20.12.1956
Neðri deild: 39. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í B-deild Alþingistíðinda. (678)

92. mál, útflutningssjóður o. fl.

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Því hefur verið haldið fram af formælendum þessa frv., að með því væru fundin varanleg úrræði, sem kæmu í veg fyrir áframhaldandi vöxt verðbólgunnar. Að vísu hefur það veríð viðurkennt, enda auðsætt, að verulegar verðhækkanir hlytu að eiga sér stað vegna þeirra nýju álagna, sem hér koma til sögunnar, en það hefur verið sagt, að þessar verðhækkanir lendi eingöngu á óþarfavörum, en nauðsynjavörur muni ekki hækka í verði, af því að þeim sé hlíft við öllum álögum.

Yfirleitt virðist sá hugsunarháttur ganga eins og rauður þráður í gegnum þær till., sem hér hafa verið gerðar, að það sé til einhver almennur hlutlægur mælikvarði á það, hvað séu nauðsynjavörur og hvað séu óþarfavörur, og stundum nálgast þetta jafnvel hið broslega, eins og í till. þeirri, sem meiri hl. fjhn. hefur horið fram samkvæmt ósk ríkisstj. um það að létta tollum af „umbúðum um nauðsynjavörur“, eins og það er orðað. Það er gengið út frá því, að til sé einhver almennur mælikvarði á það, hvað séu nauðsynjar og hvað ekki, og eftir þessu eigi að fara, þegar ákveðið sé, hvort umbúðirnar eigi að vera tollfrjálsar eða ekki. En ég held, að ef þetta væri nánar skoðað, þá ætti öllum að vera ljóst, að það er enginn slíkur hlutlægur mælikvarði til á það, hvað séu nauðsynjavörur og hvað séu óþarfavörur. Slíkt hlýtur alltaf að vera háð persónulegu mati.

Ég ætla að nefna eitt dæmi þessu til stuðnings, sem ég vona að sé nokkurn veginn ljóst. Það hafa undanfarin ár verið um það nokkur átök á milli hæstv. fjmrh. og nokkurra flokksbræðra minna, hvort létta skyldi tollum af innfluttum hljóðfærum. Hæstv. fjmrh. hefur ekki séð sér fært vegna fjárhags ríkissjóðs að ganga inn á það, að þessum tollum sé aflétt. Það er nú þannig með mína afstöðu til þessa máls, ef ég ætti að vera hreinskilinn, að ég mun standa nærri hæstv. fjmrh. í skoðunum, þó að það sé af annarri og óskemmtilegri ástæðu en þeirri, sem fyrir honum vakir, nefnilega þeirri, að hæfileikar mínir á sviði tónmennta eru ákaflega takmarkaðir. En er það nú ekki þannig t. d. með þessa vörutegund, að fyrir þá söngelsku eru hljóðfærin nauðsynjavara, þannig að þeir mundu neita sér um marga hluti frekar en að vera án þeirra, en við, sem höfum takmarkaða hæfileika á þessu sviði, lítum aftur á þetta sem miður þarfan varning?

En einhver mælikvarði hefur þó sennilega verið lagður því til grundvallar, þegar ákveðið var, hvað væri óþarfi og hvað nauðsynjar, og mismunandi háar álögur lagðar á vörurnar út frá þeim sjónarmiðum, og það, sem þar hefur verið lagt til grundvallar, mun fyrst og fremst vera gildi varanna í vísitölu framfærslukostnaðar. Við skulum athuga þetta dálítið nánar, þó að ég hafi að vísu áður sýnt fram á, hversu lítið sé á vísitölugrundvellinum að byggja. Það vill nú svo til, að ég mun flestum öðrum hv. þm. kunnugri því, á hverju þessi vísitölugrundvöllur var byggður, því að ég vann einmitt úr þeim búreikningum, sem safnað var fyrir 17 árum með tilliti til þess að byggja á vísitölugrundvöllinn. Þá voru einar 50 verkamannafjölskyldur hér í bæ fengnar til þess að halda reikninga yfir útgjöld heimilis síns um árs skeið. Þessir búreikningar voru í rauninni merk heimild um lífskjör verkamanna, eins og þau voru þá, eftir að svokölluð vinstri stjórn hafði verið við völd um 5 ára skeið, sú sem næst sat á undan þessari og kenndi sig við það vörumerki. Yfirleitt var það þannig, að hjá verkamannafjölskyldum þessum ríkti hin sárasta fátækt. Aðalneyzluvörurnar, að mig minnir, voru saltfiskur, smjörlíki, rúgbrauð og mjólk. Það var varla svo, að fólk þetta hefði efni á því að kaupa fatnað, og er það ef til vill skýringin á því, að hæstv. ríkisstj. virðist líta þannig á, að það sé óþarfi, að kvenfólkið gangi í sokkum.

