26.03.1958
Neðri deild: 71. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1346 í B-deild Alþingistíðinda. (1060)

136. mál, húsnæðismálastofnun

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það er kunnugt, að þegar húsnæðismálalöggjöfin var sett, þá var í grg. látið í ljós, að það mundi verða af ríkisstj. reynt að tryggja, að bankar, sparisjóðir og tryggingafélög legðu til húsnæðismálanna á árinu 1957 eigi minni upphæð, en 44 millj. kr. Þegar verkalýðsfélögin áttu í samningaviðræðum við ríkisstj., þá mun seðlabankinn um það bil hafa verið búinn að láta um 10 millj. kr. af þessari upphæð. Og á þeirri stundu var gefið loforð um það, að ríkisstj. mundi sjá um, að frá þeim tíma yrði aflað ekki minna, en 40 millj. kr. til húsnæðismálanna, að það yrði undir öllum kringumstæðum 50 millj. Svona liggja málin fyrir, ef menn vilja taka þau eins og þau lágu, og það fer ekkert á milli mála þetta hefur verið „kontrolerað“ alveg af verkalýðshreyfingunni og fulltrúum hennar og að öllu leyti staðið við loforðið, eins og verkalýðshreyfingin sjálf skildi loforðið, sem gefið var. Það átti að útvega núna á síðustu mánuðum ársins 40 millj. kr. til húsnæðismálanna plús 12 millj. kr. til Búnaðarbanka Íslands, samtals 52 millj. kr., og þær voru útvegaðar. Það er ekki hægt að koma nokkurri tortryggni inn milli fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstj. um þetta, því að þetta var margsinnis „tékkað af“ og lá skýrt fyrir, að sumir vildu fyrst halda því fram, að það hefði aðeins átt að útvega 40 millj. kr., þar af hefði átt að taka Búnaðarbankaframlagið, en það bar öllum saman um, að loforðið hefði verið gefið þannig, að 40 millj. yrðu að útvegast til húsnæðismálanna og 12 millj. við Búnaðarbankann, til þess að það lögbundna loforð gagnvart honum væri einnig efnt um áramót, og þannig voru útvegaðar 52 millj. kr.

Viðvíkjandi svo fsp, um, hvort það sé ekki rétt, að búið sé að veðsetja vegna þeirrar upphæðar, sem seðlabankinn snaraði út fyrir áramótin, nokkuð af tekjum ársins 1958, sem húsnæðismálastofnun ríkisins á þá í skyldusparnaði og sem sinn hluta af stóreignaskattinum, þá er það rétt. Nokkuð af þeim tekjum ársins 1958 er veðsett vegna fyrirgreiðslu seðlabankans. Þess vegna sagði ég hv. 5. þm. Reykv. það hér fyrr við umr., að það, hvað hægt er að útvega á árinu 1958 af nýju fé til húsnæðismálanna, er enn þá óséð, því að þar verðum við enn að knýja á hjá bönkunum með sama hætti og undanfarin ár.

Árið 1956 voru knúðar út úr bönkunum um 40 millj. Á árinu 1957 voru, að ég hygg, knúðar út úr þeim 62 millj. kr., að meðtöldu framlaginu til Búnaðarbankans. Og í ár verður áreiðanlega að knýja eitthvað á við bankana, vegna þess að svo mikið er enn þá óleyst í húsnæðismálum þjóðarinnar og það sérstaklega hér á Suðvesturlandinu, að það er ekki, þrátt fyrir alla þörf á að draga úr fjárfestingu, hægt að láta samdráttinn koma hastarlega niður á þessari framkvæmd, sem stendur svo mjög í miðjum klíðum eins og einmitt byggingarmálin hér. Og það hefur ákaflega mikið að segja, hvað bankastjórar Landsbanka og Útvegsbanka gera í þeim efnum, og þar skírskotaði ég til hv. 5, þm. Reykv., að hann yrði góður liðsmaður í þessum málum, af því að hann virðist vera mikill áhugamaður um það, að ekki dragi úr þeirri aðstoð, sem veitt sé til húsnæðismála.

Hv. 2. þm. Eyf. fullyrti, að lofað hefði verið áður 100 millj. kr. til húsnæðismála og það mætti sjá af skýrslum Landsbankans fyrir árið 1955, að þá hefðu farið 100 millj. kr. til húsnæðismála í landinu.

