25.02.1957
Sameinað þing: 38. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í B-deild Alþingistíðinda. (933)

1. mál, fjárlög 1957

Fram. minni hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Síðan ég flutti ræðu mína hér í dag, hefur verið útbýtt hér í þinginu einu miklu plaggi, sem telst vera framhaldsnál. frá meiri hl. fjvn. Svo virðist raunar sem aðaltilgangurinn með útgáfu þessa nál. hafi verið sá að koma að svörum við atriðum, sem voru í nál. minni hl. fjvn.. við 2. umr. fjárl. Og við yfirlestur þessarar grg. verður manni á að hugsa sem svo, að það virðist vera fleiri en minni hl. n., sem semur plögg til þess að lesa í útvarpi, því að ekki verður annað séð en fyrsta hálf önnur síða nál. sé beinlínis til þess ætluð.

Ég sé ekki ástæðu til að fara að svara þeim atriðum, sem þar koma fram. Þau eru fyrst og fremst í því fólgin að mótmæla vissum atriðum í nál. okkar í minni hl. n., og hafa þau mál verið rækilega rædd áður við 2. umr. frv. Því miður hefur meiri hl. hent það, sem hann er þó einkum hér að fordæma, að í ýmsum atriðum sé ekki rétt frá skýrt, því að nokkuð af þeim atriðum, sem tekin eru hér til meðferðar í þessu framhaldsnál., eru vægast sagt villandi, ef ekki röng, eins og komizt er að orði í nál. sjálfu um aðrar aths., sem gerðar hafa verið.

Það hefur verið rætt hér um þá vinnutilhögun, sem var í n., og því er sérstaklega mótmælt í nál., að það hafi verið á nokkurn annan hátt unnið en gert hefur verið á undanförnum árum. Því miður verð ég að halda fast við þær aths., sem ég hef gert varðandi þau atriði, vegna þess að það hefur í ýmsum atriðum verið fylgt öðrum vinnubrögðum en gert hefur verið að undanförnu, og þau nýju vinnubrögð hafa orðið til þess að torvelda mjög starf minni hl. n.

Ég tók það fram við 2. umr., að ég væri ekki með þessu að færa fram beinar ávítur á form. n. Hann er nýkominn í þetta starf og ekki að vænta þess, að hann í öllum atriðum hafi gert sér grein fyrir því, hvaða starfstilhögun hefur áður veríð í n. En ég vil sérstaklega taka það fram varðandi það, sem meiri hl. n. segir, að það hafi verið rangt hjá minni hl., að betri upplýsingar hafi legið fyrir áður varðandi fjárhagsafkomu ríkissjóðs en nú hafa legið fyrir, að þessi leiðrétting meiri hl. n. er algerlega byggð á röngum grundvelli, vegna þess að miðað við þann tíma, sem við nú erum að afgreiða þessi fjárl. á við 3. umr., átti að vera auðvelt að hafa hér fyrir sér niðurstöður þær, sem ég hef hvað eftir annað auglýst eftir, en ekki fengið neinar upplýsingar um. Þetta er staðreynd, sem tilgangslaust er að hrekja, hversu mörg nál. sem eru rituð.

Varðandi svo það atriði, sem meiri hl. n. leggur sérstaka áherzlu á að mótmæla, að við í minni hl. höfum með till. okkar haft nokkur áhrif á meiri hl. til hækkunar á framlögum til verklegra framkvæmda, þá get ég auðvitað ekkert um það sagt, hvaða fyrirvara þeir hafa haft í huga sér um það efni eða hæstv. ríkisstj., en staðreyndirnar tala sínu máli.

Frv. til fjárlaga var lagt fram með rúmlega 8 millj. kr. skerðingu á framlögum til verklegra framkvæmda. Þegar við lögðum fram till. í n. um að hækka þessi framlög um 20%, var sú till. felld á því stigi málsins, en síðar var þó gengið til hækkunar á flestum eða öllum liðum til verklegra framkvæmda. Menn geta auðvitað endalaust stælt um það, hvort þessar hækkunartill. hafi verið gerðar af því, að meiri hl. n. og ríkisstj. hafi fengið innblástur frá sjálfri sér um það efni, eða ekki, eða hvort það hafi verið vegna áhrifa frá okkar till., en sú staðreynd stendur, að við fluttum þessar till., og sú staðreynd stendur einnig, hvernig þær voru afgreiddar á sínum tíma.

