24.03.1958
Neðri deild: 71. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1345 í B-deild Alþingistíðinda. (1059)

136. mál, húsnæðismálastofnun

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð út af síðustu ræðu hæstv. félmrh. Ég vildi leyfa mér að spyrja hann að því, hvort það hafi verið rétt skilið hjá mér, að loforðið til verkalýðsfélaganna, sem gefið var á s.l. hausti, hafi verið skilið svo af hans hendi sem ráðherra, að í því fælist ekki loforð um neitt nýtt fé til útlána á vegum veðlánakerfisins, heldur hafi með því loforði, sem þá var gefið um 40 millj., eingöngu verið ákveðið að úthluta fé, sem þegar hafi verið áður búið að gera ráð fyrir að yrði til ráðstöfunar. Ef þetta er réttur skilningur, virðist í þessu loforði til verkalýðsfélaganna, ekki hafa falizt annað en það, að ríkisstj. lofaði að standa við áður gefið loforð, og fer þá að fara mesti glansinn af þessu, og hræddur er ég um það a.m.k., að sú skoðun hafi verið nokkuð mikið áberandi hjá fulltrúum verkalýðsins eftir þessar viðræður við ríkisstj., að þarna væri verið að gera eitthvert nýtt átak og að með þessu væri verið að veita alveg sérstök og ný hlunnindi á sviði húsnæðismálanna. Þetta teldi ég mjög æskilegt að kæmi skýrt fram frá hæstv. ráðh., því að það er gott, að það liggi ljóst fyrir, hvort þetta er réttur skilningur málsins eða ekki. Það er lærdómsríkt fyrir verkalýðsfélögin að vita, hvort það er rétt, að það, sem hér hafi gerzt, sé það eitt, að ríkisstj. hafi lofað að standa við áður gefin loforð, og það hafi þótt þeim tíðindum sæta, að það séu talin alveg sérstök hlunnindi að fá það staðfest.

Þá var annað atriði, sem ég vildi einnig fara fram á við hæstv. ráðh. að hann upplýsti hér. Hann var hér áðan að fara með tölur varðandi útlán úr veðlánakerfinu á s.l. ári og að því er mér skilst til þessa dags, sem hann færði allt á reikning ársins 1957. Ég hef að sjálfsögðu ekkert í höndum til að sannreyna, hvort þessar tölur eru réttar eða ekki. En í því sambandi langar mig til þess að biðja hann að upplýsa, hvort það sé ekki rétt, sem hér hefur áður verið frá skýrt í umræðunum, að þetta lánsfé hafi að töluverðu leyti fengizt á þann hátt að veðsetja væntanlegar tekjur veðlánakerfisins. Ef það er svo, þá er að sjálfsögðu ekki af neinu að miklast, jafnvel þó að þessu fé öllu hafi verið úthlutað, því að mér skilst, að niðurstaðan hljóti þá að verða sú ein, að það verði miklum mun minna til úthlutunar á árinu 1958. Teldi ég æskilegt, ef hæstv. ráðh. gæti upplýst hér um þetta og þá að hve miklu leyti þetta fé er fengið með þessari aðferð, að veðsetja bönkunum fyrir fram þær tekjur, sem veðlánakerfið fær á þessu ári.

Þá vildi ég aðeins að lokum leiðrétta það, sem hæstv. ráðh, sagði hér í umræðunum í næstsíðustu ræðu sinni, að fyrrv. ríkisstj. hefði vanefnt þau loforð, sem hún gaf, þegar lögin um húsnæðismálastjórn eða veðlán til húsabygginga fyrst voru sett. Þá var gert ráð fyrir því samkvæmt áætlun, sem fylgdi því frv., er það var lagt fram, að til ráðstöfunar yrðu til húsabygginga 100 millj. kr. á ári. Það liggja fyrir endanlegar upplýsingar um það frá Landsbanka Íslands, að á árinu 1955 hafi verið lánaðar til húsabygginga 100 millj. kr. rúmar og á árinu 1956 allmiklu meira, eða um 120 millj. kr. Af þessu er ljóst, að það hefur fyllilega verið staðið þegar á fyrstu árum þessa kerfis við þau fyrirheit, sem gefin voru. Það er svo allt annað mál, að eftir þær hömlur, sem verið höfðu á húsabyggingum, varð um miklu meiri framkvæmdir að ræða fyrstu árin, eftir að byggingafrelsi var veitt, heldur en gert hafði verið ráð fyrir að væri eðlilegar byggingarframkvæmdir á hverju ári. Þetta leiddi það af sér, að ekki var hægt að sinna öllum umsóknum, sem bárust. En það var alls ekki vegna þess, að ekki væri útvegað það fé, sem gert hafði verið ráð fyrir, heldur að umsóknirnar voru miklu meiri, en ráðgert hafði verið. Þetta er í rauninni ekkert undarlegt, og það mátti gera ráð fyrir því, að með svipuðu áframhaldi mundi þetta smám saman jafna sig og eðlilegar byggingarframkvæmdir verða, eftir að hafði verið leyst úr þeim brýnu þörfum, sem þá voru, um stundarsakir. Þessi atvik eru því á engan hátt til þess að sanna neitt um það, að ekki hafi verið staðið við þau fyrirheit, sem fyrrverandi ríkisstj. gaf.

Þetta taldi ég aðeins rétt að kæmi hér fram, en þætti svo að öðru leyti fróðlegt, ef hæstv. ráðh. vildi svara hér þeim tveim fsp., sem ég beindi til hans varðandi loforðið, sem verkalýðsfélögunum var gefið, og um það, að hve miklu leyti lánsfé nú hefði fengizt frá bönkunum með því að veðsetja tekjur bygginga- eða veðlánakerfisins fram í tímann.