Hæstv. sjútvmrh. komst þannig að orði, ef ég man rétt, — það má vel vera, að ég hafi misskilið orð hans, en það mun þá leiðréttast, — að þær verðhækkanir, sem ættu sér stað vegna þessara nýju álagna, væru ekki rýrnun á kaupmætti launanna, vegna þess að það, sem hækkaði í verði, væri fyrst og fremst óþarfi, eins og t. d. súkkulaði, gosdrykkir o. fl., sem hann nefndi. En er það nú ekki einmitt þannig, að það, sem gerir það að verkum, að lífskjör verkamanna hafa batnað svo sem raun er á síðan 1939, er það, að nú geta þeir keypt fleira en rúgbrauð, saltfisk o. s. frv.? Þeir geta jafnvel veitt sér þann lúxus að kaupa gosdrykki, súkkulaði handa börnum sínum o. s. frv. Ef þessi hugsunarháttur væri færður út í æsar, þá jafngilti það í rauninni því, að það ætti að vinna að því eða að það væri a. m. k. ekkert athugavert við það, þó að verkamenn væru sviptir öllum þeim kjarabótum, sem þeir hafa áunnið sér síðan 1939.

En það er líka önnur hlið á þessu máli, sem ég er ekki viss um að hafi verið athuguð nákvæmlega og getur orðið til þess að rugla nokkuð þá útreikninga, sem tekjuöflunin er byggð á. Það má kannske um það deila, hvort verkamönnum sé nauðsynlegt að kaupa gosdrykki, súkkulaði o. s. frv., en það er annað atriði í þessu sambandi, sem varla er ágreiningur um að hlýtur að snerta hagsmuni þeirra mjög verulega. En eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, — ég veit ekki, hvort á þeim er að byggja eða ekki, — þá mun gert ráð fyrir því, að gjöld af innlendum tollvörutegundum verði hækkuð úr 40% og upp í 80%, eða um helming. En er það nú víst, einmitt vegna þess að halda á kaupgjaldinu nokkurn veginn föstu, þar sem vísitalan á ekki að sýna neinar hækkanir, að það verði keypt jafnmikið af þessum vörutegundum og áður, og gæti það ekki haft nokkur áhrif á atvinnu þess fólks, sem í sælgætisverksmiðjunum vinnur? Ég efast um, að það hafi verið hugsað fyllilega út í þessa hlið á málinu.

Það hefur verið talað um, að það þyrfti ekki að óttast, að verðhækkanirnar verði eins miklar og lítur út fyrir, ef litið er á prósenturnar, af því að álagning verzlananna geti tekið á sig svo og svo mikið af þessum verðhækkunum. Það var einn hæstv. ráðherrann, sem hélt því m. a. fram í gær. Það var verið að tala um það, hvað byggingarefnið hækkaði mikið í verði, 16 eða 20% eða eitthvað þar um kring, en hann sagði, að það væri ekki víst, að nein hækkun þyrfti í rauninni að verða á byggingarefni, því að álagningin kæmi ef til vill til að lækka sem þessu næmi. Það er ófagur vitnisburður, sem kaupfélögunum er gefinn, ef þessu er haldið fram. Ég veit ekki betur en að verulegur hluti af verzlun með byggingarefnið sé einmitt í höndum kaupfélaganna, og það er ekki neitt smáræði, sem þau hafa okrað á almenningi hvað snertir viðskipti með þessa vöru, ef þau geta tekið á sig 16% hækkun á innkaupsverði vörunnar og eftir sem áður haft nægilega háa álagningu til þess að standa undir kostnaði við dreifingu vörunnar.

