiddi, höfuðorsök vandamálsins og ástæðan fyrir því, að afla þurfti þessara tekna útveginum til handa.

Ég held, að engir mundu hafa trúað því, sem fylgzt hafa með íslenzkum stjórnmálum, ef þeir hefðu verið spurðir að því á s. l. hausti, að sennilega mundu Framsfl., Alþfl. og kommúnistaflokkurinn, sem gengu berserksgang út af því, þegar sjálfstæðismenn og Framsfl. lögðu nýjar álögur á innflutningsvörur með framleiðslugjaldinu í byrjun ársins vegna útvegsins, fara að koma fram fyrir þjóðina og leita að miklu leyti sömu úrræða, og dettur nokkrum í hug, að Framsfl., stjórnarforustuflokkurinn, að vísu minnsti flokkurinn, sem stendur að núv. ríkisstj., — dettur nokkrum í hug, að stjórnarforustuflokkurinn, sem er búinn að boða hin varanlegu úrræði og hinar nýju leiðir, fari að fara hinar gömlu, troðnu slóðir aftur? — Nei, menn hefðu ekki trúað þessu. En hver hefði líka trúað því, að kommúnistar hér í þinginu kingdu öllum sínum stóryrðum, um uppbótarþingmenn Alþýðuflokksins, og hver hefði trúað því, að hæstv. núverandi stjórnarflokkar mundu allir gleypa stóryrði sín í varnarmálunum? Og voru þessir menn þá ekki a. m. k. í því einu sjálfum sér samkvæmir í þessum málum, efnahagsmálunum eins og öðrum, að ganga í berhögg við það, sem þeir höfðu áður sagt, og éta allt ofan í sig?

Það er nú verið að útbýta nál. minni hl. fjhn. á þskj. 172, og gerum við þar, Ólafur Björnsson og ég, nokkra almenna grein fyrir afstöðu okkar til frv. þess, sem hér liggur fyrir. Ég vil taka það strax fram, að það eru ýmsar fleiri aths., sem við þurfum að koma á framfæri í sambandi við þetta frv., og munum freista þess undir meðferð málsins að reyna að fá einhverjar lagfæringar á nokkrum atriðum þess, ef það mætti takast, og bera þá fram brtt. á síðara stigi, annaðhvort undir þessari umr. eða við 3. umr. málsins. En okkur þótti rétt að reyna að hafa þann hraða á, sem við gátum, með að koma út þessu nál. Okkur var báðum ljóst, að það þurfti miklu lengri tíma og víðtækari rannsókn á þessu frv. en við höfðum átt nokkurn kost að láta fram fara, ef átti að skila ýtarlegu nál. Og það má í sjálfu sér með réttu draga í efa, að það sé rétt af okkur að taka þátt í afgreiðslu þessa máls með þeim hætti, sem nú er.

Ég hygg, að það séu fjölmörg atriði, sem hæstv. ríkisstj., sem stendur að flutningi þessa máls, eigi mjög fljótt eftir að reka sig á og hún hefur ekki áttað sig á við flutning þessa máls. Það hefur komið í ljós við meðferð málsins í fjhn. í dag, og skal ég minnast nokkuð á það, og margt fleira getur á eftir komið. Alveg á sama hátt og við munum reyna e. t. v. að fá einhverjar lagfæringar á frv. með brtt. á síðara stigi málsins, þá munum við e. t. v. fylgja einstökum atriðum, ef okkur þykir ástæða til, í frv., en við höfum, eins og nál. ber með sér, tekið afstöðu til þess, að það sé með engu móti hægt að ætlast til þess, að alþm. á svo stuttum tíma geti tekið fullnaðarafstöðu til máls eins og þessa, og málið í heild sé svo miklum annmörkum háð, að við treystum okkur ekki til að fylgja því og munum greiða atkv. á móti málinu í heild.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira en nauðsyn krefur á þessu stigi um þetta frv., því að það gefst þá væntanlega tækifæri til þess að tala betur um það síðar, en skal nú víkja að nokkrum einstökum atriðum, sem mér finnst ástæða til að vekja athygli á.