Það er svo áfram haldið samlíkingunni við þennan blessaða vagn, sem meiri hl. er alltaf að fást við, og ég skal játa, að við í minni hl. kannske kunnum ekki til hlítar þessa hlaupatækni stjórnarliðsins. Og ég segi fyrir mitt leyti, að ég held, að það mundi vera ólíkt karlmannlegra og farsælla, ef reynt væri að ná stjórnarvagninum, heldur en að gefast upp við stjórnina og hlaupa fyrir borð, eins og þegar rottur yfirgefa sökkvandi skip, eins og hv. meiri hl. virðist vilja gera.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta nál., enda var meginástæðan til, að ég stóð hér upp, sú að ræða lítið eitt um tvær till., annars vegar till., sem ég flyt hér á sérstöku þskj. ásamt hv. 6. þm. Reykv., og hins vegar viðbótar- eða viðaukatill., sem minni hl. fjvn. flytur og við verðum að flytja hér skriflega, þar sem ætlun mun vera að ljúka umr. í kvöld og því ekki tóm til þess að láta prenta till.

En áður en ég vík að því, vil ég taka það fram varðandi þær till., sem ég ásamt fleirum stóð að og teknar voru aftur við 2. umr. frv., að tvær þeirra till. hafa þegar fengið þá afgreiðslu í fjvn., að ég sé ekki ástæðu til þess að taka þær upp aftur.

Annars vegar var styrkur til Hríseyjarhrepps vegna smiði ferjubáts. Það hefur verið gengið mjög viðunandi til móts við þær óskir, sem við flm. bárum fram um það efni. Jafnframt hefur í sambandi við flóabátinn fyrir Norðurlandi verið af n. tekin upp ábyrgðarheimild handa ríkisstj., sem nái til 2/3 hluta af andvirði báts, og þó að því miður allt sé mjög í óvissu um það, hvort hægt sé að nota slíka ríkisábyrgð fremur en margar aðrar ríkisábyrgðir, sem veittar eru, sýnist mér sjálfsagt að freista þess og þykist sjá, að með þessari till. og viðhorfi hæstv. ríkisstj. til þessa máls sé þó það mikið áunnið, að það sé fengin fullkomin viðurkenning og stuðningur við þetta nauðsynjamál, þannig að þess megi vænta, ef ekki tekst að leysa þetta mál með þeim hætti, sem fjvn. leggur til, að brautin sé rudd, þannig að auðvelt verði að fá þá frekari fyrirgreiðslu, sem þarf til þess að leysa þetta mikla vandamál.

Þá er hér smátill. frá minni hl. fjvn., sem er viðaukatill. við okkar eigin till. á þskj. 286, við 15. lið á því þskj., um heimild fyrir ríkisstj. til þess að selja fiskiðjuver ríkisins, að það bætist aftan við þennan lið: „enda njóti samtök útvegsmanna forkaupsréttar, ef þau óska að kaupa fyrirtækið.“ Það hefur jafnan verið talið, að það væri heppilegast, ef útgerðin sjálf ætti vinnslustöðvar og frystihús, og við teljum því sjálfsagt, að sú skoðun sé mörkuð hér á Alþingi, ef til þess kemur, að þetta fyrirtæki verði selt, að þá sé eðlilegt, að sú leið verði valin, að útvegsmenn taki þetta í sínar hendur, ef þeir á annað borð vilja gerast aðilar að þessum rekstri.

