01.11.1957
Neðri deild: 13. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í B-deild Alþingistíðinda. (12)

37. mál, símahappdrætti lamaðra og fatlaðra

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þrjú happdrætti njóta þeirra hlunninda, að vinningar í þeim eru skattfrjálsir. Það eru happdrætti Sambands íslenzkra berklasjúklinga, happdrætti fyrir Dvalarheimili aldraðra sjómanna og háskólahappdrættið. Nú hefur félag lamaðra og fatlaðra farið fram á, að sama mætti gilda um svokallað símahappdrætti þess í eitt skipti. Þetta happdrætti er þegar farið af stað, og það hefur dregizt að afgreiða þetta mál.

Ríkisstj. álítur rétt að leggja til, að hv. Alþ. veiti þessi hlunnindi félagi fatlaðra og lamaðra og flytur því þetta frv. Hefur það verið afgreitt í hv. Ed. En vegna þess að það liggur mjög mikið á, að þetta verði að lögum, vildi ég leyfa mér að fara fram á það við hæstv. forseta og hv. d., að málið gæti orðið afgreitt nú strax og gert að lögum, ef enginn ágreiningur kemur fram, sem ekki varð í hv. Ed. Og vegna þess, hvernig stóð á, var hafður sá háttur á að afgreiða þetta mál, án þess að það færi til n. Ég mun þess vegna ekki gera till. um nefnd, en komi fram uppástunga um n., mun ég ekki hafa á móti því. En það væru mikil þægindi fyrir félagið, ef þetta gæti orðið að lögum einmitt núna fyrir helgina.