Og önnur spurning vaknar líka í þessu sambandi. Ef það er möguleiki á því, að milliliðirnir, eins og það er orðað, eða álagningin geti borið allt að 200 millj. kr. nýjar álögur eða a. m. k. að mestu, hvernig stóð þá á því, þegar vísitölubindingin var gerð á s. l. hausti, að það skyldi vera farin sú leið til þess að stöðva vísitöluna að banna að greiða fulla dýrtíðaruppbót? Hvers vegna var ekki hin leiðin farin, að lækka álagninguna nógu mikið og festa vísitöluna með því móti?

Það eru örfá einstök atriði í sambandi við frv., sem ég vildi einnig minnast á. Það er gert ráð fyrir því, að skerðing kaupgjaldsins um 6 stig verði með þessum lögum endanlega lögfest. Í haust var gert ráð fyrir því, að hér væri aðeins um bráðabirgðaráðstöfun að ræða. Ég skal ekki fara út í það atriði hér, hvort hér verður um verulega kjaraskerðingu að ræða sem afleiðingu af þessu launþegum til handa, en mig langar til að minna á önnur atriði í sambandi við þetta.

Það var upplýst á síðasta Alþýðusambandsþingi og lagðir fram útreikningar hagfræðinga því til sönnunar, að kaupmáttur launa hefði aukizt um 7%, frá því að verkfallið var háð í marz og apríl 1955. Þá var tekið tillit til skerðingarinnar. En í þessu sambandi má minna á það, að í upphafi verkfallsins buðu atvinnurekendur 7% kjarabætur. Það voru ekki 7% kauphækkanir, heldur 7% kjarabætur, sem að einhverju leyti voru hugsaðar í annarri mynd en kauphækkanir, en að því leyti sem um kauphækkanir átti að vera að ræða, þá áttu þær ekki að koma fram í hækkuðu vöruverði. Það er m. ö. o. þannig, að árangurinn af 6 vikna verkfallinu, það sem vannst með því fram yfir það, sem atvinnurekendur buðu í upphafi, er nú með þessum lögum endanlega tekið af launþegunum, ef marka má þessa útreikninga trúnaðarmanna Alþýðusambandsins. Mér finnst vert að hafa þetta í huga.

Ég vil einnig, þegar talað er um, að þessar ráðstafanir eigi að vera til einhverrar frambúðar, vekja athygli á tveim atriðum, þar sem þær hljóta að hafa mjög óheppileg áhrif.

Í þessu frv. er í miklu ríkara mæli en áður gengið inn á þá braut að greiða útflutningnum mismunandi uppbætur eftir því, hvernig afkoma hans er. Það er kannske eðlilegt, að það sé haft þannig, ef þær uppbætur, sem greiddar eru, eru hugsaðar aðeins til bráðabirgða. Hitt ætti að vera augljóst, að sé hér um frambúðarráðstöfun að ræða, þannig að hver grein útflutningsframleiðslunnar fái það, sem hún þarf til þess að bera sig, eins og það er orðað, þá mundi það draga úr allri framfaraviðleitni í viðkomandi atvinnugrein, því að engin ástæða er þá til að leggja sig eftir þeirri framleiðslu, sem gefur af sér mestan arð, heldur ber þá aðeins að hækka uppbæturnar til þeirra starfsgreina, sem ekki bera sig.

