20.12.1956
Neðri deild: 39. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í B-deild Alþingistíðinda. (675)

92. mál, útflutningssjóður o. fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru fyrst fáein orð út af brtt. frá hv. þm. Borgf. og hv. 2. þm. Skagf. um vélarnar. Það er einhver misskilningur í þessu máli. Þannig er mál með vexti, að landbúnaðarvélar þær, sem hér um ræðir, voru undir framleiðslusjóðsgjaldi, en eru nú í staðinn undir yfirfærslugjaldi í frv. Það er sem sé fellt niður framleiðslusjóðsgjaldið og söluskatturinn í smásölu, að því leyti sem hann kom á þær, en í staðinn kemur yfirfærslugjald. Þeir, sem bezt vita, segja, að þetta geti að vísu í vissum tilfellum munað 1% eða svo í aðflutningsgjöldum og ef til vill í mesta lági ½% eða svo í verði, en það er praktískt talað óbreytt ástand. Það er einhver misskilningur hér, því að einmitt í þessu var ég að tala við hagstofustjóra, sem gaf mér þessar upplýsingar, enda átti þetta svona að vera í frv.

Viðvíkjandi bátavélunum er það að segja, að þær voru undir framleiðslusjóðsgjaldi áður, eru nú undir yfirfærslugjaldi. Það verður þess vegna það sama upp á teningnum með þær, að þær standa raunverulega í stað, miðað við það, sem verið hefur. Út af þessu vil ég svo segja, án þess að ég vilji nokkuð fara að munnhöggvast um þetta, að í fyrra, þegar hér voru sett gjöld vegna framleiðslunnar og í fleira skyni, þá voru sett ný gjöld bæði á bátavélar og landbúnaðarvélar. Ég vil því nú satt að segja vænta þess, að þeir menn, sem þá áttu þátt í því að hækka gjöld á vélum þessum, sætti sig nú við það, að engin ný gjöld eru lögð á þær, á sama tíma sem gjöld eru lögð á flest annað, og þýðir það, að þessar vélar fá mun betri aðstöðu, ef svo mætti segja samanborið við aðrar vörur, en þær hafa haft. Ég skil satt að segja ekki almennilega í því, að þeir, sem voru með því í fyrra að leggja 10% ný gjöld á þessar vélar, skuli nú sjá ástæðu til að hreyfa sig, þegar sett eru á ný almenn gjöld, en þessar vélar einmitt undanþegnar þeim.

Ég kvaddi mér ekki hljóðs til þess að fara að taka hér þátt í almennum pólitískum umr., þó að það væri að sumu leyti tilefni til þess frá 5. þm. Reykv. Ég get þó ekki stillt mig um að benda á tvennt eða þrennt hjá þessum hv. þm., fyrst ég er kominn hingað. Fyrst var það, að hann og aðrir sjálfstæðismenn hafa verið að tala um hér, að verið væri að fara troðnar slóðir. Látum nú vera, að það er ekki rétt, því að í þessu er margt frábrugðið því, sem áður hefur verið. En þeir segja, að það sé verið að fara troðnar slóðir. En af hverju eru þeir þá svona reiðir, ef hér er verið að fara sömu slóðir og þeir hafa sjálfir fetað? Í þessu er mjög mikið ósamræmi hjá hv. þm. Sjálfstfl. Hér mun koma tvennt til: Annars vegar það, að þeim svíður að hafa misst völdin, og svo hitt, að þeir vita það inn á sér, að það verða ekki farnar að öllu leyti troðnar slóðir, heldur verða gerðar ýmsar ráðstafanir, sem verða nokkuð öðruvísi en áður hefur verið hægt að gera í samvinnu við þá. Þetta er nú sannleikurinn í málinu. Það er þetta tvennt, sem kemur til.

Þá sagði hv. 5. þm. Reykv., að það væri einkennilegt, að Framsfl. skyldi sjá ástæðu til þess að breyta til og taka upp samvinnu við Alþb. og Alþfl. í staðinn fyrir Sjálfstfl.