Í 16. gr. þessa frv. eru ákvæði um það, hvaða vörur skuli undanþegnar yfirfærslugjaldi skv. 15. gr., en í 15. gr., eins og kunnugt er, er ákvæði um það, að 16% yfirfærslugjald skuli greiða af sölu á öllum erlendum gjaldeyri, sem bankarnir láta af höndum. Hvaða vörur þarna eru undanþegnar, er talið upp í tollskrárnúmerum, og okkur hefur enginn tími unnizt til að athuga um það, hvaða vörur þetta eru, hvað þá heldur að reyna að gera okkur grein fyrir því, hvort það ættu ekki einhverjar fleiri vörur að vera í þessari upptalningu. Við höfum ekki einu sinni fengið lista yfir það frá hæstv. ríkisstj., hvaða vörur þetta eru. Það vita kannske aðrir hv. þm. það betur en við og gera sér þá fyllilega grein fyrir því, hvað þeir eru að samþykkja. En þegar á að fara að framkvæma þessa 16. gr., þá skilst mér, að það sé ætlazt til þess, að bankarnir eða starfsmenn í bönkunum meti það, hvort vara er undanþegin yfirfærslugjaldinu á gjaldeyrinum eða ekki. Um þetta atriði hefur ekki verið rætt við gjaldeyrisbankana, ekki við Útvegsbankann. Og í bréfi, sem fjhn. barst frá Landsbankanum, er tekið fram, að það hafi engra samráða verið leitað við Landsbanka Íslands af hálfu ríkisstj. í sambandi við þetta mál.

Ég vakti athygli á því í n. á þeim stutta tíma, sem við höfðum til meðferðar, að ég efaðist um, að starfsmenn bankans gætu framkvæmt þetta, Það er komið með skjöl í bankann um það, að viðkomandi maður er að flytja inn þessa og þessa vöru, og eiga þá starfsmenn í bankanum að gera sér grein fyrir því eftir þessum skjölum, hvort þessi vara sé undanþegin yfirfærslugjaldinu, og sjá auðvitað allir, að aðstaða þeirra til þess er allt önnur en þeirra manna, sem starfa í tollinum af hálfu hins opinbera, því að það er mjög umfangsmikið starf einmitt fyrir þá, sem innheimta aðflutningsgjöldin, ekki aðeins að átta sig á því, um hvaða vörur er að ræða, eftir því, hvaða skjöl liggja fyrir, heldur beinlínis að kanna vöruna sjálfa og stundum efnagreina hana, ef svo ber undir, til þess að geta skorið úr um það, undir hvaða flokk í tollskrá viðkomandi vara á að falla. Nú á þessum stutta tíma hefur maður enga áheyrn fundið enn, en ég tel, að þarna væri nauðsynlegt að gera einhverja breytingu á, ef menn eiga ekki að eiga það á hættu að reka sig á fullkomin vandkvæði í framkvæmd málsins, enda þótt allir væru af vilja gerðir að framkvæma það eftir beztu getu.

Það er einnig sagt í 15. gr., að gjaldeyriseftirlit Landsbankans eigi að sjá um, að yfirfærslugjald sé greitt af þeim greiðslum til útlanda, sem eigi fara beint um hendur bankanna. Ég dreg mjög í efa, að það sé á valdi gjaldeyriseftirlits Landsbankans að taka þess konar eftirlitsstarf að sér.

Slík atriði eins og þessi eru vissulega þess eðlis, að það má varla minna vera en að hæstv. ríkisstj. ræði við þjóðbankann um framkvæmd slíkra atriða, sem bönkunum er falið að inna af hendi í þágu almennings og fyrir hönd hæstv. ríkisstjórnar. En ég sagði áðan: Við höfum ekki, nm. minni hlutans, getað áttað okkur á, hvaða vörur eru undanþegnar yfirfærslugjaldinu og hvort það væri ekki alveg eins rík ástæða til, að ýmsar aðrar vörur væru þar undanþegnar. Og ég vil nú vekja athygli hv. þingmanna á því, að undir meðferð málsins í fjhn. er byrjað að ræða um það, ja, af hverju skyldu ekki vera undanþegin yfirfærslugjaldinu ýmis skipagjöld í erlendum gjaldeyri á sama hátt og skipaleigur, því að eitt af því, sem talið er í þessari 16. gr., eru skipaleigur, en það á, að svo miklu leyti sem þær eru greiddar í erlendum gjaldeyri, ekki að greiða af þeim þetta yfirfærslugjald, 16%. Þetta mál er svo rætt við ríkisstjórnina og með þeim árangri, að það er flutt brtt. um það, að ríkisstj. geti þó undanþegið yfirfærslugjaldi nauðsynleg skipagjöld erlendis að nokkru eða öllu leyti og sett þau skilyrði um það, er þurfa þykir.

