07.02.1958
Efri deild: 48. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1394 í B-deild Alþingistíðinda. (1127)

94. mál, húsnæði fyrir félagsstarfsemi

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Það er engan veginn til þess að leggja stein í götu þessa frv., að ég kvaddi mér hljóðs. En ég vil í sambandi við ummæli hæstv. félmrh. benda á, að það er komið í ljós, sem við sjálfstæðismenn bentum á, í sambandi við meðferð húsnæðislaganna, að það er óheppilegt að hafa enga undanþáguheimild í lögunum. Þróunin er svo ör á öllum sviðum, að það er illmögulegt að setja þannig löggjöf, að hvergi megi út af bera; þetta er komið í ljós. Hæstv. ráðh. nefndi hér tvö tilfelli, þar sem Reykjavíkurbær sækir um að mega nota hús í fæðingarstofnun. Hæstv. ráðh. segir að vísu, að það hafi verið á takmörkunum, að hann gæti fallizt á það. Ég veit ekki, hvar hann vill setja takmörkin. Ég tel, að það hafi verið mikil nauðsyn á þessu fæðingarheimili. En ég vil að gefnu þessu tilefni hæstv. ráðh, spyrja hann: Hvernig er varið með Laugaveg 18? Ég minnist þess þau tuttugu ár, sem ég var hér í bænum, að Laugavegur 18 var stórt íbúðarhús með fjölda íbúða. Nú veit ég ekki betur, en það sé búið að rífa þetta hús niður, og mér er tjáð, að þarna eigi að byggja upp, ekki íbúðir, heldur alls konar félagsstarfsemi og skrifstofur, og það er pólitískur flokkur, sem það er að gera. Ég minnist ekki að hafa séð neina sérlöggjöf um þetta og vildi þess vegna spyrja hæstv. ráðh., hvernig þessu er varið. Ef setja þarf sérlöggjöf um einn aðila, eins og gert er við Alþfl. og við Reykjavíkurbæ, þegar þeir fara fram á breytt húsnæði, hvernig stendur á, að ekki þarf að setja sérlöggjöf líka, þegar sósíalistar vilja byggja hús og rífa íbúðarhús? Ég spyr hæstv. ráðh. og óska skýringa hans á þessu.