Ef við tökum það þannig að láta Landsbankann gefa skýrslu um það, hvað hafi farið mikið fé gegnum húsnæðismálakerfið, gegnum byggingu verkamannabústaða, gegnum þáverandi lög um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis, gegnum þau framlög, sem allir sparisjóðir landsins hafa veitt til húsnæðismála, og hvað tryggingafélögin hafi líka veitt á sínum vegum beint til húsnæðismála og þá koma út 100 millj. kr., þá kann þetta að vera rétt, að það hafi farið alls 100 millj. kr. til húsnæðismála á árinu 1955. En við höfum ekki verið að gera upp málin þannig. Við höfum verið að gera upp, hvað hafi farið til húsnæðismála í báðum tilfellunum, árið 1955 og á árinu 1957 og það sem af er þessu í gegnum húsnæðismálastofnun ríkisins, og þá er ekki staðið við loforðin um 100 milljónirnar á árinu 1955, því að upphæðin í A- og B-lánum samtals á árinu 1955 er 34 millj. 559 þús. kr., ekki 100 millj. kr. Gert upp á sama hátt fyrir árið 1957, þ.e.a.s. það fé, sem þá var útvegað, — en ég hef áður upplýst einmitt, að úthlutun þess fjár, sem aflað var núna undir árslokin, stóð yfir samfellt frá því í nóvembermánuði og núna fram í marz, þá var búinn peningurinn og þá hafði verið úthlutað alls frá því í ársbyrjun 1957 og þangað til þessari úthlutun var lokið núna 65 millj. 436 þús. kr. Þá er ekki talið með framlagið til Búnaðarbanka íslands, þá er ekki talið fram það fé, sem á að lánast út af Sparisjóði Reykjavikur og nágrennis eftir reglum húsnæðismálastjórnar, og þá er ekki heldur talið fram það fé, sem tryggingafélög eiga að úthluta í samræmi við reglur húsnæðismálastjórnar, og ekki heldur það fé, sem hefur verið lánað til húsnæðismála af sparisjóðum úti um landið. Hafi farið til þessara mála 100 millj. kr. alls 1955, þá efast ég ekkert um, að sú upphæð, sem hefur farið til þessara mála á árinu 1957, verður miklu, miklu hærri, þegar þeir reikningar koma frá Landsbankanum.

Hér höfum við aðeins verið að tala um á sambærilegum grundvelli það, sem farið hefur í gegnum veðlánakerfið og húsnæðismálastofnunina, gert upp á sambærilegan hátt, án þess að taka með það, sem fer til Búnaðarbankans í báðum tilfellunum, og án þess, sem fer gegnum sparisjóðina úti um landið, einnig í báðum tilfellunum.

Það var gert ráð fyrir því, þegar hafði verið gengið frá húsnæðismálalöggjöfinni í fyrra, að eigin tekjur byggingarsjóðs og húsnæðismálastofnunar yrðu um 43 millj. kr. Nú eru nokkrar vonir til þess, að skyldusparnaðurinn gefi meira, en þá var reiknað með og að hluturinn 2/3 af stóreignaskattinum verði nokkru hærri upphæð, en þá var líka reiknað með, og má því vænta, að húsnæðismálastofnunin fái nokkru meira fé á árinu 1958, en þá var áætlað. En það er búið að skerða með veðsetningu núna til seðlabankans nokkuð af tekjunum á þessu ári, og þess vegna segi ég það: Það er og verður mikil þörf á því að herja enn á bankana um, að þeir leggi vissa prósentu af aukningu sparifjárins á árinu 1958 til húsnæðismála, eins og þeir hafa verið látnir gera af fyrrv. ríkisstj. fyrir árin 1955 og 1956 og af núverandi ríkisstj. að því er snertir árið 1957. Og það vona ég, að nú fækki eitthvað misklíðarefnum okkar á milli um þessi mál og að tölurnar liggi nokkurn veginn skýrt fyrir, að í gegnum húsnæðismálastofnunina voru veittar 34 millj. kr. til húsnæðismála síðasta árið, sem fyrrv. ríkisstj. fór með þessi mái og fór með völd í landinu, og að því er snertir framlög til þessara sömu mála, gert upp á sama hátt á árinu 1957, þó tekið þannig, þangað til úthlutuninni, sem hófst fyrir áramótin, er lokið núna eftir febrúarlok, þá eru það 65 millj. 436 þús. kr.