Þegar nú var rætt við hæstv. ríkisstj. um þetta, kemur í ljós, að hún viðurkennir: Jú, það var alls ekki meiningin að taka þetta yfirfærslugjald af skipaleigunum. — En ef þetta kom ekki til athugunar, þá var þarna liður upp á 50–60 millj. kr. Þarna fundust bara óvart níu millj. kr., sem ekki var meiningin að taka þetta gjald af, en hins vegar hefði samkv. lögum átt að taka gjald af, ef þessi tilviljun hefði ekki ráðið í fjhn. í dag í sambandi við þetta atriði.

Það munu vera undanþegnar gjöldum í þessum lögum flugvélar, hvort það er nú innflutningsgjaldið eða yfirfærslugjaldið skiptir ekki miklu máli í þessu sambandi, en við mig var að tala einn af framkvæmdastjórum flugfélaganna hér áðan, og hann hafði talað við starfsmann, fulltrúa hjá tollinum, um flugvélavarahlutina, og viðkomandi maður hafði fullyrt: Jú, það var alls ekki meiningin, að svo miklu leyti sem hann hafði komið að þessu máli, að taka þessi gjöld af flugvélavarahlutunum. — En hvernig er það þá í frv? Jú, það er þannig í frv., að það á að taka gjöldin af flugvélavarahlutunum. Þetta var mér að berast til eyrna nú rétt áður en ég tók hér til máls og hef ekki einu sinni haft aðstöðu til þess að athuga þetta nánar, en bendi á það sem eitt af þeim mörgu atriðum, sem koma upp á yfirborð af einskærri tilviljun.

Ég sé, að ein brtt. frá meiri hl. fjhn. er um það, að það er heimild til ríkisstj. á þskj. 169 að endurgreiða innflutningsgjald skv. þessum lögum að einhverju eða öllu leyti af pappa, er telst til nr. 10 A í 44. kafla tollskrár, ef hann er notaður í umbúðir um nauðsynjavörur. Umbúðir um nauðsynjavörur, það getur verið nokkuð erfitt að ákveða það. En hæstv. menntmrh. var með þessa brtt. á nefndarfundinum í dag. Ég sá, að það voru nokkrir menn, sem sátu hér niðri á „Kringlu“ og voru að ræða við hann vafalaust um þetta. Annar maður hafði talað um það sama við mig í dag, en hann talaði ekki um 10 A, sem er pappi í 44. flokki, heldur líka 28 og 29 í 44. flokki, og það eru pappírspokar. Hvernig stendur nú á því, að þessir pappírspokar hafa ekki verið með þarna? Mér skilst, að við þurfum þá að athuga betur um pappírspokana, og kannske að það sé eitthvað meira, sem þarf að sæta slíkri meðferð, og að það veitti ekkert af að hafa miklu lengri tíma en — (Gripið fram í: Þeir eru nefndir.) Nú, er það, númerið er 28, já? Ja, þá bið ég afsökunar á því, að það getur komið margt fram í máli mínu í sambandi við þetta mál, sem þeir, sem vita betur, geta leiðrétt, og ég hygg að það muni fara svo fyrir fleiri þm., sem fara að ræða efnishlið þessa máls. — Þetta vildi ég hafa sagt um 15. og 16. gr., og kannske vinnst tækifæri til þess, ef góðvild og skilningur er fyrir hendi hjá hæstv. ríkisstj., að athuga þetta í sambandi við 16. gr. um framkvæmd hennar og aðstæður bankanna reyndar fyrir framkvæmd á báðum greinunum, 15. og 16. gr.