Öðru atriði í þessu sambandi vildi ég einnig leyfa mér að vekja athygli á, og það er þetta, að þar sem álagið á vörurnar er gert svo mjög mismunandi eftir því, hversu nauðsynlegar þær eru taldar að dómi hæstv. ríkisstj. og ráðunauta hennar, þá þýðir það í rauninni, að tollvernd iðnaðarins í landinu er, miðað við þýðingu viðkomandi vara í vísitölugrundvellinum, þannig, að þær iðngreinar, sem framleiða vöru, sem hafa litla þýðingu í vísitölugrundvellinum og eru þess vegna taldar óþarfavörur, njóta nær ótakmarkaðrar verndar, þar sem aðrar iðngreinar, sem framleiddu nauðsynlegri vöru, nytu lítillar tollverndar eða engrar. Ég hugsa, að þess séu varla dæmi í nokkru landi, að tollvernd til handa iðnaði sé ákveðin með tilliti til þess, hvaða þýðingu vörurnar hafa í fölsuðum vísitölugrundvelli. Þar eru það önnur sjónarmið vitanlega, sem eðlilegt er að ráði.

Að öðru leyti hef ég litlu við það að bæta, sem meðnefndarmaður minn, hv. 5. þm. Reykv. (JóhH), tók fram í sinni framsöguræðu fyrir nál. okkar.

Ég vildi þó aðeins minna á það nýja snjallræði, sem hér hefur verið fundið upp, að ráðstafa gróða bankanna til þess að greiða uppbætur á útfluttar afurðir. Mér finnst það nú dálítið einkennilegt, og ef til vill felst í því skýringin á því, að tilraun okkar stjórnarandstæðinga til þess að lýsa eftir áliti dr. Polaeks, hagfræðingsins frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem hér starfaði að undirbúningi þessara ráðstafana s. l. haust, hefur ekki borið nokkurn árangur. Það kæmi mér mjög einkennilega fyrir sjónir, ef einn af sérfræðingum Alþjóðabankans hefði lagt það til, að skatti, sem lagður væri á seðlabankann, væri varið til þess að bæta upp útfluttar afurðir. Bankarnir eru opinber stofnun, sem inna af höndum ákveðna þjónustu við almenning. Auðvitað er hægt að skattleggja þetta, en verður þá ekki næsta skrefið það, að sjálfur ríkissjóðurinn verði skattlagður og þeim skatti varið til þess að greiða útflutningsuppbætur? Mér finnst, að þá mætti alveg eins leggja sérstakan skatt á þjónustu, sem opinberir aðilar veita borgurunum, t. d. meðal annars með því að selja þeim áfengi, og ráðstafa til útflutningsuppbóta. Seðlabankinn og raunar allir íslenzku bankarnir, sem eru í ríkiseign, eru hér alveg hliðstæðir ríkissjóðnum.

Saga þessa máls er þannig að því leyti merkileg, að byrjað var á undirbúningi þessara ráðstafana í efnahagsmálum með því að leita til sérfræðinga Alþjóðabankans, en endar svo í, að það snjallræði er fundið upp, sem ég hugsa að sé veruleg nýjung, að skatti á seðlabankann er varið til þess að standa undir þessum uppbótum.

Það hefur verið mikið rætt um það hér, að það hafi verið talað við stéttafélögin og sum þeirra hafi gefið yfirlýsingar um, að þau muni una þeim ráðstöfunum, sem hér er um að ræða. Þó að manni finnist að vísu, að þessar yfirlýsingar séu tiltölulega veigalitlar og ekki gott að átta sig á því, hvað raunverulega er upp úr þeim að leggja, þá er sízt ástæða til þess að lasta það, það ber þvert á móti að lofa það, að við stéttasamtökin skuli hafa verið rætt út af þessum málum, þó að þar sé ekki um neina nýjung að ræða.

En úr því að hæstv. ríkisstj. er svo ánægð með þann árangur, sem náðst hefur, mundi hún þá ekki vera fús til þess að ræða þessi mál á enn almennari grundvelli, nefnilega þannig að leggja afrek sín í þessum málum og öðrum, þegar tími gefst til vegna tíðarfars og þegar almenningur hefur áttað sig á þeim hagsbótum, sem þessar ráðstafanir hafa í för með sér, fyrir dóm kjósenda og stofna til almennra kosninga í haust? Þá yrði fyrst úr því skorið, hverra vinsælda þessar ráðstafanir njóta hjá almenningi.