11.03.1958
Neðri deild: 64. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1409 í B-deild Alþingistíðinda. (1171)

86. mál, skólakostnaður

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í grg. fyrir frv. því til laga á þskj. 144, sem hér er til umr., þá er hér ekki um nýtt mál að ræða. Með breytingum þeim, sem gerðar voru á fræðslulögunum 1946, skapaðist það vandamál, sem hér er verið að fjalla um nú, Það er bent á það í grg. og í öðrum grg., sem hér hefur verið vitnað til, að þá var gengið frá þessum málum þannig, að á sýslufélögin voru lagðar skyldur, án þess að væru höfð nokkur samráð við þau, og þetta hefur skapað margs konar vandamál. Sýslufélögin hafa ekki talið sér skylt að sinna þessu máli nema eftir samningaleiðum og alls ekki viðurkennt lagaskylduna. Þetta hefur orðið til þess að skapa, vandræði í fjármálum skólanna og það, að viðhald þeirra hefur verið mun minna en eðlilegt hefur verið, og það hefur síðar orðið mjög kostnaðarsamt fyrir ríkissjóð og héruðin að endurbæta þessa skóla.

Árið 1955 var gerð nokkur breyting á í þessu, þar sem aukin var þátttaka í viðhaldskostnaði og upphitunarkostnaði þeirra skóla, sem ekki nutu jarðhita. Það var þá ekki talið fært að ganga lengra í þessu efni. Ég vil því vekja athygli á þessu, að það var ekki neitt minni þörf þá að stíga sporið til fulls, heldur en nú, og hefði það þess vegna átt að vera kappsmál þeirra manna, er þá gátu um þessi mál fjallað, að komast þá lengra, en gert var. Fjármál þessara skóla voru þá orðin með miklum vandkvæðum, og það var sýnt, hvert stefndi með áhrifum frá lögunum frá 1946. Ég hef fyrir mér skýrslu um, hvað var búið að greiða á árinu 1955 í rekstur og stofnkostnað fyrir þessa skóla í heild, og voru það um 7 millj. Ef Alþingi hefði sýnzt þá, að rétt væri að færa þetta allt til ríkisins, þá hefði það vafalaust gert það. Það sjónarmið hefur þá ekki verið ríkjandi hjá þeim aðilum, sem höfðu þá meirihlutavald hér á Alþingi til þess að ráða þessum málum, heldur var þá stigið stutt spor í þessa átt.

Eins og fram kemur í grg. fulltrúa sýslnanna, sem um þetta mál fjölluðu, er ein ástæðan fyrir því, að þeir fara fram á meiri þátttöku ríkisins, sú, að nemendur sækja skólana víðs vegar að af landinu. En með þeirri breytingu, sem hér er lagt til að gerð verði, þá er einmitt tekið tillit til þessa sjónarmiðs, þar sem stofnanirnar eru látnar njóta að öllu leyti þess, sem þessir nemendur greiða. Það er því hagur fyrir skólana að fá nemendur, svo að þeir séu fullsetnir, og þeir njóta greiðslunnar, hvort sem nemendur eru úr heimahéraði eða annars staðar frá, og þetta er því mikið spor í rétta átt.

Eins og fram hefur verið tekið, mættu sýslufulltrúar hér haustið 1956 og lögðu þá þetta mál fyrir hæstv. menntmrh. Hann hefur svo fjallað um málið síðan og leitað eftir því að finna þær leiðir, sem heppilegastar væru til þess að létta undir með sýslufélögunum án þess þó að íþyngja ríkissjóði meira um greiðsluskyldur, en sanngjarnt gæti talizt og hugsanlegt væri að ná samstöðu um.

Menntmrh. eða menntmrn. hefur tekið þá stefnu, sem kemur fram í þessu frv., að láta héruðin njóta þeirra tekna, sem til falla. Hér er í raun og veru gengið aftur til þeirrar stefnu, sem mörkuð þar, þegar skólarnir voru stofnaðir. Þá var keppt að því að gera þetta sjálfstæðar stofnanir, sem færu mikið með sín mál sjálfar, og það er einmitt sú stefna, sem hæstv. menntmrh. hefur tekið, og kann ég honum beztu þakkir fyrir það. Það er mín skoðun, að það sé mjög áríðandi fyrir þessar stofnanir að vera sjálfstæðar og stefna að því marki, sem hugsað var, þegar þær voru upphaflega myndaðar.