Ég skal svo koma að 17. gr. Hún kveður svo á, að bankar þeir, sem selja erlendan gjaldeyri, skuli greiða 50% af gengismun og þóknun þeirri, er þeir taka af viðskiptamönnum sínum fyrir þjónustu við yfirfærslu fjár til útlanda eða aðrar greiðslur erlendis. Þetta á að gefa í útflutningssjóðinn 10 millj. kr. og er fyrst og fremst ætlað til þess að styðja útgerðina.

Nú er það svo a. m. k. í ár og í fyrra, á þessum erfiðu árum útgerðarinnar, að þá hefur hlutfallið í útlánaaukningu Útvegsbankans a. m. k. aukizt stórlega varðandi útlánin til útvegsins, en minnkað til annarra greina atvinnulífsins. Og að svo miklu leyti sem tekið er af tekjum bankanna í opinbera þágu, þá leiðir það ekki til annars en að það verður minna fé til útlána og í þessu sambandi áreiðanlega til útvegsins, sem fyrst og fremst mundi njóta þess fjár. Og ég fyrir mitt leyti efast um það, að útveginum sé nokkur greiði gerður með því að njóta einhverra styrkja eða fá fé í gegnum það opinbera sem styrki á þennan hátt, ef lánsfé hans eða aðgangur að lánsfé á að minnka að sama skapi, og hitt sé miklu heilbrigðara, að lánastofnunum í almenningsþágu, eins og bankarnir eru, sé gefinn kostur á að eflast og atvinnugreinum eins og útflutningsframleiðslunni þar með sterkari aðstaða til meiri lánveitinga en ella mundi vera. Ég tel þess vegna, að þessi 17. gr. sé misráðin, ekki vegna þess, hvort teknar eru 10 millj. eða eitthvað meira eða minna af bönkunum, heldur að þetta sé enginn greiði við útveginn, sem á fyrst og fremst að njóta ávaxtanna af þessu frv., sem hér liggur fyrir. Og það vill nú svo til, að ég hef bandamenn um þessa skoðun, því að það var sagt hér eftir umræðurnar í fyrra, þegar kommúnistar vildu taka 25 millj. kr. af gróða bankanna og vildu lita á þá sem einhver gróðafyrirtæki, hættuleg almenningi í þessu landi, — að þá var það blað Framsfl., sem kvaddi sér hljóðs með þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú vita allir, að bankana skortir fé til að lána til nauðsynlegustu framkvæmda. Með framangreindum framlögum hefðu möguleikar þeirra í þeim efnum verið enn stórlega skertir. Þessi ráðstöfun hefði því leitt af sér minnkandi framkvæmdir og það í mörgum tilfellum þar, sem sízt skyldi. Ráðstöfun þessi hefði því bitnað á almenningi með einum eða öðrum hætti. Það er rétt, að bankarnir hafa safnað nokkru fé á undanförnum árum. Um þessa fjársöfnun gildir hins vegar allt annað en einkagróða. Bankarnir eru almannaeign, og það fé, sem þeir safna, verður sameiginlegt veltufé þjóðarinnar til að tryggja atvinnurekstur og framkvæmdir í framtíðinni. Með því að skerða þetta fé bankanna er verið að skerða athafnamöguleika þjóðarinnar í framtíðinni.“

Það mundi nú víst ekki eiga að vera tilgangur þessa frv., sem hér liggur fyrir frá hæstv. ríkisstj., að skerða athafnamöguleika þjóðarinnar í framtíðinni. En þetta er sem sagt skoðun málgagns Framsfl. á þessu atriði á fyrstu mánuðum þessa árs, þegar tillögur kommúnista um að taka af gróða bankanna fé í þessu skyni voru lagðar fram.