Þá er brtt. sú, sem ég flyt ásamt hv. 6. þm.. Reykv., og sú till. er á þskj., sem hér mun ekki enn vera komið til útbýtingar og þm. hafa því ekki fyrir sér, en það er till. um, að við framlög til bókasafna á 15. gr. A. X. lið a. 3. komi nýr liður, svo hljóðandi:

„Bóklánagjald til rithöfunda, 25000.“ Þessum lið fylgir svo hljóðandi klásúla: „Menntamálaráð veitir þetta fé einum rithöfundi eða tveimur til utanfarar, námsdvalar eða sérstakra ritstarfa.“

Til vara leggjum við til, að þessi upphæð verði 15 þús. kr. — (Gripið fram í: Það er búið að útbýta þingskjalinu.) Er það komið út? Það er ágætt, þá þarf ég ekki að lesa það nánar yfir, ef menn hafa það fyrir sér. En þar sem hér er um nokkra nýjung að ræða, sem ég veit ekki hvort hv. þm. átta sig á í fljótu bragði, tel ég rétt að fara um þessa till. nokkrum orðum. Hún byggist fyrst og fremst á því sjónarmiði, að vernda beri og virða höfundarétt, enda er það í samræmi við ákvæði íslenzkra laga þar um. Nú má segja með nokkrum sanni, að verk eins flokks listamanna séu frá þeim tekin til almenningsnota, en það eru verk rithöfundanna. Þau eru tekin í almenningsbókasöfn, þar með að nokkru leyti með lögboðinni afhendingu af hálfu höfundar, án endurgjalds fyrir sjálft eintakið. Síðan eru ritverkin lánuð hverjum sem hafa vill til lestrar og notkunar. Gegn þessum bótalausu afnotum almennings af nýjum skáldverkum og öðrum ritverkum hafa nú rithöfundar risið upp í mörgum löndum, og ég sé ekki ástæðu til að rekja þá sögu sérstaklega hér, en vil aðeins geta þess, að þetta mái hefur verið eitt af viðfangsefnum Norðurlandaráðsins, og var það tekið fyrir á fundi þess í fyrra.

Íslenzkir rithöfundar munu nú einnig vera að taka sig saman um sinn rétt á þessu sviði, og svo sem ég áðan gat um, er þessi till. m.a. borin fram þess vegna. Þess mun hafa verið vænzt, að till. kæmi inn í þingið með lítið eitt öðrum hætti og án þess að kröfunni væri beint slegið upp á nokkurn hátt opinberlega, en hins vegar hefur svo farið, að málið er flutt hér inn af okkur hv. 6. þm. Reykv., eins og til hafði verið ætlazt áður.

Þó að þetta mál sé nýtt hér á landi, er þó raunar um einfalt mál að ræða og réttmætt og því mjög líklegt, að því verði eftir fylgt, ef svo illa tekst til, að það verði fyrir töf í þetta sinn.

Þetta mál hlýtur hér á landi að fá nokkra sérstöðu, eins og mörg önnur mál, þar sem fámenni þjóðarinnar hefur sín áhrif. Hér hlýtur það líka að hafa áhrif, að bókasafnsmálum er skemmra komið hér en í nágrannalöndum.

Ég skal nú rekja í sem allra fæstum orðum, hvernig þessum málum er varið, þar sem þeim er lengst komið í nágrannalöndum okkar, eins og frá þessu er skýrt í nýjustu þingtíðindum Norðurlandaráðs.

Dönsku lögin um þetta eru frá 1946. Veitt er þar árlega úr ríkissjóði til rithöfundanna um 5% af þeirri upphæð, sem lögð er til bókasafnanna samtals. Hlutur rithöfundanna nam 1955 365 þús. dönskum krónum. Þar í landi er fénu úthlutað til höfundanna eftir eintakafjölda, sem þeir eiga alls í söfnunum.

Norsku lögin eru frá 1947. Framlag ríkissjóðs er allt að 5% af ríkisframlagi til bókakaupa í söfnum. Fénu er úthlutað þar eftir öðrum reglum og ekki beint til höfundanna, heldur miklu meir í þeim anda, sem till. okkar hér gerir ráð fyrir. Féð er þar miklu minna en í Danmörku enn sem komið er.