Það er alveg sýnt, að með þeirri breytingu, sem gerð er hér, verður fjárhag þessara stofnana mun betur borgið, en áður var. Og skv. þeim upplýsingum, sem ég hef fengið um þetta efni og miðast við árslok 1955, þá gengur þetta atriði lengra varðandi reksturinn heldur en frv. hv. þm. Borgf., sem hér hefur verið rætt um líka. Með því að láta heimavistargjöldin, tekjur af húsaleigu og aðrar þær tekjur, sem til falla, falla til skólanna einvörðungu, fá þeir meiri tekjur, en 9/10 hluta af rekstrarkostnaði, eins og hv. þm. Borgf. fer fram á. Ég held því, að fyrir viðhaldi þessara stofnana verði mun betur séð, en áður var gert og þess vegna þurfi endurbyggingarskyldan ekki að hvíla eins þungt á stofnununum, ef vel er fyrir viðhaldinu séð.

Á því tímabili, sem ég hef hér skýrslu um, hefur t.d. Mýra- og Borgarfjarðarsýsla greitt samtals til héraðsskólans í Reykholti og húsmæðraskólans á Varmalandi 350 þús. tæp, en meira en helmingur af þessari greiðslu er rekstrarkostnaður. Mér sýnist því, að með þessu frv., ef að lögum yrði, mundi sá hluti þessarar greiðslu falla út, og kæmi þar nokkuð upp í það, sem þyrfti til stofnkostnaðarins.

Ég vil undirstrika það, að hér er áfanga náð í þessum málum, og þó að mönnum sýndist síðar, að lengra þyrfti að ganga, þá er sú leið alltaf opin, þó að þessi sé farin. Hér er engri leið lokað, heldur er tekinn hér annar þáttur í starfseminni, og hann er fullkomlega afgreiddur. Ég vil líka endurtaka það, sem ég sagði hér áðan, að Alþ. hefur áður fjallað um þetta mál og hefur þá líka sýnzt, að það ætti ekki að stiga sporið til fulls.

En í sambandi við það, sem hefur komið hér fram í ræðu hv. þm. Borgf. um, að einn landshluti og ein sýsla þyrfti ekki að standa straum af þeim skólum, sem þar væru staðsettir, þá vil ég geta þess, vegna þess að ég hef nokkuð farið með það mál fyrir Dalasýslu, að sá skóli, sem þar er staðsettur, var aldrei stofnaður af Dalasýslu. Hann var stofnaður með gjöf til ríkissjóðs, og það var skilyrði fyrir gjöfinni, ef við henni yrði tekið, að þarna yrði staðsettur húsmæðraskóli. Þegar síðar reyndi á þetta, þá var látin fara fram sérstök athugun hér í menntmrn. af lögfræðingi, og það var álitið, að það væri lagaleg skylda, sem ekki yrði fram hjá komizt. Þess vegna var það upp tekið, að ríkið greiddi allan kostnað við þennan skóla, en ekki, að það væri frávik frá lögunum. Ég vil líka geta þess, að þetta atriði gerði annað að verkum, og það er það, að Dalasýsla tapaði rétti sínum til þess að kjósa í skólanefnd, sem önnur héruð, sem slíkar stofnanir eiga, hafa, og ríkisstj. skipar meiri hluta skólanefndar Staðarfellsskólans. Það voru þau réttindi, sem héraðið missti við, að ríkið sér alveg um kostnaðinn, og skyldan var vegna þess, að það var talin lagaleg skylda, sem ekki væri hægt að komast fram hjá.

Ég vil svo að lokum segja það, að ég tel, að hér sé rétt stefnt og veigamikið atriði sé hér leyst, þar sem séð er fyrir rekstri þessara skóla, og að það sé engri leið lokað, ef talið er, að frekari aðgerða þurfi við. En ég er líka sannfærður um það, að vegna þess að betur er séð fyrir fjármálum skólanna, verður rekstur þeirra og viðhald betur tryggt en áður, og umfram allt, að þeir verða sjálfstæðari stofnanir, meira í þeim anda, sem þær voru upphaflega hugsaðar.