28.02.1958
Neðri deild: 58. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1308 í B-deild Alþingistíðinda. (1041)

136. mál, húsnæðismálastofnun

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Frv. þetta til breytinga á lögum um húsnæðismálastofnun o.fl. er fram borið til þess að taka af tvímæli um skilning á tveimur atriðum laganna um húsnæðismálastofnun o.fl. og svo til þess að ákveða viðurlög vegna vanrækslu sparimerkjakaupa og í þriðja lagi til þess að kveða nánar á um, með hvaða hætti og hvenær útlendingar geti átt rétt á undanþágu frá sparimerkjaskyldu.

Það orðalag gildandi laga, að greiðslur afborgana og vaxta B-lána skuli sæta vísitölukjörum, breytist samkv. þessu frv. á þann veg, að greiðslur afborgana séu undanþegnar vísitölu framfærslukostnaðar. Þannig felst sú ein breyting í greininni, að vextir af B-lánum skuli ekki vera vísitölubundnir. Er þetta alls ekki gert til þess að draga úr fríðindum sparifjárins, heldur einungis af því, að bankamenn telja ógerlegt að framkvæma vísitölubundna vaxtagreiðslu. Þykir því sjálfsagt að breyta þessu ákvæði laganna til samræmis við þá framkvæmd, sem verður á því.

Í 2. gr. frv. er um enga efnisbreytingu að ræða. Ætlunin var sú, að skyldusparnaðurinn ætti að ná yfir tíu ár. En þó að orðalagið t.d. 16.–25. einhvers mánaðar sé af öllum skilið á þann veg, að báðir hinir nefndu dagar séu innifaldir, hefur þess skilnings þó orðið vart, að aldurstímabilið 16–25 ár væri aðeins níu ára tímabil, en ekki 10, eins og meint var með frv. upphaflega og fram kom raunar einnig í grg. með því. Til þess að taka af öll tvímæli um þetta er nú skv. 2. gr. frv. skotið svo hljóðandi setningu inn í 10. gr. laganna:

„Skyldusparnaður hefst við næstu mánaðamót, eftir að hlutaðeigandi verður 16 ára, og lýkur við næstu mánaðamót, eftir að hann verður 26 ára.“

Með þessu móti er nánar kveðið á um framkvæmd þessa atriðis og misskilningur væntanlega þar með útilokaður.

Í 3. gr. frv. er um að ræða nýtt efnisatriði, þess efnis, að útlendingar, sem atvinnu- og land- vistarleyfi hafa hér á landi um tiltekinn tíma, skuli að vísu falla undir sparnaðarskyldu, en þó fái þeir skyldusparnað sinn endurgreiddan, þegar þeir hverfa af landi t.d. við framvísun farseðils úr landi. Um þetta atriði var ekkert í löggjöfinni.

Veigamesta atriði frv. er í 4. gr. þess. Lögin um húsnæðismálastofnun o.fl. hafa engin ákvæði að geyma um viðurlög við vanrækslu sparimerkjakaupa. En þar sem þetta atriði er mjög þýðingarmikið, er nauðsynlegt að tryggja, að vanræksla á þessu atriði eigi sér ekki stað. Þess vegna er lagt til í frv., að svo hljóðandi mgr. bætist í 12. gr. laganna:

„Ákveða má í reglugerð sérstakt gjald, er skattyfirvald ákveður, á hendur þeim, sem vanrækir sparimerkjakaup, er nema má allt að þrefaldri þeirri upphæð, sem vanrækt hefur verið að kaupa sparimerki fyrir. Sömuleiðis má með reglugerð ákveða, að hverjum þeim, sem háður er ákvæðum þessara laga um skyldusparnað, skuli skylt að gera skattyfirvaldi grein fyrir sparimerkjaeign sinni með framvísun sparimerkjabókar að viðlögðu 200 kr. gjaldi. Gjöld þessi skulu renna til byggingarsjóðs ríkisins eða veðdeildar Búnaðarbanka Íslands, eftir því sem við á.“

Með þessum ákvæðum er aðeins verið að stuðla að öruggari framkvæmd og auðvelda fullnægjandi eftirlit með framkvæmd skyldusparnaðarins.

Í þessari gr. er einnig fram tekið, að kostnaður við sparimerkjakaup, sparimerkjabækur og alla framkvæmd skyldusparnaðarins skuli greiðast úr ríkissjóði. Þetta er hliðstætt við framkvæmd orlofslaganna, enda verður framkvæmdin í höndum sama aðila, þ.e.a.s. póstmálastjórnarinnar.

Í 5. gr. frv. er svo ákvæði um 10 þús. kr. viðurlög gegn brotum á lögunum og reglugerðum settum skv. þeim og að með brot skuli fara að hætti opinberra mála.

Hér er, eins og menn sjá, aðeins um smámál að ræða, þ.e.a.s. minni háttar lagfæringar á nokkrum framkvæmdaatriðum þeirra nýmæla, sem fólust í húsnæðismálalöggjöf þeirri, sem afgreidd var frá seinasta Alþingi.

Ég vil svo óska, að málinu verði hraðað gegnum þingið, og legg til, að því verði vísað til hv. heilbr.- og félmn. að lokinni þessari umr.