20.12.1956
Efri deild: 37. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (731)

57. mál, atvinnuleysistryggingar

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég skil vel, að hæstv. forseta finnist nokkuð farið út fyrir efnið í þessum umr., en hæstv. félmrh. hefur í sinni síðustu ræðu gefið mér tilefni til þess að gera örstutta athugasemd. Vænti ég, að hæstv. forseti virði mér til vorkunnar, þó að ég fari þar nokkuð út fyrir efnið að gefnu tilefni.

Hæstv. ráðh. bar nú fyrir sig í fyrsta skipti 29 þús. félagsmenn í Alþýðusambandi Íslands. Nú hefur hæstv. ráðh. bersýnilega áttað sig á því, að hann hljóp á sig í fyrri ræðu sinni, þar sem hann lýsti því yfir, að með þessu frv. væri hreinlega um það að ræða að flytja einn fulltrúa í stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs frá Sjálfstfl. yfir til kommúnistaflokksins, en að nafninu til yfir til Alþýðusambandsins. Nú kemur hann hér og hampar 29 þús. félagsmönnum í Alþýðusambandi Íslands.

Ég tók það fram í minni fyrstu ræðu hér, að ég ynni verkalýðssamtökunum og verkalýðnum í landinu vissulega ríkra áhrifa á stjórn þessa sjóðs, en ég tel það skaðlegt, að kommúnistaflokkurinn hafi þar mikil áhrif, og ég treysti ekki núv. stjórn Alþýðusambands Íslands og hæstv. félmrh., sem skipar þar forsæti. Það vil ég láta koma alveg tvímælalaust fram, að til þeirrar stjórnar ber ég ekkert traust.

Hæstv. ráðh. klykkir nú út með því að skýra frá því, að ég hefði verði rekinn úr Sjómannafélagi Ísfirðinga. Þetta er alveg rétt, eitt af því fáa rétta, sem hann hefur sagt í þessum ræðum. En hvernig skyldi nú hafa staðið á því? Ég vil segja hv. þd. frá því. Það er að vísu spaugilegt mál, það stóðu yfir umræður hér á Alþingi nokkru fyrir páska, m.a. um Grænlandsútgerð eins ísfirzks útgerðarmanns. Það var farið þannig með staðreyndir í sambandi við það mál, að ég taldi mér skylt að taka þar til máls og segja söguna eins og ég vissi hana sannasta og réttasta. Hæstv. núv. félmrh. og flokksmenn hans voru svo reiðir við mig út af þessum ummælum mínum, að þeir flýttu sér vestur í páskafrí. Ég veit ekki, hvort þeir hafa gert það á morgni upprisunnar eða einhverjum öðrum morgni, að þeir boðuðu til fundar í Sjómannafélaginu til þess fyrst og fremst að fá Sigurð Bjarnason rekinn úr Sjómannafélaginu. Þar var flutt till. um það og samþ. með — held ég — innan við 10 atkv., ég ef mér hefur verið rétt sagt frá, þá sátu 20 hjá og einhverjir greiddu atkv. á móti.

Þetta er frægasti sigur, sem hæstv. félmrh. hefur unnið á Ísafirði lengi vel, og ég óska honum til hamingju með hann. En slík ógn stóð hæstv. félmrh. af þátttöku minni í verkalýðsfélagi, að hann tók sér far á morgni upprisunnar vestur til Ísafjarðar til þess að fá mig rekinn úr félaginu. Ég hafði borgað árgjald mitt til þessa verkalýðsfélags, vegna þess að ég hafði þurft að vera í því og með glöðu geði gengið í það sem ungur maður, þegar ég stundaði sjó á námsárum mínum, eins og ég vænti að hæstv. félmrh. hafi einhvern tíma gert. En mér hefur aldrei staðið slík ógn af honum, að ég hafi talið það ómaksins vert að brjótast inn í þau verkalýðsfélög, sem hann hefur átt innangengt í, og leggja fram till. um það, að hann yrði rekinn þaðan. Það er fjarri því. (Félmrh.: Ég átti engan hlut að því.) Hæstv. ráðh. má ekki vera að gera sannleikanum meiri skráveifur en hann þegar hefur gert í þessum umræðum. Hæstv. ráðh. veit það, að hann fór beinlínis þeirra erinda til Ísafjarðar að fá mig rekinn úr þessu stéttarfélagi.