Sænsku lögin um þetta efni eru frá 1954, og veitti ríkissjóður Svía 600 þús. sænskar kr. til þessara útgjalda 1955, þ.e. sem þóknun til rithöfunda. Svíar hafa langsamlega nákvæmastar reglur um fjárskiptin, í stórum dráttum sagt: 2 aurar fyrir hvert útlán til höfundarins og 1 eyrir til stuðnings við bókmenntir og höfunda almennt. En það er sameiginlegt, að hvergi hefur verið reynt að taka gjald af þeim, sem bókina fær að láni, og þarf ekki að orðlengja það, að slíkt mundi ekki heldur geta gengið hér. Ríkissjóður borgar alls staðar bóklánagjaldið, eftir því sem við bezt vitum.

Það segir sig sjálft, að það ætti langt í land hér á landi að koma upp gjaldakerfi í nokkurri líkingu við þetta, enda mun reyndar engum detta það í hug, og hér er skýringin á því, að íslenzkir rithöfundar hafa ekki talið fært að taka upp kröfuna af sinni hálfu fyrir alvöru. En þróun málsins á Norðurlöndum og sú reynsla, sem þar er fengin, vísar okkur mjög einfaldlega á þá leið, sem lagt er til að farin verði einmitt með okkar tillögu.

Það er t.d. fljótséð, að þeir höfundar, sem bezt seljast, þurfa þessa fjár sízt við. Í öðru lagi hafa höfundarnir sjálfir og menntamenn bent á það, að með þessari beinu úthlutun sé reyfarahöfundum og skammlífum æsiritum gert óþarflega hátt undir höfði. Höfundarnir almennt munu leggja mesta áherzlu á, að bóklánagjaldið komi bókmenntunum almennt að gagni og menningu uppvaxandi höfunda; óþarft sé fyrir ríkið að taka þetta sem beint verzlunarmál. Það er ekki sízt á þessum almenna menningargrundvelli, að málið var lagt fyrir Norðurlandaráðið.

Norðmenn úthluta fénu t.d. án nokkurs tillits til þess, hver höfundur hefur verið mest lesinn. Þeir veita styrki raunar alveg eins og hér er lagt til, að vísu drjúgan hlut til gamalla rithöfunda og ekkna, og er þetta ráðstöfun höfundanna sjálfra.

Það virðist engin ástæða til fyrir okkur að bíða hér eftir neinn allsherjar bókhaldi í bókasöfnum, það mundi aðeins gera þetta mál flóknara og tefja einfalda og sjálfsagða framkvæmd.

Um þá upphæð, sem hér er farið fram á, má gera lauslegan samanburð, þ.e. um 5% af því fé, sem veitt er til bókasafna. Eftir því hlutfalli virðist upphæðin mætti vera allt að 80 þús. kr., ef bókakaupafé Landsbókasafnsins er talið með. En í till. okkar er farið fram á 25 þús. kr.

Það eru íslenzkir rithöfundar og skáld, sem öðrum fremur hafa haldið uppi andlegri menningu þjóðarinnar um aldir. Við hér ættum að geta látið þá, sem nú lifa, njóta sama réttar og starfsbræður þeirra í nágrannalöndum okkar njóta og sjálfsagt þykir að þeir njóti. Ekkert nágrannalanda okkar hefur látið þetta endurgjald ná lengra en til höfunda sinnar eigin þjóðar, og þurfum við því ekki að láta neina erlenda kröfu aftra okkur í þessu.

Okkur flm. finnst, að það væri sómi fyrir Alþingi að rétta hlut íslenzkra höfunda í þessu efni að fyrra bragði, ef svo mætti segja, þ.e. að bíða ekki eftir, að þeir sæki þetta mál sitt sjálfir með neinu harðfylgi.

Hvernig þetta tekst svo til, er ekki gott að segja um á þessu stigi málsins. En mér sýnist, að miðað við þá almennu viðurkenningu, sem þetta mál hefur hlotið meðal annarra Norðurlandaþjóða, eins og ég hef rakið, þá sé ekki líklegt annað en að það hljóti fyrr eða síðar að fá sams konar viðurkenningu hér á Íslandi. Væri því æskilegt, að það væri áður hægt að finna skynsamlega leið til úrlausnar á þessum vanda, og ég tel, að með þessari till. okkar sé fundin viðunandi leið, a.m.k. leið, sem sjálfsagt sé að reyna og sýni fullan skilning á því máli, sem hér er um að ræða.