En svo er annað. Af hverju að miða þetta við gjaldeyrisbankana? Ef mönnum sýnist, að það sé rétt að taka til almenningsþarfa einhvern hluta af hagnaði bankanna, þá sýnist mér, að það sé engin rök hægt að færa fyrir því, að það eigi að taka það af einhverjum vissum tekjugreinum bankanna, heldur þvert á móti af hagnaði bankanna í heild, eins og hann er, og væri því eðlilegt, að greinin væri, ef hún á annað borð á að standa og stjórnin vill ekki missa af þessum 10 millj., að teknar væru þessar 10 millj. af hagnaði bankanna í landinu hlutfallslega eftir gróða hvers um sig. Ég mun á síðara stigi málsins fyrir mitt leyti gera till. um, að þessi gr. falli niður, og ég get þá látið þennan kafla úr forustugrein Tímans, blaðs Framsfl., fylgja sem grg. fyrir þeirri till., en sem varatill., að þessar 10 millj. verði teknar, og greinin þá orðuð þannig, að 10 millj. króna í útflutningssjóð verði teknar af hagnaði bankanna, ekki miðað við gjaldeyrisbankana eina, enda er það svo, að það væri eiginlega miklu réttlátara í þessu sambandi, að aðrir bankar en gjaldeyrisbankarnir legðu fram þessar 10 millj., því að gjaldeyrisbankarnir taka að sér þjónustuna fyrir ríkisstj. að innheimta yfirfærslugjaldið og ýmiss konar önnur verk og eru þess vegna búnir að leggja sitt fram í aukinni vinnu og þjónustu fyrir hæstv. ríkisstj. Þess vegna væri eiginlega rétt, að Búnaðarbankinn og Iðnaðarbankinn tækju að sér að greiða þessar 10 millj., svo að þeir hefðu einhvern hlut af þessu máli, og Framkvæmdabankinn mætti kannske vera með.

Ég kem svo að 27. gr. þessa frv., þ. e. a. s. í 26. gr. eru ákvæðin um innflutningsgjaldið, því að það eru tvær aðaltekjugreinar þessa frv., 16% yfirfærslugjaldið á gjaldeyrinum og innflutningsgjaldið. Og mér skilst, að það sé áætlað í grg., að samanlagt gefi þessir tekjustofnar um 200 millj. En í 27. gr. kemur fram frávikið frá því, sem var í fyrra með framleiðslusjóðsgjaldið, þar sem það var lagt nokkuð jafnt yfir, þó að nokkur mismunur væri á yfir allar innfluttar vörur. Og lögð hefur verið áherzla á það af hálfu stjórnarsinna nú, að nú sé allt öðru máli að gegna, vegna þess að nú séu sundurliðaðar vörurnar. Það er sagt, að á brýnustu nauðsynjavörur sé ekkert lagt og svo litið á þær, sem eru töluvert nauðsynlegar, og aðallega lagt á lúxusvörur. Ég skal koma að því nánar á eftir, hversu rétt þetta er. En í þessu sambandi verða menn að átta sig á, að það getur litið nokkuð vel út á yfirborðinu að segja: Ja, við leggjum ekki nýjar álögur á brýnustu nauðsynjar, og þarna sjáið þið, að við erum miklu meiri vinir almennings og alþýðunnar en Sjálfstfl. og reyndar Framsfl., sem var í félagsskap með okkur í fyrra. — En þegar málið er betur krufið til mergjar, þá eru bara í þessu kannske þau ljótustu svik við alþýðuna, sem framin hafa verið opinberlega og fyrir opnum tjöldum, því að það er bersýnilegt, að þessu er hér stillt upp í þessu frv. þannig að undanskilja þær vörunauðsynjar, sem ganga inn í vísitöluna og ákvarða vísitöluna og þar af leiðandi kaupgjald fólksins og ýmissa annarra, sem taka kaup eftir vísitölu. Og þessir menn, sem flagga með því, að þeir leggi ekki þungar byrðar á nauðsynjavörurnar, eru að svíkjast aftan að fólkinu með þessum aðgerðum, sem hér hafa verið hafðar í frammi. Og hæstv. atvmrh. var þó svo heiðarlegur, að hann viðurkenndi í gærkvöld hér í umr., að þetta væri rétt. Það heyrðist að vísu einhvers staðar úr horni, að vísitalan hefði áður verið skert og blekkt með henni, en það er engin bót í máli í þessu sambandi, og að svo miklu leyti sem nauðsynjavörur hækkuðu fyrir þau gjöld, sem lögð voru á með framleiðslusjóðsgjaldinu, þá fékk almenningur það uppbætt með hækkuðu kaupgjaldi og hækkaðri vísitölu. Sjálfstæðismenn komu til dyranna eins og þeir voru klæddir, sögðu þjóðinni nauðsyn á að leggja á hana þungar byrðar, en hér er verið að fara aftan að fólki og reyna að láta það líta út, að menn séu betri við alþýðuna en þeir raunverulega eru.