Við höfum nú svo margoft gert grein fyrir því, af hverju þetta var gert, að ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það hér. En hv. þm. sagði í þessu sambandi, að það hefði verið vegna þess, að Framsfl. hefði verið að sækjast eftir völdunum. Eitthvað skýtur þetta nú skökku við, því að eftir því, sem manni skilst, var víst enginn vandi að halda völdunum áfram í samvinnu við Sjálfstfl. (Gripið fram í.) Það mun ekki hafa staðið á því að halda völdunum með því að vera í samvinnu við Sjálfstfl., þannig að Framsfl. þurfti ekki þess vegna að breyta til. Hann gat verið áfram við völd með Sjálfstfl. Er það ekki það, sem þeir hafa alltaf verið að segja sjálfir sjálfstæðismenn, að þeir hafi endilega viljað vera áfram í stjórn með Framsfl.? Nei, Framsfl. breytti ekki til til þess að komast að völdum, sem hann áður hafði ekki, heldur vegna þess, að við fundum það, reynslan var um það ólygnust, að þessir flokkar tveir réðu ekki við efnahags- og framleiðslumálin og það þurfti að reyna aðrir leiðir. Það þurfti því að reyna samvinnu við aðra aðila, og það er verið að reyna nú með þeim árangri í fyrstu umferð, að samkomulag hefur í fyrsta skipti nú um langan tíma, víðtækt samkomulag, náðst um þær ráðstafanir, sem verið er að gera. Þetta er stórfelld nýjung, hvernig sem reynt er að draga athyglina frá því. Sjálfstæðismenn gera sér að vísu vonir um, að þetta samkomulag sé meira á yfirborðinu en raunverulegt. Reynslan á eftir að skera úr því. En hræðileg vonbrigði hljóta það að verða fyrir mennina, ef það reynist svo, að þetta samkomulag verði sæmilega haldgott.

Á hinn bóginn mun það ekki verða slæmt fyrir þjóðina, ef þetta samkomulag reynist haldgott, því að þá gæti vel farið svo, að þær ráðstafanir, sem hér er verið að gera, gætu orðið til nokkurrar frambúðar. (Gripið fram í.) Já, það væri ekki gott fyrir hv. þm., sem er að taka fram í, ef svo yrði.

Þá vil ég aðeins minnast á, að hv. 5. þm. Reykv. var að fárast hér út af þeim hraða, sem væri á málinu, og hvað menn fengju lítinn tíma til þess að sinna því, athuga það gaumgæfilega í krók og kring. Öðruvísi mér áður brá. Þessi hv. þm. var nú ekki að tvínóna við það í fyrra og hittiðfyrra, þegar hann var að koma í gegn hliðstæðum frv. þáv. ríkisstj., áreiðanlega ekki með minni hraða en nú er á hafður. Þá lagði hann ekki fingurna á milli við hv. stjórnarandstæðinga, taldi þá víst hafa alveg nægilegan tíma til þess að skoða málin, þó að þeir hefðu ekki meiri tíma þá en hv. stjórnarandstæðingar hafa nú.

Sannleikurinn er sá, að meðferðin á þessu máli er alveg hliðstæð því, sem áður hefur þekkzt. Það væri auðvitað æskilegra, að þetta þyrfti ekki að ganga með svo miklum hraða. En við vitum, að þar kemur til, að undirbúningstíminn er mjög takmarkaður, ef þessum málum á að ljúka í tæka tíð. Þau eru flókin og erfið viðfangs, en jafnframt þannig vaxin, að þau mega ekki vera lengi í meðförum hv. Alþingis. Það er sannleikurinn. (Gripið fram í.) Þau verða að vera nokkuð lengi í meðförum í stjórnarráðinu, eins og þessi hv. þm. þekkir manna bezt.

Þá var hv. þm. að tala um að það væri svo erfitt að vinna að þessu, það væru svo margar tilvísanir í frv. og það vantaði upplýsingar, sem þar að lúta. En hv. stjórnarandstæðingar fengu í gær lista til skýringar þeim tilvitnunum, sem í frv. eru, og hefði verið í lófa lagið að nota tímann til þess að kynna sér þessa lista. En svo var á hv. 5. þm. Reykv. að heyra, að hann hefði alls ekki séð listana, og það er þá vegna þess, að það er léleg verkstjórn í Sjálfstfl., en ekki er það stjórnarflokkunum að kenna, að hann hefur ekki séð listana, því að þeir fóru til flokksins í gær.

Þá sagði hv. þm., að það væri sanngjarnt, að frv. fylgdu útreikningar um það, hvaða áhrif ákvæði þess hefðu á hverja einstaka vörutegund, hversu mikið hún hækkaði í verði vegna ákvæða frv.

Þessar upplýsingar hefur stjórnin ekki á reiðum höndum, og ég fullyrði það af langri reynslu, að það hefur ekki tíðkazt, að frv. eins og þessu fylgdu slíkar upplýsingar, að það væri reiknað út um hverja vörutegund, hvaða verðbreytingum hún tæki vegna nýrra álaga. Þessu hefur aldrei orðið við komið, og raunar óframkvæmanlegt um víðtæk frv.

Loks spurði hv. þm., hvort söluskattur í heildsölu yrði reiknaður á öðrum grundvelli samkvæmt þessu frv., ef það yrði að lögum, en áður hefði verið. Þessu er hægt að svara neitandi. Hann verður reiknaður nákvæmlega á sama hátt og verið hefur.