Það er svo alveg dæmalaus óskammfeilni hjá hæstv. ráðh., þegar hann ætlar að halda því fram, að hann hafi engan hlut átt að því, að togarinn Skutull var seldur burt frá Ísafirði. Hann var sjálfur í bæjarstjórn. Að vísu var Guðmundur vinur minn Hagalín þá forseti bæjarstjórnar. Ég veit ekki betur en að Alþýðuflokkurinn hafi staðið óklofinn að því, og ég veit ekki betur en það hafi verið blað, sem hæstv. félmrh. var ritstjóri að, sem hélt því einmitt fram, að í staðinn fyrir þennan eina togara ætti svo sem ekki að verða skarð fyrir skildi, því að þaðan ættu annaðhvort að koma 40 15–20 tonna bátar eða 20–40 tonna bátar. Ef hæstv. ráðh. vill fletta upp í sínu gamla blaði, Skutli, árið 1942, ef ég man rétt, þá stendur þetta í blaðinu alveg skýrum stöfum, og einn góðan veðurdag er ég til með að koma með þessa postillu til hans og lesa þetta yfir hæstv. ráðh., ef hann er búinn að gleyma því, sem ég veit að hann er nú ekki, því að hann er býsna minnugur á þá hluti, sem hann þarf að muna, þó að honum finnist einstaka sinnum, að hann verði að gleyma þeim. Eftir að hæstv. ráðh. og flokkur hans höfðu selt þennan eina togara úr bænum til Faxaflóasvæðisins, sem hv. stjórnarliðar hafa verið að tönnlast á að ekki þyrfti á togurum að halda núna, — eftir að þeir höfðu selt þennan togara til Faxaflóasvæðisins og eftir að togaraútgerðarmenn í Reykjavík höfðu í mörg ár grætt á honum mikið, þá voru það sjálfstæðismenn, sem keyptu togara til Ísafjarðar, og það var undir forustu okkar sjálfstæðismanna, sem tvö skip voru keypt til Ísafjarðar. Svo kemur hæstv. ráðh. núna og ætlar að stinga þessari fjöður í sinn hatt.

Ég get ekki stillt mig um að segja hv. þd. frá því, áður en ég lýk máli mínu, að þegar hæstv. félmrh. seldi þennan togara, þá seldi hann ekki bara togara. Hvað haldið þið að hann hafi selt með? Hann seldi peninga með. Hann seldi stórkostlega sjóði með. Það var svo sem ekki verið að gera illa við togaraútgerðarmenn í Reykjavík, sem fengu togarann frá alþýðunni á Ísafirði, sem vantaði útgerðartæki. Togaraútgerðarmönnum í Reykjavík, sem fengu togarann, voru seldir peningar með; ég man ekki, hvort það var yfir 300 þúsund, en það var á þriðja hundrað þúsund krónur, sem var bundið í byggingarsjóði skipsins. Og svo er látið líta út nú, að þetta hafi verið einhver ónýtur ryðkláfur, sem helzt hefði ekki verið hægt að fara á sjó á. Þeir sögðu meira að segja, flokksmenn hæstv. ráðh., að þeir seldu nú eiginlega skipið vegna þess, að það væri orðið svo illa sjófært, að þeir vildu ekki bera ábyrgð á því að láta það ganga frá Ísafirði. En hvað haldið þið að þeir hafi gert? Þeir gerðu það að skilyrði fyrir sölunni, að a.m.k. í eitt ár mættu ísfirzkir sjómenn vera á skipinu. Samt létu þeir liggja að því, að það væri orðinn fúadallur, sem mundi sökkva. Hvaða heil brú er nú í þessu öllu saman?

Ég hygg þess vegna, að hæstv. ráðh. hefði ekki átt að innleiða umræður um togara hér á hv. Alþ., og ég endurtek: Þessi hæstv. ráðh. hefur sjálfur sannað mín rök gegn þessu frv., þau rök, að málið er ekki flutt til þess að tryggja áhrif verkalýðsins, heldur til þess að tryggja aukin áhrif kommúnistaflokksins.