31.05.1958
Efri deild: 113. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1305 í B-deild Alþingistíðinda. (1024)

187. mál, lífeyrissjóður togarasjómanna

Frsm. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um frv. til laga um lífeyrissjóð togarasjómanna. Hæstv. félmrh. gerði ýtarlega grein fyrir efni þess hér við 1. umr. Frv. er sniðið eftir lögum um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og ákvæði þess flest hin sömu og í þeim lögum, þannig eru tegundir greiddra bóta þær sömu og upphæð árlegra iðgjalda er jafnhá.

Réttindi þau, sem sjóðnum er ætlað að veita samkvæmt frv., eru þó í vissum atriðum lakari en þau, er starfsmenn ríkisins njóta. Er ástæðan til þess sú m.a., að slysahætta er talin meiri hjá sjómönnum, en starfsmönnum ríkisins og því erfitt að veita að öllu leyti jafngóð kjör gegn jafnháu iðgjaldi. Til þess að vega upp á móti þessum mismun er gert ráð fyrir í frv., að togarasjómenn haldi öllum hlunnindum samkv. lögum um almannatryggingar, enda gjaldi þeir til almannatrygginga eftir sem áður.

Í lögum um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins er upphæð ellilífeyris ákveðin sem viss hundraðshluti af meðallaunum síðustu 10 starfsára. Þessi hundraðshluti kemst upp í 60 eftir 30 ára starf. Þessar tölur eru mun lægri í frv. til laga um lífeyrissjóð togarasjómanna. Er þar gert ráð fyrir 35 ára greiðslutíma og að upphæð lífeyris fari aldrei fram úr 50% meðallauna síðustu 10 ára.

Þessi mismunur á hlunnindum togarasjómönnum í óhag hefur valdið nokkurri óánægju meðal fulltrúa sjómanna, og hafa hv. heilbr.- og félmn. borizt eindregnar óskir um, að í þessu efni verði gerðar einhverjar lagfæringar. Í samræmi við þær óskir leggur hv. nefnd til í álíti sínu á þskj. 591, að iðgjaldagreiðslutíminn lækki úr 35 árum í 30 ár og að hámarksupphæð ellilífeyris verði óbreytt, 50% af tilgreindum meðallaunum.

Nefndin átti tal við Guðjón Hansen tryggingafræðing um þessa breytingu. Var það álit hans, að þótt erfitt væri að dæma um áhrif hennar á fjárhag sjóðsins til langframa, þá mundu þau áhrif tæpast verða veruleg fyrstu árin, en eins og tekið er fram í 8. gr. frv., skal fjárhagur sjóðsins rannsakaður af tryggingafræðingi fimmta hvert ár og þá gerðar tillögur um aðgerðir, ef þurfa þykir. Því taldi hv. nefnd fært að flytja brtt. við 11. gr. frv., eins og fram kemur í áliti hennar, og er sú breyting í 2. till. hv. nefndar.

1. till. á þskj. 591 er aðeins leiðrétting á villu, og þriðja till. felur ekki í sér neina efnisbreytingu, heldur er lagfæring til samræmis við þá breytingu, sem felst í 2. till. Það eru tvær tölur þar, sem breytast: Talan 0.6% breytist í 0.75%, og 35 ára starfstími verður 30 ára starfstími.

Þessar breytingar leiðir af breytingunni, sem felst í 2. tillögunni.