Þetta er ein hlið málsins. Önnur hlið málsins er svo sú, að hér eru í fimm flokkum sundurliðaðar vörur á heilli blaðsíðu með tölum, tilvitnunum í númer og flokka tollskrár, og ég vænti, að menn geti fallizt á, að það hafi ekki verið hægt fyrir fjhn. annað en að láta þetta vera óathugað, því að hvernig á öðruvísi en með mikilli yfirlegu og ýtarlegri rannsókn að gera sér grein fyrir því, hvort ein vara á að vera í einum flokki eða hinum, þyngri tolli eða aðflutningsgjaldi eða léttara eða hvort einhverjar vörur, sem þarna eru ekki, ættu að vera þar og einhverjar, sem þarna eru, ættu að fara af þessum lista? Þessi grein er svo eitt af því í þessu frv., þar sem berast kemur fram, hversu erfitt er að átta sig á því, sem um er að ræða. Það er lagt hér á gjald, á sama tíma eru inn í þetta gjald felld tvö önnur gjöld, bátagjaldeyrir og framleiðslusjóðsgjald, og ef til vill og ef til vill ekki, því að það þarf rannsóknar við, hvort það er gert, og það er enginn stafur af grg. fyrir því, hvernig þetta er gert í einstökum atriðum, heldur er aðeins sagt almennt, að gjöldin séu þannig, að ef svo og svo mikið innflutningsgjald er lagt á vöruna, þá sé það ef til vill vegna þess, að hún hafi verið á bátagjaldeyri, eða vegna þess, að hún hafi ekki verið á bátagjaldeyri o. s. frv., og þetta er með þeim hætti, að það er óframkvæmanlegt verk á ekki lengri tíma að gera sér grein fyrir, hvaða áhrif þetta hefur, og það verður ekki hægt nema að taka hinar einstöku vörur grein fyrir grein og reikna það út eftir þessu frv., hvert verð vörunnar var og hvert það mundi vera. En ríkisstj., sem er búin að vera lengi með málið í undirbúningi, hlýtur að hafa slíka útreikninga, og af hverju er ekki þm. fengið þetta í hendur? Af hverju fáum við ekki að sjá einhvern samanburð á vöruverði, hvernig það mun verða, eins og frv. er núna, og eins og það er í dag? Við heyrðum það, að hæstv. ríkisstj, sagði í gærkvöld: Ja, við ætlum að lækka álagninguna líka. Gott og vel, það kemur þá lækkun á vöruna. En mér finnst, að þm. eigi kröfu til þess, að hæstv. ríkisstj. leggi fyrir þá, þegar slíkt frv. er lagt fram og með þeim hætti, sem hér greinir. lista yfir vörurnar og með þeim eina mælikvarða til þess að geta áttað sig á því, hvað um er að ræða, hvað varan kostar í dag eða kostaði. áður en lögin ganga í gildi, og hvað hún mundi kosta strax eftir að lögin gengju í gildi. Ég hef heyrt eitthvað tvisvar um það hér í þinghúsinu í dag, að það sé til eitthvað heilmikið af svona listum, og ef það er, þá furðar mig á því, að þeir skuli ekki hafa verið lagðir fram sem fskj. með frv., a. m. k. í nefndinni, og ég vona, að við fáum einhverjar frekari upplýsingar um þetta. Ég hef reynt að biðja menn, því að sjálfir höfum við nm. haft í öðru að standa, að reikna út nokkrar vörur fyrir okkur í dag. Það er ekki langt, sem við höfum komizt í því, og ég vil sannast að segja gjarnan láta athuga það betur, áður en ég fer með nokkrar af slíkum tölum. Þær sýna bæði mjög miklar hækkanir og litlar hækkanir og allt þar á milli. En þess vil ég mega vænta, áður en meðferð þessa máls lýkur í þinginu, að þá fái þm., og ef þess væri nokkur kostur við í þessari deild, þó a. m. k., ef ekki væri annars kostur, fengi Ed. nánari grg. fyrir þessum atriðum.

