17.03.1958
Efri deild: 68. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1423 í B-deild Alþingistíðinda. (1193)

121. mál, húsnæði fyrir félagsstarfsemi

Frsm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir því, að Vinnuveitendasambandi Íslands heimilist að taka húseign sína við Fríkirkjuveg 3 til nota fyrir félagsstarfsemi sína.

Vinnuveitendasamband Íslands hefur aðsetur og hefur haft í leiguhúsnæði, sem mjög er þröngt og ófullnægjandi, þar sem starfsemi þess er orðin mjög umfangsmikil. Félagsmenn þess eru nú milli sjö og átta hundruð, og störfin aukast ár frá ári. Vegna þessa ástands fór sambandið fyrir nokkrum árum að leita fyrir sér um kaup á hentugu húsnæði á þægilegum stað. Þetta leiddi til þess, að 1956 festi sambandið kaup á húseigninni við Fríkirkjuveg 3 hér í borg ásamt lóð. Húsið á þessari lóð er gamalt timburhús, en stendur á góðum stað. Tilgangurinn með kaupum þessum var sá, að húsið yrði fjarlægt af lóðinni og þar yrði reist aftur nýtt hús, sem gæti orðið fullnægjandi fyrir starfsemi Vinnuveitendasambandsins í framtíðinni. Úr þessum framkvæmdum hefur ekki enn orðið og óvíst nú, hvenær fjárfestingarleyfi fæst fyrir slíkri byggingu. Vinnuveitendasambandið hefur því ákveðið að endurbæta þetta gamla íbúðarhús, sem undanfarið hefur staðið autt, og flytja þangað starfsemi sína. En skv. lögum nr. 10 1957, um afnot íbúðarhúsa í kaupstöðum, sem gengu í gildi nokkru eftir að umtöluð kaup voru gerð, er óleyfilegt að taka íbúðarhúsnæði til annarra afnota, en íbúðar. Vegna þessa er frv. þetta flutt og fer, eins og áður er um getið, fram á það, að Vinnuveitendasambandi Íslands verði veitt heimild til að breyta húsinu svo, að það verði hæft til þess, að sambandið geti haft þar starfrækslu sína.

Heilbr.- og félmn. hefur haft frv. þetta til meðferðar og sendi það félmrn. til umsagnar. Svar barst frá rn., og mælir það með því, að frv. verði samþ., þar sem hér sé um að ræða fjölmennt landssamband, sem sé brýn nauðsyn á að fá þessa eign sína til afnota fyrir starfsemi sína, eins og segir í svari rn., sem prentað er hér með nál. 309 sem fylgiskjal I. Þá barst n. einnig umsögn húsnæðismálastjórnar um frv., þar sem skýrt er frá því, að framkvæmdastjóri stofnunarinnar hafi athugað húsið með tilliti til þess, hvað kosta mundi mikið fé að gera það íbúðarhæft. Að þeirri athugun lokinni var samþykkt ályktun þess efnis, að húsnæðismálastjórn mælti með því, að Vinnuveitendasambandi Íslands yrðu veitt umbeðin afnot af húsinu. Þessi umsögn húsnæðismálastjórnar er einnig prentuð með nál. á þskj, 309 sem fskj. II.

Heilbr.- og félmn. hefur haft þetta mál til athugunar, eins og áður segir, og mælir einróma með því, að það verði samþykkt óbreytt.