20.12.1956
Efri deild: 41. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í B-deild Alþingistíðinda. (707)

92. mál, útflutningssjóður o. fl.

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Það var aðeins í tilefni af því, sem hér kom fram í ræðu hv. þm. Vestm. (JJós), þar sem hann endurtekur hér hið sama og áður, sem ég hélt að ég hefði talað alveg skýrt um. Hann spyr nú enn einu sinni, hvort ég hafi ekki lýst því yfir í samtölum við útvegsmenn, að engar meiri háttar breytingar yrðu gerðar á sölumálum sjávarútvegsins. Slíkt sem þetta er með öllu rangt, eins og ég hafði lýst hér yfir áður. Ég hef ekki gefið neinar yfirlýsingar í þá átt. Ég hafði sagt það eitt um þessi mál, að aðalefni þeirra breytinga, sem fyrir lægju, væri fólgið í því að setja á stofn sérstaka útflutningsnefnd, sem hefði yfirstjórn útflutningsmálanna með höndum; þegar ég hefði verið spurður að því sérstaklega, hvort í ráði væri að leggja niður sölusamtök framleiðenda, þá hefði ég svarað því neitandi. Það, sem er fram yfir þetta, eins og ég hafði lýst yfir áður, er úr lausu lofti gripið. Það er rangt. Ég vil einnig geta þess til viðbótar, að fulltrúar útvegsmanna, sem við mig hafa átt samninga, voru einmitt hér í þinghúsinu og hlustuðu á ummæli mín, sem ég sagði hér um þetta fyrr í kvöld, og vegna þess að þessi hv. þm. og reyndar fleiri hér hafa sí og æ verið að endurtaka það, að samkomulag mitt við útvegsmenn væri bundið einhverjum skilyrðum frá þeirra hálfu, þá lét ég þá enn einu sinni staðfesta samþykki sitt skilorðslaust með því að skrifa undir á nýjan leik það samkomulag, sem við höfðum áður gert, með öllu skilorðslaust, og að þeir væru fullkomlega samþykkir því, sem ég hefði hér sagt nú varðandi þessi afurðasölumál, og það í viðurvist skrifstofustjórans í mínu ráðuneyti, svo að það fer vonandi ekkert á milli mála um það, hvað er samkomulag á milli mín og útvegsmanna, þó að, eins og ég sagði áður, gerðar hafi verið allverulegar tilraunir til þess að reyna að skekkja það samkomulag.

Það er rétt, það er eins og ég sagði, að það hefur verið nokkur togstreita, eins og vill verða í svona samtökum, meðal útvegsmanna um það, hvort ætti að fara að prjóna upp á einhverjum nýjum skilyrðum, en slíkt hefur nú orðið undir, þó að gerðar hafi verið tilraunir í þá átt. Það liggur að vísu gleggst fyrir, að í öllum þeim bréfum, sem farið hafa á milli ráðuneytisins og útvegsmanna, sem eru fjöldamörg bréf í fjöldamörgum liðum, hafa þeir aldrei sett fram skriflega eitt einasta atriði sem skilyrði varðandi breytingar á afurðasölulögunum.

Ég vænti nú, að þessi mál liggi þannig fyrir, bæði eftir yfirlýsingu mína hér fyrr í þessum umr. og einnig nú síðar, að samkomulagið, sem gert hefur verið við útvegsmenn, stendur alveg á traustum fótum, og það er ekki bundið neinum skilyrðum um það, hvað gert verður í þessum afurðasölumálum. — Hins vegar er það líka ljóst i aðalatriðum, hvað ég hef þar sagt þeim og hvað þar stendur til að gera.