Það er t. d. sagt í grg, þessa frv., að á innflutning brýnustu nauðsynja og helztu rekstrarvörutegund útflutningsatvinnuveganna séu engin ný gjöld lögð. Það eru engin ný gjöld lögð á brýnustu nauðsynjar. Mér hefur verið sagt í dag og verið reiknað út, að kvensokkar, silkisokkar, hækki um 51.20%. En það eru kannske ekki brýnustu nauðsynjar fyrir kvenfólkið að vera í sokkum! Ef þetta er rétt, þá fær auðvitað ekki staðizt, að á brýnustu nauðsynjar séu ekki lögð nein ný gjöld. Og það er sagt, að á rekstrarvörur útflutningsatvinnuveganna séu engin ný gjöld lögð. Ég hef þó hér lista yfir ýmsar rekstrarvörur, sem ekki eru undanþegnar gjöldum, eftir því sem næst verður komizt, og vildi ég mega nefna þær. T. d. eru það björgunarhringir, björgunarbelti og önnur björgunartæki, grastó, presenningardúkur, presenningar, akkeri, akkerisfestar, vír, þvingur og hjól í þær, stýrishjól, önnur tæki til skipa, dufl, ljósker, hraðamælir í skip, línubyssur, hvalbyssur og hlutir til þeirra. Hérna er listi yfir nokkur atriði, sem mundu teljast rekstrarvörur til útvegsins, og eins og ég segi, þetta er manni fengið í hendur núna rétt áður en fundir hefjast af mönnum, sem hafa verið að athuga þetta, og ekki einn sinni svo vel, að menn hafi komizt yfir að athuga þetta sjálfir. En mundi það ekki vera svo, að það þyrfti nokkru nánari athugunar við og rannsóknar, áður en lýkur, hvort það fær staðizt, að það séu engin ný gjöld lögð á brýnustu nauðsynjar né heldur rekstrarvörur útflutningsframleiðslunnar?

Ég vildi mega vænta þess, að þau ýmis atriði, sem fram kynnu að koma núna í meðferð málsins, yrðu tekin til meðferðar aftur á milli umr. og þingmönnum gefist jöfnum höndum, bara undir umr. vegna þess, hve tíminn er stuttur, aðstaða til þess að fá nánari upplýsingar frá hæstv. ríkisstj. um ýmis atriði í sambandi víð þetta mál. Það er hér t. d. ein veigamikil fsp., sem mig langar til þess að leggja fyrir hæstv. ríkisstj., og hún er þessi: Er annar grunnur, sem söluskattur í heildsölu er reiknaður af nú eftir þessum lögum en áður, og ef svo er, hver er hann þá og hefur verið ráð fyrir því gert í tekjuáætluninni? Ég held, að það sé ekki neins staðar gert ráð fyrir því, að söluskattur í heildsölu hækki, en ef það er rétt, að það sé einhver annar grunnur, sem söluskattur í heildsölu mundi nú leggjast á eftir þessum lögum og eitthvað hærri en áður, þá verður það að koma fram í meðferð þessa máls, því að þá ætti það að leiðréttast, þar sem a. m. k. er ekki gerð grein fyrir því í frv., að til þess sé ætlazt.

Ég sé ekki ástæðu til á þessu stigi málsins að víkja nánar að einstökum atriðum í sambandi við brtt., sem við munum sennilega flytja hér, meðnm. minn, Ólafur Björnsson, og ég, því að þau mál eiga eftir að fá nánari athugun, en ég hef reynt að bregða nokkurri mynd upp, heildarmynd af þessu máli, hvernig það hefur borið að í þinginu, og svo, eftir því sem aðstaða okkar hefur leyft, að víkja að einstökum atriðum í efni frv. sjálfs.

