25.02.1957
Sameinað þing: 38. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í B-deild Alþingistíðinda. (938)

1. mál, fjárlög 1957

Frsm. meiri hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst geta þess, að mér hefur borizt bréf frá fyrrverandi póst- og símamálastjóra, Guðmundi Hlíðdal, þar sem hann gerir svolitla athugasemd við orð, sem fram koma í nál. meiri hl. fjvn. varðandi fjárfestingu landssímans. Hefur hann athugasemdir við það að gera, að þar segir, að ríkissjóður hafi orðið að greiða fjárfestingu símans að mestu leyti. Er það í þeim kafla álitsins, þar sem talað er um fjárfestingu símans á undanförnum árum. Sendir hann síðan skrá yfir það, hve miklu hlutur ríkissjóðs af fjárfestingu landssímans hefur numið á s.l. árum, allt frá árinu 1950, og sýnir fram á, að tvö af þeim árum hefur ríkissjóður ekkert lagt til fjárfestingarinnar. En á síðustu tveim árum, 1954 og 1955, hefur af 12 millj. 978 þús. kr. fjárfestingu hlutur ríkissjóðs ekki numið nema 1 millj. 624 þús., en á árinu 1955 nam framlag ríkissjóðs 6 millj. 340 þús. af 19 millj. 334 þús. kr. fjárfestingu. Það leiðréttist því hér með, að samkv. þessu bréfi hefur ríkissjóðsframlagið ekki á þeim árum, sem hér eru tilgreind, numið mestum hluta af fjárfestingu landssímans, enda þótt hún hafi að sjálfsögðu á árinu 1955, og ég vænti einnig þó að ég hafi ekki tölur hér um það — á árinu 1956 numið verulegri fjárhæð, og er skylt að hafa það, sem sannast reynist í þessu. En því get ég þessa hér, að póst- og símamálastjóri óskar þess sérstaklega, að einhvers staðar komi fram í þingtíðindum athugasemd hans um þetta. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að ræða frekar um þessi atriði.

Varðandi þær till., sem hér liggja frammi frá öðrum en fjvn. eða meiri hl. hennar, hef ég aðeins fátt eitt að segja. Ég vil þó geta þess í sambandi við till., sem minni hl. fjvn. hefur gert um heimild til handa ríkisstj. að selja fiskiðjuver ríkisins, að svo virðist sem sú till. sé óþörf, þar sem til eru sérstök lög um fiskiðjuver ríkisins í Reykjavík. Þau lög eru nr. 52 frá 25. maí 1949, en þar segir í 10. gr.:

„Ríkisstjórninni er heimilt, ef meiri hluti hennar samþykkir, að selja fiskiðjuver ríkisins félagi útvegsmanna, útgerðarfyrirtækja eða samtökum samvinnufélaga.“

Í ríkisstj. er litið svo á, að þessi heimild sé alveg fullnægjandi fyrir þeim sölum, sem til mála kynnu að koma, þ. á m. telur ríkisstj. sig samkvæmt þessu hafa heimild til þess að selja fyrirtækið bæjarútgerð. Ég held því, að að athuguðu máli muni þeir, sem að þeirri till. standa, sjá ástæðu til þess að taka hana til baka, þar eð lög eru þegar fyrir hendi um það efni, sem þeir fjalla um í till. sinni. Að sjálfsögðu skal það tekið fram, að með því, sem hér er sagt, er ekki neitt sagt um það, hvað ríkisstj. álítur að heppilegast sé að gera í sambandi við málefni fiskiðjuvers ríkisins í framtíðinni. Þær ákvarðanir, sem kynnu að verða teknar um það mál, liggja ekki fyrir hér.

Þá vil ég geta þess, að í fjvn. hefur orðið samkomulag um að flytja hér till. við þrjár greinar til viðbótar því, sem áður er fram lagt.

Það er í fyrsta lagi brtt. við 12. gr., rómv. VIII, rekstrarstyrkur til St. Jósefsspítalanna, liðurinn orðist svo:

Rekstrarstyrkur til St. Jósefsspítalanna í Reykjavík og Hafnarfirði, 7 kr. á legudag, allt að 525000 kr.

Til skýringar skal ég geta þess, að St. Jósefsspítalarnir njóta núna styrks úr ríkissjóði, sem nemur 5 kr. á legudag. Er því hér um að ræða 40% hækkun á þessum styrk, ef till. yrði samþykkt.

Þá er hér brtt. við 15. gr. A, rómv. XXX, nýr liður: Til Árna Björnssonar tónskálds, 10000 kr. Þessar till. breyta að sjálfsögðu þeim niðurstöðum, sem meiri hl. n. hefur gert ráð fyrir í sínu nál., ef samþykktar yrðu.

Enn fremur hefur orðið samkomulag í n. um að gera tvær brtt. við tillögurnar um 18. gr. Er þar um að ræða samtals 6000 kr. hækkun á grunnstyrkjum. En ekki breytir það niðurstöðum greinarinnar, því að n. mun taka aftur eina af till. sínum, varðandi Karen Jónsson, sem gerð var till. um að fengi 6000 kr. fjárveitingu á 18. gr., en reynist við nánari athugun þegar vera inni með einmitt þann styrk í frv., svo að sú till. verður tekin aftur á móti þeim hækkunum, sem hér eru lagðar til. En þær till., sem fyrir liggja hér, eru, að á eftir 19. lið á þskj. 284 kemur nýr liður, Sigurjón Jónsson fyrrverandi sóknarprestur, 4500.00. Og í öðru lagi: á eftir liðnum b. 3 á sama þskj. komi Hlín Johnson í Herdísarvík, fyrir 11408.00 kr. kemur: 12908.00 kr.

Þessar till. vil ég hér með leggja fram skriflega og biðja forseta um að leita afbrigða fyrir þeim.

Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar eða gera sérstakar aths. við þær umræður, sem hér hafa farið fram um fjárlagafrv. Það er að vonum, að nokkuð eru deildar skoðanir manna um einstaka liði þar, bæði um réttmæti þeirra, svo og um þá liði, sem ekki hafa verið teknir upp. Er það að sjálfsögðu engin nýlunda hér á þingi, þótt menn verði ekki sammála um það, hvað taka skuli eða hverjar fjárhæðir skuli ákveða til einstakra liða.

Ég vil þá, af því að ég tel, að umr. sé nú það langt komið, þakka samstarfsmönnum mínum í fjvn. fyrir gott samstarf og vænti þess, að þan fjárlög, sem þar hafa verið undirbúin, geti þénað íslenzku þjóðinni á því tímabili, sem þau eiga að gilda.