Það hefur verið margsinnis sagt undir meðferð málsins, að nú hafi verið náð samkomulagi við launastéttirnar í þessu landi um meðferð þessa máls, og það sé nýtt, og hv. þm. V-Húnv. viðhafði þetta áðan. Þetta er mesti misskilningur, eins og margkom hér fram við 1. umr. málsins. Það hefur mörgum sinnum áður verið leitað samstarfs og samkomulags og verið náð samkomulagi bæði við verkalýðsstéttina, launþegasamtökin og framleiðendur fyrr og síðar af öðrum ríkisstj. og tekizt misjafnlega. Og mér þykir eiginlega furðulegt, að fulltrúar Alþfl. skuli sitja hér alltaf þegjandi undir því, að þetta sé í fyrsta skipti, sem eiginlega hafi verið talað við verkalýðinn í landinu, og minnast ekki þess, að einu sinni var þó til fyrsta stjórn Alþfl. á Íslandi. Er það virkilega svo, að hún hafi enga tilraun gert til samkomulags eða viðræðna við alþýðustéttirnar í þessu landi, meðan hún sat? Ætli hún hafi ekki staðið að bæði viðræðum, stéttarráðstefnum og samkomulögum, sem gerð voru? Mér finnst ekki, að hæstv. núv. ríkisstj. hafi af svo miklu að státa í því samkomulagi, sem hún er sí og æ að tala um að hún hafi náð við stéttirnar um þetta mál. Hvernig er samkomulagið við bændurna? Ja, það er talað um sjö menn í framleiðsluráði. Fjórir eru með þessu, tveir eru á móti þessu, einn tekur ekki afstöðu til málsins í heild, og þeir lýsa því yfir, að það var lauslega við þá talað. Þeir fengu ekki einu sinni að sjá málið. Það hefur kannske verið fegrað meira að segja fyrir þeim. Ég veit það ekki. Þetta er afstaða bændastéttarinnar í landinu. Þetta er nú ekki ómyndarlegt samkomulag við heila stétt í þjóðfélaginu. Og hvað segir svo verkalýðsstéttin? Eftir grg. frv. segir, að miðstjórn Alþýðusambands Íslands og efnahagsnefnd, sem kosin var á þingi Alþýðusambandsins, hafi ályktað, að veita beri ríkisstj. starfsfrið, þar til úr því fæst skorið, hvernig framkvæmdin tekst. Ja, það á bara að veita henni frið, þangað til hún fær ófrið. Og sjálfir lýsa þeir því í blaðinu, að þeir hafi vopnin til þess að skapa ófrið, ef svo ber undir, og ekki sýnist manni nú, að stjórn standi mjög föstum fótum um samkomulag við stéttir, sem hefur ekki meira af að státa en þetta. Ég held, að það sé sannmæli, að þeir fundir, sem haldnir hafa verið innan verkalýðsfélaga hér í vikunni sem leið, hafi yfirleitt verið fámennir og lítil hrifning af úrræðum ríkisstj. Og var nokkurs staðar leitað samþykkis á nokkrum fundi þessara stéttarsamtaka á úrræðunum? Var nokkuð meira gert en að skýra þetta fyrir fundarmönnum og fundi slitið svo, eftir að ýmsir voru búnir að láta litla ánægju í ljós yfir úrræðunum, eða það er kannske misskilningur hjá mér og það liggi fyrir, að þessir fundir hafi samþykkt þessi úrræði? Mér hefur verið skýrt frá því, að það hafi þvert á móti alls ekki verið samþykkt neitt, heldur sagt frá þessu. Þetta er náttúrlega að kunna vel til vígs og telja sig standa báðum fótum í jötu og hafa náð samkomulagi við þjóðina í heild, held ég. Það væri æskilegt, að friður fengist í þjóðfélaginu, vinnufriður og friður í efnahagsmálunum, meiri en verið hefur, en því miður finnst mér ekki, að það séu mörkuð nein ný spor í þessu efni með þessu frv., sem hér hefur verið lagt fyrir.

Ég skal svo ljúka máli mínu, um leið og ég endurtek það, að á síðara stigi málsins eigum við eftir að flytja einhverjar brtt. En allt veltur það á því, bæði þær athugasemdir, sem fram hafa verið settar, og einnig það, að brtt. eru ekki fram komnar, hversu sáralítinn tíma við höfum haft, en viljum þó reyna að standa ekki í vegi fyrir, að málið geti náð skjótlega fram að ganga.